Bæjarmálafélag Skagastrandar

Boðar til fyrsta fundar þriðjudaginn 4. nóvember n. k. í félagsheimilinu Fellsborg. Fundur hefst kl: 17.15 Þar verða lagðar línur um framhaldið og hvernig því verður háttað. Tímaþjófurinn verður ekkert á ferðinni. Við höfum fundinn stuttan og skemmtilegan. Endilega látið sem flesta vita þar sem þetta er vettvangur fyrir alla sem hafa áhuga á bæjarmálum og hafa góðar og skemmtilegar hugmyndir um það sem betur má fara. Bæjarmálafélagið J

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin fimmtudaginn 23. október síðastliðinn. Að þessu sinni var ferðinni heitið í Austur-Húnavatnssýslu og tóku heimamenn vel á móti gestunum sem voru yfir 100 ferðaþjónustuaðilar frá öllu Norðurlandi. Meðal staða sem hópurinn sótti heim var Hótel Blönduós, Heimilisiðnaðarsafnið þar sem við kynntumst Halldóru Bjarnadóttur, Textílsafnið sem skartaði refli um Vatnsdælu sem er enn í vinnslu. Spákonuhof tók vel á móti gestum á Skagaströnd, og þar bauð svo nýi veitingastaðurinn Borgin hópnum heim. Laxasetur Íslands og Ísgel fræddi gestina um starfsemina og áður en kvöldið var úti heimsóttu gestir Eyvindarstofu og þáðu þar góðar veitingar og glæsilega sundlaug Blönduósbúa. Austur Húnavatnssýslur hafa mikið upp á að bjóða og ekki náðist að kanna alla þá fjölbreyttu þjónustu og afþreyingu sem þar er á einum degi. Að lokum var svo snæddur kvöldverður í félagsheimilinu á Blönduósi og dansað við undirleik Geirmundar Valtýssonar fram á nótt. Eins og venja er á uppskeruhátíð sem þessari, veitti Markaðsstofan viðurkenningar sem voru eftirfarandi: Viðurkenningu fyrir Sprota ársins fékk Spákonuhof á Skagaströnd og veitti Dagný Marín Sigmarsdóttir viðurkenningunni móttöku. Sproti ársins er veittur eftirtektarverðri nýjung á Norðurlandi. Viðurkenningu sem fyrirtæki ársins fékk Bílaleiga Akureyrar - Höldur en þessi viðurkenning er veitt til fyrirtækis sem hefur skapað sér stöðu á markaði og hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun. Við viðurkenningunni tók Þórdís Bjarnadóttir bókunarstjóri fyrirtækisins. Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður Hlíðarfjalls hlýtur viðurkenningu fyrir ötul störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. Guðmundur Karl tók við stöðu forstöðumanns Hlíðarfjalls árið 2000 og hefur unnið að krafti að því að byggja upp Hlíðarfjall sem vinsælasta skíðasvæði landsins. Frábær dagur í alla staði.

Styrkir úr Atvinnuþróunarsjóði Skagastrandar

Atvinnumálanefnd Skagastrandar auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Atvinnuþróunarsjóði Skagastrandar. Umsóknarfrestur er til kl. 17:00 þann 15. nóvember 2014 og skal skila umsóknum á sérstöku umsóknarformi sem er aðgengilegt á heimasíðunni www.skagastrond.is (hér) Um Atvinnuþróunarsjóð: Markmið sjóðsins er að hvetja til jákvæðrar umræðu og verkefna á sviði atvinnuþróunar í Sveitarfélaginu Skagaströnd. Sjóðnum er ætlað að styðja við frumkvæði íbúa og hvetja til samstarfs og nýsköpunar í sveitarfélaginu, sem og að laða að verkefni og athafnafólk. Styrkir sem veittir eru úr asjóðnum eru fyrst og fremst verkefna- og framkvæmdastyrkir, ekki rekstrarstyrkir, styrkir til að mæta opinberum gjöldum eða til að greiða skuldir. Umsóknir Sótt er um á þar til gerðu umsóknarformi sem er aðgengilegt á á vefsíðunni http://www.skagastrond.is Umsóknir sem berast eftir lok skilafrests eða uppfylla ekki kröfur um umbeðnar upplýsingar koma ekki til greina við úthlutun. Umsækjendur geta verið einstaklingar, félög og/eða fyrirtæki. Umsókn skal miðast við að framkvæmd hugmyndar eða meginumsvif vegna verkefnisins verði á Skagaströnd. Við mat umsókna verður gerð lágmarkskrafa um samfélagsleg áhrif verkefnis. Í umsókn skal gera skýra grein fyrir verkefninu, markmiðum þess og væntum árangri. Umsækjendur skulu gera skýra grein fyrir tímaáætlun og áætluðum heildarkostnaði við verkefnið. Úthlutun styrkja Til úthlutunar í desember 2014 verða allt að 2 milljónir króna. Veittir eru styrkir til að standa straum af allt að 50% af heildarkostnaði við viðkomandi verkefni. Upphæð styrkja getur verið frá 100.000 kr. til 1.000.000. Nánari lýsing á forsendum úthlutunar er í fylgiblaði með umsóknarformi. Skagaströnd, 29. október 2014 Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Úr Tímanum Þessi úrklippa úr Tímanum er frá árinu 1973 af Skagstrendingum sem eru að leggja í langferð til Japan til að sækja Arnar Hu 1, sem var fyrsti skuttogari Skagstrendings hf. Á myndinni, sem sýnir hluta áhafnarinnar sem fór, eru frá vinstri: Reynir Sigurðsson, Árni Ólafur Sigurðsson, Gylfi Guðjónsson, Birgir Þórbjarnarson, Gunnlaugur Árnason, Gylfi Sigurðsson og Óskar Þór Kristinsson. Textinn með myndinni segir allt sem segja þarf.

Foreldranámskeið

Verður haldið á Heilsugæslustöðinni á Blönduósi dagana 10., 12., 17. og 19. nóvember 2014 kl. 17:00 – 19:00. Námskeiðið kostar kr. 9.300- á einstakling / 11.500- á par. Uppeldisbókin kr. 3.000-. Athugið að mörg stéttarfélög taka þátt í kostnaðinum. Leiðbeinendur: Sesselja Kristín Eggertsdóttir og Helga Hreiðarsdóttir hjúkrunarfræðingar. Skráning hjá Kristínu sími: 892 2584, netfang: sesselja.eggertsdottir@hve.is eða hjá Helgu sími: 864 8951, netfang: helga.hreidarsdottir@hve.is Skráning þarf að fara fram fyrir 1. nóvember.

Kynningarfundur um flotbryggjur

Hafnar og skipulagsnefnd Skagastandar býður þeim sem áhuga hafa að koma á kynningarfund um flotbryggjur sem haldinn verður í Fellsborg miðvikudaginn 22. október kl 16.00. Á fundinum mun Kristján Óli Hjaltason kynna flotbryggjur sem KROLI ehf hefur til sölu og miðla reynslu sinni af uppsetningu og rekstri á flotbryggjum. Sveitarstjóri

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 22. október 2014 kl 800 á skrifstofu sveitarfélagsins. Dagskrá: Forsendur fjárhagsáætlunar Samþykkt um starfskjör fulltrúa í nefndum og ráðum Byggðakvóti 2014/2015 Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna Þjóðvegur í þéttbýli á Skagaströnd Tillögur til NV nefndar Fundur með þingmönnum Norðvesturkjördæmis/fjárlaganefnd Bréf: Mennta og menningarmálaráðuneytis, dags. 14. okt. 2014 Bryndísar Valbjarnardóttur, sóknarprests, dags. 13. okt. 2014 Nokkurra ungmenna á Skagaströnd, dags. 20. sept. 2014 Stjórnar USAH, dags. 30. sept. 2014 Verkefnastjóra SEEDS, dags. 22. sept. 2014 Skólastjóra Höfðaskóla, dags. 22. sept. 2014 Fundargerðir: Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 6.10.2014 Stjórnar Bs. um menningu og atvinnum. í A-Hún, 22.09.2014 Stjórnar SSNV, 05.09.2014 Stjórnar SSNV, 24.09.2014 Stjórnar SSNV, 28.09.2014 Stjórnar SSNV, 29.09.2014 Stjórnar SSNV, 01.10.2014 Stjórnar Samb. ísl. sv.félaga, 12.09.2014 Stjórnar Samb. ísl. sv.félaga, 24.09.2014 Stjórnar Samb. ísl. sv.félaga, 8.10.2014 Önnur mál Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Leikskólabörn á Barnabóli Þessi mynd var tekin 1977 eða 1978 af krökkunum og starfsfólkinu á leikskólanum Barnaból á Skagaströnd. Starfskonurnar eru Guðrún Hrólfsdóttir til vinstri, Bára Þorvaldsdóttir í miðjunni og Lára Bylgja Guðmundsdóttir til hægri en hún var leikskólastjóri á þessum tíma. Í fangi Láru Bylgju er Soffía Lárusdóttir. Krakkarnir eru talið frá vinstri: aftasta röð: Hugrún Pálsdóttir, Þorsteinn Jónsson, Kolbeinn Sigurðsson, Jóhanna Sveinsdóttir, Jóhanna Sigurjónsdóttir, Stefán Sveinsson, Viggó Magnússon, Dagbjört Jóhannsdóttir og Friðrik Birgisson. Miðröð frá vinstri: Guðmundur Rúnar ?, Margrét Jóhannsdóttir, Gunnar Halldór Hallbjörnsson, Inga Rós Sævarsdóttir, Ragnheiður Sandra Ómarsdóttir, Elísabet Eik Guðmundsdóttir og Brynjar Pétursson. Fremsta röð frá vinstri: Bryndís Ingimarsdóttir, Svava Magnúsdóttir, Atli Þórsson, Guðmundur Henry Stefánsson, Baldur Magnússon, Jóhannes Hinriksson, Aðalheiður Árnadóttir, Björn Sigurðsson og Friðrik Gunnlaugsson.

Gospeltónleikar á Skagaströnd

Íslenskt gæðagospel – Tónleikar á Skagaströnd Kór Lindakirkju í Kópavogi, undir stjórn Óskars Einarssonar, heldur tónleika föstudaginn 17. október kl. 20:30 í Hólaneskirkju Skagaströnd. Í fréttatilkynningu frá kórnum kemur fram að kórinn hafi staðið í stórræðum í sumar og tekið upp nýja plötu sem ber heitið Með fögnuði. Um er að ræða gospeltónlist sem nær öll er samin af starfsfólki Lindakirkju, Áslaugu Helgu Hálfdánardóttur, Óskari Einarssyni, tónlistarstjóra og sóknarprestinum sr. Guðmundi Karli Brynjarssyni. Kór Lindakirkju syngur öll lögin á plötunni ásamt einsöngvurum úr röðum kórsins. Hljóðfæraleikur á plötunni er í höndum Óskars Einarssonar, Sigfúsar Óttarssonar, Friðriks Karlssonar og Jóhanns Ásmundssonar. Aðgangseyrir á tónleikana er enginn en platan Með fögnuði verður seld að tónleikum loknum.

Aðalfundur BioPol ehf

Aðalfundur Sjávarlíftæknisetursins BioPol ehf var haldinn um miðjan september síðastliðinn. Á fundinum voru almenn aðalfundarstörf viðhöfð og félaginu meðal annars kosin ný stjórn. Að þessu sinni voru gerðar breytingar á stjórn þar sem Dr. Rögnvaldur Ólafsson tók sæti Magnúsar B. Jónssonar. Í núverandi aðalstjórn eru því eftirtaldir: Adolf H. Berndsen form, prófessor Hjörleifur Einarsson, Sigríður Gestdóttir, Steindór R. Haraldsson og Dr. Rögnvaldur Ólafsson. Um leið og Magnúsi eru þökkuð störf í þágu félagsins er Dr. Rögnvaldur boðinn velkominn til starfa. Dr. Rögnvaldur var lengst af starfandi við H.Í. og gengdi þar m.a. stöðu forstöðumanns Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Dr. Rögnvaldur er einnig þekktur fyrir að vera einn upphafsmanna Marel. Meðfylgjandi er skýrsla stjórnar BioPol ehf vegna ársins 2013. Að undanförnu hafa verið framkvæmdar töluverðar breytingar á heimasíðu BioPol ehf. http://biopol.is/ Settar hafa verið upp tengingar á síðunni þar sem finna má flestar skýrslur og vísindagreinar sem félagið hefur komið að á undanförnum árum. Einnig hefur verið sett upp síða þar sem hægt er að fylgjast með magni landaðs afla úr Húnaflóa. Fyrst og fremst eru settar fram upplýsingar um afla sem landað er á Skagaströnd en jafnframt yfirlit yfir magn á öðrum löndunarhöfnum við flóann. Gert er ráð fyrir að tölurnar verði uppfærðar mánaðarlega til þess að byrja með. http://biopol.is/efni/afli_úr_húnaflóa