Skagaströnd / Borgarbyggð í Útsvari í kvöld

Í kvöld föstudagskvöldið 7. nóvember kl 20.10 verður spurningaþátturinn Útsvar á dagskrá RÚV í beinni útsendingu. Keppendur eru frá sveitarfélögunum Skagaströnd og Borgarbyggð. Fyrir hönd Skagastrandar mæta: Trostan Agnarsson, kennari við Höfðaskóla Árni Friðriksson, jarðfræðingur og starfsmaður BioPol Eva Ósk Hafdísardóttir, stuðningsfulltrúi við Höfðaskóla Við óskum þeim góðs gengis í viðureign við harðsnúið lið Borgfirðinga.

Mynd vikunnar

Es Laura 1910 Millilanda- og Strandferðaskipið Laura - Lára - á strandstað á Bótinni, í mars 1910. Allir björguðust en skipið brotnaði á strandstað því ekki tókst að draga það á flot aftur. Í baksýn sér í norðanverðan Höfðann. Svo vildi til að Guðrún Teitsdóttir (d. 17.6.1978) ljósmóðir í Árnesi - Guðrún ljósa - var farþegi með skipinu í þessari síðustu ferð Lauru. Hér fyrir neðan fer frásögn Guðrúnar af strandinu en frásögnin er tekin af vefsíðu sem afkomendur Guðrúnar hafa sett út á netið, (ljosmodir.wordpress.com/amma-hefur-ordid/). Myndina tók Evald Hemmert. LÁRUSTRANDIÐ "Haustið 1909 fór ég til Akureyrar til að læra að sauma. Ég hélt til hjá Valgerði Ólafsdóttur frænku minni. Hún bjó hjá syni sínum Halldóri. Hún kom mér fyrir hjá konu sem kenndi saumaskap. Og var ég þar í 6 mánuði. Mér langar mjög mikið til að læra dönsku því frænka mín var alltaf að lesa dönsku. Kom hún mér þá fyrir hjá Jórunni Sigurðardóttur sem hafði kvennaskóla og tók hún mig í dönskutíma og hafði ég gott af því. Svo fór ég heim í mars með gömlu Láru. Gekk það allt vel þar til við komum inn í Húnaflóa. Þar var hríðarveður. Stýrimaður kom inn til okkar stúlknanna um morguninn og sagði okkur að við skyldum liggja í rúminu þar til við kæmum til Skagastrandar um hádegisbil. Kojurnar okkar voru inn af matsalnum en í honum sátu 13 Fransmenn sem höfðu brotið skip sitt fyrir austan land og voru nú á leið suður. Svo þegar skipið fór að taka niður þá fór að heyrast í körlunum og bar mest á orðinu „malestia“ sem mér var sagt að væri svart blótsyrði og er það eina orðið sem ég kann í frönsku. Við þurftum að drífa okkur í fötin því skipið hallaði gífurlega. Og fórum upp á þiljur þá var skipið strandað og hvítfrissandi bárur allt í kring. Við sáum til lands framundan og okkur var sagt að við hefðum strandað fyrir utan höfðann á Skagaströnd. Svo voru settir út tveir bátar og vorum við stúlkurnar settar ofan í annan bátinn ásamt öðrum. Og kom fyrsti stýrimaður og settist undir stýrið svo var lagt af heimleiðis. Ferðin tók klukkutíma og var það köld ferð. Við komumst upp í víkina fyrir sunnan Hólanes og brutumst þar upp í gegnum mikla skafla. Svo var mér fylgt út á bæ til móðursystur minnar Maríu að nafni og bjó hún í Viðvík. Hún var móðir Gísla sem var faðir Snorra og Snorri er faðir Gísla sem þú þekkir. Fékk ég þar ágætis viðtökur og var þar um nóttina."

Mæling brennisteinsdíoxíðs á Skagaströnd

Í dag, þriðjudag kl 15.oo mældis brennisteinsdíoxíð 820 μg/m3 Samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar er gildi brennisteinsdíoxíðs á bilinu 600-2000 μg/m3 slæmt fyrir viðkvæma og fólki ráðlagt að forðast áreynslu utandyra. Áhrif á heilsufar er þó ólíklegt. Áhrif SO2

Auglýsing vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2014/2015

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög skv. Ákvæðum reglugerðar nr. 652/2014 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015 Grundarfjarðarbær (Grundarfjörður) Borgarfjarðarhreppur (Borgarfjörður eystri) Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í neðanskráðum byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 948/2014 í Stjórnartíðindum Snæfellsbær (Arnarstapi, Hellissandur, Rif og Ólafsvík) Sveitarfélagið Skagaströnd Breiðdalshreppur (Breiðdalsvík) Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna hér. Umsóknum þarf að fylgja samningur við vinnslu á eyðublaði sem er að finna hér. Vakin skal athygli á því að umsóknin telst ekki gild nema samningur um vinnslu fylgi. Umsóknarfrestur er til og með 17. nóvember 2014. Fiskistofa 31. október 2014

Mynd vikunnar

Málningargengi Í nokkur ár var Arnar Hu 1 málaður á Skagaströnd þ.e.a.s. árleg "skvering" önnur en botmálning var framkvæmd á Skagaströnd. Oft var fenginn einhver verkstjóri og síðan ráðinn hópur unglinga til verksins. Á myndinni er einn slíkur unglingahópur sem málaði skipið í ágúst 1983. Frá vinstri á myndinni eru: Jón Indriðason, Sigurbjörn Kristjánsson, Ingvar Jónsson, óþekktur, Þráinn Bessi Gunnarsson, Sigurbjörn Þorvaldsson, Guðmundur Óskarsson, Arnar Erlingsson, Björn Hallbjörnsson, Þórarinn Ingvarsson, Ingimar Oddsson, Þorbjörg Eðvarðsdóttir, óþekktur, Pálína Harðardóttir, Kristjana Jónsdóttir, Hulda Magnúsdóttir og Guðmunda Ólafsdóttir.

Bæjarmálafélag Skagastrandar

Boðar til fyrsta fundar þriðjudaginn 4. nóvember n. k. í félagsheimilinu Fellsborg. Fundur hefst kl: 17.15 Þar verða lagðar línur um framhaldið og hvernig því verður háttað. Tímaþjófurinn verður ekkert á ferðinni. Við höfum fundinn stuttan og skemmtilegan. Endilega látið sem flesta vita þar sem þetta er vettvangur fyrir alla sem hafa áhuga á bæjarmálum og hafa góðar og skemmtilegar hugmyndir um það sem betur má fara. Bæjarmálafélagið J

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin fimmtudaginn 23. október síðastliðinn. Að þessu sinni var ferðinni heitið í Austur-Húnavatnssýslu og tóku heimamenn vel á móti gestunum sem voru yfir 100 ferðaþjónustuaðilar frá öllu Norðurlandi. Meðal staða sem hópurinn sótti heim var Hótel Blönduós, Heimilisiðnaðarsafnið þar sem við kynntumst Halldóru Bjarnadóttur, Textílsafnið sem skartaði refli um Vatnsdælu sem er enn í vinnslu. Spákonuhof tók vel á móti gestum á Skagaströnd, og þar bauð svo nýi veitingastaðurinn Borgin hópnum heim. Laxasetur Íslands og Ísgel fræddi gestina um starfsemina og áður en kvöldið var úti heimsóttu gestir Eyvindarstofu og þáðu þar góðar veitingar og glæsilega sundlaug Blönduósbúa. Austur Húnavatnssýslur hafa mikið upp á að bjóða og ekki náðist að kanna alla þá fjölbreyttu þjónustu og afþreyingu sem þar er á einum degi. Að lokum var svo snæddur kvöldverður í félagsheimilinu á Blönduósi og dansað við undirleik Geirmundar Valtýssonar fram á nótt. Eins og venja er á uppskeruhátíð sem þessari, veitti Markaðsstofan viðurkenningar sem voru eftirfarandi: Viðurkenningu fyrir Sprota ársins fékk Spákonuhof á Skagaströnd og veitti Dagný Marín Sigmarsdóttir viðurkenningunni móttöku. Sproti ársins er veittur eftirtektarverðri nýjung á Norðurlandi. Viðurkenningu sem fyrirtæki ársins fékk Bílaleiga Akureyrar - Höldur en þessi viðurkenning er veitt til fyrirtækis sem hefur skapað sér stöðu á markaði og hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun. Við viðurkenningunni tók Þórdís Bjarnadóttir bókunarstjóri fyrirtækisins. Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður Hlíðarfjalls hlýtur viðurkenningu fyrir ötul störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. Guðmundur Karl tók við stöðu forstöðumanns Hlíðarfjalls árið 2000 og hefur unnið að krafti að því að byggja upp Hlíðarfjall sem vinsælasta skíðasvæði landsins. Frábær dagur í alla staði.

Styrkir úr Atvinnuþróunarsjóði Skagastrandar

Atvinnumálanefnd Skagastrandar auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Atvinnuþróunarsjóði Skagastrandar. Umsóknarfrestur er til kl. 17:00 þann 15. nóvember 2014 og skal skila umsóknum á sérstöku umsóknarformi sem er aðgengilegt á heimasíðunni www.skagastrond.is (hér) Um Atvinnuþróunarsjóð: Markmið sjóðsins er að hvetja til jákvæðrar umræðu og verkefna á sviði atvinnuþróunar í Sveitarfélaginu Skagaströnd. Sjóðnum er ætlað að styðja við frumkvæði íbúa og hvetja til samstarfs og nýsköpunar í sveitarfélaginu, sem og að laða að verkefni og athafnafólk. Styrkir sem veittir eru úr asjóðnum eru fyrst og fremst verkefna- og framkvæmdastyrkir, ekki rekstrarstyrkir, styrkir til að mæta opinberum gjöldum eða til að greiða skuldir. Umsóknir Sótt er um á þar til gerðu umsóknarformi sem er aðgengilegt á á vefsíðunni http://www.skagastrond.is Umsóknir sem berast eftir lok skilafrests eða uppfylla ekki kröfur um umbeðnar upplýsingar koma ekki til greina við úthlutun. Umsækjendur geta verið einstaklingar, félög og/eða fyrirtæki. Umsókn skal miðast við að framkvæmd hugmyndar eða meginumsvif vegna verkefnisins verði á Skagaströnd. Við mat umsókna verður gerð lágmarkskrafa um samfélagsleg áhrif verkefnis. Í umsókn skal gera skýra grein fyrir verkefninu, markmiðum þess og væntum árangri. Umsækjendur skulu gera skýra grein fyrir tímaáætlun og áætluðum heildarkostnaði við verkefnið. Úthlutun styrkja Til úthlutunar í desember 2014 verða allt að 2 milljónir króna. Veittir eru styrkir til að standa straum af allt að 50% af heildarkostnaði við viðkomandi verkefni. Upphæð styrkja getur verið frá 100.000 kr. til 1.000.000. Nánari lýsing á forsendum úthlutunar er í fylgiblaði með umsóknarformi. Skagaströnd, 29. október 2014 Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Úr Tímanum Þessi úrklippa úr Tímanum er frá árinu 1973 af Skagstrendingum sem eru að leggja í langferð til Japan til að sækja Arnar Hu 1, sem var fyrsti skuttogari Skagstrendings hf. Á myndinni, sem sýnir hluta áhafnarinnar sem fór, eru frá vinstri: Reynir Sigurðsson, Árni Ólafur Sigurðsson, Gylfi Guðjónsson, Birgir Þórbjarnarson, Gunnlaugur Árnason, Gylfi Sigurðsson og Óskar Þór Kristinsson. Textinn með myndinni segir allt sem segja þarf.

Foreldranámskeið

Verður haldið á Heilsugæslustöðinni á Blönduósi dagana 10., 12., 17. og 19. nóvember 2014 kl. 17:00 – 19:00. Námskeiðið kostar kr. 9.300- á einstakling / 11.500- á par. Uppeldisbókin kr. 3.000-. Athugið að mörg stéttarfélög taka þátt í kostnaðinum. Leiðbeinendur: Sesselja Kristín Eggertsdóttir og Helga Hreiðarsdóttir hjúkrunarfræðingar. Skráning hjá Kristínu sími: 892 2584, netfang: sesselja.eggertsdottir@hve.is eða hjá Helgu sími: 864 8951, netfang: helga.hreidarsdottir@hve.is Skráning þarf að fara fram fyrir 1. nóvember.