11.04.2014
Fundurinn verður sendur út í fjarfundabúnaðinn í Námsverinu á efstu hæðinni í Gamla Kaupfélags-húsinu og í búnaðinn á Þverbraut 1 á Blönduósi.
Taktu frá klukkutíma og kynntu þér þetta mál því það gæti gjörbreytt möguleikum þínum á atvinnumarkaðnum.
10.04.2014
Útbæingar
Skipting Skagastrandar í útbæ og innbæ var mun
meira áberandi á árunum 1950 - 1970 en hún er nú í dag.
Þá börðust fylkingar ungra út - og innbæinga með trésverðum
og öðrum slíkum vopnum með reglulegu millibili en eins og úr
öðrum stríðum heimsins kom ekkert út úr þeim orrustum nema
stöku blóðnasir.
Á þessari friðsemdarmynd eru nokkrir útbæingar framan við
Höfðabrekku (Bankastræti 10) einhverntíma kringum 1960.
Frá vinstri: Matthildur Hafsteinsdóttir Fossdal frá Dvergasteini,
Vigfús Elvan Friðriksson (d. 7.12.2001)
Höfðabrekku, Björn Hafsteinsson Fossdal, frá Dvergasteini
(bróðir Matthildar), Ólöf Smith (Lólý) Höfðabrekku,
Árni Björn Ingvarsson Sólheimum, Heiðar Elvan Friðriksson
Höfðabrekku, Örn Berg Guðmundsson (Assi) Höfðabrekku,
Ólafur Bernódusson Stórholti og Steindór R. Haraldsson
Höfðakoti.
Ef þú þekkir óþekktu krakkana endilega sendu okkur
þá athugasemd á netfangið :
ljosmyndasafn@skagastrond.is eða olibenna@hi.is .
10.04.2014
Í kvöld fimmtudaginn 10. apríl klukkan 20:00
ætlar Svanhildur Gunnarsdóttir safnakennari hjá Árnastofnun að sýna fólki eftirlíkingu af þjóðargerseminni: Flateyjarbók.
Svanhildur mun einnig sýna áhöld og efni eins og þau sem notuð voru við ritun bókarinnar á sínum tíma. Fólk fær að skoða, handfjatla og prófa þau verkfæri til að átta sig betur á hvílíkt þrekvirki Flateyjarbók er. Auðvitað mun Svanhildur líka svara spurningum sem vakna um bókina og önnur fornrit sem við eigum saman í Árnastofnun.
Kynningin verður í Rannsóknasetrinu á Gamla Kaupfélaginu (gengið inn að vestanverðu) klukkan 20:00 í kvöld. Gríptu gæsina og komdu þó fyrirvarinn sé stuttur því þetta tækifæri kemur ekki aftur.
RANNSÓKNASETUR HÁSKÓLA ÍSLANDS Á NORÐURLANDI VESTRA
04.04.2014
Sveitarstjórn Skagastrandar og Hjallastefnan ehf. hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf í skólamálum á Skagaströnd. Viljayfirlýsingin var undirrituð 31. mars sl. að afloknum kynningarfundi á Hjallastefnunni sem foreldrafélög skólanna á Skagaströnd héldu.
Sveitarfélagið og Hjallastefnan ehf móta með viljayfirlýsingunni sameiginlega sýn á fyrirkomulag samstarfsins á Skagaströnd en í henni kemur m.a. fram:
1. Um leikskóla:
Aðilar eru sammála um að frá og með dagsetningu undirritunar viljayfirlýsingarinnar hefjist Hjallastefnan handa við undibúning þess að gerður verði bindandi samningur um rekstur leikskólans Barnabóls á Skagaströnd. Stefnt er að því Hjallastefna taki við rekstri leikskóla frá miðju ári 2014. Í apríl verði unnið að gerð formlegs samings um leikskólann og þar með hefji Hjallastefnan aðlögun að breytingu í fagstarfi leikskólans sem væri m.a. fólgið í komu „gestakennara“ frá Hjallastefnuskólanum á Akureyri. Sömuleiðis færi starfsfólk frá Skagaströnd á Akureyri til að kynnast starfsemi Hjallstefnuleikskóla. Stefnt skuli að því að Hjallastefnan taki við mannaforráðum í leikskólanum 1. júní 2014. Fyrir þann tíma hafi fulltrúar Hjallastefnu farið yfir mönnun og starfsmannahald sem leiði af sér endurráðningu starfsmanna á forsendum Hjallastefnunnar. Ef samningar ganga eftir muni Sveitarfélagið Skagaströnd gefa út nýtt starfsleyfi til Hjallastefnu 1. ágúst 2014 fyrir sjálfstætt starfandi leikskóla.
2. Um grunnskóla:
Aðilar eru sammála um að hefja samstarf um þróun grunnskólans í átt að Hjallastefnu og að skoðað verði með starfsfólki og foreldrum á skólaárinu 2014-2015 hvort grundvöllur er til að hefja formlegt samstarf eða gera samning um rekstur grunnskólans.
Sá fyrirvari er gerður af hálfu beggja aðila að fjárhagslegt samkomulag náist og sameiginleg sýn á endanlegt fyrirkomulag og rekstur skólanna.
04.04.2014
Skráning í og úr mat fer alfarið í gegnum skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar. Skráningu er ekki breytt ef um tilfallandi fjarvistir vegna veikinda eða ferðalaga. Ef foreldrar sjá fram á að nemandi verði fjarverandi í 5 daga eða lengur er hægt að skrá nemandann úr mat tímabundið. Skráning eða tilkynningar vegan tímabundinnar fjarveru berist í síma 4552705 eða á netfangið skagastrond@skagastrond.is
Skólastjóri
Kveðja
Hildur Ingólfsdóttir, skólastjóri
03.04.2014
Jóhanna Hemmert.
-----
Jóhanna Hemmert kaupmannsfrú á Skagaströnd
var fyrsta konan sem kosin var í hreppsnefnd
Vindhælishrepps hins forna árið 1910.
Um þennan merka atburð má finna eftirfarandi klausu í
tímaritinu Norðurland 29. tölublaði (16. 7.1910)
10. árgangi úr grein sem sem ber fyrirsögnina
"Bréf frá Skagaströnd":
"....... Nýmæli eru það, að konur séu kosnar í hreppsnefnd.
Á hreppaskilum Vindhælinga nú í vor, var kona kosin í
hreppsnefnd. Kona þessi er frú Jóhanna Hemmert á Skagaströnd.
Einnig var hún kosin í fræðslunefnd. Það er sómi fyrir hreppsbúa
að hafa riðið á vaðið með að kjósa konu í þessar nefndir og ættu
sem flestir hreppar að gera hið sama.
Einnig á frú J. Hemmert þakkir skilið fyrir að gefa kost á sér til
þessara starfa. Vonandi að árlega fjölgi konum í hreppsnefndum
víðsvegar um landið og eigi verði langt að bíða þess, að konur
fái fult jafnrétti við karlmenn.
Ritað í júní 1910. Skagstrendingur ".
Þess má geta í þessu sambandi að konur og vinnuhjú, 40 ára og
eldri, á Íslandi fengu ekki almennan kosningarétt fyrr en árið
1915. Á árinu 1882 fengu ekkjur og aðrar ógiftar konur, sem
stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar, kosningarétt til að kjósa til
hrepps- og sýslunefnda, bæjarstjórna og á safnaðarfundum ef
þær voru orðnar 25 ára gamlar.
Þó þessar konur mættu kjósa máttu þær ekki bjóða sig fram
nema að uppfylltum ströngum skilyrðum um eignir, aldur og
sjálfstæði.
Lögunum var svo breytt 1920 þannig að þá fengu konur og
vinnuhjú full pólitísk réttindi við 25 ára aldur.