16.06.2017
Þórdísarganga
Fjallganga á Spákonufellsborg er hressandi og á allflestra færi
enda nýtur leiðin sívaxandi vinsælda. 5. júlí 2008 var farin
Þórdísarganga á Spákonfellsborg á vegum Spákonuhofsins á Skagaströnd.
Leiðsögumaður var Ólafur Bernódusson en milli 60 og 70 manns
kom með í gönguna í blíðu veðri.
Á myndinni er gönguhópurinn búinn að stilla sér upp til myndatöku
við vörðuna uppi á Borgarhausnum.
Eins og sjá má er fólkið á öllum aldri 6 - 74 ára.
Senda upplýsingar um myndina
16.06.2017
Í vikunni, 19. – 23. júní mun fimm manna hópur sjálfboðaliða frá Umhverfisstofnun vinna að eyðingu lúpínu á Spákonufellshöfða. Hópurinn mun vinna í nánu samstarfi við áhaldahús og vinnuskóla.
Markmið með verkefninu er að hefta útbreiðslu lúpínunnar í friðlandi Höfðans og endurheimta þau gróðursvæði sem lúpínan hefur þegar lagt undir sig. Þetta er ekki auðvelt viðureignar og því er auglýst eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í verkefninu. Með samstilltu átaki má ná enn betri árangri.
Hópurinn mun hittast við áhaldahúsið á mánudaginn 19. júní kl 9.00 og þeir sem hefðu áhuga á að mæta þar eru velkomnir. Sömuleiðis er fólki velkomið að koma inn í vinnuhópinn þegar hentar síðar í vikunni og leggja sitt að mörkum í samráði við hópinn.
Sveitarstjóri
09.06.2017
Fjör á netaveiðum.
Karlinn brosir í brúnni enda úrgreiðsluborðið fullt af fiski eins og hann
vill hafa það. Myndin var tekin um borð í Ólafi Magnússyni Hu 54 á
netavertíð.
Karlarnir eru, frá vinstri: Kristján Karlsson á rúllunni, Stefán Jósefsson
skipstjóri og útgerðamaður í brúnni,
Ragnar Ingvarsson og Hjörtur Guðmundsson við úrgreiðsluborðið.
Maðurinn bak við Ragnar er Kristinn Thor Sigurðsson.
Myndina tók Árni Geir Ingvarsson sem var einn af hásetunum á
Ólafi á þessum tíma.
Senda upplýsingar um myndina
09.06.2017
Dagskrá sjómannadagsins á Skagaströnd laugardaginn
10. júní 2017
10:30 Skrúðganga frá höfninni að Hólaneskirkju
Fjölmennum á skrúðgönguna til að viðhalda
þessari skemmtilegu hefð.
11:00 Sjómannamessa í Hólaneskirkju
Kór sjómanna syngur.
Að messu lokinni verður lagður blómakrans við minnismerki
drukknaðra sjómanna til að heiðra minningu þeirra.
13:15 Skemmtisigling
Foreldrar hvattir til þess að fjölmenna með börn sín.
14:00 Skemmtun á Hafnarhúsplani
Skemmtun hefst á fallbyssuskoti. Kappróður og leikir á plani.
Sjoppa á staðnum, gos,pylsur og sælgæti.
15:30 Kaffisala í Fellsborg
Rjúkandi heitt á könnunni og fjölbreytt bakkelsi.
Hestamannafélagið Snarfari býður börnum upp á að fara á hestbak.
23:00 Stórdansleikur í Fellsborg
Delta ætla að sjá um fjörið á stórdansleik í Fellsborg.
Allir að mæta og skemmta sér nú duglega.
Góða Skemmtun
06.06.2017
Vörusmiðja - Sjávarrannsóknir
Í tengslum við hátíðahöld Sjómannadagsins á Skagaströnd, laugardaginn 10. júní, býður Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf gestum að skoða rannsóknarstofu félagsins.
Til sýnis verða meðal annars ný Vörusmiðja þar sem fólki mun gefast kostur á að vinna að þróun og framleiðslu matvæla o.fl.
Opið kl 15:00 - 18:00
Allir hjartanlega velkomnir
BioPol ehf
02.06.2017
Ferming 18. maí 1958
Fermingarsystkin sem fermd voru 18. maí 1958 af séra
Pétri Þ. Ingjaldssyni í Hólaneskirkju.
Fremsta röð frá vinstri:
Harpa Friðjónsdóttir, Halla Björg Bernódusdóttir, Kristinn Lúðvíksson,
Anna Skaftadóttir, Bylgja Angantýsdóttir.
Önnur röð: Helga Ólafsdóttir, Sigrún Jóhannesdóttir.
Þriðja röð: Konráð Guðmundsson, Sævar Bjarnason, Björn Sigurðsson.
Aftasta röð: Sigurjón Magnússon, Birgir Þórbjarnarson.
Myndin var tekin í gömlu kirkjunni á Skagaströnd.
Senda upplýsingar um myndina
31.05.2017
Þann 3. júní kl. 14 verður sýningin Kona á skjön opnuð á Sauðárkróki. Sýningin fjallar um ævi og störf Guðrúnar Árnadóttur frá Lundi en rithöfundaferill hennar er sannkallað ævintýri í íslenskri bókmenntasögu. Óþekkt kona norðan úr Skagafirði verður metsöluhöfundur nánast á einni nóttu og bækurnar tróna á toppi vinsældarlista í rúma tvo áratugi. Hún er orðin 59 ára þegar fyrsta skáldsagan kemur út, eftir það skrifar hún 27 bækur í 11 skáldverkum.
Þetta gerðist í heimi fjölda hindrana fyrir alþýðukonu sem þráði að skrifa skáldsögur. Bústörf og barnauppeldi stóðu í veginum og ritvöllurinn var að mestu karlanna. Hún var dáð af stórum hluta þjóðarinnar en raddsterkir áhrifamenn flokkuðu verk hennar með erlendum afþreyingarbókmenntum og reyfararusli.
Sýningarhöfundar eru Kristín Sigurrós Einarsdóttir leiðsögumaður og kennari og Marín Guðrún Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar frá Lundi.
Sýningin verður að Aðalgötu 2 á Sauðárkróki og mun standa út júlímánuð. Opið verður alla daga frá kl. 13-17, aðgangur er ókeypis og heitt á könnunni. Þann 3 júní n.k. eru 130 ár frá því að Guðrún fæddist.
Með von um að fjölmiðill þinn þiggi boð á opnun eða sjái sér fært að fjalla um hana veitum við fúslega nánari upplýsingar.
Marín Guðrún Hrafnsdóttir (7764599) og Kristín Sigurrós Einarsdóttir (8673164).
Tilvitnanir úr verkum Guðrúnar:
„Fékkstu þér virkilega ekki bragð þá einu sinni þú reiðst í kaupstaðinn? Skárri er það sparsemin – mér liggur við að segja vesalmennskan.“ (Tengdadóttirin)
„Hann var gagnfræðingur, laglegur tilhaldspiltur og lét talsvert mikið á því bera að hann væri yfir aðra hafinn. Hafði gaman af að láta útlend orð fjúka yfir þetta óupplýsta útkjálkafólk“ (Utan frá sjó)
Eftirtaldir styrktu sýninguna:
Samfélagssjóður Landsbankans, Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra, Samfélagssjóður Landsvirkjunar, Menningarsjóður KS, Fisk Seafood, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Nýja kaffibrennslan, Landsbankinn, Lyfja, Marska hf., Sauðárkróksbakarí, Sjúkraþjálfun Sigurveigar, Sveitarfélagið Skagafjörður, Sveitarfélagið Skagaströnd, Sviðsljós og Þekkingarsetrið á Blönduósi.
29.05.2017
Götusópun hófst í morgun á Skagaströnd, bifreiðaeigendum er því vinsamlega bent á að færa bíla sína ef þarf, þannig að sem allra bestur árangur verði.
29.05.2017
Skólaslit og afhending prófskírteina verður mánudaginn 29.maí kl. 17 í Blönduósskirkju.
Allir velkomnir.
Skólastjóri
26.05.2017
Vinnuskólinn.
Vinnuskóli Skagastrandar er fyrir nemendur, búsetta á Skagaströnd, sem hafa nýlokið 8., 9. og 10. bekk Höfðaskóla. Markmið vinnuskóla er að gefa unglingum kost á samspili vinnu, þjálfunar og fræðslu í sumarleyfi sínu. Vinnuskóli Skagastrandar er starfræktur í 10 vikur: Hann hefst þriðjudaginn 6. júní og lýkur föstudaginn 4. ágúst. Skráning í vinnuskólann er á skrifstofu sveitarfélagsins
Vinnutími
Daglegur vinnutími 10. bekkjar er frá 09:00-12 og 13-16 mánudaga til fimmtudaga en á föstudögum til 12:00. Daglegur vinnutími 8. og 9.bekkja er frá 09-12 og 13-16 mánudaga til fimmtudaga ekki er unnið á föstudögum.
Laun
Laun eru greidd út hálfsmánaðarlega.
Nemendur 10. bekkjar þurfa að skila skattkorti og greiða félagsgjöld og lífeyrissjóð.
Iðgjöld reiknast frá næstu mánaðarmótum eftir 16 ára afmælisdag.
· Nemendur 10. bekkjar 732 kr./klst.
· Nemendur 9. bekkjar 581 kr./klst.
· Nemendur 8. bekkjar 488 kr./klst.
Laun eru lögð inn á bankareikning sem verður að vera á nafni og kennitölu viðkomandi unglings. Nemendur vinnuskóla eru tryggðir launþegatryggingu sem tryggir þá í vinnu og á beinni leið til og frá vinnu.
Starfsreglur
Reglur Vinnuskólans eru einfaldar og skýrar.
· Mæta skal á réttum tíma á réttum stað.
· Sýna skal flokkstjórum kurteisi sem og öllum öðrum.
· Einelti er ekki liðið.
· Reykingar eru stranglega bannaðar.
· Símar eru ekki bannaðir en ætlast er til að notkun sé í hófi.
Fatnaður
Nemendur Vinnuskóla skulu leggja sér til allan vinnufatnað en Vinnuskólinn leggur til Öryggisvesti á ALLA og aðrar persónuhlífar þar sem við á. Öllum er ráðlagt að merkja fatnað,skó og stígvél.
Engin ábyrgð er tekin á fötum eða öðrum hlutum sem nemendur taka með sér á vinnustað.
Brot á starfsreglum Vinnuskólans getur þýtt brottvísun að undangenginni áminningu.
Símar Vinnuskólans
Áhaldahús: 4522607 Árni Geir: 8614267
Netfang Vinnuskólans er ahaldahus@skagastrond.is