Gönguferð um Hornstrandir, síðasti skráningardagur

Skagstrendingar ætla í gönguferð um í júlí. Það er Labbitúrafélag Skagstrandar sem stendur fyrir ferðinni og er öllum heimil þátttaka, jafnt heimamönnum sem öðrum.  Síðasti dagur skráningar í Hornstrandaferðina er í dag, 28. júní 2010. Hvenær?  Mæting miðvikudaginn 21. júlí kl. 9:30 í Norðurfirði á Ströndum. Komið verður til baka mánudaginn 26. júlí.  Hvert?  Sigl verður í Hornvík, gist þar í tvær nætur. Síðan er siglt í Reykjarfjörð og gist þar í þrjár nætur. Alltaf er gist í tjöldum. Hvað?  Gönguferð og sigling um marga af tilkomumestu og fegurstu stöðum Íslands. Siglt er meðfram svipmiklu landslagi, gengið um Hornbjarg, yfir í Hælavík litið á Hælavíkurbjarg, gengið á Geirhólma, um Þaralátursnes og jafnvel á Drangajökul. Í Reykjarfirði er sundlaug og sturtur.  Hvernig?  Alltaf er gengið með dagpoka, þ.e. með nesti fyrir daginn og góðan skjólfatnað. Hægt er að sleppa einstaka gönguferðum, slappa þá af í stórkostlegri náttúru. Á kvöldin verður vonandi haldin kvöldvaka. Stefnt er að því að vera með samkomutjald í ferðinni svo hægt sé að halda kvöldvökur þó veðrið verði ekki kannski upp á það besta.   Hverjir?  Nánari upplýsingar og skráningu í ferðina er hjá Lárusi Ægi Guðmundssyni, í síma 864 7444, og Sigurði Sigurðarsyni í síma 864 9010, en hann verður fararstjóri og þekkir vel til á Hornströndum.  Meðfylgjandi myndir eru teknar á Hornströndum: Efsta myndin er  af Núpnum, fremst á Hornbjargi Næsta mynd er af Hælavík Þriðja myndin er frá tjaldsvæðinu í Hornvík Kortið er af siglingaleiðinni milli Norðurfjaðar og Hornvíkur

Hringdi fyrst í Kántrýbæ eftir brotlendingu

Sem betur fer er afar lítið um óhöpp á Spákonufelli. Sænski maðurinn sem þyrlan sótti þangað á sunnudaginn hafði farið upp til að fljúga svokölluðum „paraglider“ en það er vængur sem líkist fallhlíf og hefur mikinn svifkraft. Flug á slíkum vængjum nýtur mikilla vinsælda út um allan heim og jafnvel hér á landi. Vandinn er hins vegar sá að sviftivindar eiga það til að trufla slíkt flug hér á landi.  Maðurinn hafði gengið upp á Borgarhaus og ekki litist þar á aðstæður enda frekar hvasst uppi. Í gróinni hlíðinni fyrir ofan Leynidal fannst honum aðstæður allar betri og ákvað því að reyna að fljúga. Þá vildi svo óheppilega til að vindurinn feykti honum svo að segja samstundis yfir að skarðinu við Molduxa og þar brotlenti hann. Svíinn er vanur ferðamaður og gat bundið um opið fótbrot sem hann fékk við fallið. Hann kom sér vel fyrir, setti fætur upp í hlíðina til að draga úr blæðingunni og vafði álpoka utanum sig.  Þessu næst hringdi hann í Gunnar Halldórsson, veitingamann í Kántrýbæ, en þeir höfðu rætt saman kvöldið áður og lofaði Gunnar að vera honum innan handar ef hann þyrfti á aðstoð að halda. Gunnar hringdi samstundis í Björn Inga Óskarsson hjá Björgunarsveitinni Strönd og síðan í neyðarlínuna. Björn sendi útkall á félaga í Strönd og Björgunarsveitina Blöndu á Blönduósi. Á þeirri stundu var gert ráð fyrir að bera þyrfti manninn niður í sjúkrabörum.  Eins og þeir vita sem upp á Spákonufell hafa komið þá er þar brattara en svo að hægt sé að senda bíl á slysstaðinn og var því ákveðið að þyrla færi frá Reykjavík og sækti manninn. Um það bil fimmtán mínútum áður en þyrlan lenti höfðu fyrstu björgunarsveitarmenn komið á slysstað og þeirra á meðal var Gunnar í Kántrýbæ. Þeir hlyntu vel að Svíanum og biðu svo komu þyrlunnar. Því er haldið fram í fullri alvöru á Skagströnd halda því fram að Gunnar hafi komið með mat fyrir Svíann, Kántrýborgara með frönskum og hráu salati og það hafi bjargað lífi mannsins. Þetta hefur hins vegar ekki fengist staðfest en þó er ljóst að Kántrýborgarinn er mjög eftirsóttur. Þyrlan lenti á sléttum bletti sem er á milli Molduxa og einstigisins upp á Borgarahaus. Maðurinn var svo fluttur til Reykjavíkur þar sem hann fór í aðgerð. Honum heilsast þokkalega og ætti að ná sér vel.  Meðfylgjandi mynd er fengin af myndasíðu Björgunarsveitarinnar Strandar, www.123.is/strond.

Síðasti skiladagur í samkeppnina er 1. júlí.

Síðasti skiladagurinn í ljósmyndasýningu Skagastrandar er 1. júlí. Því er  nú ástæða fyrir fólk að taka myndavél sér í hönd og halda út í yndisfagurt sumarið og taka myndir af Skagaströnd í nýju ljósi. Munum að tilgangurinn með samkeppninni er að safna saman 20 myndum sem síðan verða stækkaðar í 2x1,2 m og settar upp utan dyra á Hnappstaðatúni sem er í miðjum bænum.  Tilgangurinn með er að lífga upp á miðbæ Skagastrandar og jafnframt að vekja athygli ferðamanna á einstökum stöðum sem og náttúruminjum í sveitarfélaginu. Myndirnar skulu teknar innan Sveitarfélagsins Skagastrandar, utan eða innan bæjar. Sjónarhornið er byggðin, mannlífið eða náttúran. Leitað er eftir fallegum myndum eða sérkennilegum og áhugaverðum myndefnum eða sjónarhornum. Ekki er þó um hefðbundna ljósmyndasamkeppi að ræða enda engin verðlaun veitt önnur en þau að fá mynd sína birta í stóru formati og að ljósmyndarinn fær að eiga myndina að sýningu lokinni. Í dómnefndinni eiga þessir sæti: Jón Sigurðsson, umboðsmaður TM og ljósmyndari, Skarphéðinn H. Einarsson, skólastjóri, og Snorri Gunnarsson, ljósmyndari. Henni til aðstoðar er Sigurður Sigurðarson, starfsmaður Sveitarfélagsins Skagastrandar. Reglur samkeppninnar eru þessar: Einungis myndir eftir áhugaljósmyndara verða birtar á ljósmyndasýningunni „Skagaströnd í nýju ljósi“ sem haldin verður á Hnappstaðatúni sumarið 2010. Þátttaka er öllum heimili, Íslendingum sem og öðrum. Myndefnið skal vera frá Skagaströnd, utan eða innan þéttbýlisins, og vera af byggð, mannlífi eða náttúru. Því ber að vera áhugavert eða sérkennilegt af einhverju tagi.  Myndirnar mega vera í lit eða svarthvítar, en skilyrði að þær séu í góðri upplausn og á jpg formi. Leyfilegt er að skanna inn framkallaðar myndir eða filmur og senda í keppnina. Engin verðlaun verða veitt fyrir þær myndir sem valdar eru, en viðkomandi ljósmyndari fær stækkaða mynd sína til eignar að sýningu lokinni. Skilafrestur á myndum er til og með 1. júlí 2010.  Hver þátttakandi má senda inn allt að 10 myndir sem hann hefur tekið sjálfur. Aldur myndanna skiptir engu máli.  Myndum skal skila í tölvupósti á radgjafi@skagastrond.is eða á diski eða minnislykli ásamt grunnupplýsingum um ljósmyndarann á skrifstofu sveitarfélagsins.  Ljósmyndir eru valdar eftir tillögum dómnefndar og leitast við að hafa sem breiðast úrval myndefnis og ljósmyndara. Myndir á sýningunni verða með myndatexta sem unninn er í samráði við eiganda og nafn hans verður einnig prentað á myndina. Sveitarfélagið Skagaströnd stendur fyrir ljósmyndasýningunni í samstarfi við Menningarráð Norðurlands vestra.

Listamaðurinn Nadage ber lof á Skagaströnd

„Á sýningunni verð ég með 14 stór málverk sem ég gerði á meðan ég dvaldi í Nes listamiðstöðinni á Skagaströnd í fyrra. Til viðbóar taka sautján íslenskir listamenn þátt í sýningunni, þeirra á meðal Anna Sigríður sem var samtímis mér á Skagaströnd.“ Þetta segir listamaðurinn Nadage Druzkowski, góð vinkona Skagastrandar, sem dvaldi í bænum í fjóra mánuði á síðasta ári. Hún eignaðist marga góða vini hér sem hafa haldið sambandi við hana og hún hefur verið dugleg að láta vita af sér enda stefnir hún að því að koma aftur sem fyrst. Nedage tekur eins og fram kom þátt í sýningunni „Arts et traditions L’Islande Autrement ...” sem hefst í byrjun næsta mánaðar í Strasbourg í Frakklandi og standa mun út júlí. Heiti sýningarinnar má til dæmis þýða „Ísland af öðru sjónarhorni“. Á sýningunni verður mikill fjöldi listaverka af öllu tagi, málverk, ljósmyndir, hreyfimyndir og fleira. Nadage segist muni halda þrjá fyrirlestra um Ísland og íslenska menningu.  Sýningin verður á tveimur stöðum Salle de l’Aubette (Place Kléber) og Sofitel- hótelinu. Hún verður opnuð þann 2. júlí og verður margt gáfumanna viðstatt meðal annarra sendiherra Íslands í Frakklandi, Þórir Ibsen. Í tölvupósti sínum til Signýjar Ó. Richter á Skagströnd, segir Nadage að hún muni einnig taka þátt í sýningu sem haldin verður í London og nefnist Florence Trust Summer Exhibition. Hún er í tilefni þess að Nadage hefur nú lokið eins árs dvöl í listamiðstöðinni Florence Art í London, þar sem hún hefur verið frá því hún fór frá Skagaströnd. Í tölvupósti sínum til Signýjar segir Nadage: „Þú mátt nefna það að þessi listamiðstöð í London er mjög vandfýsin á listamenn. Ég hef hins vegar fengið mjög góða dóma fyrir þessi verk sem ég mun sýna en þau vann ég ... á Skagaströnd.“ Meðfylgjandi er mynd af verki sem Nadage vann á Skagaströnd og er af Vaðlaheiði. Einnig fylgir mynd af boðskortinu á sýninguna í Frakklandi. Óhætt er að prenta það út og kemst þá viðkomandi á sýninguna ...   

Opið hús í dag í listamiðstöðinni á Skagaströnd

Opið hús verður hjá Nesi listamiðstöð í dag milli 18 og 20 að Fjörubraut 8, Skagaströnd. Listamennirnir hvetja alla til að líta inn og skoða verk sín sem þeir hafa unnið að í þessum mánuði og jafnvel lengur.  Listamennirnir níu sem hafa dvalið á Skagaströnd í júní koma frá Singapore, Malasíu, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu og vinna í myndlist, gjörningum og innsetningum. Í listamiðstöðinni er því margt forvitnilegt að sjá og ekki síður er gaman að ræða við listamennina sem eru svo óskaplega ánægðir með dvöl sína á Skagaströnd.

Ljósmyndasafn Skagastrandar opnað á vefnum

Ljósmyndasafn Skagastrandar var formlega tekið í notkun  í dag.Það var oddviti nýkjörinnar sveitarstjórnar, Adolf H. Berndsen, sem opnaði safnið. Slóðin á vefinn er http://myndasafn.skagastrond.is. Einnig má sjá link á vefinn á forsíðunni á skagastrond.is. Ljósmyndir af lífi og starfi Skagstrendinga, mannvirkjum og umhverfi í allt að 100 ár verða smám saman aðgengilegar Skagstrendingum og öðrum þeim sem áhuga hafa. Stefnt er að því að setja ljósmyndasafnið allt á vefinn. Til framtíðar er sú undirliggjandi stefna að á honum megi finna myndir af sem flestum Skagstrendingum, lífs og liðnum. Starfsmaður safnsins er Hjalti Viðar Reynisson og er hann í hálfu starfi við verkefnið. Ljósmyndavefurinn mun án efa vekja mikla ánægju. Vonast er til að fólk sem á myndir vilji annað hvort gefa safninu þær eða leyfa afritun af myndunum og birtingu.  Víða í kössum leynast gamlar myndir sem voru í eigum afa og ömmu eða langafa og langömmu. Oft veit enginn lengur hverjir eru á þeim eða hvenær þær voru teknar. Slíkar myndir eiga tvímælalaust heima á vef Ljósmyndasafnis Skagastrandar. Þar eru miklar líkur á að einhver kannist við myndefnið og sendi inn upplýsingar. Þetta er einmitt einn af kostum vefsins. Í makindum heimavið er tilvalið að skoða myndirnar og velta myndefninu fyrir sér. Telji einhver að myndatexta vanti eða honum sé að einhverju eða öllu leyti áfátt getur hann auðveldlega skráð inn á vefinn þann texta sem hann telur réttan. Þannig safnast oft saman ítarlegri og betri upplýsingar en mögulegt væri að afla með öðrum aðferðum. Ótalinn er sá möguleiki sem stunda samtíma söguskráningu. Hér er átt við ýmis konar atburði í bæjarmálum sem um leið er orðin aðgengileg öllum almenningi. Sem dæmi má nefna myndir frá sjómannadeginum, kántrýdögum, ýmis konar uppákomum hjá grunnskólanum, leikskólanum, Sæborgu eða einstökum fyrirtækjum.  Vefurinn er í aðalatriðum þannig upp byggður hægt er flokka myndirnar eftir efni þeirra. Nú eru þegar komnir nokkrir flokkar og þeim á áreiðanlega eftir að fjölga: Bílar Forsetaheimsóknin 1988 Gamla kirkjan Hafnarframkvæmdir 1991 Höfðahreppur 50 ára Kántrýhátíðir Póstkort Réttir Sjómannadagurinn Skip og bátar Slippurinn vígður 1995 Snjór Tískusýning Uppstilltar hópmyndir Útimarkaður við gamla Kántrýbæ Einnig gefst kostur á að leita að myndum eftir tiltekna ljósmyndara og er þá hvort tveggja átt við áhugamenn sem atvinnumenn og jafnvel söfn úr eigu tiltekinna aðila. Nefna má að á vefnum eru myndir frá því um þarsíðustu aldmót sem Edward Hemmert tók. Ljósmyndavefurinn er hannaður af Jóhanni Ísberg. Fjölmörg sveitarfélög víða um land hafa keypt þennan vef og nota hann mikið. Nefna má Akranes og Stykkishólm og á báðum stöðum er hann mikið notaður. Á meðfylgjandi litmynd er oddviti sveitarstjórnar að opna vefinn og hjá honum stendur starfsmaður safnsins, Hjalti Viðar Reynisson. Efsta svarthvíta myndin er af konu með hrífu. Hún hét Rósa Jónsdóttir og var frá Spákonufelli. Á næstu mynd eru Þuríður, Árni og Hermann frá Litla Bergi. Síðasta myndin er af óþekktri stúlku með brúðu í fanginu. Þessar myndir og aðrar má sjá á ljósmyndavefnum og þar má gera tillögu um betri myndatexta, laga eða breyta.

Ný sveitarstjórn á Skagaströnd

Ný sveitarstjórn tók í dag við stjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar. Á fyrsta sveitarstjórnarfundinum var  Adolf H. Berndsen kjörinn oddviti og varaoddviti Halldór G. Ólafsson. Aðrir í sveitarstjórn eru Jensína Lýðsdóttir, Jón Ólafur Sigurjónsson og Péturína Laufey Jakobsdóttir. Magnús B. Jónsson var endurráðinn sveitarstjóri.

Markaður í sumar í gamla Kaupfélaginu

Í sumar verður opnaður markaður í kjallara gamla Kaupfélagsins á Skagaströnd. Fyrir framtakinu standa þrjár skagstrendskar konur, Björk Sveinsdóttir, Signý Ó. Richter og Birna Sveinsdóttir. Þær leita eftir  handverksfólki og hagleikssmiðum sem þær trúa að fyrirfinnist á Skagaströnd og í Skagabyggð. Þeir sem hafa áhuga á að vera með vörur til sölu  í markaðnum eru eindregið hvattir til að hafa samband við þremenningana. Signý er með símann 820 1991, Birna 896 6105 og Björk hefur símann 862 6997.

Þórdísarganga á Spákonufell á Jónsmessu

Gengið verður á Spákonufell miðvikudagskvöldið 23. júní kl. 21:00. Mæting er við golfskálann að Háagerði, Skagaströnd. Fararstjóri og sögumaður er Ólafur Bernódusson. Hann segir frá Þórdísi spákonu, kynnir staði er tengjast henni og afrekum hennar. Tekst að finna gullkistu Þórdísar ? … Hver veit. Upplifum Spákonufell á bjartri sumarnótt. Eftir göngu er öllum boðið á kaffihlaðborð í golfskálanum að hætti Spákonuarfs. Verð fyrir göngu (kaffihlaðborð innifalið) kr. 2.000  frítt fyrir börn 14 ára og yngri. Posi á staðnum. Allar nánari upplýsingar í síma 861 5089 Menningarfélagið Spákonuarfur

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 23. júní 2010 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.   Dagskrá: 1.        Kjör oddvita og varaoddvita 2.        Kosning í nefndir og ráð: a)      Fræðslunefnd b)     Skipulags- og byggingarnefnd c)      Tómstunda- og menningarmálanefnd d)     Hafnarnefnd e)      Kjörstjórn f)       Skoðunarmenn reikninga g)      Ársþing SSNV h)     Fulltrúi á landsþing i)       Í fulltrúaráð BÍ j)       Stjórn byggðasamlags um Félags- og skólaþjónustu A-Hún k)     Stjórn byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún l)       Stjórn byggðasamlags um menningar og atvinnumál   3.        Lóðasamningur um Fellsmela 1 4.        Ársreikningur Ámundakinnar 5.        Bréf: a)      Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 2. júní 2010 b)     Vina Kvennaskólans, dags. 10. júní 2010 c)      Byggðasamlags um menningu og atvinnumál, dags. 14. júní 2010 d)     Stjórnar Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna, dags. 17. maí 2010   6.        Fundargerðir: a)         Tómstunda- og menningarmálanefndar 15. júní 2010 b)        Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 8. júní 2010 c)         Stjórnar Norðurár bs. 14. apríl 2010 d)        Stjórnar Norðurár bs. 6. maí 2010 e)         Stjórnar Norðurár bs. 18. maí 2010 f)          Stjórnar Norðurár bs. 10. júní 2010 g)         Heilbrigðisnefndar Nl.vestra, 11. júní 2010   7.        Opnun ljósmyndavefs Skagastrandar   8.        Önnur mál                                                 Sveitarstjóri