Spurningakeppnin Drekktu betur á föstudagskvöldið

Loksins byrjar spurningakeppnin DREKKTU BETUR aftur eftir sumarfrí. Nú er nákvæmlega ár síðan þessi vinsæla keppni byrjaði í Kántrýbæ. DREKKTU BETUR er aðeins leikur. Hann er einfaldur og er aðeins ætlað að vera til skemmtunar.  Einn stjórnandi er hverju sinni og eru völd hans algjör, hann semur spurningar og er dómari. Ákvörðun hans er endanleg þó svo að hann hafi sannarlega rangt fyrir sér. Hins vegar mega þátttakendur gangrýna hann eins og þeir vilja. Tveir keppendur geta verið í hverju liði og þeir skrifa svörin niður á sérstakt svarblað. Þegar búið er að spyrja allra spurninga er svörunum safnað saman og þeim síðan dreift aftur um salinn og þess gætt að enginn fari yfir eigið svarblað. Stjórnandi fer síðan yfir svarblað þess sem sigrar og gætir að því að rétt sé að málum staðið. Ein spurning er nefnd „bjórspurningin“ og fyrir rétt svar fæst ókeypis bjór á barnum. Ekki er sagt frá því hver spurningin er fyrr en við yfirferð svara. Nafn spurningakeppninnar kemur til að því að ókeypis er inn í Kántrýbæ en þátttakendur eru hvattir til að drekka nóg upp í húsaleiguna og er margt í boði, kaffi, gos, bjór og vín. Það gengi auðvitað ekki að nafn keppninnar væri Éttu betur en í sjálfu sér kemur það á sama stað niður. Föstudagskvöldið 18 sept. Steindór R. Haraldsson verður spyrill, dómari og alvaldur í spurningakeppninni DREKKTU á föstudagskvöldið. Hann getur verið dálítið ólíkindatól, er jafnvel vís með að spyrja eingöngu spurninga um sig sjálfan eða störf sín. Sjálfur segist hann verða með svona „kommon sens“ spurningar og líklega á hann við að svörin byggist á almennri skynsemi. Svo bætir hann því við að auðvitað muni hann spyrja um örfá atriði í fréttum undanfarinna vikna og nefnir í framhjáhlaupi að gott sé að vita eitthvað um bankahrunið! Þeir sem þekkja Steindór vita að hann gæti átt það til að spyrja afar einfaldra spurninga eins og hvernig er vanilla á bragðið. Vefst þá flestum tunga um höfuð. En Steindór hlær bara og segist ekkert ætla að vera neitt fræðilegur enda er spurningakeppnin eintóm skemmtun.

Gangnaseðill 2009

GANGNASEÐILL 2009 Það tilkynnist hér með að haustgöngur fara fram laugardaginn 19. september sé fært leitarveður, ella þá næsta leitarfæran dag. Gangnaforingi er Rögnvaldur Ottósson. Réttarstjóri í fjárrétt er Sigrún Guðmundsdóttir og hrossarétt Rögnvaldur Ottósson. 1. Göngur: Gangnamenn smali svæðið frá Urriðalæk vestur yfir flárnar og Grasás yfir Ytri-Botnalæk í veg fyrir gangnamenn úr Skagabyggð. Heiðina vestan sýslumarka eftir venju til réttar, einnig Borgina utan skógræktargirðingar. Gert er ráð fyrir að gangnamenn úr Skagabyggð smali svæðið norðan Brandaskarðsgils milli Stallabrúna og Hrafnár til norðurs. Í heiðargöngur leggi eftirtaldir til menn: Rögnvaldur Ottósson 3 menn Jón Heiðar Jónsson 1 mann Eðvarð Ingvason 1 mann Þorlákur Sveinsson 2 menn Í Borgina leggi eftirtaldir til menn: Þorlákur Sveinsson 1 mann Rúnar Jósefsson 2 menn Fé og hross úr heiðinni og Borginni og úr heimahögum sé rekið að Spákonufellsrétt laugardaginn 13. september og réttað samdægurs. Bæði fjárrétt og hrossarétt verður þann dag. Ber eigendum að vera þar til staðar og hirða búfé sitt svo að réttarstörfum verði lokið fyrr en dimmt er orðið. 2. Eftirleit fer fram laugardaginn 26. september verði bjart veður ella næsta leitarfæran dag. Þær annast Ásgeir Axelsson 3. Fjárskil verða mánudaginn 5. október í Kjalarlandsrétt. 4. Útréttir: Í fyrri Fossárrétt hirðir Rúnar Jósefsson Í seinni Fossárrétt hirðir Búi Birgisson Í fyrri Kjalarlandsrétt hirðir Rúnar Jósefsson Í seinni Kjalarlandsrétt hirðir Eðvarð Ingvason 5. Smölun heimalanda: Fjáreigendur eru hvattir til að hreinsa vel landspildur sínar af öðru búfé en þeirra eigin fyrir göngur sem og eftirleit, svo að göngur og réttir geti orðið árangursríkar. Að öðru leyti en hér er tekið fram eru skyldur og réttindi manna samkvæmt fjallskilareglugerð fyrir Austur - Húnavatnssýslu. Greiðslur til og frá fjallskilasjóði fara fram hjá sveitarstjóra. Skagaströnd 16. september 2009 _________________________________ Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri.

1100 tonn af brotajárni í skip

Hringrás er nú að flytja um 1100 tonn af brotajárni um borð í flutningaskip sem liggur í Skagastrandarhöfn. Þetta er einungis hluti af því sem safnast hefur saman á undanförnum misserum og búast má við því að járnið gangi nú í endurnýjaða lífdaga og birtist hugsanlega aftur á Íslandi sem ísskápur, steypustyrktarjárn eða eitthvað annað. Annar og stærri haugur bíður útflutnings en það eru bílflök sem hafa verið pressuð saman. Ástæðan fyrir því að þau fara ekki með þessu skipi er að vinnsluaðferðirnar eru ólíkar. Bílflökin eru tætt í sundur og síðan flokkuð og brædd en járnið fer beint í bræðslu. Að sögn forráðamanna Hringrásar er ekki hægt að segja til um hvenær bílflökin fara en væntanlega er skammt í það. Flutningaskipið Wilson Gijon fer næst til Akureyrar sem og starfsmenn og bílafloti Hringrásar og útflutningurinn heldur áfram.

Ásgarður í viðgerð

Viðgerðir á Ásgarði, einni af bryggjunum á Skagaströnd, stendur nú yfir. Rekin eru niður stór járnrör við hliðina á tréstaurunum sem bera uppi bryggjukantinn. Heimamenn starfa að verkinu undir stjórn Lárusar Einarssonar.

Aðalfundur foreldrafélagsins

Aðalfundur  foreldrafélags Höfðaskóla verður haldinn fimmtudaginn 17. september 2009 klukkan 20:00 í Höfðaskóla. Dagskrá fundarins Skýrsla formanns. Reikningar lagðir fram. Kosning nýrrar stjórnar. Kosning í skóla- og fræðsluráð. Önnur mál. Myndataka Gjöf foreldrafélags til Höfðaskóla Ofþyngd barna í Höfðaskóla Allir foreldrar barna í Höfðaskóla eru hvattir til þess að mæta. Stjórnin    

Upplýsinga- og fræðslufundur skólastjóra leikskólanna

Þann 9. september lögðu skólastjórar leikskóla Húnavatnssýslna land undir fót og heimsóttu Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Tilgangur ferðarinnar var að hitta sérfræðinga leikskólasviðs Reykjavíkur og hlýða á lýsingar þeirra á helstu áherslum í starfsemi leikskóla borgarinnar. Einnig voru tveir leikskólar heimsóttir og starfsemi þeirra skoðuð. Þátttakendur héldu margs fróðari heim með ýmsar áhugaverðar hugmyndir í farteskinu. Mynd: Skólastjórar leikskóla Húnavatnssýslna og ráðgjafar leikskólasviðs Reykjavíkur.

Fundur um Spákonufellshöfða, fugla og ferðamenn

Boðað er til fundar í Fellsborg á Skagaströnd miðvikudaginn 9. september kl. 18 - 19. Þar verður kynnt alþjóðlegt samstarfsverkefni sem hefur það markmið að vinna að sjálfbærri þróun náttúrulífsferðamennsku á norðlægum slóðum. Verkefnið nefnist The Wild North og felst í víðtækri samvinnu ferðaþjónustuaðila, rannsóknaraðila og opinberra stofnana í fjórum löndum á sviði rannsókna, menntunar og vöruþróunar.  Gerðar eru þriggja ára rannsóknir á völdum áfangastöðum þar sem dýra- og fuglalíf er í forgangi. Niðurstöðunar verða m.a. notaðar til þess að útbúa umgegnisreglur fyrir ferðaþjónustuaðila og gesti á áfangastöðum þar sem villt dýr eru skoðuð.  Rannsóknir fara nú fram í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Grænlandi, Færeyjum og Íslandi.  Á Skagaströnd er verið að kanna þau áhrif sem ferðamenn hafa á fuglalíf í Spákonufellshöfða. Auk þessa er á vegum The Wild North á Íslandi unnið að rannsóknum  á refum á Hornströndum, selum á Vatnsnesi, fuglum á Spákonufellshöfða og hvölum á Skjálfanda. Náttúrustofu Norðurlands vestra er falið að rannsaka áhrif fótgangandi fólks á fuglalífi í Spákonufellshöfða, kortleggja fuglabyggðina, telja fugla og hreiðurstæði þeirra, ásamt því að skoða þau áhrif sem umferð ferðamanna hefur á daglegt líf fugla á svæðinu.  Sveitarfélagið Skagaströnd sér um uppbyggingu á Spákonufellshöfða og eftirlit. Það ber ábyrgð á verkstjórn og framkvæmd verkefnisins og er tengiliður við verkefnisstjóra og verkefnisstjórn TWN.  Dagskrá fundarins Kynning á TWN, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, verkefnisstjóri The Wild North Þátttaka Skagastrandar, Sigurður Sigurðarson, markaðsráðgjafi Sveitarfélagsins Skagastrandar Rannsókn Náttúrustofu, Þórdís V. Bragadóttir, líffræðingur NNV Fyrirspurnir og umræður Gert er ráð fyrir að fundinum verði lokið eigi síðar en kl. 19.

Þverskurður 2 - ný sýning í Gamla kaupfélaginu

Textílsýningin ,,Þverskurður 2” verður opnuð í sýningarsal Ness listamiðstöðvar í Gamla kaupfélaginu á Skagaströnd sunnudaginn 6. september kl. 15:00. Textílfélagið er félag textíllistamanna og hönnuða. Það fagnar 35 ára afmæli á þessu ári. Sýningin í Gamla kaupfélaginu er liður í sýningarröð sem félagið stendur fyrir af því tilefni í þeim tilgangi að kynna verk félagsmanna fyrir landsmönnum.  Sýnendur eru bæði hönnuðir og textíllistamenn sem vinna í ólík efni með mismundandi aðferðum og eru verkin á sýningunni þverskurður þess sem er að gerast innan textíllistar í landinu. Styrktaraðilar sýningarinnar eru Menningarráð Norðurlands vestra og Minningarsjóður um hjónin frá Garði og Vindhæli. Sýningin stendur frá 6-27. september og er opin um helgar frá 13-17 og á virkum dögum eftir samkomulagi í síma 452 2816 og eru allir hvattir til að sjá sýninguna.