Hætt við jólahlaðborð í Kántrýbæ

Vegna veikinda hefur því miður reynst nauðsynlegt að taka þá ákvörðun að hætta við jólahlaðborðið í Kántrýbæ að þessu sinni. Jólahlaðborðið var á dagskránni 4. og 5. desember og hefur verið hætt við þau báða dagana. Kántrýbær verður lokaður helgina 4. til 6. desember.

Multi Musica í Kántríbæ föstudagskvöldið

MULTI MUSICA hópurinn frumflutti tónleikadagskrá sína í Miðgarði þann fyrsta vetrardag við frábærar undirtektir áheyrenda.  
 Nú verða tónleikarnir endurteknir í Kántríbæ þann föstudaginn 27.nóvember næstkomandi kl. 21.00.
Farið er með áhorfendur í einskonar heimsreisu en flutt verða 14 lög frá 12 löndum.
Löndin sem um ræðir eru Spánn, Ísrael, Rúmenía, Kúba, Mexíkó, Chile, Argentína, Brasilía, Indland,Grikkland, Suður-Afríka og Kenía.  Um afar fjölbreytta tónlist er að ræða, þjóðlög, tangó og salsa svo eitthvað sé nefnt og fá áheyrendur að upplifa hlýlega og seiðandi tónlist í byrjun vetrar í alþjóðlegri stemningu. Multi Musica eru: 
Ásdís Guðmundsdóttir, söngur og ásláttur
Sorin Lazar, gítar 
Jóhann Friðriksson, trommur
Rögnvaldur Valbergsson, hljómborð,gítar og harmonikka
Sigurður Björnsson, bassi
Sveinn Sigurbjörnsson, bongó og trompet
Íris Baldvinsdóttir, bakraddir og ásláttur
Jóhanna Marín Óskarsdóttir, bakraddir, strengir og ásláttur
Ólöf Ólafsdóttir, bakraddir og ásláttur
Þórunn Rögnvaldsdóttir, bakraddir og ásláttur Kynnir á tónleikunum verður Íris Baldvinsdóttir.  Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og er aðgangseyrir kr.1.500.  Ekki missa af þessum frábæru tónleikum! Tónleikarnir eru styrktir af minningarsjóðnum um hjónin frá Garði og Vindhæli.

Opið hús hjá Nes listamiðstöð

Listamenn hjá Nes listamiðstöð opna vinnustofur sínar í lok hvers mánaðar þar sem þeir sýna þau verk sem þeir hafa verið að vinna að frá komu sinni. Í kvöld þriðjudaginn 24. nóvember viljum við bjóða öllum sem áhuga hafa að koma í heimsókn, skoða listaverk í vinnslu og spjalla við listamennina um verkin og dvölina á Skagatrönd.  Þessa stundina dvelja sjö listamenn frá þremur heimsálfum í Listamiðstöðinni á Skagaströnd.

Biskup með fyrirlestur á Löngumýri

Hr. Jón A. Baldvinsson, biskup á Hólum verður með fyrirlestur á Löngumýri í Skagafirði miðvikudagskvöldið 25. nóvember kl. 20. Nefnist hann „Hlutverk biskupsembættisins á Hólum fyrr og nú fyrir kirkju og kristni“. Þetta er fyrsta kvöldið í fyrirlestrarröð Löngumýrar um kirkjuna og stöðu hennar í margvíslegum skilningi. Fjallað verður um sögur af biskupum og hlutverki þeirra fyrr og nú, sögu biskupsstólsins á Hólum, stöðuna í dag og framtíðarsýn og spurt um tengsl safnaðanna við biskupsembættið. Löngumýrarnefnd býður alla velkomna.

Húnabjörgin dregur bát til hafnar

Um klukkustund eftir að björgunarskipið Húnabjörg á Skagaströnd var kallað út kom það til hafnar með snurvoðarbátinn Stefán Rögnvaldsson EA845.  Báturinn var á veiðum rétt um tvær sjómílur fyrir vestan Skagastrandarhöfn. útkallið kom um klukkan 10:45 og viðbrögð björgunarsveitarmanna voru sem fyrr eldsnögg. Aðeins ellefu mínútum síðar var lagt af stað frá bryggju. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var blankalogn á Húnaflóa, eins og svo oft áður á undanförnum vikum. Stefán Rögnvaldsson hafði fengið snurvoðina í skrúfuna. Þriggja manna áhöfnin beið sallaróleg eftir aðstoð enda engin hætta á ferðum.

Endurvinnslutunnum dreift í hús

Tímamót eru nú á Skagaströnd. Verið er að dreifa í hús nýjum ruslatunnum og verða framvegis tvær tunnur á íbúð, önnur er fyrir óflokkaðan úrgang og hin fyrir það sem á að fara til endurvinnslu.  Sú breyting verður á sorphirðun að tunnan með græna lokinu verður losuð mánaðarlega en hin, sú með svarta lokinu, verður losuð á tveggja vikna fresti. Mikilvægt er að setja allan pappír og pappa  beint í endurvinnslutunnuna. Málmar fernur og plast skal þó setja í glæra poka svo auðveldara verði að flokka þessa hluti. Gömlu tunnurnar eru eign húseigenda. Að öðru leyti er vísað í bækling um endurvinnslu sem dreift var í öll hús á Skagaströnd um síðustu mánaðarmót.  Á myndinni eru Hörður Aðils Vilhelmsson og Guðni Már Lýðsson með fangið fullt af tunnum.      

Hugrún og Jonni sigruðu í Drekktu betur

Hugrún Hallgrímsdóttir og Jón Ólafur Sigurjónsson sigruðu í spurningakeppninni Drekktu betur sem haldin var síðasta föstudagskvöld í Kántrýbæ. Spyrill, dómari, alvaldur og höfundur spurninga var Jóhann Sigurjónsson. Spurningarnar voru mjög góðar, tóku á ýmsum þáttum mannlegrar tilveru. Hins vegar voru sigurvegararnir aðeins með 15 rétt svör. Oftast eru þeir sem sigra með 20 til 23 spurningar réttar. Bendir þetta eindregið til þess að spurningarnar hafi verið þungar. Þó kvartaði enginn. Skýringin er án efa sú að Jóhann var afar mildur og góður stjórnandi. Hann fór oftar en ekki að kröfum salarins sem vildi fá að velja úr þremur eða fjórum svarmöguleikum. Og að sjómannasið leyfði Jóhann engum að komast upp með neinn derring og voru þátttakendur því bljúgir og blíðir sem fermingarbörn í kirkju. Engu að síður var spurningakeppnin mjög skemmtileg. Talnaglöggir menn náðu í sameiningu að telja rétt tæplega 58 gesti. Ekki verður upplýst hver þessi tæpilegi var. Á eftir spurningakeppninni tróð upp glæsilegur ástralskur listamaður sem dvelur hjá Nes listamiðstöð. Hún Di söng lög frá heimalandi sínu og víðar við geysilega góðar undirtektir áheyrenda. Hér eru svo spurningar Jóhanns Sigurjónssonar í spurningakeppninni Drekktu betur föstudaginn 13. nóvember 2009. Hvaða hús var flutt frá kálfshamarsvík til skagastrandar 1938? Svar: Iðavellir. Hver er mest selda plata Michaels Jackson? Svar: Thriller Frá hvaða landi kemur Lapin Kulta bjórinn? Svar: Finnlandi Hvað af eftirtöldu lýsir ekki fyrirbæri á golfvelli? a) Flöt b) Glenna c) Glompa d) Kargi. Svar: b) Glenna Hvaða fiskur hefur verið kallaður Vestfirðingur? Svar: Steinbítur Hvað merkir orðtakið “að höggva máfinn”? a) Að drepa máf b) Að syngja falskt c) að kinka kolli d) að strokka skrykkjótt  Svar: c) að kinka kolli Hvað gerir Windows-tölva ef þú gefur henni skipunina CTRL+N? Svar: a)eyðir síðasta orði b)opnar nýtt skjal c)hættir við síðustu aðgerð d) velur allan textann  Svar: b) Opnar nýtt skjal Frægur lagatexti byrjar svona: „Stolt siglir fleyið mitt stórsjónum á ...“     svo komið þið með seinna erindið ...  og eftir hvern er textinn? Svar: „Sterklegur skrokkurinn vaggar til og frá.“ Gylfi Ægisson Hvað er unnið úr báxíti? Svar:  Ál Til hvers eru holur á golfkúlu? Svar: Þær auka flughraðann Í hvaða hljómsveit var Björk áður en hún byrjaði í Sykurmolunum? Svar: Kukl Hvaða hljómsveit heiðraði minningu ljóðskáldsins Jónasar Árnasonar með vel seldri plötu og hvað heitir platan? Svar: Papar/Riggarobb Hvernig sjávardýr er Skollakoppur?  Svar: Ígulker Hvaða ár var myndin Börn náttúrunnar tilnefnd til óskarsverðlauna? Og hver var leikstjórinn?   Svar: 1991/ Friðrik Þór Friðriksson Hvaða dag og ár kom Arnar HU 1 nýsmíðaður frá Norgi í fyrsta skipti til Skagastrandar?  Svar: 22.des 1992 Hvenær var útgerðafélag Höfðakaupstaðar stofnað og hverjir stofnuðu það?   Svar: 1947 Höfðahreppur, Kaupfélagið og nokkrir einstaklingar í bænum (50). Hvað heitir fyrsta lagið sem Íslendingar sendu í söngvakeppni evrópskra sjónvarpstöðva og eftir hvern er það? Svar: Gleðibankinn, Magnús Eiríksson Hver er myndin, hún var frumsýnd 6.ágúst 2003.  Hún er með hinum vinsæla Johnny Depp og var mjög vinsæl hér á landi sem erlendis. Hver er myndin?  a) Charlie and the Chokolate factory  b) Neverland  c) Pirates of the Caribbean  d) Secret Window    Svar: c)Pirates Úr hverju er íslenska myntin þá er ég að spyrja um 1, 5 og 10 krónu peningana?   Svar:( 75%) Kopar og (25%) Nikkel Eru dúfur, hænur og rjúpur af sömu ætt? Svar: Nei Hvað var Austurlandahraðlestin?  Svar: Austurlandahraðlestin          (e. Orient Express) var lest sem gekk á milli Parísar og Istanbúl á árunum 1883-1977. Nefnið að minnsta kosti þrjú önnur íslensk nöfn yfir botnfiskinn Skrápflúru?  Svar: Skrápkoli, brosma, Flúra, gedda, gelgja, skrápkola, stórkjafta, þjalakoli. Hvað eru mörg björgunarskip umhverfis landið eins og Húnabjörgin? Svar: 14 talsins Hversu margir litir eru í regnboga?   Svar: 7 Hver þessara borga liggur vestast? A) Osló b)Berlín  c)Prag d)Róm      Svar: a) Osló Hvað eiga leikararnir Charlie Sheen og Emilio Estevez sameiginlegt?     Svar: Föður Nefnið eitt annað Íslenskt nafn yfir veiðarfærinu snurvoð og hvað er enska heitið á því? Svar: Dragnót, seine net. Hvert er hæsta fjall norðurlands?  Svar: Kerling 1536 m. Hvaða ár varð Tsjernobyl kjarnorkuslysið? Svar: 1986 Hver var valin fremsta skíðakona landsins árið 2008? Svar: Dagný Linda Kristjánsdóttir. 

Flottir tónleikar framundan í Kántrýbæ

Gunnar Þórðarson verður með tónleika í Kántrýbæ fimmtudaginn 10. desember og mun hann flytja mörg af sínum þekktu lögum. Föstudagskvöldið 27. nóvember kl. 20:30 verður tónlistarhópurinn Multi Musica með tónleika í Kántrybæ. Hann mun flytja létta fjölþjóðlega tónlist sem hann flutti í síðasta mánuði í Miðgarði í Skagafirði. Tíu manns eru í hópnum og er tónlistin lög flutt og samnin af konum frá þrettán þjóðlöndum. Báðir tónleikarnir verða nánar auglýstir síðar.           

Jóhann í Drekktu betur og áströlsk söngkona

Jóhann Sigurjónsson, skipstjóri og gleðigjafi verður spyrill í skemmtilegu spurningakeppninni. Þetta er í tuttugasta skiptið sem spurningakeppnin er haldin og sem fyrr er hún á föstudagskvöldið 13. nóvember kl. 21:30 Ekki er að efa að Jóhann mun spyrja ágengra og áhugaverðra spurning, jafnvel um útgerð og sjómennsku en áreiðanlega líka um tónlist.   Á eftir syngur hin stórfræga ástralska country/western stjarna Fleur Ball lagið sitt eina og kannski fleiri. Listamaðurinn dvelur hjá Nes listamiðstöð.   Á ensku er kynningin hennar þessi: Nes artist residency presents Fleur Ball - the Country and Western superstar from Australia. Fleur will expertly sing her one hit song and attempt a few others from her. It’s easy to play country and western songbook. Kantry Bær, Skagastrond, Island, Friday 13th November,11.00pm (or when the pub quiz finishes).

Létt dagskrá í tali og tónum í Hólaneskirkju

Þriðjudagskvöldið 17. nóvember kl. 20:30 verður létt dagskrá í tali og tónum í Hólaneskirkju. Kirkjukór Glaumbæjarprestakalls í Skagafirði syngur undir stjórn Stefáns R Gíslasonar. Einsöngvari er Ásdís Guðmundsdóttir. Undirleikarar með kórnum Stefán Gíslason, Margeir Friðriksson og Víglundur Rúnar Pétursson. Kynnir er sr. Gísli Gunnarsson. Allir velkomnir, aðgangur  ókeypis. Dagskráin er styrkt af minningarsjóðnum um hjónin frá Garði og Vindhæli.