23.10.2009
Fjórir aðilar á Skagaströnd fengu styrki hjá Menningarráði Norðurlands vestra en ráðið stóð fyrir úthlutun í Kántrýbæ miðvikudaginn 21. október.
Lárus Ægir Guðmundsson fékk styrk til að skrifa bók um skip og báta á Skagaströnd 1908-2008, Sveitarfélagið Skagaströnd fékk styrk til stofnunar ljósmyndasafns og söfnunar eldri og yngri ljósmynda, Nes listamiðstöð fékk dvalar- og verkfnastyrki fyrir listamenn og loks fékk Guðmundur Ólafsson styrk til heimildarmyndagerðar.
Síðari umsóknarfrestur ársins 2009 um verkefnastyrki Menningarráðs Norðurlands vestra rann út 15. september sl. Alls bárust 65 umsóknir þar sem óskað var eftir tæpum 47 milljónum króna.
Á fundi sínum, 7. október sl., ákvað menningarráðið að úthluta verkefnastyrkjum til 52 aðila alls að upphæð 18.300.000 kr.
Af þessum átján milljónum er um fjórðungi upphæðarinnar varið til tónlistarverkefna og rúm 20% renna til varðveislu menningararfsins og safnamála.
Eftirtaldir aðilar hlutu styrki:
1.750.000 kr.
Skotta ehf. kvikmyndafjelag - Tvö verkefni: Bjarni Har. og Dansað á fáksspori
1.500.000 kr.
Söngskóli Alexöndru, Tónlistarskóli A-Hún.
Tónlistarskóli V-Hún. – Draumaraddir norðursins
1.000.000 kr.
Byggðasaga Skagafjarðar - Byggðasaga Skagafjarðar
Sögusetur íslenska hestsins - Tvö verkefni: Íslenski hesturinn, yfirlitssýning til 1950 og Söfnun, skráning og skönnun heimilda um íslenska hestinn.
850.000 kr.
Helga Rós Indriðadóttir - Tvö verkefni: Klassík 2010 – Óperutónleikar í Skagafirði og Sönglög Jórunnar Viðar - útgáfutónleikar.
750.000 kr.
Nes listamiðstöð - Dvalar- og verkefnisstyrkir fyrir listamenn í Nes listamiðstöð 2010
500.000 kr.
Héraðsskjalasafn Skagfirðinga - Stafrænn ljósmyndagrunnur
Sigríður Tryggvadóttir - Sumardagurinn fyrsti, heimildarmynd.
400.000 kr.
Landnám Ingimundar gamla - Hljóðleiðsögn um slóðir Vatnsdælasögu
Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna og Jenný Karlsdóttir - Altarisdúkar í íslenskum kirkjum.
Jón Þorsteinn Reynisson - Tvö verkefni: Útgáfa geisladisks og Gömlu slagararnir
Karlakórinn Heimir - Upp skaltu á kjöl klífa.
Fluga hf. - Hrossaræktandinn Sveinn Guðmundsson. Ævi og störf. Reiðhallarleiksýning
Nemendafélag FNV - Söngleikurinn Sódóma
Kvæðamannafélagið Vatnsnesingur - Minnisvarði um Guðmund Bergþórsson
Vesturfarasetrið - Minningarstofa um vestur-íslenska rithöfundinn Bill Holm.
350.000 kr.
Karlakórinn Lóuþrælar - Tvö verkefni: Í vesturveg og Haust- og jólatónleikar
300.000 kr.
Elinborg Sigurgeirsdóttir - Lauf, útgáfa geisladisks
Bróðir Svartúlfs - Útgáfa geisladisks
250.000 kr.
Sögufélagið Húnvetningur og Ingi Heiðmar Jónsson - Húnvetnskir ættstuðlar
Héraðsskjalasafn V-Hún. - Ljóð húnvetnskra skáldkvenna dregin fram í dagsljósið
Lárus Ægir Guðmundsson - Skip og bátar á Skagaströnd 1908-2008
Lafleur ehf. - Hinn svali blær / Glíman við Glám
Háskólinn á Hólum – Hólarannsóknin - Björgunarrannsókn við Kolkuós í Skagafirði
Sveitarfélagið Skagaströnd - Stofnun ljósmyndasafns og söfnun eldri og yngri ljósmynda
Guðmundur Ólafsson - Heimildarmyndagerð
Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga - Skagfirska kirkjurannsóknin
Guðný Káradóttir, Valgeir Kárason o.fl. - Raddir fólksins
Skagabyggð - Örnefnaskráning í Skagabyggð
Fornverkaskólinn - Uppbygging á aðbúnaði og aðstöðu Fornverkaskólans
Rósmundur Ingvarsson - Fornleifaskráning í Skagafirði
Jón Hilmarsson - Skín við sólu Skagafjörður – ljósmyndabók
Róbert Óttarsson - Æskudraumar – útgáfa geisladisks
Verslunarminjasafn Bardúsa, Grettistak og Ferðamálafélag V-Hún. - Forn handbrögð – handverksnámskeið
Hólmfríður Bjarnadóttir - Hvalrekinn á Ánastöðum – einleikur
Leikfélag Sauðárkróks - Barnaleikritið Rúi og Stúi
Guðrún Brynleifsdóttir - Skotta – einleikur
200.000 kr.
Kirkjukór Glaumbæjarprestakalls - Þýsk messa eftir Franz Schubert
Skagfirski kammerkórinn - Á vetrarbraut
150.000 kr.
Heimilisiðnaðarsafnið Blönduósi - Kynningar og markaðssetning Vefnaðarbókar Halldóru Bjarnad.
Minningarsjóður Aðalheiðar E. Gunnarsdóttur – Styrktartónleikar
100.000 kr.
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík og Sauðárkróksbíó - Kvikmyndalestin RIFF um land allt
Háskólinn á Hólum - Fornleifar í landi Keldudals – heimasíða
Héraðsskjalasafn A-Hún. - Horfnir tímar – hver er maðurinn/staðurinn?
Málmblásarakvintett Norðurlands og Karlakórinn Heimir - Kórbrass á aðventu
Rökkurkórinn - Jólatónleikar
Sönghópur Félags eldri borgara í Skagafirði - Skagfirskir tónar
Kammerkór Norðurlands - Tónleikahald – íslensk kórtónlist
Kirkjukór Sauðárkrókskirkju - Kirkjukvöld í Sæluviku
Samkórinn Björk - Lúsíuhátíð
Hestamannafélagið Neisti - Börn og unglingar á hestasýningum
Matarkistan Skagafjörður - Málþing um íslenskan mat á MATUR-INN 2009
22.10.2009
Landaður afli í Skagastrandarhöfn var 37,5% meiri á síðasta aflaári en árið áður. Engu að síður er aflinn enn um 11,5% lakari en aflaárið 2006-7.
Alls komu 8.227.828 tonn á land frá september 2007 til loka ágúst 2008. Þar áður var landað 5.984.077 tonnum og enn áður 9.273.396 tonnum.
Nýbyrjað aflaár lofar góðu en í september var landað 883.425 tonnum sem er miklu meira en undanfarin þrjú ár.
22.10.2009
Frystitogarinn Arnar kom til heimahafnar á Skagaströnd síðasta sunnudag og fór aftur úr í gærkvöldi. Aflaverðmæti hans var um 150 milljónir króna sem miklu minna en í síðasta túr en þá var verðmætið um 240 milljónir. Kemur margt til, t.d. var aflinn minni en síðast og samsetning hans önnur, „bölvað skrap“ eins og sagt er.
22.10.2009
Þann 24.október, á fyrsta vetrardag og kvennafrídaginn, verða haldnir tónleikar í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði kl. 20.30. Þar mun 10 manna hljómsveit stíga á svið og fara með áhorfendur í einskonar heimsreisu. Þannig verða flutt 12 lög frá jafnmörgum löndum, lög sem eru samin af konum eða hafa verið sungin af konum.
Löndin sem um ræðir eru Spánn, Ísrael, Rúmenía, Grænhöfðaeyjar, Kúba, Mexíkó, Chile, Argentína, Brasilía, Indland, Suður-Afríka og Kenía.
Multi Musica eru:
Ásdís Guðmundsdóttir, söngur og ásláttur
Sorin Lazar, gítar og flauta
Jóhann Friðriksson, trommur
Rögnvaldur Valbergsson, hljómborð,gítar og harmonikka
Sigurður Björnsson, bassi
Sveinn Sigurbjörnsson, bongó og trompet
Íris Baldvinsdóttir, bakraddir og ásláttur
Jóhanna Marín Óskarsdóttir, bakraddir, strengir og ásláttur
Ólöf Ólafsdóttir, bakraddir og ásláttur
Þórunn Rögnvaldsdóttir, bakraddir og ásláttur
Tónlistarstjóri er Sorin Lazar en hópurinn hefur útsett lögin í sameiningu.
Kynnir á tónleikunum er Bryndís Ásmundsdóttir, leikkona.
Á milli laga verður ýmiskonar fróðleikur um viðkomandi lönd.
Samstarfsaðilar í verkefninu eru Skagafjarðardeild RKÍ en í hléinu verða gestum boðnar veitingar sem eru útbúnar og framreiddar af fólki sem er af erlendu bergi brotið og býr í Skagafirði.
Sviðið verður skreytt munum frá Afríku og S- Ameríku og því sannkölluð alþjóðastemning í salnum. Borð verða dekkuð í sal þannig að fólk getur fengið sér kaffi eða drykki á meðan á tónleikunum stendur en vínveitingar verða á tónleikunum.
UNIFEM og Félag kvenna af erlendum uppruna munu kynna samtök sín í hléinu.
Tónlistarskóli Skagafjarðar styrkir einnig verkefnið en hljómsveitin hefur haft þar æfingaaðstöðu.
Menningarráð Norðurlands vestra, Sparisjóður Skagafjarðar og Ólafshús hafa styrkt verkefnið myndarlega.
Tónleikarnir hefjast kl. 20.30 og er miðaverð kr. 2.000. Ef pantaðir eru 10 miðar eða fleiri þá kostar miðinn 1.800 kr og því tilvalið fyrir hópa og vinnustaði að drífa sig.
Miðapantanir og nánari upplýsingar eru í síma 899-9845
Við lofum ykkur hlýlegri og skemmtilegri tónlistarveislu í lok sumars og byrjun vetrar!!
21.10.2009
Listamenn hjá Nes listamiðstöð opna vinnustofur sínarí lok hvers mánaðar þar sem þeir sýna þau verk sem þeir hafa verið að vinna að frá komu sinni.
Á morgun, fimmtudaginn 22. október, klukkan 20-22 viljum við öllum sem áhuga hafa að koma í heimsókn, skoða listaverk í vinnslu og spjalla við listamennina um verkin og dvölina á Skagatrönd.
21.10.2009
Í tilefni af haustnámskeiðum Textílseturs verður boðið upp á fyrirlestur sem opinn er áhugasömum ásamt því að opið hús verður í lok námskeiðs.
Laugardaginn 24.október kl. 17.oo í matsal Kvennaskólans: Flækjur og fínerí – prjónamenning á vefnum. Ragnheiður Eiríksdóttir kennari í prjóni á haustnámskeiðunum, mun leiða gesti um prjónamenningu á veraldarvefnum, en þar er að finna ótæmandi hugmynda- og upplýsingabrunn fyrir prjónara.
Opið hús þriðjudaginn 27.október kl. 16.oo – 17.00 í Kvennaskólanum: Haustnámskeiðum Textílseturs lýkur með opnu húsi þar sem áhugasömum gefst tækifæri til að skoða afrakstur námskeiðanna og spjalla við nemendur og kennara. Prjón, hekl, gimb og spuni er meðal viðfangsefna.
20.10.2009
Sjúkrasjóður Höfðakaupstaðar er 40 ára á þessu ári. Sjóðurinn hvetur nú almenning til að styrkja sjóðinn með fjárframlögum eða með því að kaupa minningarkort sem er aðaltekjulind hans.
Stofndagurinn miðast við staðfestinu á skipulagsskránni sem var 3. júlí 1969. Upphaflega var sjóðurinn stofnaður af félagskonum í Kvenfélaginu Einingu þann 24. júlí 1947.
Markmið sjóðsins var að beita sér fyrir og styrkja sjúkrahússbyggingu í Höfðakaupstað eins og bærinn var þá nefndur. Einnig mátti verja sjóðnum til annarra heilbrigðismála.
Bygging sjúkrahúss, sem var grundvallarhugsjón þessara framsýnu kvenna, varð ekki að veruleika en mörg tæki til heilbrigðismála hafa verið keypt fyrir fjármagn úr sjóðnum.
Árið 1953 var keypt stórt og vandað gegnumlýsingaræki og styrktu konur úr Skagahreppi þau kaup. Tækið var mikið í notkun meðan læknar sátu á Skagaströnd. Þá var einnig keypt sjúkrakarfa og Héraðshælið á Blönduósi veittur styrkur.
Verkefni Sjúkrasjóðsins hafa verið mörg og mismunandi eins og eftirfarandi listi ber með sér:
1956 ljósabekkur sem staðsettur var í Barnaskólanum
1966 súrefnistæki
1972 skurðstofulampi
1975 hjartalínurit og súrefnistæki
1976 hitapottur með tilheyrandi púðum
1977 sæng, koddi ofl.
1981 stuttbylgjutæki,koddar, kodddaver
1984 mælingaborð fyrir ungbörn
1985 sjúkra- og nuddbekkir, trissa, dýnur ofl.
1988 lágtíðnitæki, stuttbylgjustóll, snúningsstóll, þurrkuvagn, miðtíðnitæki ofl.
1989 hljóðbylgjutæki
1992 tækjakaup í sjúkrabílinn
1994 þrekhjól, ábreiður, bakstrar
1997 tækjakaup fyrir Rauða krossdeildina á Skagaströnd
2001 nuddtæki
2002 vaxpottur til handaþjálfunar
2003 leysitæki sem nýtist við verkjameðhöndlun
2007 frystiskápur
Mörg af þessum tækjum er t.d. mikið notuð af sjúkraþjálfara. Enn vantar mörg smá og stór tæki sem nauðsynleg þykja við umönnun og þjálfun sjúkra.
Sem fyrr segir eru fjárframlög til sjóðsins vel þegin.
16.10.2009
Höfðaskóli er sjötíu ára á morgun, 17. október. Árið 1939 var komið á fót ,,fastaskóla” á Skagaströnd. Fyrsta skólaárið, 1939-1940, var kennt frá 17. október til 10. maí, alls 135 daga. Nemendur voru þá samtals 46 í 2 bekkjardeildum. Einn kennari starfaði við skólann, Páll Jónsson, og var hann jafnframt skólastjóri.
Í tilefni af afmælinu verður sett ýmis konar efni inn á kapalkerfið um skólann sem núverandi nemendur hafa unnið.
Einnig hafa nemendur tekið saman margvíslegt efni um Höfðaskóla og sett á vef hans.
Ætlunin er að efna til samkeppi um skólasöng og merki skólans. Nánari upplýsingar verður að finna á vef skólans.
16.10.2009
Guðjón Guðjónsson verður spyrill, dómari og alvaldur í umdeildustu spurningakeppni Skagastrandar, Drekktu betur, sem haldin verður í Kántrýbæ á föstudagskvöldið kl. 21:30.
Hann er ekki bara þekktur sem sjómaður heldur er hann málafylgjumaður mikill og hefur rifið stólpakjaft við spyrla í Drekktu betur og því er kominn tími til að reyna á þolrifin í kallinum í brúnni.
Guðjón segist koma vel undirbúinn til leiks. Hann harðneitar því að hafa flokkað spurningarnar eftir einhverjum þemum. Ætlar bara að spyrja um hitt og þetta; „...en ekkert þó um pólitík“, segir hann.„Allt annað fréttatengt, daglega lífið, landafræði, staðsetningar, bókmenntir og margt margt fleira.“
„Jú, ég verð gef kost á þremur eða fjórum möguleikum við nokkrar spurningar,“ segir Guðjón. „Svo ætla ég að vera með eina spurningu sem varðar Skagaströnd og ég veit að svarið verður afar umdeilt. Það er svona eins og að spyrja hvort rétt sé að sameina sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu.“
16.10.2009
Handverksfólki á Norðurlandi vestra er boðið til fundar á Hótel Blönduósi, mánudagskvöldið 19. október kl. 20:00.
Á fundinum mun Ari Þorsteinsson, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar á Nýheimum á Höfn, kynna verkefnið Hagleikssmiðjur, sem nánar má lesa um hér að neðan.
Birna Kristjánsdóttir, sem nýlega tók við starfi sérfræðings í textílfræðum við Háskólasetrið á Blönduósi, mun segja frá starfi sínu og e. t. v. lauma einhverjum hugmyndum að fundargestum.
Að þessu loknu er gert ráð fyrir að viðstaddir taki upp þráðinn frá handverksfundinum í Kvennaskólanum í vor, varðandi eflingu samstarfs handverksfólks á Norðurlandi vestra.
Allir áhugasamir velkomnir.
Hagleikssmiðjur
Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Hornafirði er þáttakandi í alþjóðlegu samstarfsverkefni Economuseum Northern-Europe, ENE. Verkefnið gengur út á að yfirfæra kanadískt viðskiptalíkan fyrir handverksfyrirtæki (economuseum) hér eftir kallaðar Hagleikssmiðjur, til landa Norður-Evrópu. Þátttökulönd fyrir utan Ísland eru Noregur, Norður-Írland, Írland, Færeyjar og Kanada. Kanadísku samstarfsaðilarnir þróuðu viðskiptalíkanið og eru tilbúnir til að miðla okkur af þekkingu sinni en sameiginlega er farið yfir hvernig best verður staðið að þekkingaryfirfærslunni. Hagleikssmiðju- viðskiptalíkanið hefur verið í þróun undanfarin 20 ár og í dag eru starfandi 50 slík fyrirtæki á austurströnd Kanada, starfsmenn eru um 500 talsins, heildarvelta þessara fyrirtækja er um þrír miljarðar og árlega fá þessi fyrirtæki um 700.000 heimsóknir.
Gert er ráð fyrir að ENE verkefnið taki þrjú ár og að í hverju þátttökulandi verði valin allavega tvö fyrirtæki til að þróa eftir viðskiptalíkaninu.
Þau fyrirtæki sem hafa verið valin til þátttöku á Íslandi er hönnunar fyrirtækið Gusta Design á Djúpavogi sem framleiðir töskur og fylgihluti úr fiskroði og hreindýraskinnum ásamt fiskvinnslufyrirtækinu Bestfiskur á Hornafirði sem framleiðir m.a. sólþurrkaðan saltfisk.
Verkefnið hefur fengið fjárhagslegan stuðning frá NORA Norræna Atlandsnefndinni og NPP Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Eins hafa alþjóðlegu Slow Food samtökin lýst yfir stuðningi við verkefnið.
Íslenskur stuðningshópur fyrir verkefnið samanstendur af Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Hornafirði, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Þekkingarneti Austurlands, Handverk og Hönnun og Hönnunardeild Listaháskóla Íslands.
Markmið með Hagleikssmiðjum er að varðveita hefðbundið handverk, mæta þörfum samtímans fyrir menningar-, fræðslu- og ferðaþjónustu-afurðir og gera eigendur fyrirtækjanna fjárhagslega sjálfstæða.
Munurinn á Hagleikssmiðjum og öðrum handverksfyrirtækjum er að handverksfyrirtækin selja ákveðna vöru eða handverk á meðan Hagleikssmiðjan selur handverk, segir sögu þess, lýsir menningunni sem handverkið er sprottið úr og upplifuninni sem fylgir því að sjá vöruna verða til.
Hagleikssmiðja er einkafyrirtæki sem notar hefðbundna tækni eða þekkingu við framleiðslu á afurðum sínum, kynnir þekkingu sína og handverksmenn fyrir viðskiptavinum, hefur aðstöðu til vinnslu, sýninga og kynninga á vörunni og síðast en ekki síst þarf sala á vörunni á að standa undir rekstri fyrirtækisins.