11.06.2014
Lillukórinn, kvennakór úr Húnaþingi vestra, verður með tónleika í Hólaneskirkju á Skagaströnd, fimmtudaginn 12. júní næstkomandi og hefjast þeir klukkan 20:30.
Kórstjóri er Ingibjörg Pálsdóttir, undirleikari og stjórnandi Sigurður Helgi Oddsson.
Efnisskráin er fjölbreytt bæði innlend og erlend lög.
Aðgangseyrir kr. 2000. Frítt fyrir 14 ára og yngri. Ekki hægt að greiða með kortum.
06.06.2014
Sjómannadagur 1943 eða 1944
Löng hefð er fyrir að halda sjómannadaginn hátíðlegan á
Skagaströnd fyrsta sunnudag í júni eða, eins og nú er gert,
á laugardeginum fyrir sjómannadag.
Þá er farið í ýmsa leiki sem gjarnan byggjast á því að einhvers
konar þrautir eru lagðar fyrir þátttakendurna í þeim. Þátttakendur
eru yfirleitt valdir úr hópi sjómanna eða einhverra þeirra sem
gegna opinberum stöðum á Skagaströnd.
Ávallt eru hátíðahöld sjómannadagsins fjölsótt, sama hvernig
veður er. Þessi myndin var tekin á sjómannadaginn 1943 eða 44,
eftir boðhlaupskeppni þar sem þátttakendur urður að hlaupa í
fullum sjóklæðum.
Frá vinstri: Ólafur Ásgeirsson, Ingvar Jónsson, Guðmundur Karlsson,
Björgvin Jónsson, Guðmundur Jóhannesson, Kristófer Árnason,
Gísli Jóhannesson, Hallgrímur Kristmundsson, Snorri Gíslason,
Þórarinn Jónsson, Skafti Björnsson og Jens Jónsson.
Myndin er úr safni Elísabetar G. Berndsen.
04.06.2014
Biskup Íslands hefur ákveðið að skipa séra Bryndísi Valbjarnardóttur í embætti sóknarprests í Skagastrandarprestakalli í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi. Bryndís hefur starfað sem afleysingaprestur á Skagaströnd frá því 1. september 2013. Hún tekur formlega við embætti 1. ágúst nk. Hún útskrifaðist úr guðfræðideild 2001 og vígðist til prest 2010.
Í Skagastrandarprestakalli eru sex sóknir. Þær eru: Hofssókn, Höfðasókn, Höskuldsstaðasókn, Holtastaðasókn, Bólstaðarhliðarsókn og Bergsstaðasókn.
02.06.2014
Sumaropnun bókasafns Halldórs Bjarnasonar og ljósmyndasafns Skagastrandar.
Í sumar verður bókasafni og ljósmyndasafnið opið alla virka morgna frá 8:00 – 12:00 á efstu hæðinni í gamla kaupfélagshúsinu. Allir velkomnir.
Lokað verður frá 15. júlí til 1. september.
Ólafur Bernódusson
02.06.2014
Í sveitarstjórnarkosningum 31. maí sl. voru tvö framboð til sveitarstjórnar. Ð-listi, Við öll og H-listi, Skagastrandarlistinn.
Kosningaúrslit á fóru þannig:
Ð-listi fékk 110 atkvæði og tvo menn kjörna; Steindór R. Haraldsson og Ingu Rós Sævarsdóttur
H-listi fékk 204 atkvæði og þrjá menn kjörna: Adolf H. Berndsen, Halldór G. Ólafsson og Róbert Kristjánsson
Kjörsókn á Skagaströnd var 91,85%
30.05.2014
Kvenfélagskonur úr kvenfélaginu Einingu sáu um veitingar í kveðjuveislu séra Péturs Þ. Ingjaldssonar (d. 1.6.1996) í nóvember 1982 í Fellsborg. Á myndinni eru þær sem báru hitann og þungann af framreiðslunni í veislunni.
Frá vinstri standandi: Erla Valdimarsdóttir (d. 29.9.2008), Anna Skaftadóttir, Halldóra Þorláksdóttir, Aðalheiður Guðmundsdóttir (d. 24.9.2011) og Ása Jóhannsdóttir.
Sitjandi eru Helga Ottósdóttir vinstra megin og Birna Blöndal hægra megin. Allar þessar konur tóku virkan þátt í starfi kvenfélagsins Einingar.
30.05.2014
Matjurtagarðarnir á Tótutúni hafa verið tættir og eru tilbúnir til notkunar. Garðarnir hafa verið lagaðir og er vonast til að þeir afvatni sig betur en undanfarin ár. Afnot af görðunum er öllum heimil og þarf ekki að leita heimildar til þess en fólk beðið að setja skýr mörk um þann reit sem sett er niður í.
Sveitarstjóri
30.05.2014
Vinnuskóli Skagastrandar hefst þriðjudaginn 3. júní 2014. Nemendur sem eru skráðir í vinnuskólann mæti við áhaldahús kl 9.00.
Skráning í Vinnuskóla Skagastrandar fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins.
Sérstök athygli er vakin á að störf í vinnuskóla verða einungis fyrir nemendur sem eru að ljúka 8., 9. og 10. bekk.
Með tilvísun í reglugerð um vinnu barna og unglinga er einungis heimilt að ráða 13 ára og eldri til starfa í vinnuskólum. Því takmarkast ráðning í vinnuskóla við fyrrgreind aldursmörk.
Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofunni í síma 455 2700.
Sveitarstjóri
30.05.2014
Á síðastliðnum 10 árum hefur samfélag á Skagaströnd gengið í gengum mjög miklar formbreytingar á atvinnulífi, kannski ætti tala um hamfarir. Hér voru starfandi tvær litlar fiskvinnslur og ein öflugasta rækjuvinnsla á landinu. Gera má ráð fyrir að þessi starfsemi hafi beint og óbeint veitt í það minnsta 70-100 manns atvinnu. Fyrir tíu árum má jafnframt með góðu segja að hér verið starfandi tveir opinberir starfsmenn þ.e. prestur og hjúkrunarfræðingur. Hvernig er staðan í dag? Öll landsvinnsla á sjávarafurðum hefur lagst af í kjölfar samþjöppunar í sjávarútvegi en um 5-7 manns keyra til vinnu í fiskvinnslu á Sauðárkróki. Með mikilli baráttu hefur hins vegar tekist að fjölga opinberum störfum á Skagaströnd. Nægir þar að nefna Greiðslustofu Vinnumálastofnunar og BioPol ehf. Væntanlega eru nú á Skagaströnd um 30 opinberir starfsmenn sem telst vera töluvert hátt hlutfall miðað við stærð bæjarfélags.
Slíkar umbreytingar eiga sér ekki stað án þess að jafnframt verði breytingar á íbúasamsetningu og því miður hefur landsbyggðin verið látin borga að fullu fyrir hagræðingu og samþjöppun í sjávarútvegi. Neikvæð íbúaþróun er þess vegna alls ekki aðeins bundin við Skagaströnd heldur hefur átt sér stað víðast á landsbyggðinni.
Við skulum heldur ekki gleyma að tilkoma þessara stafa frá hinu opinbera hefur átt sér stað yfir tímabil þar sem íslenska ríkið hefur gengið í gegnum efnahagshrun og þurft að standa fyrir blóðugum niðurskurði á flestum vígstöðvum. Sveitarstjórnarmenn hafa því haust eftir haust þurft að eyða ómældum tíma í að standa vörð um þessi störf við gerð fjárlaga. Fólk sér sjaldnast mikið af þessari vinnu. Það var til dæmis brugðist hart við þegar eftirfarandi frétt birtist á www.visir.is 16. desember 2013:
Blóðugur niðurskurður er framundan hjá Vinnumálastofnun á næsta ári. Svo gæti farið að starfsemi stofnunarinnar á Skagaströnd verði lögð niður sem yrði reiðarslag fyrir sveitarfélagið að sögn sveitarstjóra. Þeir sem minna mega sín eru niðurlægðir og á þeim níðst segir formaður stéttarfélags í almannaþjónustu.
Rúmlega 20 manns starfa hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd. Verði af niðurskurði munu um 5% íbúa Skagastrandar missa vinnuna. Það samsvarar ef 6.000 manns í Reykjavík myndu missa vinnuna.
Hvernig endaði þessi slagur? Heldur fólk að það sé ekki mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að búa yfir reynslu þegar tekist er á um slíka hluti? Haldið þið að geti skipt máli að vera með þokkalegar tengingar við stjórnmálamenn og jafnvel fólk við ríkisstjórnarborðið þegar svona átök fara fram? Hverjum treystið þið til þess að tala ykkar máli þegar kemur að slíku?
Skagastrandarlistinn hefur ekki trú á töfralausnum í atvinnumálum enda væri þá búið að framkvæma þær lausnir fyrir löngu. Við höfum trú á fólkinu sem hér býr og finnst best ef frumkvæðið kemur frá ykkur íbúunum. Okkar stefnumið eru einföld og skýr:
Nýstofnaður Atvinnuþróunarsjóður Skagastrandar verði hvatning til nýsköpunar
Halda áfram baráttu fyrir opinberum störfum á Skagaströnd
Hvetja/styðja einstaklinga og fyrirtæki sem eru á staðnum
Markviss uppbygging ferðaþjónustu, m.a. aukning gistirýmis
Samstarf við nágrannasveitarfélög og stjórnvöld um uppbyggingu atvinnu á svæðinu
Kynningarátak á kostum Skagastrandar fyrir fjölskyldur og fyrirtæki
Fólki á Skagastrandarlistanum er jafnframt ljóst að um Skagastrandarhöfn hefur á undanförnum árum farið umtalsvert magn af ferskum fiski sem ætti að vera hægt að nota sem grunn ef áhugasamir aðilar vildu hefja á ný vinnslu á sjávarafurðum á Skagaströnd. Skagastrandarlistinn munum áfram reyna að beita sér í þeim efnum.
Veitið Skagastrandarlistanum umboð í komandi kosningum til að hrinda góðum atvinnumálum í framkvæmd í samstarfi við ykkur. Þá vegnar okkur vel.
Halldór Gunnar Ólafsson
30.05.2014
Við skólaslit Húnavallaskóla mánudaginn 26. maí kynnti Þóra Sverrisdóttir, oddviti nýja skólastefnu Húnavatnshrepps.
Haustið 2013 hefst markviss vinna við gerð stefnunnar og voru þau Guðjón E. Ólafsson, fræðslustjóri og Sigríður B. Aadnegard, skólastjóri fengin til að stýra verkinu.
Allir íbúar sveitarfélagsins áttu kost á að segja sitt og láta til sín taka.
Skólastefnan er vegvísir skólastarfs Húnavatnshrepps og vísar til þeirra áherslna sem Húnavatnshreppur vill að séu vörður skólastarfs sveitarfélagsins. Skólastefnan skal taka mið af þeim gildum sem allir aðilar skólasamfélagsins vilja að einkenni skólastarfið sem og þeim áherslum sem lög og aðalnámskrár segja fyrir um. Stefnan markar framtíðarsýn Húnavatnshrepps í skólamálum og á erindi til alls samfélagsins.
Með gerð skólastefnunnar er fyrst og fremst verið að gera sýnilegar þær áherslur og vinnulag sem aðilar skólasamfélags alls vilja að sé ríkjandi í starfi skólanna í sveitarfélaginu. Með skólastefnunni er einnig verið að uppfylla lagaleg skyldu sveitarfélagsins.
Í skólastefnunni er sérstök áhersla lögð á að skólinn sé hjarta byggðarlagsins og því mikilvægt að góð samskipti og gagnkvæm virðing ríki á milli skólans og samfélagsins í heild.
Áherslur skólastarfs Húnavallaskóla endurspegla skólastefnu sveitarfélagsins, lög, reglugerðir og námskrár.
Kveðja
Guðjón E. Ólafsson, fræðslustjóri
Sigríður B. Aadnegard, Skólastjóri