14.06.2016
Kjörskrá
vegna forsetakosninga þann 25. júní 2016
liggur frami á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar frá 15. júní til kjördags.
Kjörskrárstofninn miðast við þá sem áttu
lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 4. júní 2016.
Athygli er vakin á því að kjósendur geta einnig kannað á vefnum kosning.is hvar þeir eru á kjörskrá.
Sveitarstjóri
10.06.2016
Hestaskoðun.
Sumarið 1991 heimsóttu leikskólakrakkarnir af Barnabóli
hrossabóndann Gunnar Sveinsson.
Á þessari mynd eru komnar á bak þær Jenný Lind Sigurjónsdóttir aftast,
Anna María Magnúsdóttir í miðið og Eydís Inga Sigurjónsdóttir fremst en
Gunnar heldur í hestinn.
Ragnar Gunnarsson er í skræpóttri úlpu en Elva Ösp Gunnarsdóttir fylgist
með til hægri. Þar standa líka starfsstúlkurnar Katrín Sigurjónsdóttir fjær
og Bára Þorvaldsdóttir nær.
Barnið sem Bára leiðir er óþekkt
08.06.2016
Vatnslaust verður í dag (08. júní) í Skeifunni og efri hluta Bogabrautar á milli 14 og 15.
07.06.2016
Til íbúa Austur-Húnavatnssýslu
USAH hefur staðið árlega að útgáfu héraðsritsins Húnavöku síðan 1961. Ritið er vettvangur húnvetnskrar sögu og menningar sem við höfum verið mjög stolt af. Sala bókarinnar undanfarin ár hefur þó farið minnkandi. Á þingi USAH í mars 2016 var ákveðið að gera tilraun til að auka dreifingu og lestur ritsins og verður ritið því sent inn á hvert heimili í sýslunni með valgreiðsluseðli í von um að með þessu móti væri hægt að lækka verð, auka vægi ritsins og fjölga lesendum þess.
Með von um góðar viðtökur
Stjórn USAH
03.06.2016
Sjómannadagur 1966.
Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur á Skagaströnd frá
árinu 1939.
Fastur liður í hátíðahöldunum er kappróður þar sem sjómenn og aðrir
reyna með sér. Fyrst voru notaðar skektur sem menn áttu til fiskveiða við
kappróðurinn en árið 1948 voru í fyrsta sinn notaðir sérsmíðaðir
kappróðrarbátar - Gustur og Gola - sem voru smíðaðir á Akureyri í
bátastöð Kristjáns Nóa Kristjánssonar.
Á hverju ári síðan hefur verið keppt á Gusti og Golu. Bátarnir eru nú í
umsjón og geymslu slysavarnadeildarinnar Strönd á Skagaströnd.
(Heimild: "Sjómannadagurinn á Skagaströnd í 70 ár" eftir
Lárus Ægi Guðmundsson, útg. 2009)
Á þessari mynd frá sjómannadegi 1966 er sigursveit í kappróðri karla að
taka við verðlaunapeningum sínum á planinu við Hafnarhúsið.
Frá vinstri: Kristján Hjartarson (d. 2.8.2003), Sigmar Jóhannesson
(d. 20.4.2000),
Bernódus Ólafsson (d. 18.9.1996), sem er að hengja pening á sjálfan sig
því hann var kynnir dagsins auk þess að vera stýrimaður þessarar sigursveitar,
Eiður Hilmarsson, Karl Berndsen (d. 12.2.1995),
Viggó Brynjólfsson og Gunnar Sveinsson. Börnin eru óþekkt.
Myndin er úr safni Jóns Pálssonar og Bjarkar Axelsdóttur.
02.06.2016
Sjómannadagurinn er á sunnudaginn og eins og venja er verður mikið um að vera á Skagaströnd í tilefni dagsins en hátíðarhöldin fara fram laugardaginn 4. júní. Björgunarsveitin Strönd hefur veg og vanda af deginum eins og áður. Dagskrá hefst klukkan 10:30 með skrúðgöngu frá höfninni að Hólaneskirkju.
Dagskrá sjómannadagsins á Skagaströnd laugardaginn 4. júní 2016
Klukkan 10:30 Skrúðganga frá höfninni að Hólaneskirkju
Fjölmennum á skrúðgönguna til að viðhalda þessari skemmtilegu hefð.
Klukkan11:00 - Sjómannamessa í Hólaneskirkju
Kór sjómanna syngur undir stjórn Hugrúnar S. Hallgrímsdóttur.
Ræðumaður
Að messu lokinni verður lagður blómkrans við minnismerki drukknaðra sjómanna til að heiðra minningu þeirra.
Klukkan 13:15 Skemmtisigling
Foreldrar hvattir til þess að fjölmenna með börn sín.
Klukkan 14:00 Skemmtun á Hafnarhúsplani
Skemmtun hefst á fallbyssuskoti. Kappróður og leikir á plani.
Sjoppa á staðnum, gos, pylsur og sælgæti.
Klukkan 15:30 Kaffisala í Fellsborg
Rjúkandi heitt á könnunni og fjölbreytt bakkelsi.
Hestamannafélagi! Snarfari býður börnum að fara á hestbak.
Klukkan 23:00 Stórdansleikur í Fellsborg
Bland ætla að sjá um fjörið á stórdansleik í Fellsborg.
Allir að mæta og skemmta sér nú duglega.
Listakonan Jónborg Sigurðardóttir
Verður með sýningu á listaverkum sínum í
Nesi listamiðstöð 4.-5. júní frá klukkan 14 til 17.