10.12.2008
Fimmtudaginn 11.desember kl. 20.oo
Prjónakaffi og jólamarkaður í Kvennaskólanum á Blönduósi.
Safnbúð og kaffistofa Heimilisiðnaðarsafnsis er einnig opin.
Jólamarkaður – vandað handverk til sölu
Prjónakaffi - áhugasamir eru hvattir til að mæta
með prjóna eða aðra handavinnu og eiga notalega kvöldstund saman.
Heimilisiðnaðarsafnið – safnbúðin og kaffistofan eru opin.
Handverksfólk sem hefur áhuga á því að selja á markaðnum er bent á að hafa samband við Ásdísi gsm. 894-9030
TEXTÍLSETUR ÍSLANDS
Kvennaskólanum
Árbraut 31, Blönduósi
452 4300 - 894 9030
textilsetur@simnet.is
www.textilsetur.is
09.12.2008
Á miðvikudagskvöldið 10. desember kl. 20:30 verður haldin skemmtun í Bjarmanesi. Um er að ræða dálitla tilraun til að vega upp á móti niðurdrepandi krepputali og bölsýni. Fyrir framtakinu stendur hópur Skagstrendinga sem finnst tilveran of góð til að eyða henni í stöðuganbarlóm:
„Við neitum því að láta kreppuna stjórna lífi okkar heldur tökum á móti jólum og hækkandi sól með gleði í hjarta ... Þess vegna ætlum við að koma saman og stofna Gleðibankann.“
Dagskrá kvöldsins
Gleðibankinn, kynning og stofnun
Skagstrendskar skopsögur
Sagt frá skeri nokkru sem er enn kaldara, í máli og myndum
Afsláttardagurinn kynntur og gleðikortið afhent
Tónlist, uppspretta gleðinnar
Upplestur úr jólabókum
Afhending hlutabréfa
Fallbyssan: Öllu neikvæðu skotið út í hafsauga
Kaffi, kakó og kökur í boði Sjóvá
Við skrifum bölsýnina og vandamálin á litla miða, setjum þá í fallbyssuna og svo skjótum við ófögnuðinum út í geiminn. Búið ...!!
Afsláttardagurinn
Föstudaginn 12. desember 2008 veita eftirtalin fyrirtæki á Skagaströnd afslátt gegn framvísun gleðikortsins:
• SamkaupÚrval ..... 5%*)
• Kántrýbær ............ 10%*)
• Söluskálinn ...........10%*)
• Olís ....................... 5 krónu afsláttur af eldsneyti.
*) Afslátturinn gildir ekki fyrir áfengi og tóbak.
Öllum er heimill aðgangur að skemmtuninni og er ekki krafist neins aðgangseyris.
05.12.2008
Kaffihlaðborð verður í Bjarmanesi sunnudaginn 7. desember frá kl. 14.00 til 18.00.
Í boði er kaffi, heitt súkkulaði og jólate, marsipan og marengstertur, brauðtertur og flatkökur með hangikjöti svo eitthvað sé nefnt.
Verð 1000 kr. fyrir fullorðna – 500 kr. fyrir börn 5 - 12 ára.
Frítt fyrir 0 - 4 ára.
Eygló Amelía kemur og syngur nokkur jólalög. allir hjartanlega velkomnir.
Á sama tíma verður jólamarkaður í kjallara Bjarmaness þar sem fjölmargir listamenn selja handverk sitt.
05.12.2008
Halldór Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol ehf., verður spyrill í spurningakeppninni Drekktu betur sem haldin verður í Kántrýbæ í kvöld.
A föstudagskvöldið verður sjötta og jafnframt síðasta spurningakeppnin á þessu ári. Fyrri keppnir hafa verið ákaflega skemmtilegar, spyrlar fróðir og komið á óvart með fjölbreytni sinni og ekki hafa þátttakendur verið síðri.
Halldór hefur verið önnum kafinn síðustu tvær vikur við að búa til spurningar sínar. Hann hefur auðvitað mestar áhyggjur yfir því að þær verði of léttar. Við sjáum nú bara til með það. Hitt vita flestir að hann hefur einu sinni unnið bjórkassann sem er í verðlaun og ætti nú að vita hverskonar spurningar þarf að leggja fyrir hina vísu Skagstrendinga.
05.12.2008
Gríðarleg breyting hefur orðið á umsvifum í Skagastrandarhöfn. Mikill afli berst nú til lands og á fyrstu þremur mánuðum fiskveiðiársins barst 55% af þeim afla sem hér var landað allt síðasta tímabil.
Fiskveiðitímabilið hefst sem kunnugt er í september. Landaður afli á Skagaströnd á þremur fyrstu mánuðum þess er nú rúmlega tvöfalt meiri en á sama tíma í fyrra.
Í september, október og nóvember bárust á land samtals 3.282 tonn, en sömu mánuði í fyrra var landað 1.580 tonnum og árið 2006 var aflinn 1.865 tonn.
Þetta er afar mikil breyting og því til staðfestingar má nefna að allur afli síðasta fiskveiðiári var 5.984 tonn en þar áður var aflinn 9.273 tonn.
Það sem af er hafa átján skip og bátar lagt upp á Skagaströnd, sumir einu sinni og aðrir mun oftar.
Aflahæstu skipin eru þessi:
Rifsnes SH44 - 188.235 tonn
Valdimar GK195 - 160.492 tonn
Kristinn SH112 - 159.094 tonn
Sturla GK12 - 150.050 tonn
Örvar SH77 - 83.836 tonn
Togarinn Arnar kom 24. nóvember og landaði samtals 317.930 tonnum af frystum flökum og heilfrystu.
03.12.2008
Biopol sjávarlíftæknisetur hefur hafið rannsóknir á beitukóngi í Húnaflóa. Hún er unnin í samstarfi við Vör-Sjávarrannsóknarsetur við Breiðafjörð, Sægarp ehf. á Grundarfirði og Vík ehf. á Skagaströnd.
Markmiðið er að gera frumathugun á hvort beitukóngur (Buccinum undatum) finnist í veiðanlegu magni í Húnaflóa.
Framkvæmd verkefnisins fer fram með þeim hætti að trossur með gildrum er lagðar á völdum svæðum sem eru valin sérstaklega með tilliti til botngerðar og dýpis þar sem aukin líkindi eru á að beitukóngur ætti að geta verið fyrir hendi. Aflinn sem fæst í gildrurnar verður tekin í land til rannsókna. Verkefnið er styrkt af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra.
Beitukóngsveiðarnar hafa gengið ágætlega og hefur nú verið vitjað fjórum sinnum um gildrurnar og þær fluttar til.
Fyrstu trossurnar voru lagðar rétt sunnan við Skagaströnd svo hafa þær verið færðar norðar í hvert sinn sem vitjað er. Hafrún HU12 hefur verið notuð til veiðanna og er öll aðstað um borð til fyrirmyndar.
Aflinn var frekar dræmur í annari vitjun, líklega vegna veðurs.
Eftir þriðju vitjun á laugardaginn síðasta var hálf tindabykkja sett til viðbótar við hökkuðu síldina í gildrurnar. Tindabykkjan virðist hafa góð áhrif á veiðina því að í síðust vitjun var heildaraflinn 139 kg eða að meðaltali 2,3 kg í gildru.
Mesta veiðin í eina gildru var 4,9 kg sem þykir nokkuð gott. Veiðin virðist vera best á 10 til 20 föðmum. Áætlað er að leggja trossurnar fjórum sinnum í viðbót í þessari atrennu.
03.12.2008
Enskunám er nú að hefjast í Farskólaverkefninu "Eflum byggð á Skagaströnd". Kennt verður daganna 3. des og 10. des og alla eftir áramót verður kennt á fimmtudögum í átta vikur.
Öllum er heimil þátttaka, hún kostar ekkert og námsgögnin eru líka ókeypis. Fólk getur einnigvalið að taka bara ensku og sleppt öðrum námshlutum.
Allir tímar hefjast kl. 18:00 og þeim lýkur kl. 21:00. Lögð er áhersla á að gefa öllum tækifæri á að læra með sínum hraða og námsefnið sniðið að þörfum hvers og eins. Ekki er lögð áhersla á heimanám og lokapróf er ekki haldið enda tilgangurinn að gefa fólki hvatningu til frekara náms.
Hægt er að skrá sig í síma 455 6010 eða senda tölvupóst á netfangið asdish@farskolinn.is.
02.12.2008
Kveikt var á ljósunum á jólatrénu á Skagaströnd í gær. Lítilsháttar frost og smávægileg snjófjúk kom ekki í veg fyrir að jólasveinarnir mættu á staðinn og þarna á Hnappstaðatúninu voru auðvitað mætt langflest börn á Skagaströnd og foreldrar þeirra.
Svo var sungið og dansað í kringum jólatréð sem lék við hvern sinn fingur eða grein. Jólasveinarnir komu víða að meðal annars var þarna einn sem talaði bara útlensku. Hann var líklega í námsferð hjá þeim íslensku. Þeir kokmu færandi hendi og er það líklega tímanna tákn að þeir útdeildu "blandi í poka" til allra barna en ekki einhverju fornlegu eins og kertum eða spilum.
Grýla var víðs fjarri með pokann sinn og var hann sem endranær galtómur.
02.12.2008
Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi býður upp á prjónakaffi og jólamarkað í Kvennaskólanum næsta fimmtudag, 11. desember kl. 20.
Á jólamarkaðnum verður í boði vandað handverk. Þá eru áhugasamir hvattir til að mæta með prjóna eða aðra handavinnu og eiga notalega kvöldstund saman.
27.11.2008
Valnefnd í Skagastrandarprestakalli, Húnavatnsprófastsdæmi, ákvað á fundi sínum þann 26. nóvember að legga til að Ursula Árnadóttir verði ráðin sóknarprestur í prestakallinu.
Umsóknarfrestur rann út 14. nóvember síðastsliðinn. Þrír umsækjendur voru um embættið.
Embættið veitist frá 1. janúar 2009. Biskup Íslands skipar í embætti sóknarprests til fimm ára að fenginni umsögn valnefndar. Valnefnd skipuðu níu manns úr prestakallinu ásamt prófasti Húnavatnsprófastsdæmis.