Sorphreinsun frestað til föstudags

Vegna færðar er sorphreinsun sem vera átti í dag fimmtudag er frestað til morguns. Fólk er beiðið að moka snjó frá sorpílátum svo hreinsunin geti gengið greiðlega. Sorpílát sem eru ekki aðgengileg vegna snjóa verða ekki losuð. Rétt er að minna á að allur frágangur sorpíláta er á ábyrgð notenda og þeir þurfa að tryggja að þau fjúki ekki eða skemmist í óveðrum. Sveitarstjóri

Fjárhagsáætlun 2015-2018 afgreidd

Á fundi sveitarstjórna 9. desember sl. var samþykkt fjárhagsáætlun 2015-2018. Áætlunin er í raun fjögurra ára áætlun þótt sérstök áhersla sé lögð á áætlun næsta árs, 2015. Við gerð áætlunar var gengið út frá eftirfarandi forsendum: Álagning útsvars verði óbreytt frá yfirstandandi ári 14.52%. Álagningarstuðlar fasteignagjalda verði óbreyttir frá fyrra ári. Sorphirðu- og eyðingargjöld hækki um 3,4% skv. verðlagi. Þjónustutekjur hækki almennt um 3,4% milli ára. Við áætlun rekstrarkostnaðar verði almennt gert ráð fyrir 3,4% hækkun verðlags á árinu. Þrátt fyrir að umræða á sveitarstjórnarstiginu hafi snúist um að miða launaáætlun almennt við 7,5% hækkun milli ára var ákveðið að viðhafa sömu aðferð og undanfarin ár að launaliðir hverrar deildar verið teknir og framreiknaðir með þeim breytingum sem þekktar eru á komandi ári. Í rekstraryfirliti áætlunar 2015 kemur fram að heildartekjur samstæðu eru áætlaðar 519.944 þús., þar af eru skatttekjur 354.289 þús. og rekstrartekjur 165.655 þús. Rekstrargjöld eru áætluð 532.098 þús. þar af kostnaður vegna launa áætlaður 236.474 þús. Rekstrarniðurstaða er áætluð jákvæð um 1.707 þús. Í sjóðstreymi áætlunar er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri samstæðu verði jákvætt um 47.245 þús. Samanlagðar fjárfestingahreyfingar eru áætlaðar 57.800 þús. Að teknu tilliti til fjárfestinga og fjármögnunarhreyfinga er áætlað að handbært fé lækki um 20.555 þús. og handbært fé verði í árslok 579.818 þús. Í áætlun áranna 2016-2018 er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu öll árin. Í rekstraryfirliti kemur fram að rétt um helmingur rekstrarkostnaðar aðalsjóðs er vegna fræðslumála eða 235 milljónir af 466 milljóna rekstarkostnaði aðalsjóðs. Áætluð niðurstaða aðalsjóðs er jákvæð um 16,9 milljónir en niðurstaða eignasjóðs og þjónustumiðstöðvar er neikvæð um 26 milljónir. Af því leiðir að A-hluti er með áætlaða 9 milljón króna neikvæða niðurstöðu. Í B-hluta er hafnarsjóður, vatnsveita, félagslegar íbúðir, fráveita og félagsheimili. Áætluð niðurstaða B-hluta er jákvæð um 10,7 milljónir. Munar þar mest um hafnarsjóð sem áætlað er að skili 11,5 milljóna jákvæðri niðurstöðu. Sveitarstjóri

Snjómokstur

Vegna veðurs verður snjómokstri hætt kl 17 í dag miðvikudaginn 10. desember. Miðað við veðurhorfur er gert ráð fyrir að einungis verði haldið opnu á morgun án þess að götur verði mokaðar í fulla breidd, nema veður gangi niður. Mokstur hefst kl 6 í fyrramálið og stefnt að því að helstu leiðir verði opnar kl 7.30. Veður mun þó ráða hvort það tekst. Sveitarstjóri

Gellubúðin í félagsmiðstöðinni

Fatamarkaðnum sem átti að vera í dag er frestað vegna veðurs. Fatamarkaðurinn verður á föstudaginn 12. desember frá kl. 16-19 Gellubúðin

Aldís Embla - Ungskáld Akureyrar

Skagstrendingurinn Aldís Embla Björnsdóttir sem stundar nám við MA hlaut útnefninguna Ungskáld Akureyrar fyrir smásögu sína Einræðisherrann. Á vefnum www.akureyri.is birtist neðanrituð frétt um málið: Aldís Embla er Ungskáld Akureyrar Almennt - 04. desember 2014 - Ragnar Hólm - Lestrar 82 Brynhildur Þórarinsdóttir afhendir Aldísi Emblu verðlaunin. Mynd: Ragnar Hólm. Fyrr í dag voru kunngerð úrslit í samkeppni akureyrskra ungskálda um skapandi skrif og varð Aldís Embla Björnsdóttir hlutskörpust. Fyrir smásögu sína „Einræðisherra“ hlaut hún 50.000 krónur í verðlaun. Önnur verðlaun 30.000 kr. hlaut Kristófer Alex Guðmundsson fyrir ljóðabálk sinn „Brútháll“ og þriðju verðlaun 20.000 kr. Birna Pétursdóttir fyrir leikþáttinn „Bóhemíudrottningin“. Öll þrjú fengu þau ritverkið „Jónas Hallgrímsson – Ævimynd“ eftir Böðvar Guðmundsson að gjöf frá Menningarfélagi Hrauns í Öxnadal. Að samkeppninni stóðu Amtsbókasafnið á Akureyri, Akureyrarstofa, Ungmenna-Húsið, Háskólinn á Akureyri, MA og VMA með stuðningi Menningarráðs Eyþings. Tilgangurinn með samkeppninni er að hvetja fólk á aldrinum 16-25 ára til skapandi skrifa og einnig að skapa vettvang fyrir þau til að koma sér og skrifum sínum á framfæri. Þetta er í annað sinn sem þessi keppni fer fram. Það var Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri, sem afhenti verðlaunin fyrir hönd dómnefndar. Umsagnir dómnefndar um verkin eru svohljóðandi: Einræðisherra eftir Aldísi Emblu Björnsdóttur Einræðisherra er forvitnileg og vel stíluð smásaga - eða örsaga. Sjónarhornið er skemmtilegt og sögumaður óvenjulegur - enda ekki oft sem smábörn á fyrsta ári láta móðann mása. En merkilegt nokk er þessi ungi sögumaður trúverðugur. Það kannast margir við þetta eigingjarna, stjórnsama eða hreinlega freka barn sem þarna fær rödd. Hnyttinn endirinn varpar hins vegar nýju ljósi á krílið - og sýnir að hér er á ferð lunkinn höfundur. Brútháll eftir Kristófer Alex Guðmundsson Ljóðabálkurinn Brútháll er bæði hressandi og athyglisverður. Að efni og formi er þetta fornkvæði enda er sjálfur Óðinn í aðalhlutverki. Í klaufaskap sínum hefur hann týnt lyklunum að Valhöll og auðvitað endar leit hans með sögulegum bardaga. Stíll og málfar eru með fornu lagi en höfundur tekur sig mátulega alvarlega eins og sjá má á hendingum á borð við ,,Lyklarnir þínir liggja á borðstofuborðinu.” Höfundur hefur ágætt vald á tungumálinu og glottir skelmislega til fortíðarinnar. Bóhemíudrottningin eftir Birnu Pétursdóttur Bóhemíudrottningin er stuttur leikþáttur, einræða, ef til vill hluti af stærri heild. Á sviðinu stendur ung, fátækleg stúlka frá Bóhemíu sem gefur okkur innsýn í líf sitt og örlög. Ræða hennar er lipurlega skrifuð og leikræn framsetningin veldur því að hún stendur ljóslifandi fyrir hugskotsjónum lesanda, með svipbrigðum og látbragði. Höfundi tekst að skapa trúverðuga persónu, töffara sem auðvelt er að hafa samkennd með. Verkin verða birt á heimasíðu Amtsbókasafnsins á Akureyri, www.amtsbok.is.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar þriðjudaginn 9. desember 2014 kl 0800 á skrifstofu sveitarfélagsins. Dagskrá: Samningur við Hjallastefnu Byggðasamlag um menningu og atvinnumál Fundur stjórnar 19.11.2014 Fundur stjórnar 3.12.2014 Fjárhagsáætlun byggðasamlagsins 2015 Félags- og skólaþjónusta A-Hún Fundur stjórnar 18.11.2014 Fundur stjórnar 26.11.2014 Fjárhagsáætlun Félags- og skólaþjónustu 2015 Viðaukar við fjárhagsáætlun 2014 Fjárhagsáætlun 2015 -2018 (seinni umræða) Stjórnsýslukæra R.O. Bréf: Växjö kommun, dags. 26. nóvember 2014 Snorraverkefnisins dags. 17. nóvember 2014 Fundargerðir: Menningarráð Nl.vestra, 10.11.2014 Skólanefndar FNV, 18.11.2014 Stjórnar Samb. ísl. sv.félaga, 31.10.2014 Önnur mál Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Á síldveiðum Þessi mynd var tekin um borð í Auðbjörgu HU 6 - þeirri fyrstu með því nafni á Skagaströnd - á síldveiðum á Húnaflóa. Ekki er vitað hvenær myndin var tekin en þessi Auðbjörg var gerð út frá Skagaströnd árin 1947 - 1959 þannig að myndin hefur verið tekin einhverntíma á þessu árabili. Líklega er Auðbjörgin á reknetaveiðum og myndin er lýsandi fyrir af hverju síldin er kölluð "silfur hafsins" því karlarnir og allt skipið eru þakin silfurlitu hreistri síldarinnar.

Sveitarfélagið Skagaströnd /Höfðahreppur 75 ára

Á árinu 2014 eru 75 ár frá skiptingu Vindhælishrepps hins forna í þrjú sveitarfélög 1939 og upphaf Höfðahrepps sem í dag heitir Sveitarfélagið Skagaströnd. Í tilefni af þessum tímamótum bauð sveitarfélagið til afmælisveislu í Fellsborg 1. desember sl. Um 180 manns komu og neyttu veislufanga sem kvenfélagið Eining sá um að framreiða. Þótt sveitarfélagið sé hálfáttrætt er þéttbýlið á Skagaströnd auðvitað töluvert eldra og má í því sambandi rifja upp að íbúar á Skagaströnd voru um 60 um aldamótin 1900 og þá voru 15 hús á staðnum. Verslunarstaðurinn Skagaströnd er enn eldri því elstu heimildir benda til þess að verslun hafi verið hafin hér fyrir setningu einokunarverslunar 1602 því Skagaströnd varð einmitt einn af þessum illa þokkuðu einokunarverslunarstöðum danskra kaupmanna í þau 185 ár sem hún stóð fram til 1787. Vindhælishreppur hinn forni náði allt frá Skagatá og fram að Kirkjuskarði á Laxárdal. Það tók því að bera á því strax árið 1872, þegar farið var að skipa hreppsnefndir að það þótt langt að sækja fundi fyrir þá sem bjuggu næst endum hreppsins. Hugmyndir um að skipta gamla Vindhælishreppi ná þó enn lengra aftur og hægt að rekja heimildir um þær hugmyndir aftur til ársins 1806. Þá var aðallega talað um að skipta hreppnum í tvo hluta og nefna þá eftir kirkjusóknum Höskuldstaðahrepp og Hofshrepp. Þorpið á Skagaströnd fór svo að vaxa, einkum á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Þá voru komnar vélar í bátana, búið að steypa fyrstu bryggjuna og raunverulegar hafnarframkvæmdir að hefjast þegar gerður var garður úr landi og út í Spákonufellsey, en vinna við það hófst 1935. Þegar þarna var komið sögu voru góðbændur í sveitarfélaginu sem voru helstu útsvarsgreiðendur orðnir mjög áhyggjufullir vegna vaxandi íbúafjölda í þorpinu sem þeir sáu ekki fram á að gætu framfleytt sér. Þá var einnig skollin á heimskreppa og ágreiningur milli sveita og þorps fóru vaxandi. Í hreppsnefndarkosningum 1937 náðu þorpsbúar svo meirihluta í hreppsnefndinni og þá virðist flestum verða ljóst að nauðsynlegt væri að skipta hreppnum upp og eingöngu talað um þrjá hreppa. Eftir allnokkur fundahöld í öllum nýju hreppshlutunum og störf skiptanefndar þar sem helst var tekist á um hve mikið land ætti að fylgja þorpinu og svo var auðvitað tekist á um ómagaframfærslu og var niðurstaðan að hafa hana sameiginlega í sjö ár eftir skiptingu. Auðvitað voru mörg fleiri úrlausnarmál en þeim var öllum fundinn nýr farvegur. Nýju sveitafélögin áttu að heita Vindhælishreppur , Höfðahreppur og Skagahreppur. Skipting hreppsins í þrjá hreppa var rædd á fundi hreppsnefndar á þorláksmessu 1938 og þá var ákveðið að aðskilnaður hreppanna tæki gildi 1. janúar 1939 kosning nýrra hreppsnefnda skyldi fara fram 15. janúar 1939 Í þeirri ágætu bók Byggðin undir Borginni segir svo í niðurlagi umfjöllunar um hreppaskiptinguna. „Ekki munu allir íbúar hreppsins hafa fagnað þessari niðurstöðu; um það vitnar til dæmis vísa Vilhálms Benediktssonar frá Brandaskarði: Ekki prísa ég ykkar mennt sem að því verki stóðu að sundur flísa og saga í þrennt sveitina mína góðu. Um áramót 1938-1939 gengur kauptúnsbúar til hvílu í Vindhælishreppi vitandi að þeir myndu vakna upp í nýju sveitarfélagi að morgni án þess að hreyfast úr stað. Er ekki að efa að með ýmsum hafa tilfinningar verið blendnar; hvernig myndi þessu fámenna og fátæka sveitarfélagi farnast? Framhjá því varð ekki litið að margir innbúar hins nýja Höfðahrepps lágu við sveit. En ýmis teikn voru á lofti um betri tíð. Skammt undan voru fengsæl fiskimið og silfur hafsins, síldin, óð á hverju sumri inn allan Húnaflóa.“ Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri Skagaströnd um aldamótin;

Jólatónleikar Tónlistarskóla A-Hún

Verða sem hér segir: Húnavöllum mánudaginn 15. des.að loknum skóla Skagaströnd í Hólaneskirkju þriðjudaginn 16. des. kl: 1700. Blönduósi í Blönduóskirkju miðvikudaginn 17. des. kl: 1700. Allir velkomnir. Skólastjóri Minni einnig á heimasíðu skólans en vefslóðin er: www.tonhun.is

Jólaopnun í Spákonuhofi

Spákonuhofið verður opið á miðvikudagskvöldum nú í desember frá kl: 20:00-22:00 ( 3. 10. og 17.des.) Kaffi, kakó og smákökur, sögulestur hefst kl:20:30, smásögur fyrir alla sem hafa gaman af sögum. Í litla söluhorninu okkar er ýmislegt skemmtilegt til sölu. Handverk úr heimabyggð Við erum komnar í jólaskap :) Sigrún og Dadda