Slökun með listsköpun í Nesi listamiðstöð

Jurate Preiksiene frá Litháen ætlar að bjóða upp á ókeypis námskeið þriðjudaginn 16.mars frá klukkan 18 í Nesi listamiðstöð. Kennt verður hvernig má slaka með því að gera einfaldar æfingar með pensli eða blýanti. Námskeiðið snýst ekki beinlínis um listsköpun sem slíka heldur að finna samhljóm með sjálfum sér og litunum og línunum. Þátttakendur þurfa að koma með pappír, vatnsliti, pensil og blýanta. Námskeiðið tekur um 2 tíma.

Sveitarstjórn samþykkir ályktanir

Á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar þann 3. mars síðast liðinn voru eftirfarandi ályktanir samþykktar samhljóða:     Sjávarútvegsmál Sveitarstjórn Skagastrandar skorar á ríkisstjórn Íslands að falla frá hugmyndum um innköllun veiðiheimilda eða svokallaða fyrningarleið. Aldrei fyrr hefur sjávarútvegur verið þjóðinni mikilvægari og alls engin ástæða til að gera grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi við úthlutun veiðiheimilda. Stærstur hluti veiðiheimilda er í dag í höndum sjávarútvegsfyrirtækja vítt og breitt um landið, með fyrningarleið væri því gerð alvarlega atlaga að stöðu landsbyggðarinnar.   Á undanförnum árum hafa stjórnvöld staðið að breytingum á stjórnkerfi fiskveiða m.a. með úthlutun byggðakvóta og nú síðast ákvörðun um strandveiðar. Með þessum ákvörðunum hafa stjórnvöld komið til móts við ólík sjónarmið.   Sveitarstjórn telur ekki rétt að færa veiðiheimildir úr byggðakvóta yfir í strandveiðar en á ráðuneyti sjávarútvegsmála að breyta svæðisskiptingu strandveiða m.a. með tilliti til reynslu síðasta árs.     Heilbrigðismál   Sveitarstjórn Skagastrandar mótmælir þeim mikla niðurskurði sem Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi þarf að taka á sig. Sveitarstjórn skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða boðaðan niðurskurð og tryggja að Heilbrigðisstofnuni fái sanngjarna meðferð í samanburði við aðrar stofnanir. Jafnframt brýnir sveitarstjórn þingmenn Norðvesturkjördæmis að standa vörð um stofnunina.     Samgöngumál Sveitarstjórn Skagastrandar mótmælir hugmyndum Vegagerðarinnar um breytta veglínu í gegnum A-Húnavatnssýslu með svokallaðri Húnavallaleið. Sveitarstjórn minnir á að að í gildandi svæðisskipulagi A-Húnavatnssýslu 2004-2016 er ekki gert ráð fyrir nýjum stofnvegi á þessu svæði.     Matjurtagarðar Sveitarstjórn samþykkir að koma upp aðstöðu innan sveitarfélagsins fyrir matjurtagarða. Sveitarstjóra er falið að útfæra hugmyndir um staðsetningu og tilhögun og leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar.

Yfirgefin fiskvinnsla verður alþjóðleg listamiðstöð

Fiskveiðar hafa verið undirstöðu atvinnugrein Skagastrandar síðustu aldirnar. Bærinn er þekktur fyrir öfluga útgerð og hefur atvinnulífið í áranna rás byggst mikið upp í kringum þessa atvinnugrein líkt og er von og vísa í sjávarþorpum. Sjávarútvegurinn er enn undirstöðugrein staðarins en þróunin hefur þó verið þar, líkt og víða annarsstaðar, að fiskvinnslan í landi hefur lagst af og eftir standa auðar vannýttar yfirbyggingar.  Víða á landinu hefur það gerst að fiskvinnslur eða stórir vinnustaðir hafi þurft að loka og er það í mörgum tilfellum mikið reiðarslag fyrir lítil bæjarfélög þegar slíkt kemur fyrir. Jafnvel kemur fyrir að byggingarnar grotni í tímanna rás og verði að einskonar minnisvarða um bjartsýnari tíma. Gömlu frystihúsi breytt En á Skagaströnd var ekki sú leið farin að geyma fiskvinnsluna sem minnisvarða um veröld sem var. Veruleikinn var sá að þarna var fyllilega gott mannvirki til að vinna fisk með glans, sem ekki var eftirspurn eftir í því atvinnuástandi sem við lifum við í dag.  Eftir að bæjarbúar og sveitastjórn höfðu lengi hugsað um hvernig best væri að nýta gömlu fiskvinnsluna sem stóð auð, kom sú ævintýralega hugmynd fram að hugsanlega væri hægt að stofna þarna alþjóðlega listamiðstöð. Flestir jarðbundnir menn hefðu án efa hrist hausinn í forundran þegar þeir heyrðu svona hugmynd í fyrsta skipti: breyta gömlu fiskvinnslunni í alþjóðlega listamiðstöð, - afhverju ekki bara að breyta gamla kaupfélaginu í kauphöll í leiðinni ? En eftir því sem málið var nánar skoðað og fleiri hindrunum, ímynduðum og raunverulegum var ýtt úr vegi var niðurstaðan sú að stofnuð var Nes Listamiðstöð, alþjóðlega listamiðstöð. Gömlu fiskvinnslunni var skipt upp í vinnurými fyrir listamenn sem koma víða að og tryggðar íbúðir fyrir þá til að dvelja í á meðan dvölinni stendur.  170 gestir Listamiðstöðin var stofnuð í maí 2008 og kom fyrsti listamaðurinn í hana í júní það sama ár. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, yfir 170 einstaklingar hafa komið til Skagastrandar til að nýta sér þá vinnuaðstöðu og andagift sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Hver listamaður greiðir um 550 Evrur fyrir dvölina og fær fyrir það bæði húsnæði og vinnuaðstöðu. Yfir 90% þessara einstaklinga eru af erlendu bergi brotnir og dvelja frá einum mánuði og upp undir hálft ár. Þarna koma ýmist ljósmyndarar, málarar, rithöfundar o.s.frv.  Sköpunargleiðin smitar Þarna eru á hverjum tíma hópur listamanna sem nýtir sér verslun og þjónustu sveitarfélagsins, tekur þátt í menningarviðburðum og öðrum uppákomum í sveitarfélaginu. Sköpunargleðin smitar að sjálfsögðu út frá sér til annarra menningargeira Skagastrandar og grunnskólanemendur fá að kynnast verkefnum þeirra og tækni. Þar fyrir utan fá bæði Skagaströnd og Ísland gríðarlega landkynningu með þessum mikla fjölda erlendra listamanna sem koma og kynnast landinu sem aftur kynna svo íslenska náttúru og samfélag á erlendri grundu Í stað grotnandi fiskvinnsluhúss er komið lifandi samfélag, sem nýtir fegurð umhverfisins og aðstöðu sem annars stæði ónotuð, til að vinna að sinni listsköpun og með þeim fylgir dýrmætur gjaldeyrir. Með dirfsku og framsýni tókst að umbreyta yfirgefinni yfirbyggingu hins liðna í lifandi rekstur sem ekki annar eftirspurn.  Ímyndurnaraflið Á tímum efnahagsþrenginga og erfiðleika er mikilvægt að geta aðlagað sig og umhverfi sitt að breyttum veruleika. Tækifærin leynast víða og það er okkar að grípa þau. Við eigum að beita ímyndunaraflinu til að nýta það sem fyrir er, jafnvel þó það kalli á að feta ótroðnar slóðir. Því líkt og Napóleon Bónaparte sagði eitt sinn, „Ímyndunaraflið stjórnar heiminum.“ Höfundur greinarinnar er Vignir Hafþórsson Greinin birtist fyrir skömmu á deiglan.com

Skemmtidagskrá um Björn á Löngumýri

Í vetur hefur Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps æft skemmtidagskrá í tali og tónum sem er helguð Birni Pálssyni bónda, kaupfélagsstjóra og alþingismanni á Ytri-Löngumýri. Í dagskránni eru flutt 16 sönglög með lesnum pistlum á milli. Þar kemur meðal annars töluvert til sögu vera Björns á Skagaströnd sem kaupfélagsstjóri og útgerðarmaður, einnig baðmálið fræga. Þá mun heyrast frá Lukku Láka og minnst verður á Kántrýbæ. Handritshöfundur er Jóhanna H. Halldórsdóttir á Brandsstöðum. Söngstjóri er Sveinn Árnason á Víðimel. Undirleik annast Elvar Ingi Jóhannesson á Torfalæk ásamt hljómsveit Skarphéðins Einarssonar. Sýningar verða þrjár, í Blönduóskirkju fimmtudaginn 11. mars, í Félagsheimilinu á Hvammstanga föstudaginn 12. mars og í Miðgarði fimmtudaginn 18. mars. Hefjast allar sýningarnar kl. 20.30. Miðaverð er kr. 2.500.- sem vinsamlega greiðist með reiðufé. Kórfélagar.

Kynning í prjónakaffi Textílseturs

Garn.is verður með veglega kynningu í prjónakaffi Textílseturs fimmtudaginn 18. mars kl. 20.00. Inga og Elínborg kynna prjónablaðið Björk en 2. tbl. er með úrvali uppskrifta af barnafötum. Athugið að ekki er posi á staðnum. Textílsetur Íslands er í Kvennaskólanum, Árbraut 31 á Blönduósi. Síminn þar er 452 4300 og vefurinn er á slóðinni.www.textilsetur.is

Samráð samfélagsfræðikennara

Samfélagsfræðikennarar Húnavatnssýslna voru boðaðir til samráðsfundar þriðjudaginn 3. mars í Grunnskólann á Blönduósi.   Markmið fundarins var að ræða saman, skiptast á verkefnum,  hugmyndum og kennsluaðferðum í samfélagsfræði. Kennarar komu  með til fundarins kennsluáætlanir, verkefni, bækur og önnur gögn sem tengjast greininni og reynst hafa vel í kennslunni. Allir höfðu eitthvað fram að færa og jókst því hugmyndabanki kennaranna mikið.  Stjórnandi samráðsfundarins var Hörður Ríkharðsson, kennari. Námskeiðið var haldið á vegum Fræðsluskrifstofu A- Hún. Myndin er af þátttakendum og leiðbeinanda.

Framkvæmdastjóri Ness formaður SÍM

Framkvæmdstjóri Ness listamiðstöðvar kjörinn formaður Sambands íslenskra mynlistarmanna. Varpa þurfti hlutkesti í formannskjöri á aðalfundi Sambands íslenskra myndlistarmanna á laugardaginn.  Hlynur Hallsson, sem verið hefur formaður sambandsins, og Hrafnhildur Sigurðardóttir voru í kjöri og fengu jafnmörg atkvæði, 134 hvort. Hrafnhildur valdi skjaldarmerkið sem kom upp.

64% kjörsókn á Skagaströnd

Kjörsókn á Skagaströnd í þjóðaratkvæðagreiðslunni síðasta laugardag var 64,05%. Alls voru 370 manns á kjörskrá. Í norðvesturkjördæmi voru 21.324 á kjörskrá og kjörsóknin var 63,6%. Nei kusu 92,7% þeirra sem þátt tóku. Kjörsókn á öllu landinu var 62,7% og nei sögðu 93,2%

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave í Fellsborg

Á morgun, laugardaginn 6. mars 2010, verður þjóðaratkvæðagreiðslan sem kennd hefur verið við Icesave samningana við Breta og Hollendinga. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi? Kjörfundur hefst í Fellsborg klukkan 10 og lýkur klukkan 20. 

Óskað eftir umsóknum um byggðakvóta

Fiskistofa óskar eftir umsóknum um byggðakvóta á Skagaströnd. Um er að ræða úthlutun byggðakvót á fiskveiðiárinu 2009/2010 sbr. reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa nr. 82, 29. janúar 2010 Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í neðanskráðum byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 187/2010 í Stjórnartíðindum. Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög: Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna á heimasíðu stofnunarinnar (www.fiskistofa.is), og þar eru ofangreindur reglur einnig aðgengilegar.   Umsóknarfrestur er til og með 19. mars 2010.