17.02.2011
Tunglið tyllti sér eitt andartaka á Litla-spena í Spákonufelli og karlinn leit niður á mannlífið við Höfðann með nokkurri velþóknun. Þeir sem lögðu leið sína um nálægt hinu fagra fjalli gátu heyrt hann tuldra með sér að þarna væri nú flest allt í góðu standi. Hann ætti svosum að vita það enda víðförull með afbrigðum, fer víða um heiminn á hverri nóttu.
Svo hélt hann áfram ferð sinn, en þeir sem eftir stóðu veltu fyrir sér hvort tunglferðir séu ekki með öllu óþarfar því tíðum staldrar tunglið við ofan á Spákonufelli og grípur í spenann.
Ráð er að tvísmella á myndina og birtist hún þá svo stór að hugsanlega má greina augnlit karlsins í tunglinu.
16.02.2011
Landaður afli á Skagaströnd fyrstu fimm mánuði kvótaársins 2010-11 er tæplega 34% meiri en á sama tímabili síðasta kvótaárs. Þetta eru 6.510 tonn og hefur líklega aldrei áður borist jafn mikill afli á land í bænum.
Aflinn það sem af er kvótaárinu er meiri en barst allt kvótaárið 2007-8 og aðeins um 21% minna en næsta kvótaár á eftir, 2008-9.
Landaður afli í janúar á Skagaströnd var 336 tonn sem aðeins minna en í janúar á síðasta ári, en þá barst 353 tonn á land.
Aflahæstu bátar í janúar voru þessir:
Sighvatur GK-57, 2 landanir, samtals 116 tonn.
Fjölnir Su-57, 1 löndun, samtals 60,5 tonn
Sóley Sigurjóns GK-200, 1 löndun, samtals 55,8 tonn
Berglín GK-300, 1 löndun, samtals 51 tonn
Alda HU-112, 7 landanir, samtals 28 tonn
Sæfari SK-112, 7 landanir, 12 tonn
Flugalda ST-54, 2 landanir, 11 tonn
Kvótaárið miðast við upphaf september og lýkur í lok ágúst árið eftir. Meðfylgjandi er súlurit sem sýnir afla hvers kvótaárs. Bláu súlurnar sýna mánaðarlegan afla þess sem nú stendur yfir.
15.02.2011
Aðalfundur Ungmennafélagsins Fram verður haldinn í Höfðaskóla þriðjudaginn 22. febrúar klukkan 20.
Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf.
Fundarboðendur vonast til að sjá sem flesta mæta.
11.02.2011
Sunnudaginn 13. febrúar býður Ungmennafélagið Fram til súpuveislu í fjáröflunarskyni í félagsheimilinu Fellsborg frá kl. 12 – 14.
Í boði verður matarmikil ungversk gúllassúpa og kakósúpa fyrir börnin.
Sýndar verða ljósmyndir frá starfi Umf. Fram, gamlar og nýjar myndir og ekki að efa að á þeim munu margir sjá einhverja sem þeir þekkja.
11.02.2011
Í dag föstudaginn 11. febrúar er 112 dagurinn. Af því tilefni ætlar björgunarsveitarbíllinn, slökkviliðsbíllinn og sjúkrabíllinn að vera við Samkaup Úrval á milli kl: 17:00 og 18:00.
Einnig verður Skagastrandardeild Rauða krossins með brúðu og býður gestum að blása og hnoða.
Rauði krossinn hlakkar til að sjá sem flesta.
10.02.2011
Listviðburður á vegum Ness listamiðstöðvar verður í Hólaneskirkju sunnudagskvöldið 13. febrúar kl. 20. Höfundurinn er Aimée Xenou og er um að ræða dans- og tónlistargjörning. Nafnið er „Flutningur fjölskyldu í máli og mynd - fyrri hluti“ og helgast það af því að foreldrar listakonunnar og bróðir taka mikilvægan þátt í viðburðinum
Aðrir listamenn sem taka þátt eru stúlkur sem lært hafa dans í vetur hjá Andreu Kasper og bróðirinn:
Andrea Kasper, dansari og danshöfundur
Sigurlaug Máney Hafliðadóttir, dansari
Guðrún Anna Halldórsdóttir, dansari
Sigurbjörg Katla Valdimarsdóttir, dansari
Björn Rothmüller, tónlistarmaður, orgelleikari
Allir velkomnir - Viðburðurinn er ókeypis og tekur um 30 mínútur.
Aimée þakkar öllum listamönnunum, samfélaginu á Skagaströnd, Hallbirni Björnssyni (Ice-Technology), stjórn Nes listamiðstöðvar, Ólafíu Lárusdóttur og Ursulu Árnadóttur fyrir áhuga þeirra og innlegg.
09.02.2011
Fyrsti tíminn í heilsuátaki kvenna á Skagaströnd var í gær. Slagorð átaksins er „Á réttri leið, bætt heilsa - betri líðan“. Mikill áhugi er fyrir námskeiðinu og mættu tæplega fimmtíu konur á undirbúningsfundinn og 58 tóku þátt í fyrsta tímanum í íþróttahúsinu.
Vitað er um fleiri sem áhuga hafa á því að mæta og eru þær hvattar til að koma í næsta tíma. Leiðbeinendur eru Skagstrendingarnir; Andrea Kasper, Sigrún Líndal, Helga Aradóttir og Sigríður Stefánsdóttir.
Tímarnir eru skiptast í pilates, stöðvaþjálfun, styrktaræfingar, jóga, zumba og þolfimi. Hvað þetta allt stendur fyrir kemur í ljós í tímunum.
Námskeiði er klukkustund í hvert sinn og er kennt á þessum dögum:
Þriðjudagar kl 18 - 19
Miðvikudagur kl. 18 - 19
Fimmtudagar kl. 17:30 til 18:30
Konur eru hvattar til að hafa eftirfarandi með í hvern tíma:
Vatn
Harndklæði
Jógadýnu (ef hún er til)
Þægileg föt í pilates og jóga
Góða skó (þarf ekki skó í jóga og pilates)
09.02.2011
Fræðsluskrifstofa Austur-Húnavatnssýslu stóð fyrir námskeiði í gamla kólahúsinu Bjarmanesi Skagaströnd mánudaginn 7. febrúar 2011. Viðfangsefni námskeiðsins var að kynna hvernig nýta má einingarkubba í leik- og grunnskólastarfi.
Fyrirlesarar voru: Guðlaug Grétarsdóttir og Lilja G. Ingólfsdóttir, leikskólakennarar leikskólans Barnabóls Skagaströnd.
Einingakubba má nota fyrir alla aldurshópa nemenda í leik- og grunnskóla. Höfundur þeirra er Caroline Pratt. Hugmyndafræði Pratt hefur skírskotun í hugmyndafræði John Dewey.
Með einingakubbum má þjálfa: röðun og flokkun, hugtakaskilning, lögmál eðlisfræðinnar, þyngd, stöðugleika og jafnvægi. Einnig gagnast einingakubbar til að þjálfa gróf- og fínhreyfingar, samhæfingu handa og augna og skapandi og sjálfstæða hugsun.
Einingakubbarnir eru stærðfræðilega réttir, sem gerir börnunum kleift að læra hugtök stærðfræðinnar í leik.
Fræðileg og verkleg framsetning kennaranna féll í góðan jarðveg og þátttakendur lærðu mikið og höfðu gaman af á námskeiðinu.
09.02.2011
Þorrablót Kvenfélagsins Einingar var haldið síðasta laugardag. Mikil þátttaka var og lætur nærri að helmingur bæjarbúa hafi setið blótið.
Veislustjóri var Lárus Ægir Guðmundsson og að venju hlífði hann fáum við óvenjulegu skopskyni sínu sem þó flestir kunnu vel að meta en síður þeir sem fyrir urðu ... eða þannig.
Skemmiatriði voru að hætti heimamanna. Kom þar að margt grínfólk, flutti leikþætti, spilaði, söng og lék. Fjallað var um eftirminnilega atburði frá síðasta ári. Góður rómur var gerður að flutningnum og ljóst að þarna voru á ferð listamenn á heimsmælikvarða. Sannast það best á því að sumir gesta gerðu sér ekki grein fyrir að um væri að ræða leikin atriði.
Maturinn var þótti afar góður og átu margir sér til óbóta en jöfnuðu það út með bragðgóðum drykkjum.
Meðfylgjandi myndir tók Ólafía Lárusdóttir.
09.02.2011
Árleg myndlistasýning leikskólabarna á Skagaströnd í Landsbankanum stendur nú yfir. Börnin komu í heimsókn í bankann síðasta þriðjudag og þá var listaverkunum komið fyrir.
Líklega er um tíu ár síðan starfsmenn bankans bauð leikskólanum að koma og setja upp sýningu í tengslum við leikskóladaginn sem er 6. febrúar.
Meðfylgjandi myndir tók Signý Ósk Richter.