1100 tonn af brotajárni í skip

Hringrás er nú að flytja um 1100 tonn af brotajárni um borð í flutningaskip sem liggur í Skagastrandarhöfn. Þetta er einungis hluti af því sem safnast hefur saman á undanförnum misserum og búast má við því að járnið gangi nú í endurnýjaða lífdaga og birtist hugsanlega aftur á Íslandi sem ísskápur, steypustyrktarjárn eða eitthvað annað. Annar og stærri haugur bíður útflutnings en það eru bílflök sem hafa verið pressuð saman. Ástæðan fyrir því að þau fara ekki með þessu skipi er að vinnsluaðferðirnar eru ólíkar. Bílflökin eru tætt í sundur og síðan flokkuð og brædd en járnið fer beint í bræðslu. Að sögn forráðamanna Hringrásar er ekki hægt að segja til um hvenær bílflökin fara en væntanlega er skammt í það. Flutningaskipið Wilson Gijon fer næst til Akureyrar sem og starfsmenn og bílafloti Hringrásar og útflutningurinn heldur áfram.

Ásgarður í viðgerð

Viðgerðir á Ásgarði, einni af bryggjunum á Skagaströnd, stendur nú yfir. Rekin eru niður stór járnrör við hliðina á tréstaurunum sem bera uppi bryggjukantinn. Heimamenn starfa að verkinu undir stjórn Lárusar Einarssonar.

Aðalfundur foreldrafélagsins

Aðalfundur  foreldrafélags Höfðaskóla verður haldinn fimmtudaginn 17. september 2009 klukkan 20:00 í Höfðaskóla. Dagskrá fundarins Skýrsla formanns. Reikningar lagðir fram. Kosning nýrrar stjórnar. Kosning í skóla- og fræðsluráð. Önnur mál. Myndataka Gjöf foreldrafélags til Höfðaskóla Ofþyngd barna í Höfðaskóla Allir foreldrar barna í Höfðaskóla eru hvattir til þess að mæta. Stjórnin    

Upplýsinga- og fræðslufundur skólastjóra leikskólanna

Þann 9. september lögðu skólastjórar leikskóla Húnavatnssýslna land undir fót og heimsóttu Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Tilgangur ferðarinnar var að hitta sérfræðinga leikskólasviðs Reykjavíkur og hlýða á lýsingar þeirra á helstu áherslum í starfsemi leikskóla borgarinnar. Einnig voru tveir leikskólar heimsóttir og starfsemi þeirra skoðuð. Þátttakendur héldu margs fróðari heim með ýmsar áhugaverðar hugmyndir í farteskinu. Mynd: Skólastjórar leikskóla Húnavatnssýslna og ráðgjafar leikskólasviðs Reykjavíkur.

Fundur um Spákonufellshöfða, fugla og ferðamenn

Boðað er til fundar í Fellsborg á Skagaströnd miðvikudaginn 9. september kl. 18 - 19. Þar verður kynnt alþjóðlegt samstarfsverkefni sem hefur það markmið að vinna að sjálfbærri þróun náttúrulífsferðamennsku á norðlægum slóðum. Verkefnið nefnist The Wild North og felst í víðtækri samvinnu ferðaþjónustuaðila, rannsóknaraðila og opinberra stofnana í fjórum löndum á sviði rannsókna, menntunar og vöruþróunar.  Gerðar eru þriggja ára rannsóknir á völdum áfangastöðum þar sem dýra- og fuglalíf er í forgangi. Niðurstöðunar verða m.a. notaðar til þess að útbúa umgegnisreglur fyrir ferðaþjónustuaðila og gesti á áfangastöðum þar sem villt dýr eru skoðuð.  Rannsóknir fara nú fram í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Grænlandi, Færeyjum og Íslandi.  Á Skagaströnd er verið að kanna þau áhrif sem ferðamenn hafa á fuglalíf í Spákonufellshöfða. Auk þessa er á vegum The Wild North á Íslandi unnið að rannsóknum  á refum á Hornströndum, selum á Vatnsnesi, fuglum á Spákonufellshöfða og hvölum á Skjálfanda. Náttúrustofu Norðurlands vestra er falið að rannsaka áhrif fótgangandi fólks á fuglalífi í Spákonufellshöfða, kortleggja fuglabyggðina, telja fugla og hreiðurstæði þeirra, ásamt því að skoða þau áhrif sem umferð ferðamanna hefur á daglegt líf fugla á svæðinu.  Sveitarfélagið Skagaströnd sér um uppbyggingu á Spákonufellshöfða og eftirlit. Það ber ábyrgð á verkstjórn og framkvæmd verkefnisins og er tengiliður við verkefnisstjóra og verkefnisstjórn TWN.  Dagskrá fundarins Kynning á TWN, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, verkefnisstjóri The Wild North Þátttaka Skagastrandar, Sigurður Sigurðarson, markaðsráðgjafi Sveitarfélagsins Skagastrandar Rannsókn Náttúrustofu, Þórdís V. Bragadóttir, líffræðingur NNV Fyrirspurnir og umræður Gert er ráð fyrir að fundinum verði lokið eigi síðar en kl. 19.

Þverskurður 2 - ný sýning í Gamla kaupfélaginu

Textílsýningin ,,Þverskurður 2” verður opnuð í sýningarsal Ness listamiðstöðvar í Gamla kaupfélaginu á Skagaströnd sunnudaginn 6. september kl. 15:00. Textílfélagið er félag textíllistamanna og hönnuða. Það fagnar 35 ára afmæli á þessu ári. Sýningin í Gamla kaupfélaginu er liður í sýningarröð sem félagið stendur fyrir af því tilefni í þeim tilgangi að kynna verk félagsmanna fyrir landsmönnum.  Sýnendur eru bæði hönnuðir og textíllistamenn sem vinna í ólík efni með mismundandi aðferðum og eru verkin á sýningunni þverskurður þess sem er að gerast innan textíllistar í landinu. Styrktaraðilar sýningarinnar eru Menningarráð Norðurlands vestra og Minningarsjóður um hjónin frá Garði og Vindhæli. Sýningin stendur frá 6-27. september og er opin um helgar frá 13-17 og á virkum dögum eftir samkomulagi í síma 452 2816 og eru allir hvattir til að sjá sýninguna.

Mikilvægasta myndasamkeppni haustsins fyrir ungmenni

Allir unglingar á Norðurlöndum á aldrinum 15 til 19 ára ættu nú að leggja höfuðið í bleyti, dusta rykið af sköpunargáfunni og gera stuttmynd um hlýnun jarðar og loftslagsmál því nú í haust byrjar samkeppnin „REClimate –myndir til varnar loftslaginu”. Flest kemur til greina: tónlistarmyndbönd, tilraunamyndir, mini-heimildarmyndir eða heimagerðar stuttmyndir. REClimate er ætlað að hvetja ungt fólk til að gera myndir sem geta orðið innlegg í pólítíska umræðu. Bestu myndirnar verða sýndar á Leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember. Þátttakendur geta hlaðið myndum sínum á heimasíðuna www.reclimate.net frá 24. ágúst til 23. október. Eftir það ráðast úrslitin í atkvæðagreiðslu á heimasíðunni og með vali sérstakrar dómnefndar. Í dómnefnd REClimate eur meðal annara sænski listamaðurinn Timbuktu, danski leikarinn Cyron Melville, norska leikkonana Iram Haq og finnski leikarinn Samuli Vauramo. REClimate er ætlað að gefa ungmennum tækifæri til að láta rödd sína heyrast á leiðtogafundinum, hvetja þá til að kynna sér loftslagsmál, koma með hugmyndir til lausna á vandamálum og gefa sigurvegaranum tækifæri til að vinna 2000 evrur!  „Framtíðin er í höndum unga fólksins og með því að efna til þessarar keppni viljum við hvetja ungt folk til að tjá sig um þetta mikilvæga mál með nútíma tækni.” Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum Hér getur er hægt að fá innblástur fyrir REClimate mynd: http://www.reclimate.net Frekari upplýsingar gefur verkefnisstjóri REClimate: Josefin Lindberg í síma 0046 739 232725 eða í tölvupósti josefin@reclimate.net. REClimate er ný keppni sem styrkt er af Norrænu ráðherranefndinni, Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, norrænu kvikmyndastofnununum, Sambandi norrænu félaganna og norrænu kvikmyndavefsíðunni www.dvoted.net. Josefin Lindberg Project Coordinator  REClimate- film for the climate!   FNF Norra Vallg 16 211 25 Malmö Sweden  

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 26. ágúst 2009 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Kosning a) Oddvita og varaoddvita til eins árs b) Fulltrúa í atvinnu- og ferðamálanefnd c) Varamann í fræðsluefnd 2. Almannavarnaáætlun vegna innflúensufaraldurs 3. Bréf: a) Félags fólks í frítímaþjónustu, dags. 15. júlí 2009 b) Héðins Sigurðssonar, dags. 10. ágúst 2009 c) Félags skógarbænda, dags. 24. júlí 2009 d) Framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, dags. 28. júlí 2009 4. Fundargerðir: a) Tómstunda- og menningarmálanefndar, 9. júlí 2009 b) Tómstunda- og menningarmálanefndar, 16. júlí 2009 c) Menningarráðs Nl. vestra, 25. júní 2009 d) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 26. júní 2009. 5. Önnur mál Sveitarstjóri

Starfsfólk vantar hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd

Vinnumálastofnun á Skagaströnd leitar eftir starfsfólki. Í boði eru tímabundin störf á greiðslustofu og þjónustuskrifstofu til áramóta.  Leitað er að áhugasömu fólki með góða leikni í mannlegum samskiptum, lipurð í tölvunotkun og áhuga á að skila góðu starfi.  Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum SFR.  Framhalds- eða háskólamenntun er kostur sem og reynsla af skrifstofustörfum. Helstu verkefni eru afgreiðsla umsókna, almenn skrifstofustörf, símsvörun og upplýsingagjöf. Hlutverk Greiðslustofu Vinnumálstofnunar er að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið en þjónustuskrifstofan þjónustar hins vegar atvinnuleitendur á Norðurlandi vestra.  Á skrifstofunni á Skagaströnd starfar nú rúmlega 20 manns.   Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband og kynna sér þau störf sem eru í boði ásamt því að skoða upplýsingar um starfsemi Vinnumálastofnunar á www.vinnumalastofnun.is.   Athygli er vakin á því að þar sem um tímabundin störf er að ræða þá verður ekki fylgt formlegu umsóknarferli heldur valið úr þeim umsækjendum sem setja sig í samband og skila inn umsókn með ferilskrá.   Líney Árnadóttir forstöðukona veitir upplýsingar í síma 455 4200 og tekur við umsóknum á netfangið liney.arnadottir@vmst.is

„Góður og fróður“ áhrif kennarans sem stjórnanda

Mjög áhugavert námskeið var haldið í gær fyrir alla kennara grunnskóla Húnavatnssýslna og grunnskóla Borðeyrar í upphafi skólastarfs.   Meginmarkmið námskeiðsins var að vekja kennara til umhugsunar um hlutverk sitt og hvaða aðferðir gagnist best til þess að ná góðum árangri í starfi. Fjallað var um hlutverk kennarans sem stjórnanda/leiðtoga og rætt um hvað einkennir góða kennara. Kynntar voru  aðferðir sem gagnast kennurum í samskiptum sínum við nemendur og í bekkjarstjórnun. Gefin voru dæmi um leiðir sem kennarinn geta farið til þess að draga úr neikvæðri hegðun nemenda og byggja upp jákvæðan skólabrag.   Námskeiðið, sem var á vegum Fræðsluskrifstofunnar og haldið í félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd, sóttu 70 kennarar   Kennarar námskeiðsins voru:  Helgi Arnarson skólastjóri,  Hjördís Jónsdóttir kennari og Margrét Karlsdóttir kennari. Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með daginn.   Myndir: Þátttakendur og  Leiðbeinendur.