20.10.2016
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, verður með námskeið um
Veðurfræði og útivist í Samstöðusalnum á Þverbraut 1 á Blönduósi
miðvikudaginn 26. október kl 18:00 - 22:00
Kennd verða áhrif fjalla og landslags á veður, einkum vinda, úrkomu og skýjafars. Farið er í megineinkenni veðurfars á Íslandi á öllum árstímum, hvernig hiti og vindur breytist með hæð. Þá er fjallað um jöklaveðráttu, skafrenning og megingerðir þoku.
Leiðbeiningar eru gefnar um aðgengilegar veðurspár, hverjar gagnast vel og hverjar síður fyrir ferðalanga í misjöfnu veðri.
Ath: Samstaða, SFR og Kjölur greiðanámskeiðið fyrir sína félagsmenn
Skráning á farskolinn@farskolinn.is eða í síma 455 6010
19.10.2016
Starfsmaður óskast til að annast heimilsjálp hjá eldri borgurum og öryrkjum á Skagaströnd.
Um er að ræða hlutastarf sem getur tekið breytingum eftir fjölda þjónustuþega.
Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.
Upplýsingar veittar á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar í síma 455 2700
Sveitarstjóri
17.10.2016
BioPol ehf á Skagaströnd hefur nú auglýst eftir matvælafræðingi til þess að hafa umsjón með matarsmiðju sem mun rísa í tengslum við rannsóknastofu félagsins. Hlutverk matvælafræðingsins verður fyrst og fremst að veita nauðynlega sérfræðiráðgjöf og aðstoða frumvöðla við að þróa vörur sínar í markaðshæft form. Jafnframt mun viðkomandi aðili aðstoða við uppsetningu gæðahandbóka og veita nauðsynlega ráðgjöf er varðar kröfur hins opinbera varðandi matvælaframleiðslu.
Matarsmiðjan mun hafa öll tilskilin leyfi til matvælaframleiðslu og skapar því möguleika fyrir frumkvöðla í matvælavinnslu til þess að taka fyrstu skref framleiðslu og þróunar á vörum sínum án þess að leggja út í miklar fjárfestingar. Ætti slík aðstaða meðal annars að geta nýst bændum sem vildu selja afurðir sínar beint frá býli.
Verkefnið er tilkomið vegna starfa landshlutanefndar fyrir Norðurland vestra sem hafði m.a. það markmið að efla byggðaþróun og fjölga atvinnutækifærum á svæðinu.
Gert er ráð fyrir að Matarsmiðjan verði tilbúin til notkunar seint á þessu ári eða í janúar 2017 og eru bundnar vonir við að fólk af svæðinu muni sjá sér hag í að nýta aðstöðuna.
14.10.2016
Húni Hu 1.
Húni Hu 1 leggur af stað til síldveiða úr Skagastrandarhöfn með
nótabát í eftirdragi.
Ekki er vitað hvenær myndin var tekin.
13.10.2016
Heiðrún Eiríksdóttir fyrrum starfsmaður BioPol ehf á Skagaströnd, og nemandi við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri, varði meistaraverkefni sitt þriðjudaginn 11. október. Heiðrún er fyrsti meistaraneminn sem útskrifast í kjölfar samstarfs BioPol ehf og Háskólans á Akureyri.
Verkefni Heiðrúnar ber heitið „Cultivation of PUFAs producing Sicyoidochytrium minutum strain using by-products from agriculture“. Markmið verkefnisins var að athuga hvort Sicyoidochytrium minutum gætu nýtt sér aukaafurðir sem falla til í landbúnaði sem fæðu.
Sicyoidochytrium minutum er örvera af ætt Thraustochytriaceae sem hafa eiginleika til þess að framleiða fjölómettaðar fitusýrur (PUFAs) t.d. docosahexaenoic (DHA) og eicosapentaenoic (EPA) omega-3 fitusýrur. Sýnt hefur verið fram á að fólki er nauðsynlegt að fá fjölómettaðar fitusýrur úr fæði í ljósi þess að líkami fólks myndar þessar fitusýrur ekki sjálfur.
Niðurstöður verkefnisins sýna að S. minutum gat nýtt sér aukaafurðir frá landbúnaði til vaxtar og var vöxturinn borinn saman við viðmiðunaræti. Fitusýrumyndun var 28,17% af þurrvigt og hlutfall DHA 25,24% og 5,7% EPA.
Meginhluti vinnu við verkefnið fór fram hjá BioPol ehf á Skagaströnd og var hluti af stóru rannsóknaverkefni undir stjórn Magnúsar Arnar Stefánssonar og styrkt af AVS rannsóknasjóð í sjávarútvegi. Hluti vinnunar fór fram einnig við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands.
Aðalleiðbeinandi verkefnisins var Dr. Magnús Örn Stefánsson og meðleiðbeinandi var prófessor Hjörleifur Einarsson. Andmælandi var Dr. Jakob K. Kristjánsson.
13.10.2016
Kjörskrá
fyrir Skagaströnd
vegna Alþingiskosninga þann 29. október 2016
liggur frami á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar frá 13. október til kjördags.
Kjörskrárstofninn miðast við þá sem áttu
lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 24. september 2016.
Athygli er vakin á því að kjósendur geta einnig kannað á vefnum kosning.is hvar þeir eru á kjörskrá.
10.10.2016
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 12. október 2016 kl 0800 á skrifstofu sveitarfélagsins.
Dagskrá:
1. Kjörskrá vegna Alþingiskosning
2. Forsendur fjárhagsáætlunar 2017
3. Félagslegar íbúðir
a. Gjaldskrá leigu
b. Umsóknir
c. Sala íbúða
4. Umsókn um uppbyggingu innviða fyrir rafbíla
5. Erind Norðurár bs um ábyrgð
6. Tilnefning í Gróður- og náttúruverndarnefnd
7. Bréf:
a. Mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 6. október 2016
b. SSNV, dags. 30. september 2016
c. Dimension of Sound, dags. 22. ágúst 2016
d. Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið, dags. 6. september 2016
e. Framkvæmdastjóra EBÍ, dags. 27. september 2016
f. Sambands íslenskra sveitafélaga, dags. 26. ágúst 2016
g. Félags stjórnenda leikskóla, dags. 24. ágúst 2016
h. Steins Rögnvaldssonar, dags. 5. október 2016
i. Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 9. september 2016
8. Fundargerðir:
a. Samráðshóps um málefni fatlaðra, 23.06.2016
b. Þjónusturáðs um málefni fatlaðra, 7.09.2016
c. Þjónusturáðs um málefni fatlaðra, 6.10.2016
d. Stjórnar Byggðasamlags Tónlistarskóla A-Hún, 27.09.2016
e. Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún,
f. Stjórnar Norðurár bs., 8.09.2016
g. Stjórnar SSNV, 6.09.2016
h. Stjórnar Hafnasambands Íslands, 19.09.2016
i. Stjórnar Sambands ísl sveitarfélaga, 2.09.2016
9. Önnur mál
Sveitarstjóri
07.10.2016
Hress hópur
Þessar hressu konur sáu um mat og kaffi
á Bridgemóti Skagastrandar í Fellsborg einhverntíma á
níunda áratugnum.
Slík Bridgemót þar sem fólk kom víða að til að keppa í Bridge voru
haldin á Skagaströnd í nokkur ár meðan starfsemi
Bridgeklúbbs Skagastrandar stóð með hvað mestum blóma.
Á myndinni frá vinstri:
Guðrún Pálsdóttir, Helga Guðmundsdóttir,
Guðmundur Sigurðssonson sem var keppnisstjóri,
Bjarney Valdimarsdóttir, Bára Þorvaldsdóttir og Elín Njálsdóttir.
30.09.2016
Löndun.
Hallbjörn Björnsson (Halli Boss) landar fiski úr
Sigurði Hu -18 við "Litlu bryggju".
Á bryggjunni er Guðmundur J. Björnsson bróðir Hallbjörns og
býr sig undir að tína fiskinn upp á kerruna sem sér í hornið á
til vinstri.
Faðir Hallbjörns, Björn Sigurðsson (d. 5.10.1999) frá Jaðri,
smíðaði Sigurð Hu -18 árið 1966 og reri á honum til fiskjar
endrum og sinnum. Aðallega var báturinn þó gerður út á grásleppu
af Sigurði Björnssyni bróður Hallbjörns og Guðmundar.
Sigurður Hu-18 er enn til og er í öruggri vörslu Sigurðar Björnssonar.
Reyndar var skipt um nafn á bátnum því Sigurðar nafnið var í
einkaeigu og var hann því nefndur Sigurður Jónsson eftir það.
Báturinn aftan við Sigurð hét Ósk Hu og var í eigu
Stefáns Stefánssonar (d. 2.1.1988).
Aftast sér svo í Víking St-12 sem var í eigu Péturs Ástvaldssonar
á Hólmavík. Pétur fórst ásamt öðrum manni með
Víkingi í mars 1971.
"Litla bryggjan" er nú löngu horfin en hún var um það bil þar sem
nú er suð-austur hornið á Miðgarði (Arnarsbryggjunni).
"Litla bryggjan" lækkaði fram til endans til að auðveldara væri að
landa fiski við hana eftir stærð bátsins sem landað var úr.
Maðurinn fremst á bryggjunni er óþekktur.
29.09.2016
Starfsmaður óskast til að annast heimilsjálp hjá eldri borgurum og öryrkjum á Skagaströnd.
Um er að ræða hlutastarf sem getur tekið breytingum eftir fjölda þjónustuþega.
Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.
Upplýsingar veittar á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar í síma 455 2700
Sveitarstjóri