Opnu húsi frestað hjá Nes listamiðstöð

Vegna slæmrar veðurspár hefur verið ákveðið að fresta opnu húsi hjá Nes listamiðstöð sem vera átti í kvöld. Veðurstofan hefur gefið út stormaðvörun: Búist er við stormi á Ströndum og annesjum á NV-landi seint í kvöld og til morguns.   Á fimmtudaginn 25. febrúar frá kl. 18 til 21 verður opið hús hjá listmönnunum og taka þeir þá fagnandi á móti gestum og gangandi.

Námskeið í vattarsaumi hjá Textílsetrinu

Textílsetur Íslands verður með námskeið í vattarsaumi helgina 27. og 28. febrúar. Vattarsaumur er forn aðferð sem er eldri en bæði prjón og hekl.  Aðferðir við vattarsaum eru margar en byggja allar á að unnið er með þráð og grófa nál, vattarsaumsnál. Unnið er með léttlopa eða hespulopa.  Nemendur læra amk. tvær aðferðir, en margar aðferðir eru þekktar og kennari er með mörg sýnishorn. Námskeiðið er 18 kennslustundir og kostar 19.500 krónur.

Nammidagurinn haldinn hátíðlegur

Fjöldi barna fer nú um verslanir og fyrirtæki á Skagströnd og syngja. Að launum fá þau nammi. Öskudagurinn er nammidagur. Ekkert fer fyrir öskupokunum og fæst gera börnin geri sér grein fyrir uppruna dagsins enda varla ástæða til. Öskudagurinn er þannig orðinn að hátíðisdegi.  Það er svo annað mál að mörgum finnist frekar hvimleitt þegar þeim börnum er gefið sælgæti fyrir sönginn. Nær væri að gefa þeim eitthvað hollara -  en ekki eru börnin sammála. Líklegast eru þó allir ánægðir að fá hress og kát börn í heimsókn sem hafa undirbúið sig og syngja af þrótti og gleði. Þá er gaman á Skagaströnd.

Verkefnastyrkir til menningarstarfs

Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á grundvelli menningarsamnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við SSNV. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarf og menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa tvær úthlutanir á árinu 2010, með umsóknarfrestum til og með 15. mars og 15. september. Menningarráð hefur ákveðið að þau verkefni hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða: Efling atvinnustarfsemi, þekkingar og fræðslu á sviði menningar og lista. Samstarf milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina og uppsetning viðburða á fleiri en einum stað. Nýsköpun og þróun menningarstarfs og menningartengdrar ferðaþjónustu. Verkefni sem stuðla að þátttöku allra þjóðfélagshópa í menningarstarfi. Umsækjendur geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Norðurlandi vestra. Skilyrði er að viðkomandi sýni fram á mótframlag. Umsækjendum er bent á að kynna sér nánar úthlutunarreglur 2010 og stefnumótun í menningarmálum á www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Menningarráðs Norðurlands vestra sem hægt er að nálgast á heimasíðunni www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Í umsókninni skal m.a. vera greinargóð lýsing á verkefninu með verkáætlun og tímasetningum, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur. Umsóknir vegna fyrri úthlutunar ársins 2010 skulu sendar Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Einbúastíg 2, 545  Skagaströnd, eigi síðar en 15. mars 2010. Þær má senda rafrænt á netfangið menning@ssnv.is. Séu þær sendar í pósti skulu þær póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag. Allar nánari upplýsingar og aðstoð veitir Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra, símar 452 2901 / 892 3080, netfang menning@ssnv.is.

Kortasjá

Vakin er athygli lesenda www.skagastrond.is að á vefinn er komin kortasjá fyrir Skagaströnd. Kortasjáin er loftmynd sem er tekin ..... á sólríkum sumardegi. Hægt er að draga myndina nær með því að nota stýristiku efst til vinstri á kortinu. Á kortasjánni er líka fyrsti vísir að örnefnamerkingu sem þarf auðvitað að fylla betur í. Þá eru merkingar á þjónustustofnunum með sérstökum kortatáknum. Kortasjána má opna með því að smella á hnappinn sem er þannig merktur neðar á síðunni.

Með listamönnum eru íbúar Skagastrandar 21% fleiri

Íbúum Skagastrandar fjölgaði um 21% á síðasta ári ef með eru taldir þeir 108 listamenn sem bjuggu í bænum á árinu á vegum Ness listamiðstöðvar. Miklu munar um þá 173 listamenn fyrir samfélagið sem komið hafa upphafi en fyrstu gestirnir komu árið 2008.   Listin hefur mikil og hefur ótvírætt góð áhrif á sveitarfélagið, til dæmis rekstur þjónustufyrirtækja svo sem matvöruverslun, veitingastað, kaffihúss og svo framvegis. Vonir standa til að enn fleiri listamenn komi á þessu ári, jafnvel um 140 manns. Íbúðarmálin takmarka þó fjölgun þeirra því ekkert er um lausar íbúðir í bænum. Flestir listamenn koma frá Bandaríkjunum og að auki hafa margir Englendingar, Írar og Þjóðverjar dvalið á Skagaströnd. Margt bendir til þess að listamennirnir séu einstaklega  duglegir að kynna listamiðstöðina, Skagströnd og Ísland á meðal samlanda sinna þegar heim er komið. Til Skagastrandar komið listamenn af ótrúlega mörgu þjóðerni og fjarlægum löndum eins og Brasilíu, Austur Tímor, Singapore og Suður Kóreu. Mörgum er minnisstæð yndæl kona frá Ástralíu sem lét sér ekki nægja að halda listsýningu og heldur steig á svið á í Kántrýbæ eftir spurningakeppnina og söng þjóðlagatónlist frá heimalandi sínu. Hún hafði aldrei séð snjó og þótti einna furðulegast að hún heyrði marr þegar hún gekk um í snjó. Enginn hafði sagt henni neitt um þetta einkennilega hljóð. Fjölmargir listamenn halda enn góðum tengslum við Nes listamiðstöðina og ekki síður ýmsa íbúa á staðnum. Nefna má að nærri tvö þúsund „vinir“ eru skráðir á Fésbókarsíðu listamiðstöðvarinnar. Eftirfarandi er ágætt dæmi um áhugaverða vefslóðir listamanna sem hér hafa dvalið: http://theballparkiniceland.wordpress.com/  http://ameriskur.blogspot.com/  http://carnetsndart.blogspot.com/  http://juliepoitrassantos.blogspot.com/  http://lindsaypalmer.blogspot.com/2010/01/this-is-tale-of-adventure.html  http://www.renatapadovan.com/frozenatsea/content/index.html  http://olivergardiner.blogspot.com/  Flestum sem starfað hafa í ferðaþjónustu er kunnugt um hið mikla gildi sem frásagnir ánægðra ferðamanna hafa. Listamenn sem til Skagastrandar koma eru miklir áhrifavaldar og hvetja aðra listamenn til að sækja um dvöl hér.

Íbúafundur um aðalskipulag kl. 17 í dag

Boðað er til almenns íbúafundar í dag, mánudag 1. febrúar kl. 17 í Fellsborg. Fjallað verður um tillögur að aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagastrandar 2010-2022.   Kynnt verður tillaga að landnotkun fyrir sveitarfélagið í heild og þéttbýli á Skagaströnd  og auk þess umhverfis-skýrsla aðalskipulagsins.   Í aðalskipulagi er mörkuð stefna sveitarstjórnar um landnotkun í sveitarfélaginu til framtíðar. Tekin eru frá svæði fyrir samgöngu- og þjónustukerfi, atvinnusvæði, íbúðabyggð, frístundabyggð, verndarsvæði o.fl.  Megintilgangur fundarins er að gefa íbúum og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum áður en gengið verður frá aðalskipulags-tillögunni til auglýsingar.   Skipulagsráðgjafar frá Landmótun gera grein fyrir tillögunum og taka á móti athugasemdum. Íbúar eru hvattir til að mæta og hafa þannig áhrif á það samfélag sem þeir búa í.  Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri

Góður árangur USAH á Stórmóti ÍR

Tuttugu og þrír hressir krakkar kepptu fyrir hönd USAH á 14. Stórmóti ÍR í frjálsíþróttum í Laugardalshöllinni um síðustu helgi (23.-24. janúar). Margir þeirra voru að fara á sitt fyrsta frjálsíþróttamót og var mikil tilhlökkun fyrir mótið. Allir stóðu sig frábærlega og það sem mestu máli skiptir er að allir skemmtu sér konunglega. Metþátttaka var á mótinu og voru 758 keppendur skráðir til keppni. Róbert Björn Ingvarsson sigraði í 800 m hlaupi í flokki pilta 13 ára. Guðmar Magni Óskarsson sigraði í kúluvarpi í flokki pilta 13 ára. Stefán Velemir varð í 2. sæti í kúluvarpi í flokki sveina 15-16 ára og Magnús Örn Valsson varð í 3. sæti í sama flokki. Páll Halldórsson varð í 3. sæti í kúluvarpi í flokki strákar 11 ára. Valgerður Guðný Ingvarsdóttir var með annan besta tímann í 60 m hlaupi í flokki hnáta 9-10 ára. Allir keppendur 9-10 ára fengu verðlaunapening. Frábær árangur hjá Húnvetningunum.

Kynningarfundur um netsölukerfi í ferðaþjónustu

Snemma árs 2009 réðst Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði í undirbúningsvinnu við fyrirtækis um rekstur netsölukerfis. Ráðinn var starfsmaður, leitað var ráðgjafar hjá allmörgum og helstu netsölukerfi á markaðnum voru skoðuð.  Niðurstöður lágu fyrir á vormánuðum og var talið að Dísil-Booking-kerfið væri það öflugasta og áreiðanlegasta sem völ væri á í dag. Á það er komin góð reynsla, eins og dæmin sanna (sjá t.d. netsölukerfi Reykjavík Excursions á re.is, en þar hafa sölutekjur margfaldast síðan kerfið var tekið í notkun).  Ákveðið var að bíða með kaup á kerfi í fyrra, en þess í stað var farið út í tilraunaverkefni um beina sölu á ferðaþjónustu,  í samstarfi við Upplýsingamiðstöð ferðamála á Norðurlandi vestra. Á rúmum tveimur mánuðum seldi miðstöðin fyrir um eina og hálfa milljón króna. Þeir sem voru duglegastir að bjóða uppá fastar ferðir og koma þeim upplýsingum daglega á framfæri við Upplýsingamiðstöðina, fundu fyrir talsverðri aukningu og seldu vel. Dæmi um góðan árangur eru sala á flúðasiglingum Ævintýraferða og hestaferðum á Lýtingsstöðum. Reynsla sumarsins var dýrmæt og nýtist í framhaldinu.  Stofnun og rekstur Icelandbooking ehf Vaxtarsamningur Norðurlands vestra veitti styrk til að koma fyrirtækinu á laggirnar, auk þess sem þegar liggja fyrir hlutafjárloforð uppá hálfa milljón króna. Stefnt er að því að hluthafar verði alls um 20-25, með heildarhlutafé uppá tvær milljónir króna. Með því væri rekstrargrundvöllur tryggður til tveggja ára, en það er sá tími sem áætlað er að taki reksturinn að verða sjálfbæran. Kynningarfundir miðvikudaginn 3. febrúar. Kl. 09:30 – Hótel Varmahlíð Kl. 13:30 – Hótel Blönduós Kl. 16:30 – Sveitasetrið Gauksmýri Þar verður m.a. sagt frá reynslu af sölunni í Uppl.miðstöðinni 2009 og kostir netsölukerfisins kynntir. Farið verður yfir rekstrarforsendur og framtíðarsýn Icelandbooking ehf og hver ávinningur ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi vestra getur orðið.  Kaffiveitingar og umræður að kynningu lokinni.  Kynning á netsölukerfi Icelandbooking.is Gríðarleg aukning hefur orðið í því að ferðalangar skipuleggi fríin sín sitjandi við tölvuna heima og ferðist á eigin vegum. Á ráðstefnu Útflutningsráðs fyrr í vetur kom fram að þeir sem eru ekki að selja á netinu í dag eru beinlínis að tapa viðskiptum.  Það er ekki nóg að hafa vefsíðu; hún þarf að finnast í leitarvélunum og það þarf að vera hægt að smella á „kaupa“!  Krafa netnotandans í dag er að geta keypt á netinu það sem hefur vakið áhuga hans. Velta og hagnaður þeirra sem selja vörur sínar í netsölu vex með ótrúlegum hraða.  Gott netsölukerfi (gagnagrunnur sem heldur utan um vöruframboðið) og góð markaðssetning á sölusíðu (sá hluti sem sýnilegur er kaupanda) er hinsvegar ekki á færi nema stærri eða fjársterkari aðila. Á næstu árum eigum við eftir að sjá þetta leyst með öflugum sölusíðum, þar sem vörur margra smærri aðila eru í boði og mynda fjölbreitt og gott vöruframboð (nýlegt íslenskt dæmi eru litlubudirnar.is).  Ákveðið hefur verið að stofna einkahlutafélag um rekstur netsölukerfisins Icelandbooking.is fyrir ferðaþjónustu á Norðurland vestra, til að auðvelda fyrirtækjum að selja sínar vörur á netinu. Þegar horft er yfir sviðið er kynningarefni á vefsíðum oft með ágætum, bæði hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum sjálfum og t.d. Visitskagafjordur.is, Nordurland.is, Northwest.is. En því miður er á lítið um það á þessum síðum að hægt sé að ganga frá kaupum á vörum og þjónustu, með þeim hætti sem í dag skilar mestum árangri. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins Icelandbooking.is, þar sem ferðaþjónustuaðilum af Norðurlandi vestra er boðið að vera hluthafar, er að ávinningur verði sem mestur fyrir heimamenn og að hagnaður af rekstri verði eftir heima í héraði.   Ávinningur öflugs netsölukerfis er margþættur: Meiri sýnileiki á netinu, m.a. með tilliti til leitarvéla Góður söluvefur er ódýrasta og hagkvæmasta markaðstæki sem völ er á Netsölukerfi Icelandbooking er sjálfsafgreiðslustöð fyrir ferðamenn Gott vöruframboð á einum stað Ferðamaður raðar sjálfur saman mörgum vörum í körfu Aukning á sölutekjum og arðsemi Auðvelt að útbúa „ferðapakka“ úr þeim vörum sem eru í kerfinu (hestahelgi í Húnaþingi?) Meiri skilvirkni og mikill vinnusparnaður við hverja sölu Tekjur skila sér fyrr inn í reksturinn Hagnaður af rekstri netsölukerfis verður eftir hjá hluthöfum í heimabyggð Eigendur Icelandbooking.is ráða för í þróun á netsölukerfisins

Opið hús í listamiðstöðinni í kvöld

Boðið er upp á opið hús verður í kvöld hjá Nesi listamiðstöð ehf. og hefst viðburðurinn klukkan 18 og er til kl. 21. Listamenn mánaðarins standa að boðinu og eru allir velkomnir. Eftirtaldir hafa dvalið í janúar á Skagaströnd: Erla Haraldsdóttir, myndlistarmaður, kemur frá Íslandi Craniv Boyd, myndlistarmaður, frá Bandaríkjunum Micaela Tröscher, vinnur með blandaða tækni, frá Þýskaland Jee Hee Park, vinnur með innsetningar, frá Suður-Kóreu Gregory Carideo, vinnur með blandaða tækni, frá Bandaríkjunum    Anna Grunemann, vinnur með blandaða tækni, frá Þýskaland Lisa Borin, vinnur með innsetningar, frá Kanada