23.01.2008
Vakin er athygli á möguleika til að sækja um ýmsa styrki til feðaþjónustu og atvinnulífs.Sjá auglýsingu Byggðastofnunar http://www.skagastrond.is/frettir/users3/stjori/Aug-1.pdf
Byggðastofnun, styrkir vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar 100 milljónir 2008 til eflingar atvinnu og nýsköpunar. Bundið við svæði sem verst hafa orðið úti vegna kvótaskerðingar. Í A-Hún fellur Skagaströnd undir þá skilgreiningu Frestur til 19. febrúar 2008. Umsóknarblöð á www.byggdastofnun.is og www.ssnv.is
Ferðamaálastofa, styrkir til úrbóta á ferðamannastöðum . Frestur til 28. janúar 2008. Sjá á www.ferdamalastofa.is
Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar, 160 milljónir til ferðaþjónustu. Umsóknarblöð, á www.ferdamalastofa.is Frestur til 5. febrúar 2008.
Atvinnuráðgjafar SSNV veita aðstoð og upplýsingar vegna umsókna. Upplýsingar á www.ssnv.is
21.01.2008
Ágætu foreldrar og forráðamenn.
Ég vil fyrir hönd félagsins byrja á að þakka ykkur fyrir samstarfið það sem af er vetri. Þátttaka barnanna í íþróttastarfi félagsins nú í haust hefur verið með ágætum. Birna og Ágúst munu halda áfram að sjá um þjálfun á vegum félagsins en gerðar hafa verið lítilsháttar breytingar á stundatöflunni en þær hafa þegar verið auglýstar í Höfðaskóla. Því miður lítur ekki út fyrir að hægt verði að halda áfram að sækja sameiginlegar frjálsíþróttaæfingar á vegum USAH á Blönduósi, eins og gert var fyrir áramót, þar sem ekki hefur fengist þjálfari til að sjá um þær æfingar. Við munum hins vegar halda okkar striki hér heima í staðinn.
Fyrirhugað er að byrja með skíðaferðir upp í Tindastól næsta laugardag (19. janúar) þar sem útlit er fyrir að nú sé kominn vetur og nægur snjór verði í fjallinu. Öllum er frjálst að nýta sér ferðirnar svo lengi sem pláss leyfir í rútunni. Gert er ráð fyrir að börn fædd árið 1996 og fyrr geti farið án fullorðinna en yngri börn þurfa að vera á ábyrgð einhvers fullorðins. LAGT VERÐUR AF STAÐ FRÁ ÍÞRÓTTAHÚSINU KL. 12:00 og miðað verður við að heimkoma verði á milli 17:00 og 18:00. Hver og einn verður að sjá um nesti og lyftugjöld fyrir sig. Gert er ráð fyrir að ferðirnar haldi áfram með þessum hætti þangað til annað verður auglýst.
Svipað fyrirkomulag verður haft á innheimtu æfingagjalda nú á vormisseri eins og áður. Æfingagjöldin, 10.000 kr, eru aðgöngumiði að öllum æfingunum þ.e. ekki þarf að greiða sér fyrir fótbolta og sér fyrir íþróttaskóla. Veittur verður 25% systkinaafsláttur fyrir börn frá sama heimili. Rétt er að minna fólk á að nýta sér frístundakort sveitarfélagsins til endurgreiðslu á æfingargjöldum. GJAFIR VERÐA VEITTAR ÞEIM SEM GREITT HAFA ÆFINGAGJÖLDIN FYRIR 01.03.08.
Kveðja, Halldór G. Ólafsson
formaður Umf. Fram
17.01.2008
Mjög sérstakar aðstæður sköpuðust í snjóþekjunni sem lá yfir á Skagaströnd í gærkvöldi (miðvikudag). Jafnfallin lausamjöll hafði lagst yfir og þegar kvöldaði lækkaði hitastigið en jafnframt hvessti hressilega. Í stað þess að snjóinn færi að skafa eins og oftast er við þessar aðstæður rúllaðist hann upp í mismundandi stóra snjóbolta. Þessi snjóboltagerð náttúrunnar blasti svo við íbúunum í morgun og ljómaði í hádegissólinni.
15.01.2008
Björgunarsveitin Strönd og UMF. Fram voru með sína árlega flugeldasölu í áhaldahúsi staðarins. Að venju var dregið úr bónuspotti en þeir sem versluðu fyrir 25.000 krónur eða meira komust í pottinn. Eftir lokun þann 31.des. var dregið úr pottinum og sá heppni þetta árið var Kristján Pétur Guðjónsson. Að sjálfsögðu voru verðlaunin vegleg flugeldaveisla. Flugeldasalan er ein mikilvægasta fjáröflun félaganna og þakka þau veittan stuðning í gegnum árin.
15.01.2008
Skrifað var undir fyrsta Vaxtasamning Norðurlands vestra á Sauðárkróki í dag. Samningurinn er til þriggja ára og er framlag ríkisins samtals um 90 milljónir króna. Miklar vonir eru bundnar við samninginn.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra skrifaði undir samninginn fyrir hönd ríkisins en Adolf Berndsen formaður sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, skrifaði undir fyrir hönd heimamanna. Sérstök áhersla verður lögð á tvo klasa, annars vegar menntun og rannsóknir og hins vegar menningu og ferðaþjónustu. Með samningnum skuldbindur iðnaðarráðuneytið sig til að greiða 90 milljónir til verkefnanna á næstu þremur árum og er það hluti af mótvægisaðgerðum vegna niðurskurðar þorskkvótans.
Við sama tækifæri var undirritaður viðaukasamningur við vaxtarsamning sem er samningur fyrirtækja og stofnana um aðkomu að vaxtarsamningi í formi fjármagns, sérfræðivinnu eða aðstöðu. 17 fyrirtæki og stofnanir eru aðilar að samningnum og nema framlög þeirra samtals um 56,4 milljónum króna á samningstímanum, en þau eru; SSNV atvinnuþróun, Sparisjóður Húnaþings og Stranda, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélagið Aldan,Landsvirkjun, Kaupþing banki, Byggðastofnun, Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Bifröst, Nýsköpunarmiðstöð, Veiðimálastofnun, Menningarráð Norðurlands vestra, Verið- vísindagarðar, Biopol, Selasetur Íslands og Forsvar.
Heimild: Húnahornið
11.01.2008
Eftirfarandi frétt birtist á Húnahorninu og er vitnað í héraðsfréttablaðið Feyki.
Tökum þátt í skemmtilegri kosningu
Feykir mun nú í fyrsta sinn vera með kosningu á þeim íbúa, eða hópi, á Norðurlandi vestra sem þykir hafa skarað fram úr á árinu sem nú er liðið. Valdir voru 10 einstaklingar eða hópar sem unnið hafa til afreka, hver á sínu sviði, á árinu og munu lesendur Feykis, Húnahornsins og Skagafjarðar.com geta kosið um það hver eigi útnefninguna mest skilið.
Það var ekki auðvelt að takmarka fjöldann við 10 aðila og margir fleiri hefðu átt skilið að vera útnefndir. Lesendur Feykis geta sent tölvupóst á feykir@nyprent.is og skilað þannig sínu atkvæði en einnig verður hægt að kjósa á Húnahorninu og Skagafirði.com.
Þórarinn Eymundsson, hestamaður á Sauðárkróki. Þórarinn vann sér keppnisrétt á Heimsmeistaramótið í hestaíþróttum 2007, á úrtökumótum sem LH heldur fyrir HM. Á þeim mótum vann hann glæsilega bæði tölt og fimmgang á hestinum Krafti frá Bringu. Þeir félagar héldu sigurgöngu sinni áfram á Íslandsmótinu en Þórarinn er Íslandsmeistari í tölti og fimmgangi. Þetta er annað árið í röð sem þeir vinna þessa báða titla og er það einstakt afrek í sögu hestaíþrótta. Þórarinn vann svo tvö gull á HM í Hollandi, í fimmgangi og sem samanlagður sigurvegari í fimmgangsgreinum. Einnig vann hann silfurverðlaun í tölti.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir frjálsíþróttakona USVH. Helga Margrét hefur þrátt fyrir ungan aldur náð frábærum árangri og hefur sannað sig sem alhliða frjálsíþróttakona. En Margrét var aðeins hársbreidd frá því að slá Íslandsmet kvenna í sjöþraut á árinu.
Björn Þór Kristjánsson, ferðaþjónustumógúll í Austur-Húnavatnssýslu. Björn Þór opnaði í samstarfi við aðra veitingastaðinn Pottinn og pönnuna á Blönduósi í sumar samhliða því að vera með ferðaþjónustu á Húnavöllum og vera í forsvari fyrir hópi sem er að byggja upp þjónustu við ferðamenn á Hveravöllum. Björn Þór er ekki einungis maður hugmynda hann er einnig maður framkvæmda.
Börnin á Skagaströnd. Börnin á Skagaströnd eru engum lík, þau höfnuðu í þriðja sæti í Skólafitness á Norðurlandi og sigruðu skólakeppnina Reyklaus. Þegar þau langaði í nýja sundlaug fóru þau af stað og söfnuðu undirskriftum og skiluðu inn til sveitarstjórnar og komu þannig hreyfingu á málin. Aftur voru þau á ferðinni þegar henda átti jólatré bæjarins og fá nýtt sökum hversu horað tréð var. Horaða trénu var fundinn nýr staður. Þá seldur þau bænum eitt vinaband á hvern íbúa bæjarins til þess að safna fé fyrir Rauða Krossinn. Með æsku sem þessa er engu að kvíða í málefnum íbúa Skagastrandar.
Lilja Pálmadóttir Hofi og Steinunn Jónsdóttir Bæ á Höfðaströnd. Þessar ungu konur komu að máli við sveitarstjórn Skagafjarðar og ætla að gefa sveitarfélaginu sundlaug með tilheyrandi aðstöðu á Hofsósi.
Húsfreyjurnar á Vatnsnesi. Húsfreyjurnar standa á sumrin fyrir glæsilegu Fjöruhlaðborði og á haustin tekur við sviðaveisla. Þá gáfu þær sveitarfélaginu 1,5 milljón króna til þess að byggja við félagsheimilið á Vatnsnesi. Kraftakerlingar þarna á ferð.
Alexandra Chernyshova, söngkona Hofsósi. Alexandra sem er í forsvari fyrir Óperu Skagafjarðar stóð fyrir uppsetningu á La Traviata á árinu. Uppsetningin fékk frábæra dóma og hefur Ópera Skagafjarðar sýnt La Traviata fyrir fullu húsi vítt og breytt um landið síðustu mánuði.
Jakob Jónsson, Léttitækni á Blönduósi. Jakob er í forsvari fyrir fyrirtæki sem er eitt það fremsta í sinni röð hér á landi. Léttitækni sérhæfir sig í öllum lausnum þegar kemur að lagerhaldi fyrirtækja auk þess að vera með, eins og nafnið gefur til kynna, ýmis léttitæki. Fyrirtækið er í örum vexti en engu að síður segir Jakob að það borgi sig að reka höfuðsvöðvar þess heima á Blönduósi og vera með útibú í Reykjavík.
Sigríður Sigurðardóttir, Safnstjóri Byggðasafns Skagafjarðar. Sigríður hefur gengt þessu ári í 20 ár og var nú í haust haldið sérstakt málþing tileinkað Sigríði og hennar störfum. Varla er haldin sú sýning í Skagafirði að Sigríður eigi ekki þar einhvern hlut að máli og eru fáir sem sinna starfi sínu að jafn mikilli ástríðu og Sigríður.
Aðstandendur Húnahornsins. Húni.is er heimasíða þar sem finna má fréttir og fróðleik af mannlífi í Húnavatnssýslum. Heimasíðan er rekin af áhugafólki um mannlíf á svæðinu og algjörlega í sjálfboðavinnu. Engu að síður er heimasíðan uppfærð oft á dag og nær að vera einstaklega lifandi og skemmtileg.
08.01.2008
Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar til eflingar ferðaþjónustu - Auglýst er eftir umsóknum
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita alls 160 milljónum króna til eflingar ferðaþjónustu á þeim svæðum sem verða fyrir aflasamdrætti vegna skerðingar á veiðiheimildum.
Auglýst er eftir umsóknum um stuðning við verkefni til atvinnusköpunar í ferðaþjónustu á ofangreindum svæðum. Umsækjendur geta verið sveitarfélög, einstaklingar og fyrirtæki og er hámarksstyrkur til hvers verkefnis 8 milljónir kr.
Verkefnin verði unnin á árunum 2008-2009 og verður styrkurinn greiddur í tvennu lagi, helmingur hvort ár. Seinni greiðslan er háð árangursmælingu í samræmi við ákvæði í umsókn, en hver umsækjandi gerir tillögu að árangursmælikvarða fyrir viðkomandi verkefni.
Við afgreiðslu umsókna verður sérstaklega litið til langtímaáhrifa verkefna á sköpun nýrra starfa á svæðunum og hversu hratt störfin geta orðið til. Ekki er um að ræða styrki til menntunar eða rannsókna.
Umsóknum skal skila á sérstökum umsóknareyðublöðum, sem hægt er að nálgast á vefsíðum Byggðastofnunar ( www.byggdastofnun.is ) og Ferðamálastofu ( www.ferdamalastofa.is )
Umsóknum skal skila til Byggðastofnunar, Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki
eða Ferðamálastofu, Lækjargötu 3, 101 Reykjavík fyrir 5. febrúar 2008.
Nánari upplýsingar gefur Helga Haraldsdóttir, Iðnaðarráðuneyti.
08.01.2008
ÁHUGAFÓLK UM UPPBYGGINGU Á FERÐAÞJÓNUSTU
Fundur verður haldinn í Fellsborg fimmtudaginn 10. janúar næstkomandi kl. 18:00. Á fundinum verður farið yfir nýja möguleika er varða styrkveitingar til fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Einnig verður kynning á skýrslu sem var útbúin fyrir atvinnumálanefnd Skagastrandar um möguleika í ferðaþjónustu á Skagaströnd.
Á fundinn mæta atvinnuráðgjafi og menningarfulltrúi frá SSNV.
Allir sem hafa áhuga á uppbyggingu ferðaþjónustu eða standa í slíkum rekstri eru hvattir til að mæta og kynna sér málin.
Atvinnumálanefnd Skagastrandar og SSNV atvinnuþróun
07.01.2008
Líffræðingur / Fiskifræðingur / Líftæknifræðingur
BioPol ehf., Sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd, óskar eftir að ráða líffræðing / fiskifræðing / líftæknifræðing eða starfsmann með sambærilega menntun til starfa.
Starfssvið:
· Framkvæmd og umsjón rannsóknaverkefna tengd lífríki Húnaflóa.
· Mótun nýrra rannsóknaverkefna.
· Þátttaka í uppbyggingu og stefnumótun BioPol ehf.
Hæfniskröfur:
· Áskilið er B.Sc eða M.Sc. próf í fyrrgreindum fræðigreinum.
· Reynsla af rekstri og uppsetningu rannsóknaverkefna.
· Sjálfstæð og skipuleg vinnubrögð.
Umsóknarfrestur er til og með 20. janúar nk. Umsóknir með upplýsingum um menntun, starfsreynslu og meðmælendur berist
BioPol ehf., Bjarmanesi, 545 Skagaströnd
Nánari upplýsingar veitir Halldór G. Ólafsson framkvæmdastjóri í síma 452-2977 eða 896-7977
BioPol ehf., Sjávarlíftæknisetri á Skagaströnd er ætlað starfa á vettvangi:
· Rannsókna á lífríki Húnaflóa með það að leiðarljósi að auka þekkingu á vistkerfi hans og landgrunnsins við Ísland. Á þessum rannsóknum verður byggð markviss leit að auknum nýtingarmöguleikum auðlinda sjávar.
· Rannsókna á vettvangi líftækni, nýsköpun og markaðssetning á afurðum líftækni úr sjávarlífverum.
· Fræðslu í tengslum við fyrrgreindar rannsóknir.
BioPol ehf. hefur gert samstarfssamninga við Háskólann á Akureyri, Scottish Association for Marine Science og Veiðimálastofnun.
02.01.2008
Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 á fundi sínum 27. desember sl.
Heildarniðurstaða fjárhagsáætlunar er að rekstrarniðurstaða er jákvæð um 20 milljónir króna. Áætlaðar skatttekjur nema tæpum 230 milljónum og heildartekjur A-hluta eru áætlaðar 339 milljónum og heildartekjur samstæðu tæpar 408 milljónir. Heildargjöld A-hluta eru áætluð 286 milljónir og heildargjöld samstæðu 355 milljónir. Í yfirliti um sjóðstreymi er m.a. gerð áætlun um fjáfestingar og eru samtals fjárfestingar áætlaðar 125,8 milljónir. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir að handbært fé lækki um 38,6 milljónir á árinu og verði rúmar 655 milljónir.
Sveitarstjóri
http://www.skagastrond.is/frettir/users3/stjori/Samþykkt%20áætlun%20-%20deildayfirlit08.pdf