Skagaströnd með augum fuglsins

Sveinn Eggertsson var á ferðinni í sumar og tók skemmtilegar myndir með flygildi sem hann lét sveima yfir Skagaströnd. Sandar Ómarsdóttir klippti myndskeiðin til og setti á youtube: https://www.youtube.com/watch?v=QTJJ71h9Sv4&feature=youtu.be

Zumbaskvísur á Skagaströnd

Þann 29 september s.l. hófst alþjóðleg Hreyfivika um allann heim. Ungmennafélag Íslands UMFÍ stóð að skipulagningu Hreyfivikunnar á Íslandi. Zumba með Lindu Björk stóð fyrir viðburði á Skagaströnd og Sauðárkróki en það voru Zumbavinatímar á báðum stöðum og allir velkomnir með í Zumbafjörið. Á meðfylgjandi mynd eru hressar Zumbaskvísur á Skagaströnd eftir fjörugan Zumbatíma.

Hitaveitumál

Sveitarstjórn Skagstrandar fjallaði um stöðu hitaveitumála á fundi sínum 12. september sl. Fyrir fundinum lá minnisblað sveitarstjóra um hitaveitumál. Í því kemur fram að um 63% húsnæðis á Skagaströnd var tengt hitaveitu í byrjun september og reiknað með að um 82% verði tengdir næsta vor. Einnig kemur fram að niðurgreiðslur á raforku til húshitunar féllu niður frá og með 1. september sl. Þá var fjallað um kostnaðarþátttöku sveitarfélagsins í ofnakaupum og hönnunarkostnaði sem giltu til 1. september sl samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar 19. maí 2014. Þegar ákveðið var að setja sólarlagsákvæði 1. september taldi sveitarstjórn líklegt að flestar eignir sem á annað borð ætluðu að nýta sér hitaveituna myndu verða tengdar. Í ljós kom að sumarið nýttist fremur illa til pípulagna vegna sumarleyfa og álags á pípulagnamenn. . Í ljósi þess að hitaveitutengingar hafa gengið hægar en upphaflega var áætlað af ýmsum ástæðum samþykkti sveitarstjórn að framlengja gildistíma reglna um kostnaðarþátttöku til 1. maí 2015 en samþykkti jafnframt að ekki verði um frekari framlengingar að ræða. Reglur um kostnaðarþátttökuna má finna hér.

Árleg inflúensubólusetning haustið 2014

Heilbrigðisstofnunin Blönduósi auglýsir árlega inflúensubólusetningu 2014 Bólusett verður á Heilsugæslustöðinni á Blönduósi Mánudaginn 6/10 kl: 11:30-13:00 Miðvikudaginn 8/10 kl: 13:00-15:00 Mánudaginn 13/10 kl: 14:00-15:00 Bólusett verður á Heilsugæslustöðinni á Skagaströnd Þriðjudaginn 7/10 kl: 11:00-12:30 Þriðjudaginn 14/10 kl: 9:00-10:00 Sérstaklega er mælt með að einstaklingar 60 ára og eldri, einstaklingar með langvinna sjúkdóma, heilbrigðisstarfsfólk og þungaðar konur láti bólusetja sig. Þessir áhættuhópar fá bóluefnið frítt en þurfa að greiða komugjald. Einnig er mælt með því að sömu einstaklingar séu bólusettir á 10 ára fresti gegn lungnabólgu.

Mynd vikunnar

Skíðamennska Árið 1974 komu skíðaáhugamenn á Skagaströnd upp togbraut í Spákonufellinu. Togbrautin var þannig gerð að staur var komið fyrir uppi á hólnum fyrir ofan núverandi skíðaskála. Við staurinn var fest blökk og kaðall dreginn gegnum hana og í gegnum drifhjól sem tengt var við dráttarvél. Drifhjólið var gert úr gamalli drifkúlu undan bíl og á hana var fest hjól og drifskaft sem síðan var hengt aftan á beislið á dráttarvél og tengt við drifúttak vélarinnar. Skíðamenn héngu síðan í kaðlinum á leiðinni upp brekkuna. Í dag mundi svona útbúnaður aldrei vera viðurkenndur vegna öryggismála. 1979 var síðan keypt skíðalyfta og henni komið fyrir örlítið norðar í brekkunni og notuð þar í mörg ár. Maðurinn í úlpunni sem stendur við kaðalinn er Ásgeir Axelsson (d. 8.6.2011) en hann átti dráttarvélina og stjórnaði henni. Ásgeir var með spotta í hendinni sem tengdur var við ádrepara vélarinnar til að geta drepið á og þannig stoppað kaðalinn ef á þurfti að halda.

Aðalfundur

Aðalfundur foreldrafélags Höfðaskóla verður haldinn miðvikudaginn 8. október 2014 kl. 20:00 í Höfðaskóla. Dagskrá fundarins: Skýrsla formanns Reikningar lagðir fram Kosning nýrrar stjórnar Kosning í fræðsluráð og skólaráð Önnur mál Stjórnin

Sundlaugin opin í september

Sundlaugin verður opin mán-föst kl.17-20 og laugardaga kl.13-16. Lokað á sunnudögum Þessi opnun verður til og með 30. sept. Sundlaugavörður

Ferðamálafélag A- Hún

Ferðamálafélag A- Hún heldur fund á Hótel Blönduós þriðjudaginn 23. sept. kl: 17:00 Nýr starfsmaður ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra, Hildur Þóra Magnúsdóttir,verður kynntur til sögunnar og mun hún einnig segja frá ferð sinni á Birdfari fuglaskoðunarsýninguna í Bretlandi. Hildur Þóra mun líka fara yfir hvaða sjóðir eru opnir fyrir styrkumsóknir og fl. Rætt verður um framkvæmd og þátttöku ferðaþjónustuaðila á svæðinu í haustferð Markaðsskrifstofu Norðurlands sem haldin verður í A- Hún. nú í október. Hlökkum til að sjá þig. Stjórn Ferðamálafélags A- Hún.

Vígsla listaverksins Sólúrs

Vígsla listaverksins Sólúrs Í dag laugardaginn 20. september kl 14.00 verður listaverkið Sólúr sem reist hefur verið á torgi í miðju Skagastrandar formlega vígt. Listaverkið er eftir hinn þjóðkunna listamann Magnús Pálsson og er tilvísun í samspil tímans og sólargangsins þar sem gömul eyktarmörk eru í heiðri höfð. Verkið samanstendur af fjórum stuðlabergsstöplum sem eru sniðnir þannig til að rauf á milli þeirra getur varpað geislum sólar niður á eyktarmörk. Geisli sólar í hásuðri fellur t.d. á „hádegi“ sem er markað í stétt í kringum verkið. Á stuðlabergsdrangana er rist stórum stöfum: „Tíminn er eins og vatnið og vatnið er djúpt og kalt“. Listskreytingasjóður ríkisins leggur verkið til og mun afhenda það formlega en verkið verður vígt með afhjúpun á skildi með nafni verksins og listamannsins. Magnús Pálsson hefur verið einn helsti þátttakandi í nýrri skilgreiningu á hugtakinu list í íslenskri myndlist, sem hugmyndasmiður og lærimeistari. Hugmyndaleg listsköpun hans hefur alltaf verið afar persónuleg. Hann hættir aldrei að koma á óvart með verkum sínum. Magnús fór að láta að sér kveða í íslensku listalífi á árunum milli 1960 og 1970 eftir að hafa verið í listaskólum í Reykjavík og Austurríki og lært að búa til leikmyndir í Englandi. Á þessum árum urðu miklar breytingar í íslensku listalífi. Hann og aðrir listamenn sem þá voru að koma fram á sjónarsviðið litu öðrum augum á myndlistina en áður hafði verið gert og fóru allt aðrar leiðir. Þeir voru kallaðir nýlistamenn. Magnús Pálsson er einn af þeim listamönnum sem hefur notið meiri og meiri viðurkenningar, bæði innan lands og utan eftir því sem hann hefur lagt listinni til fleiri verk.

Mynd vikunnar

Síldin kemur og síldin fer 7. mars 1987 frumsýndi Leikklúbbur Skagastrandar leikritið: Síldin kemur og síldin fer í Fellsborg undir leikstjórn Þrastar Guðbjartssonar. 26 leikarar komu fram í þessari vinsælu leiksýningunni og á þessari mynd eru nokkrir þeirra í hlutverkum sínum. Talið frá vinstri: Guðmunda Ólafsdóttir, Óli Hjörvar Kristmundsson, Þórey Jónsdóttir, Sigurbjörg Árdís Indriðadóttir, Kristín Jónsdóttir, Bóel Hallgrímsdóttir, Steindór Haraldsson, Sigrún Jónsdóttir, Rut Jónasdóttir, Herborg Þorlásdóttir og Vigdís Viggósdóttir. Hamónikuleikarinn sem sér í hægra megin við Vigdísi er Þórhildur Jakobsdóttir. Leikritið var sýnt á Skagaströnd og í nágrannabyggðunum við góðar undirtektir.