Ungbarnasund

Á föstudag, 16. október n.k., byrjar námskeið í ungbarnasundi á Blönduósi. Að þessu sinni verður kennt í sundlauginni á Heilbrigðisstofnunni, en hún er afar hlý og góð. Tímarnir verða á föstudögum og mánudögum, alls átta skipti. Skráning og nánari upplýsingar eru í síma 863 6037.

Gagn og gaman!

List- og verkgreinakennarar Húnavatnssýslna og aðrir áhugasamir voru boðaðir á fund þriðjudaginn 13. október í Grunnskóla Húnaþings vestra, Hvammstanga. Markmið fundarins var að ræða saman, skiptast á verkefnum, hugmyndum og kennsluaðferðum. Kennurunum var gert að koma með kennsluáætlanir, verkefni, bækur og önnur gögn sem tengjast greininni og reynst hafa vel í kennslunni. Allir höfðu margt fram að færa og jókst því hugmyndabanki kennaranna mikið. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Oddný Helga Sigurðadóttir, kennari. Námskeiðið var haldið á vegum Fræðsluskrifstofu A- Hún. Mynd: Þátttakendur og Leiðbeinandi.

Tónleikarnir verða á sunnudag

Ákveðið hefur verið að tónleikar hljómsveitarinnar Mannakorns verði nk. sunnudag kl 17.00 í Kántrýbæ Fólk er hvatt til að mæta og bent á forsölu aðgöngumiða skv. fyrri frétt og auglýsingum.

Tónleikum frestað

Tónleikum hljómsveitarinnar Mannakorns sem vera áttu í kvöld í Kántrýbæ er frestað vegna veðurs. Þótt veður á Skagaströnd sé enn skaplegt er ekki ferðaveður um landið og því er áður auglýstum tónleikum hljómsveitarinnar frestað. Rætt hefur verið um þann möguleika að tónleikarnir verði kl 17 á sunnudag en það er enn ófrágengið. Þegar fyrir liggur hvenær hljómsveitin heldur tónleika sína á Skagaströnd verður það auglýst m.a. á www.skagastrond.is

Frístundakort

Til foreldra grunnskólanema Sveitarstjórn Skagastrandar hefur samþykkt að bjóða frístundakort sem nemi allt að 15 þúsund króna styrk, fyrir hvert grunnskólabarn, sem þátt tekur í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Ákvörðun um frístundakort gildir frá 1. september2009 til 31. ágúst 2010. Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám. Síðasti greiðsludagur vegna tímabilsins er 15. september 2010“ Eftir að greitt hefur verið fyrir það námskeið eða starf sem börn eða unglingar taka þátt í er farið með afrit greiðsluseðils eða gilda kvittun á skrifstofu sveitarfélagsins þar sem fjárhæðin er endurgreidd, allt að 15 þús. kr. Skilyrði fyrir endurgreiðslu er að starfsemin sé viðurkennd af sveitarstjórn og um hana séu veittar allar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Fyrir hönd sveitarstjórnar Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri

Þriggja manna lið sigrar í Drekktu betur

Sigurvegarar í spurningakeppninni Drekktu betur síðasta föstudagskvöld voru þrír Elva Dröfn, María Jóna og Hrefna Dögg. Spyrjandi var Írena Rúnarsdóttir sem stóð sig með afbrigðum vel þó ekki hafi hún staðið við gefið loforð um léttar spurningar. Írena var með fjölbreyttar spurningar og raunar frekar úr dægurhlið tilverunnar en hitt. Hins vegar vildu svörin oftast vefjast fyrir þátttakendum og gramdist mörgum það mikið og var nokkuð um frammíköll og læti. Írena stjórnaði hins vegar salnum með harðri hendi og lét engan komast upp með derring. Þannig eiga stjórnendur að vera. Hér á eftir eru spurningar og rétt svör: Kristján Hjartarson afi minn á skírnarsálm sem er í sálmabókinni númer hvað er hann? Svar: 254 Mörg gömul hús á Skagaströnd eiga sér nafn og er mitt hús eitt af þeim hvað heitir það? Svar: Hjarðarholt . Hvaða ár og hvaða dag fór fór kántrýútvarpið fyrst í loftið? Svar: 14 nóvember 1992. Eins og allir vita erum við með tvö lungu en þau eru ekki alveg eins hver er munurinn? Svar: Það hægra er með þrjú lungnablöð en það vinstra aðeins tvö. Hver samdi bækurnar Þjóð bjarnarins mikla og Dalur hestanna ásamt fleiri bókum? Svar: Jean M. Auel. Ef ég set tvo bolla af hveiti tvo bolla af salti og einn af volgu vatni í skál og hræri það saman hvað er ég þá búin að búa til? Svar: Trölladeig Georg Lazenby, Timothy Dalton og Pierce Brosnan eiga það sameiginlegt að þeir hafa allir leikið sömu persónuna hver er það? Svar: James Bond. Í skjaldarmerki Íslands eru fjórir landvættir hverjir eru þeir? Svar: Naut örn dreki og risi. Í sögunni Sitjið guðs englar segir frá systkinum sem alast upp hjá mömmu sinni ömmu og afa. Pabbinn er oftast í burtu vegna vinnu hvað starfar pabbinn og hver skrifaði söguna? Svar: Pabbinn er sjómaður og Guðrún Helgadóttir skrifaði bókina . Ef spurt er um uppruna hver af þessum fjórum passar þá ekki með hinum og hvers vegna Batman , ET, Stitch og Súperman ? Svar: Batman hann er jarðarbúi en hinir koma allir frá öðrum hnöttum . Hversu margir eru hryggjarliðirnir í okkur ? Svar: þeir eru 33 ,7 hálsliðir, 12 brjóstliðir ,5 lendarliðir, 5 spjaldliðir og 4 rófuliðir . Emelio Estevez er nokkuð frægur leikari hann á bróður og pabba sem eru líka frægir leikarar en bera ekki sama ættarnafn hverjir eru þeir ? Svar: Charlie og Martin Sheen . Þegar þessi hljómsveit sló í gegn með fyrsta lagið sitt olli það hneyksli með glaðlegu lagi sem hét eftir gamalli orrustu þar sem þúsundir manna létu lífið hvaða hljómsveit er þetta og hvað heitir lagið ? Svar: Abba og Waterloo. Í myndinni Thelma and Louise má sjá ungan leikara í aukahlutverki sem síðar átti eftir að slá rækilega í gegn hver er hann ? Svar: Brad Pitt. Á norðanverðum Spákonufellshöfða er stapi hvað heitir hann ?Svar: Arnarstapi. Poppgoðið Mikael Jackson lést fyrr á þessu ári hvaða dag var það ? Svar: 25 júní . Hvaða ár var stjórnsýsluhúsið hér á Skagaströnd tekið í notkun ? Svar: 1986 Hvað heitir fyrsta ljóðabókin sem Rúnar Kristjánsson gaf út ? Svar: Ljóð frá Skagaströnd . Nú í september lést leikarinn Patrick Swayze af völdum krabbameins aðeins 57 ára að aldri hvernig krabbamein var það sem dró hann til dauða ?Svar: krabbamein í brisi . Hverjir sátu í fyrstu stjórn Skagstrendings ? Svar: Sveinn Ingólfsson, Karl Berndsen ,Guðmundur Lárusson,Guðmundur Jóhannesson og Kristján Hjartarson . Lagið Kokomo með Beach boys er úr vinsælli kvikmynd hvaða mynd er það ? Svar: Coktail. Hvað heitir mótleikona Patrick Swayze í kvikmyndinni Dirty dancing ? Svar: Jennifer Gray. Hvaða ár var fyrsta verkalýðsfélagið stofnað á Skagaströnd ? Svar: 1907. Í kvikmyndinni ET má sjá barnunga leikkonu sem í dag er orðin stórstjarna hvað heitir hún ?Svar: Drew Barrymore. Hvaða ár kom fyrsti sjúkrabíllinn til Skagastrandar ? a.1984, b 1987, eða c 1989. Rétt svar 1987 Hvað heitir nýjasti diskurinn með hljómsveitinni Mannakorn ? Svar: Von Árið 1992 gaf hljómsveitin Soul asylum út disk með lagi sem vakti mikla athygli meðal annars fyrir það að í myndbandi lagsins voru birtar myndir af týndum börnum sem varð svo til þess að eithvað af þeim fannst hvað heitir lagið ? Svar: Runaway train Hver var fyrsti lærði sjúkraflutningamaðurinn á Skagaströnd ? Svar: Jónas Jónasson ( í Réttarholti ) Hver lék aðstoðarflugmann Tom Cruise í myndinni Top gun ? Svar: Antony Edwards Hver lék aðalhlutverkið í myndinni La Bamba ? Svar: Lou Diamond Phillips.

Mannakorn í Kántrýbæ á föstudagskvöldið

Tónleikar í Kántrýbæ: Maggi Eiríks, Pálmi Gunnars, Ellen Kristjáns, Gulli Briem og Eyþór Gunnars. Nýju lögin af Von og allar gömlu perlurnar. Miðaverð aðeins 1.000 krónur. Forsala á fimmtudag frá kl. 13-19 í síma 847 66 22. Tónleikarnir eru styrktir af Minningarsjóðnum um hjónin frá Garði og Vindhæli.

Listamenn októbermánaðar í Nes listamiðstöðinni

Fjórtán nýir listamenn koma nú til starfa hjá Nes listamiðstöð á Skagaströnd. Tæplega eitt og hálft ár er nú síðan fyrstu listmennirnir komu og síðan hafa um 160 manns komið til Skagastrandar til að sinna listsköpun sinni. Fjölmargir þeirra halda enn góðu sambandi við Nes listamiðstöð, m.a. í gegnum Facebook. Margir þeirra hafa eignast góða vini á Skagaströnd og jafnvel er dæmi um enn dýpra samband ... Víst er að Skagstrendingar bjóða hina nýju listamenn velkomna og vona að dvölin verði þeim sem ánægjulegust. Listamenn októbermánaðar eru þessir: Hannah Casey, myndlistamaður frá Írlandi Princess Ayelotan, rithöfundur frá Frakklandi Maurice Orr (John Will), myndlistmaður frá Írlandi Caroline Lioré, ljósmyndari frá Frakklandi Renata Padovan, brasilískur listamaður sem vinnur ljósmyndir og vídeó Oliver Gardiner, videolistamaður frá Englandi Bendel Hydes, málari frá Bandaríkjunum Di Ball, vinnu blandaða list og er frá Ástralíu Louisa Conrad, myndlistarmaður frá Bandaríkjunum Lucas Farrell, rithöfundur frá Bandaríkjunum Adrian Buitenhuis, kanadískur listamaður sem vinnur video/myndlist Sue Gordon frá Kanada, vinnur paint/print Laura Hensser, vinnur með ljósmyndir og kemur frá Englandi Ciara O’Hara, myndlistarmaður frá Írlandi

Októbernámskeiðin í Textílsetrinu á Blönduósi

Textílsetur Íslands í Kvennaskólanum Blönduósi býður upp á ýmsa viðburði í október. Prjónakaffi verður haldið þriðjudaginn 6.okt. kl. 20.00. Storkurinn, hannyrðaverslun, kynnir þá vörur og námskeið. Verslunin hefur sérhæft sig í m.a. bresku gæðagarni, efnum og bókum og hönnun frá Kaffe Fasset, sjá nánar á vefsíðunni www.storkurinn.is. Námskeið verða á boðstólnum fyrir áhugasama.  Silkimálun verður þriðjudaginn 6. og fimmtudaginn 8. október kl. 19.30 til 22.00.  Þar kennir Inese Elferte málun á silki og bómullarefni. Kennt er að nota  einfaldar aðferðir til að mála á silki og önnur efni;  slæður, fataefni, myndir, málað á boli, koddaver o.s.frv. Námskeiðið er tilvalið fyrir kennara því tæknina má auðveldlega nýta í kennslu í grunnskóla. Haustnámskeið, námskeiðaröð verður laugardaginn 27. og þriðjudaginn 27. október. Ýmis námskeið verða á boðstólnum og geta nemendur raðað saman stundatöflu eftir því hvar áhuginn liggur. Prjónanámskeið;  prjóntækni, EZ listasmiðja, peysa prjónuð ofan frá, mósaíkprjón, tveir hlutir prjónaðir á einn prjón. Hekl; „venjulegt hekl”, rússneskt hekl, frjálst hekl. Gimb og spuni á halasnældu Athugið að fullt er á sum námskeiðin en enn er möguleiki að komast inn á stök námskeið.  Nánari upplýsingar: www.textilsetur.is, textilsetur@simnet.is og í síma 894-9030.

Óskiljanlegar hraðahindranir á Skagaströnd

Lögreglubíll og fólksbíll eru óökufærir eftir árekstur sem varð á Strandgötu á Skagaströnd í morgun. Tildrögin voru þau að bílarnir mættust við hraðahindrun en hún er tvískipt. Ökumaður Toyotu fólksbíls ætlaði að komast hjá því að aka yfir hraðahindranirnar og beygði yfir á vinstri vegarhelming, á milli þeirra. Ekki tókst honum betur til en svo að hann lenti beint framan á lögreglubíl sem þarna var, því sem næst kyrrstæður. „Það er alveg óskiljanlegt að búa til hraðahindrun sem gefur kost á því að ökumenn geti komist hjá þeim með því að aka yfir á rangan vegarhelming,“ segir Vilhjálmur Stefánsson, lögreglumaður á Blönduósi, en hann var ökumaður lögreglubílsins. „Hvers vegna að hafa hraðahindrun ef ekki þarf að aka á hana? Meira að segja bílar sem komu þarna að eftir áreksturinn sveigðu á milli hraðahindrananna fyrir framan augun á okkur,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að lögreglan ætli að spyrjast fyrir um tilganginn með þessu hjá sveitarstjóra Skagastrandar. Skemmdir á lögreglubílnum voru ekki miklar en nægar til að hann var óökufær, líklega er vatnskassinn ónýtur.