Börnin björguðu “horaða” Jólatrénu

Það er fastur liður í jólahaldinu á Skagaströnd að kveikja á jólatré á svonefndu Hnappstaðatúni í miðbænum. Í ár kom úr Kjarnaskógi frekar lítið og rýrt jólatré og var það sett upp á sínum stað. Bæjarbúar létu óánægju sína strax í ljós við bæjaryfirvöld, um að jólatréð væri rýrt og vildu fá stærra tré. Sú rödd náði eyrum sveitarstjórnar sem brást hart við og útvegaði annað og veglegra jólatré sem enn er eftir að setja upp. Þegar þessir atburðir spurðust út meðal æskunnar á Skagaströnd að fjarlægja ætti litla tréð brugðu börnin á það ráð að standa vörð um það. Þau Aldís Embla Björnsdóttir, 10 ára, og Egill Örn Ingibergsson, 9 ára, stóðu fyrir undirskriftasöfnun meðal krakkanna í skólanum og færðu oddvitanum Adolf H. Berndsen bænarskjalið. Í bréfinu stóð: "Jólatré jólatré. Við vorkennum litla horaða jólatrénu og viljum ekki láta henda því, þess vegna langar okkur að láta færa það yfir á hinn helminginn á Hnappstaðatúni." Að sögn Adolfs H. Berndsen mun verða orðið við óskum barnanna og litla horaða jólatréð fær að njóta jólanna í miðbænum, börnunum til ómældrar gleði. Heimild: Morgunblaðið

20 milljónir í Sjávarlíftæknisetrið á Skagaströnd

Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að Sjávarlíftækisetrið á Skagaströnd fái tuttugu milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári en breytingartillögur meirihluta nefndarinnar voru lagðar fyrir Alþingi í dag. Einnig er lagt til að Heimskautagerðið á Raufarhöfn fái tuttugu milljónir króna svo og samvinnuverkefni sem Verið á Sauðárkróki, Matís og Háskólinn á Hólum standa að. Þá er lagt er til að framlag ríkisins til Háskólans á Akureyri hækki um 75 milljónir króna og verði þá tæpar sextán hundruð milljónir og að framlög til Fjölbrautarskóla Norðlands vestra hækki um fimmtán milljónir og verði þá um 340 milljónir króna. Hvalamiðstöðin á Húsavík fær tíu milljónir svo og Gásir í Eyjafirði, lifandi miðaldakaupstaður. Þá fær Landsmót UMFÍ á Akureyri fimmtán milljónir og átta milljónir eru eyrnamerktar svifryksmæli á Akureyri. Dimmuborgarstofa, Spákonuhof á Skagaströnd, Örnefnafélagið Snókur á Siglufirði, fjölnota menningarhús í Grímsey og Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi fá svo fimm milljónir hvert og Jarðskálftasetrið á Kópaskeri fær sex milljónir svo eitthvað sé nefnt. Heimild: ruv.is Höf. rzg Tekið af vefsíðunni www.huni.is

íbúafundur

Íbúafundur verður haldinn í Fellsborg mánudaginn 26. nóvember nk. kl 20.00 Á fundinum mun sveitarstjórn kynna áherslur sínar og stöðu sveitarfélagsins. Að lokinni kynningu á er gert ráð fyrir að þátttakendum verði skipt í hópa sem ræði þá málaflokka sem helst verða til umfjöllunar. Íbúar eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðu um málefni samfélagsins. Sveitarstjóri

BioPol ehf. á Skagaströnd og Veiðimálastofnun skrifa undir samstarfssamning

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Veiðimálastofnunar og BioPol ehf Sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd um rannsóknir á sviði sjávarlíffræði, fiskavistfræði, auðlindanýtingar, sjávarlíftækni og tengdra sviða. Veiðimálastofnun og BioPol Sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd hafa ákveðið að leggja saman krafta sína hvað varðar rannsóknir tengdar hafinu, auðlindum sjávar og ósasvæðum fallvatna. Samstarfssamningur því til staðfestingar var undirritaður mánudaginn 19. nóvember. Meginmarkmið samningsins er að efla með rannsóknasamstarfi, þekkingu og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, sjávarlíffræði, fiskavistfræði og auðlindanýtingar bæði ferskvatns og sjávarstofna. Sérstaklega er í því ljósi horft til rannsókna á strand- og ósasvæðum við Húnaflóa og í Skagafirði. Að undanförnu hafa BioPol ehf og Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar á Sauðárkróki ásamt Háskólanum á Akureyri verið að skilgreina og fjármagna sameiginlega ný rannsóknaverkefni. Rannsóknir á hrognkelsum og mikilvægi ósasvæða fyrir viðkomu fiskseiða í Húnaflóa og Skagafirði fara af stað nú í vor með sameiginlegri aðkomu allra þessara aðila. BioPol ehf. var stofnað í júlí á þessu ári og er markmiðið að stunda rannsóknir á lífríki sjávar, m.a. í Húnaflóa, rannsóknum í líftækni, nýsköpun og markaðssetningu á afurðum líftækni úr sjávarlífverum og fræðsla á þessum sviðum. Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar hefur haft aðsetur í Skagafirði frá 1984 og sinnt rannsóknum á lífríki í ám og vötnum ásamt ráðgjöf um nýtingu fiskistofna. Þá hefur deildin unnið að rannsóknum á lífríki ósasvæða vatnsfalla um land allt undanfarin ár þar sem mætast bæði ferskvatns og sjávartegundir. Eitt stærsta verkefnið á því sviði eru rannsóknir á landnámi og nýtingarmöguleikum nýrrar kolategundar við Ísland, ósakola, sem lifir bæði í sjó og fersku vatni. Samstarfssamningurinn var undirritaður á skrifstofu BioPol ehf á Skagaströnd. Viðstaddir voru starfsfólk Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar og stjórn BioPol ehf. Samninginn undirrituðu fyrir hönd Veiðmálastofnunar, Sigurður Guðjónsson forstjóri og Bjarni Jónsson deildarstjóri Norðurlandsdeildar en fyrir BioPol ehf. Adolf H. Berndsen, stjórnarformaður, og Halldór G. Ólafsson framkvæmdastjóri. Frekari upplýsingar gefa: Halldór Ólafsson framkvæmdstjóri BioPol ehf S. 452-2977, 8967977 Bjarni Jónsson Deildarstjóri norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar S: 580-6300, 8947479

Næsti fundur hreppsnefndar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar mánudaginn 12. nóvember 2007 á skrifstofu hreppsins kl 800. Dagskrá: Endurskoðun fjárhagsáætlunar 2007. Bréf: a) Kolbjörns Kværum, Ringerike kommune, 12. október 2007. b) Sigurðar Jóhannssonar fh. Vilko, 17. október 2007. c) Skipulagsstofnunar, 8. október 2007. d) Starfsfólks Landsskrifstofu Sd21, 29. október 2007. e) Sjúkraflutningamanna á Skagaströnd. Fundargerðir: a) Atvinnu- og menningarmálanefndar, 25.10.2007. b) Menningarráðs Norðurlands vestra, 4.10.2007. c) Héraðsnefndar, 3.10.2007. d) Samráðshóps um verkefni héraðsnefndar, 29.10.2007. e) Heilbrigðisnefndar Nl. vestra, 25.10.2007. f) Stjórnar Sambands ísl. sveitarfél. 28.09.2007. g) Stjórnar Sambands ísl. sveitarfél. 19.10.2007. Önnur mál Sveitarstjóri

BioPol ehf. á Skagaströnd semur við Skota

Fréttatilkynning 6. nóvember 2007 Samstarf milli Íslendinga og Skota í sjávarlíftækni BioPol ehf. á Skagaströnd semur við Skota Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing milli Íslendinga og Skota um menntun, vísindi og rannsóknir í sjávarlíftækni. Að samningnum standa sjávarlíftæknifyrirtækið BioPol ehf. á Skagaströnd, Háskólinn á Akureyri og The Scottish Association for Marine Science. Búist er við miklum árangri af samstarfi BioPol ehf, Háskólans á Akureyri og The Scottish Association for Marine Science, en viljayfirlýsing um margþætt samstarf var undirrituð á dögunum. Samkvæmt yfirlýsingunni er meðal annars ætlunin að stunda sameiginlegar rannsóknir, skiptast á starfsfólki, rannsóknargögnum og öðrum upplýsingum. Þá verður staðið fyrir styttri akademískum námsleiðum, ýmis konar námskeiðum og fundum. Síðast en ekki síst munu námsmenn eiga þess kost að stunda nám og rannsóknir hjá báðum fyrirtækjum. BioPol ehf. hóf starfsemi í september á þessu ári og er markmiðið að stunda rannsóknir á lífríki sjávar, m.a. í Húnaflóa, rannsóknum í líftækni, nýsköpun og markaðssetningu á líftækniafurðum úr sjávarlífverum og fræðsla á háskólastigi í tengslum við þessar rannsóknir. Strax í upphafi var ákveðið að leita út fyrir landsteinanna að samstarfsaðilum og fljótlega varð The Scottish Association for Marine Science (SAMS) fyrir valinu, en fyrirtækið er staðsett í Oban, litlum bæ á vesturströnd Skotlands. Fyrirtækið er eitt af þeim fyrirtækjum sem hefur hvað lengst lagt fyrir sig rannsóknir í sjávarlífræði. SAMS hefur stundað rannsóknir á landgrunni Skotlands og í Norður-Íshafinu og leggur áherslu á að skoða þær breytingar sem orðið hafa í norðurhöfum. Til viðbótar þessu hafa samtökin boðið upp á háskólanámskeið í haffræði og þjálfað stúdenta í rannsóknaraðferðum. Viljayfirlýsingin var undirrituð í höfuðstöðvum SAMS í Oban í Skotalandi. Viðstaddir voru fulltrúar beggja fyrirtækja, Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Alp Mehmet breski sendiherrann á Íslandi og Þorsteinn Gunnarsson háskólarektor. Ætlunin er að leita eftir fjármögnum á verkefnum hér á landi, í Skotlandi og hjá Evrópusambandinu. Samstarfsaðilar fyrir hönd Biopol ehf. verður Halldór Ólafsson, framkvæmdastjóri og fyrir Háskólann á Akureyri Hjörleifur Einarsson, prófessor. Gildistími samningsins er fimm ár og er ætlunin að endurskoða hann og framlengja verði góður árangur af samstarfinu. Samninginn undirrituðu fyrir hönd SAMS, Graham Simmield prófessor, fyrir BioPol ehf. Halldór G. Ólafsson framkvæmdastjóri, og fyrir hönd Háskólans á Akureyri Þorsteinn Gunnarsson. Frekari upplýsingar gefur: Halldór Ólafsson framkvæmdastjóri BioPol ehf S. 452-2977 og 896-7977 Mynd: Meðfylgjandi er mynd sem tekin var við undirritun samningsins. Á myndinni eru eftirtaldir, frá vinstri talið: Alp Mehmet, sendiherra Breta á Íslandi, Þorsteinn Gunnarsson, rektor H.A, Graham Shimmield, framkvæmdastjóri SAMS, Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol ehf. og Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra.

Menningarstyrkir 2007

Menningarráð Norðurlands vestra úthlutaði í fyrsta sinn menningarstyrkjum við athöfn í Hóladómkirkju föstudaginn 26. okt. sl. Það var með undirritun þriggja ára menningarsamnings milli Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og ráðuneyta mennta- og ferðamála fyrr á þessu ári að grundvöllur skapaðist til þess að veita verkefnastyrki til þeirra einstaklinga, félaga eða fyrirtækja sem sinna menningarstarfi á svæðinu. Í framhaldi af samningnum var menningarfulltrúi ráðinn til starfa og auglýst eftir styrkumsóknum. Ráðinu bárust alls 50 umsóknir þar sem óskað var eftir tæpum 50 milljónum í styrki. Fjörutíu og ein umsókn hlaut styrk og alls var úthlutað 17.650 þús. kr. Hæstu styrkir námu einni milljón króna en þeir lægstu voru eitt hundrað þúsund. Þau verkefni sem hlutu styrk voru mjög fjölbreytt, s.s. frumsamið leikrit, tónleikar, sögusýningar, varðveisla menningararfsins, ráðstefnur og útgáfustarfsemi. Í ávarpi formanns Menningarráðs, Guðrúnar Helgadóttur, kom fram að þessi úthlutun markaði mikilvægan áfanga í menningarstarfi á Norðurlandi vestra og greinilegt væri að á Norðurlandi vestra starfaði öflugur hópur fólks að listum, fræðum og menningartengdri ferðaþjónustu. Guðrún telur að ein helsta atvinnuháttabreyting samtímans sé að mikilvægið færist frá framleiðslu efnislegra gæða í föstu formi yfir í framleiðslu á gæðum sem ekki er beint hægt að festa hönd á. Má þar nefna hluti eins og góð þjónusta, tilkomumikil leiksýning, hrífandi mynd, ljóð sem snertir tilfinningar, ímynd vöru og lag sem vekur minningar. Við athöfnina sungu fjórar söngkonur úr Húnaþingi vestra við undirleik Guðmundar Helgasonar, Sólveig S. Einarsdóttir lék á orgel og Þórhallur Barðason söng. Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga tók til máls fyrir hönd styrkhafa og þakkaði veitta styrki sem hún sagði án efa verða til eflingar menningarlífi á svæðinu. Eftirtaldir umsækjendur hlutu styrk að upphæð ein milljón: Áhugahópur um styttu af ferjumanninum - Gerð bronsstyttu af Jóni Ósmann. Sveitasetrið Gauksmýri – Hrafnaþing, uppsetning sýningar um íslenska hrafninn. Grettistak – Útgáfa bókar með myndum Halldórs Péturssonar af atburðum í Grettis sögu. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga – Gerð stafræns ljósmyndasafns. Karlakórinn Heimir – Dagskrá um Stefán Íslandi. Ópera Skagafjarðar – La Traviata – tónleikar – upptaka – myndband. Spákonuarfur – Gerð leikþáttar um Þórdísi spákonu o.fl. Textílsetur Íslands, Blönduósi – Norrænt textílþing og sýning. Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa tvær úthlutanir á næsta ári með umsóknarfresti til 15. mars og 15. september. Meðfylgjandi eru þrjár ljósmyndir – Ljósm.: Pétur Jónsson. Myndtextar: Mynd 1: Guðrún Helgadóttir, formaður menningarráðs, afhendir styrkhöfum viðurkenningu. Mynd 2: Styrkhafar Menningarstyrks Norðurlands vestra Mynd 3: Menningarráð Norðurlands vestra og menningarfulltrúi

Tónleikar Guðmundar Jónssonar í Kántrýbæ 30. október 2007

Guðmundur Jónsson mun halda tónleika í Kántrýbæ, næstkomandi þriðjudagskvöld, 30. október 2007. Tónleikarnir hefjast kl 21 og aðgangseyrir er kr.1.500,- Eins og flestir vita er Guðmundur nýbúinn að gefa út þriðja diskinn (Fuður) í trílógíunni Japl, Jaml og Fuður.

Fiskvinnsla á Skagaströnd

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Fisk Seafood boðið starfsmönnum fiskvinnslu á Skagaströnd að vinna við vinnslu félagsins á Sauðárkróki. Þegar þessi staða kom upp átti sveitarstjórn Skagastrandar fund með Jóni E. Friðrikssyni framkvæmdastjóra Fisk Seafood og fór yfir stöðuna. Þar skýrði Jón ástæður þess að starfsmönnum hafi verið gert fyrrgreint tilboð og kom m.a. fram að hann taldi ekki forsendur til óbreyttrar vinnslu á Skagaströnd í ljósi þeirrar kvótaskerðingar sem fyrirtækið hefur orðið fyrir. Í framhaldi af þeim fundi átti sveitarstjórnin fund með starfsmönnum þar sem staða og horfur voru ræddar og hvaða valkosti starfsmenn hefðu. Starfsmenn hafa ekki svarað því enn hvort þeir fallist á breyttar forsendur í starfi og eru bæði þeir og forsvarsmenn Fisk Seafood að meta stöðuna.

Menningarhátíð æskunnar - Cultural Youth Exchange

Dagbók um ferð til Växjö, vinabæjar Skagastrandar í Svíþjóð, vegna þátttöku í menningarhátíð æskunnar 2007 dagana 19. – 24. september. Fulltrúi frá Skagaströnd var hljómsveitin S.P.O.R. sem samanstendur af Almari Frey Fannarssyni, Ómar Ísak Hjartarsyni, Kristjáni Ými Hjartarsyni, Sævari Hlyn Tryggvasyni og Þorsteini Ýmir Ásgeirssyni. Leiðsögumaður var Baldur Magnússon. Ferðin var farin vegna boðs Växjö um þátttöku og var málið á forræði tómstunda- og menningarmálanefndar sveitarfélagsins Skagastrandar. Växjö 19. september 2007 Utanferð Ferðin út gekk mjög vel þrátt fyrir að hafa tekið samtals 16 tíma og þar af 8 í bið. Ferðin var annars viðburðarlítil og við fegnir að komast til áfangastaðarins Växjö rétt fyrir kl 19:00 að staðartíma. Vel var tekið á móti okkur í Växjö. Strákarnir gistu hjá tveimur “fjölskyldum”, en þær eru sitthvor einbúinn. Annars vegar Rickard Magnusson “project manager” og tónlistarkennari við háskólann í Växjö og hins vegar Michael Ringdahl “project manager” og stjórnandi í “Musikhuset”. Ég gisti hinsvegar á Royal Corner og var sendur beint í kvöldmat með hinum stjórnendunum. Växjö 20. September 2007 Dagur 1 Fyrsti dagurinn byrjaði snemma; kl 7:45 i tonlistarskola Växjö þar sem strákarnir fengu að fylgjast med kennslu/námi hjá popphljómsveit undir stjórn kennara. Að tímunum loknum fengum við "guided tour" en það tók að sér síðhærður unglingssvíi sem sýndi strákunum m.a. þrjár tónlistarbúðir. Eftir hádegi þann dag fengu þeir aðstöðu í tónlistarhúsi Växjö (Musikhuset) til æfinga en það er einskonar félagsmiðstöð hljómsveita ásamt annarri starfsemi sem er ekki eins áberandi. Eftir tveggja tíma æfingu fórum við niður í bæ og tókum púlsinn á pizzamenningu Växjö. Svo var boðið uppá “Guitar comedy workshop” kl 17.00. Þetta var örugglega hápunktur dagsins en Svíinn Mattias Ia Eklund fór galdrafingrum um gítarinn sinn fyrir fullum sal af þungarokkurum (strákarnir okkar fengu heiðurssæti upp við sviðið) og sagði skemmtisögur af sjálfum sér um leið og hann kenndi mismunandi gítarstíla sem hann hafði tileinkað sér sem þungarokkari. Kl 19:00 var boðið til veislu í tónlistarskólanum þar sem allir þáttakendur vinabæjanna mættu og ætlunin var að blanda saman fólkinu og gefa því tækifæri að kynnast hvort öðru. Eftir smá spark í rassinn fóru piltarnir okkar á kostum og voru Ómar og Almar hrókur alls fagnaðar hjá þeim sem þorðu að nálgast þessa síðhærðu villimenn. Växjö 21. September 2007 Dagur 2 Mæting í sal Framhaldsskóla Växjö (Katedralskolan) kl 9.00 og byrjað að undirbúa hádegissýningu. Þar sem strákarnir voru með aðeins meira dót en danshóparnir og kórarnir voru þeir síðastir í prufu en þegar komið var að þeim var klukkan orðin 11 og tími til að byrja sýninguna svo þeir fengu enga vitræna hljóðprufu en þurftu að byrja strax að spila þar sem þeir voru fyrstir á svið. Þeir byrjuðu á laginu um fuglana (Snert hörpu mína himinborna dís), Fjöllin hafa vakað, og enduðu á Krummi svaf í klettagjá. Undirtektir voru góðar (enda ungir svíar frekkar rokkaðir að því að mér sýndist.) en vegna hljóðprufunnar komu seinni lögin tvö ekki eins vel út og það fyrsta enda spila þeir þau tvö mun þyngra. Á eftir strákunum okkar komu svo kórar og danshópar og sýndu sín atriði en aðeins eitt atriði af átta komst nálægt því að vera jafn eftirminnilegt og þungarokkararnir okkar, bæði var tónlistin flott og þóttu þeir með skemmtilega sviðsframkomu og var bassaleikarinn (Kristján) nefndur þar fremstur meðal jafningja. Strákarnir fengu svo smá frítíma fram til kl 17 en þá var mæting fyrir kvöldtónleikana. Eftir að búið var að hlaða öllum búnaði í kerru og spenna fyrir bíl var haldið útí sveitina norður af Växjö ásamt hljómsveitunum “Chamber 4” frá Växjö og “Kolkarma” frá Lundúnum Englandi. Þar var trommusetti og hljómflutningstækjum komið fyrir í staðnum “Pannkaghusett” sem er útihús sem búið er að breyta í einskonar kántrýbæ sem selur sænskar pönnukökur. Strákarnir fengu góða hljóðprufu með atvinnurótara og komu fyrir vikið mun betur út en í hádeginu. Englendingarnir voru besta hljómsveit kvöldsins en Svíarnir stóðu strákunum (sem komu síðastir fram) langt að baki enda gerði söngvarinn þeirra ekki annað en arga eins og stunginn grís. Áhorfendur voru svona eins og meðalkvöld í Kántrýbæ og kunnu vel að meta strákana eftir að hafa hlustað á Death-Metal á undan. Växjö 22. septembar 2007. Dagur 3 Eina skipulagða dagskráin fyrir strákana voru tónleikar um kvöldið svo þeir sváfu frameftir og fóru svo niður í bæ að skoða sig um og slæpast. Þeir mættu svo kl 17 í Musikhuset klukkan þar sem þeir funduðu saman og endurskoðuðu programið sitt og fækkuðu “cover” lögunum og settu inn meira af eigin efni. Þar sem þeir voru síðastir í hljóðprufu fórum við í bæinn og átum hamborgara og röltum aðeins áður en þeir byrjuðu í hljóðprufu með sama rótara og kvöldið áður. S.P.O.R. byrjaði svo kvöldið fyrir fullum sal (Size: Fellsborg) og rokkaði feitt. Áhorfendur voru yngri en kvöldið áður og kunnu vel að meta strákana sem eignuðust allavega eina sænska grúppíu og nokkra aðdáendur sem báðu um að fá sent efni um email þegar það væri til. Fjórar hljómsveitir fylgdu í kjölfarið, “Drowned in Despair” , “Kolkarma”, “Chamber 4” og svo rak “Elohim” lestina fyrir nánast tómum sal þar sem klukkan var orðin tólf og útivistartími sænskra unglinga útrunninn. Strákarnir voru að mínu mati önnur besta hljómsveitin á eftir bretunum en samt eina hljómsveitin sem spilaði tónlist fyrir minn smekk. Mjög vel heppnað kvöld. Växjö 23. September 2007. Dagur 4 Dagurinn hófst um hálf ellefu og byrjaði Michael á að fara með okkur í kjallara gallerí [Uffes Källare] þar sem listakennari [Rikkard Olofsson] var með sýningu á verkum sínum síðustu 3 mánaða. Strákarnir voru nú ekki yfir sig hrifnir af verkunum en skoðuðu þó galleríið og fiktuðu jafnvel í einu verkinu (en það var einmitt ætlast til þess) og var listamaðurinn mjög ánægður með það þar sem langflestir gesta hans hafi bara gengið framhjá verkinu stjarfir yfir fáránleikanum. Kjallarinn var líka einskonar tónlistarkompa og voru nöfn margra hljómsveita sem spilað höfðu í kjallaranum skrifaðar á veggina. Að loknu hámenningarinnspýttinu forum við í hádegisverð í Växjö Concert Hall. Næst var stefnan tekin út fyrir bæinn og farið í hið afskekkta “Red Pulse” studio þar sem hljóðtæknimaðurinn Johann (rótarinn frá kvöldtónleikunum) sýndi strákunum stúdíóið og svaraði spurningum þeirra. Strákarnir voru mjög hrifnir af stúdíóinu og þá sérstaklega staðsetningu þess… umlukið skógi stutt frá einu stærsta vatninu hjá Växjö. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir færu þangað aftur eftir 2-3 ár í upptökur. Síðustu heimsókn dagsins var aflýst en það var heimsókn í annað studio þar sem ein stærsta meal-hljómsveit Svíþjóðar “Bullet” frá Växjö var að taka upp en einn úr hljómsveitinni þurfti að fara til Moskvu. Þess í stað fór Michael með okkur að einum vatnsturna Växjö en undir honum er alveg magnað bergmál vegna hvelfingar sem höfð var neðaná tanknum… þar æptum við og örguðum og prufuðum bergmálið… mjög gaman. Smá bið var svo þar til “Carmina Burana” hofst kl 17:00. Þar voru á ferð listamenn Växjö og vinabæjanna með magnaða uppsetningu á þessu snilldarverki eftir Orff. Strákarnir voru mis-hrifnir en ég held þó að þeir hafi allir haft gaman af “O Fortuna” hlutanum í upphafi og í lokin. Á eftir var svo boðið uppá kvöldverð með öllum þátttakendum sýningarinnar og öllum vinabæjar fulltrúum. Að lokinni máltíðinni fékk ég afhentar gjafir til Skagastrandar sem átti að afhenda í Gala kvöldverðinum kvöldið áður en þar sem strákarnir voru að spila á sama tíma gat ég ekki mætt í það. Svo var boðið uppá diskó fyrir unga fólkið sem stóð til hálf ellefu um kvöldið. 24. September 2007. Heimferðardagur. Rickard og Michael skutluðu okkur niður á lestarstöð þar sem menn kvöddust og þeim voru afhentar gjafir frá Skagaströnd. Töluverð bið var eftir fluginu heim og var þeim stundum varið á Strikinu í Kaupmannahöfn þar sem farið var í verslanir og svo á “Believe it or not” safnið. Heimferðin var svo frekar tíðindalítil en við keyrðum inní Skagaströnd á slaginu tvö að nóttu 25. sept. Baldur Magnússon, leiðsögumaður.