16.04.2008
Tómstunda- og menningarmálanefnd auglýsir eftir styrkumsóknum úr Menningarsjóði Sveitarfélagsins Skagastrandar. Umsóknir geta átt við hvers konar menningarstarf, en sérstaklega er bent á myndlist, tónlist, leiklist, ritlist, varðveislu menningar og ýmsa menningarviðburði. Forsenda úthlutunar er að styrkþegar efli menningu í sveitarfélaginu og að umsækjandi eigi þar heimilisfesti.
Umsóknareyðublað og reglur um menningarsjóð eru á skrifstofu sveitarfélagsins. Umsóknafrestur er til 15. maí 2008.
Tómstunda- og menningarmálanefnd Skagastrandar
16.04.2008
Á fundi sveitarstjórnar 15. apríl 2008 var samþykkt að styrkja áhugahóp um gömlu fallbyssurnar á Skagaströnd um 500 þús kr til að flytja inn fallbyssu frá Danmörku.
Fallbyssan er eftirlíking af fallstykkjum frá 17. – 18. öld og er 1400 mm að lengd og vegur 60 kg. Hægt er að hlaða byssuna og skjóta úr henni púðurskotum. Hún er gerð fyrir sérstök cal. 12 “salutpatron”. Framleiðandi / seljandi gerir einnig þá kröfu fyrir afhendingu byssunnar að viðtakandi og ábyrgðarmaður komi til Danmerkur og læri á byssuna. Fremstillet af bronze
Forsaga þessa máls er sú að í gömlum annálum um Skagaströnd er þess getið að fyrr á öldum þegar Skagaströnd var aðal verslunarstaður Húnavatnssýslu og víðar þá voru til á staðnum tvö fallstykki. Segir sagan að skotið hafi verið úr þessum fallstykkjum við kaupskipakomur. Heyrðist þá hvellurinn víða og vissu þá bændur og búalið að kaupskip var komið í Höfða eins og sagt var í þá daga.
Önnur fallbyssan var send til Þjóðminjasafnsins árið 1946 og er þar í einhverri geymslu. Hin fallbyssan sást síðast um 1960, þá hálfgrafin í jörð við bæinn Vindhæli í Skagabyggð. Ekki hefur reynst unnt að fá byssuna úr Þjóðminjasafninu og fallstykkið sem talið er að hafi verið við Vindhæli hefur ekki fundist.
Hugmyndin er því nú að fá nýja/nýlega fallbyssu keypta til að endurvekja þessa gömlu sögu Skagastrandar. Eftir töluverða leit fannst framleiðandi í Danmörku sem vill selja fallbyssu til Skagastrandar.
Fallbyssa þessi yrði eign Sjóminja- og sögusafns Skagastrandar.
Hugmyndin er að nota fallbyssuna á hátíðis og tyllidögum og skjóta þá nokkrum púðurskotum fólki til skemmtunar.
Þetta hafa nokkrir kaupstaðir hér á landi gert. T.d. Akureyri, Seyðisfjörður og Vestmannaeyjar.
16.04.2008
Á fundi sveitarstjórnar 15. apríl sl. var samþykktur samningur milli Sveitarfélagsins Skagastrandar og Menningarfélagsins Spákonuarfs ehf. um heimildasöfnun um gömul hús og byggðina á Skagaströnd
Verkið er fólgið í söfnun heimilda annars vegar um þau hús sem horfin eru, sögur þeirra, uppruna og endalok og hins vegar um þau eldri hús sem enn standa.
Heimildum verður safnað um hús sem stóðu á Skagaströnd á árabilinu 1840-1940. Þrátt fyrir að síðara ártalið sé sett 1940 er miðað við hús sem stóðu eftir þann tíma og standa jafnvel enn. Einnig um önnur hús en íbúðarhús sem skiptu máli á þessum tíma ss. verslunarhús, þinghús, skólahús, verthús osfrv.
Heimilda verður leitað um:
Hvar húsin stóðu, ( lýsing, meking á kort )
Hvenær þau voru byggð, ( byggingarefni ef er þekkt)
Hver byggði
Hvar þau stóðu áður ef slíkt á við ( Kálfshamarsvíkurhúsin)
Hverjir bjuggu í húsunum á hverjum tíma
Til hvers þau voru notuð ef ekki er um íbúðarhúsnæði að ræða
Hvenær þau voru rifin eða hætt að búa í þeim.
Verkefnið tekur til húsa innan núverandi sveitarfélagsmarka Skagastrandar og nær því út fyrir þéttbýlið. Fell, Háagerði, Finnstaðir ofl. eiga því heima í hópi þeirra húsa sem heimildum skal safna um.
Verkefnið er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra.
14.04.2008
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
þriðjudaginn 15. apríl 2008 á skrifstofu hreppsins kl 800.
Dagskrá:
1. Þriggja ára áætlun 2009-2011
2. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, áætlun 2008.
4. Verkefnið „Húsin okkar“
5. Gerð sjóvarnar með Fjörubraut
6. Bréf:
a) Umsjónarmanns Námsstofu dags. 11. apríl 2008
b) Skólahreysti, dagsett í mars 2008
c) Ágústs Þórs Bragasonar, dags. 25. mars 2008.
d) Skagastrandardeildar RKÍ, dags. 18. mars 2008.
e) Húsafriðunarnefndar, dags. 18. mars 2008.
f) Landgræðslu ríkisins, dags. 14. mars 2008.
g) Hugrúnar S. Hallgrímsdóttur og Jóns Ólafs Sigurjónssonar, dags. 4. apríl 2008.
h) Elina Lehto – Häggroth bæjarstjóra Lohja, dags. 3. apríl 2008.
7. Fundargerðir
a) Tómstunda- og menningarmálanefndar, 11. mars 2008.
b) Samráðsfundar fámennra sv.fél. 3. apríl 2008.
c) XXII. landsþings Sambands ísl. sv.fél. 7. apríl 2008.
d) Stjórnar SSNV, 12. febrúar 2008.
e) Stjórnar SSNV, 1. apríl 2008.
f) Stjórnar Sambands ísl. sv.fél. 28. mars 2008.
8. Önnur mál
Sveitarstjóri
11.04.2008
Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir eftir flokkstjórum til starfa í Vinnuskólanum sumarið 2008. Æskilegt er að umsækjendur séu 20 ára eða eldri. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Svf. Skagastrandar og er umsóknarfrestur til 25. apríl. Nánari upplýsingar veitir Ágúst Þór í síma 899 0895 eða á netfangi agust@skagastrond.is
Sveitarstjóri
Sveitarfélagsins Skagastrandar
09.04.2008
Laust er til umsóknar sumarstarf í sundlaug Skagastrandar.
Æskilegt er að umsækjendur séu eldri en 20 ára, hafi farið á
skyndihjálparnámskeið og séu með a.m.k 9. stig í sundi.
Upplýsingar um starfið gefur Árni Geir í síma 861 4267.
Umsóknareyðublöð fást á skrifstofu sveitarfélagsins.
Umsjónarmaður sundlaugar.
08.04.2008
Fimmtudaginn 3. apríl var haldin að Húnavöllum árleg framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi. Keppnin er haldin til minningar um Grím Gíslason frá Saurbæ í Vatnsdal. Keppendur voru tólf og lásu þrisvar hver. Fyrst var lesinn kafli úr sögu eftir Jón Sveinson og síðan kvæði eftir Stein Steinarr og að lokum kvæði að eigin vali. Allir keppendur stóðu sig vel og hlutu lof dómara og áheyrenda. Það var því erfitt verk að úrskurða hverjir hefðu staðið sig best.
Sigurvegarar keppninnar að þessu sinni voru:
1. Eydís Sigurðardóttir, Húnavallaskóla
2. Alma Dröfn Vignisdóttir, Höfðaskóla
3. Árný Dögg Kristjánsdóttir, Grunnskólanum á Blönduósi
Sérstök aukaverðlaun fyrir vandaðan lestur hlutu þau:
Bragi Hólm Birkisson, Húnavallaskóla og
Kristín Karen Karlsdóttir, Grunnskóla Húnaþings vestra.
Myndir:
Sigurvegarar keppninnar
Formaður dómnefndar, Þórður Helgason, tilkynnir úrslit
02.04.2008
Úthlutun verkefnastyrkja Menningarráðs Norðurlands vestra fer fram í Félagsheimilinu á Blönduósi laugardaginn 5. apríl, kl. 15.45.
Verkefnastyrkir Menningarráðs byggjast á þriggja ára samningi ríkisvaldsins og Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem undirritaður var 1. maí 2007. Samkvæmt honum er gert ráð fyrir rúmlega 30 milljón króna árlegu framlagi ríkisins til menningarmála á Norðurlandi vestra.
Auk þess að sjá um úthlutun verkefnastyrkja er hlutverk Menningarráðsins að standa fyrir þróunarstarfi í menningarmálum og hvetja til samstarfs og faglegra vinnubragða. Þá er ráðinu ætlað að efla atvinnustarfsemi á sviði menningar og lista og styrkja starfsemi menningartengdrar ferðaþjónustu.
Þetta er í annað sinn sem Menningarráðið úthlutar verkefnastyrkjum en fyrsta úthlutunin var í október 2007. Að þessu sinni verður úthlutað styrkjum til 55 aðila, samtals að fjárhæð 18,5 milljónir króna. Hæstu styrkirnir nema einni milljón króna.
Þetta er fyrri úthlutun Menningarráðs á þessu ári, næsti umsóknarfrestur er 15. september nk.
Menningarfulltrúi
02.04.2008
Laugardaginn 5. apríl stendur Menningarráð Norðurlands vestra fyrir ráðstefnu um menningartengda ferðaþjónustu. Ráðstefnan verður haldin í Félagsheimilinu á Blönduósi og hefst kl. 13.00 með ávarpi ferðamálastjóra.
http://www.skagastrond.is/frettir/users3/stjori/Dagskrá%20fundar%20menningarráðs%202008.pdf
Menningarráði Norðurlands vestra er m.a. ætlað að vera samstarfsvettvangur um menningarmál í fjórðungnum. Stefna ráðsins er m.a. sú að auka samstarf í menningarmálum og stuðla að frekari kynningu á því menningarstarfi sem unnið er á svæðinu. Áhersla er lögð á að öflug menningarstarfsemi sé mikilvægur þáttur í því að skapa góð atvinnu- og búsetuskilyrði.
Ráðstefnan er haldin undir kjörorðinu Samstarf til sóknar og er tilgangurinn að vekja athygli á möguleikum sem felast í samstarfi aðila er starfa að menningarmálum og ferðaþjónustu í landshlutanum.
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, mun flytja ávarp við setningu ráðstefnunnar. Þá mun Guðrún Þ. Gunnarsdóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar Hólaskóla, flytja erindi sem hún nefnir „Sviðsetning menningartengdrar ferðaþjónustu“.
„Menningin og við“ nefnist erindi Hrafnhildar Víglundsdóttur, framkvæmdastjóra Selaseturs Íslands á Hvammstanga en fyrirtækið er nýtt og hefur vakið mikla athygli fyrir fróðlegar og skemmtilegar sýningar.
Eitt af leiðandi fyrirtækjum á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu er án efa Landnámssetrið í Borgarnesi. Kjartan Ragnarsson, framkvæmdastjóri þess, mun á ráðstefnunni flytja erindi sem hann nefnir „Landnámssetrið í samstarfi“ og fjallar þar um samstarf fyrirtækisins við aðra aðila á Vesturlandi.
Rögnvaldur Guðmundsson, ferðamálaráðgjafi, hefur unnið víða um land með ferðþjónustuaðilum, sveitarfélögum og fleirum. Hann er formaður Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu og mun á ráðstefnunni fjalla um árangur samtakanna og framtíðarsýn.
Á meðan á ráðstefnunni stendur verður ljósmyndasýning í anddyri Félagsheimilisins sem er hluti af væntanlegri sýningu er nefnist Horft til himins og fékk á síðasta ári styrk frá Menningarráðinu.
Í anddyrinu verður einnig sýnd á stórum sjónvarpsskjá upptaka af óperunni La Traviata eftir Verdi sem Ópera Skagafjarðar setti upp og sýndi á síðasta ári og naut til þess styrks frá Menningarráði.
Hestaíþróttir eru vinsælar á Norðurlandi vestra og þess vegna mun Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi sýna í anddyrinu reiðföt karla og kvenna frá fyrri tíð.
Nánari upplýsingar veitir:
Ingibergur Guðmundsson
Menningarfulltrúi Norðurlands vestra
Sími: 892 3080 / 452 2901
Tölvupóstur: menning@ssnv.is