ATVINNA Í BOÐI!

Við Höfðaskóla er laus 50% staða við Frístund. Vinnutími er alla virka daga frá kl. 12:00 – 16:00. Umsækjendur þurfa að hafa gaman af að vinna með börnum, vera þolinmóðir, ákveðnir og sjálfstæðir í starfi. Umsóknir berist á skrifstofu skólastjóra eða á netfangið hofdaskoli@skagastrond.is fyrir miðvikudaginn 20. ágúst 2014. Nánari upplýsingar veitir skólastjóri, í síma 452 2800 eða gsm 8624950. Skólastjóri

Opið bréf til nýju sveitarstjórnarinnar á Skagaströnd

Ágæta nýkjörna sveitarstjórn. Í upphafi kjörtímabils þykir mér rétt að skrifa ykkur opið bréf þar sem ég greini frá nokkrum þáttum sem ég tel að betur megi fara í samfélagi okkar þar sem ykkur hefur nú verið treyst til forystu næstu 4 árin. Í þessu bréfi mun ég eingöngu fjalla um málefni sem ég kalla umhverfismál en aðrir og þá afmarkaðri málaflokkar bíða næstu skrifa. Margt er hér gott í þessum málaflokki og á undanförnum árum hefur ýmislegt verið vel gert bæði af einstaklingum og sveitarstjórn og mörg svæði og götur tekið miklum stakkaskiftum og sumar þeirra eru til fyrirmyndar en þó leynast víða brotin og ómáluð tréverk umhverfis lóðir. Án efa nægði að benda fólki á að gera hér bragarbót og líklegt að flestir tækju því vel. Íbúar á Skagaströnd vilja án efa hafa snyrtilegt í kringum sig en stundum lokast augun fyrir því augljósa. Sveitarfélagið á einnig þakkir skyldar fyrir hversu vel er hugsað um slátt og tiltekt á opnum svæðum í kauptúninu sem eru mörg. Ef ég væri í ykkar sporum og nýkjörinn í sveitarstjórn myndi ég byrja á því að .... Fasteignir og umhverfi þeirra. Fara í bíltúr um þorpið og t.d. hefja ferðina á veginum upp á Höfðann bak við gamla frystihúsið og líta þar á útlit 2ja hæða fasteignar sem áður var notuð sem salthús og beitningaskúr. Þaðan myndi ég svo aka Bankastrætið og horfa þar á húsin númer 2 og 3 og 14 og spyrja mig hvort það sé ekki eitthvað að í stjórnsýslu sem ekki nær að hafa áhrif á að hér séu úrbætur gerðar, hvað þá þegar liðin eru 35 ár frá byggingu sumra fasteignanna án þess að frá þeim sé gengið eins og vera ber. Síðan liggur beint við að halda niður Skagaveginn og staldra augnablik við framan við Grafarholt og halda síðan áfram og gefa sérstaklega gaum að norðurenda braggans sem fyrst er komið að og bera saman við útlit Skátabraggans sem er til fyrirmyndar. Síðan væri upplagt að fara niður á Strandgötu og beygja til vinstri fram hjá fyrrum pakkhúsi Siggabúðar og líta á þakið á því húsi sem stingur mikið í stúf við annars þokkalega útlítandi fasteign. Svo myndi ég beygja inn á Mánabrautina og líta á umgengnina í kringum sum iðnaðarhúsin sem þar standa og spyrja sjálfan mig af hverju er t.d. ekki komið almennilegt port í kringum atvinnustarfsemi trésmíðaverkstæðisins. Þegar hér væri komið sögu væri upplagt að aka upp að hesthúsahverfinu. Um tvær leiðir virðist einkum vera að ræða, þ.e. að aka göngu- og reiðveginn hjá Snorrabergjunum og hundsa alveg umferðamerkin sem sýna að það er óheimilt að aka þarna vélknúnum ökutækjum. Sumum virðist nefnilega leyfast árum saman að aka hér hvenær sem þeim dettur í hug og ekkert hafið þið nýja fólkið í sveitarstjórninn gert í því að bæta hér úr þrátt fyrir að athygli ykkar hafi verið vakin á málinu. Þar sem við erum flest löghlýðið fólk sleppi ég þessari leið en fer þjóðveginn upp að hesthúsunum. Þar staldra ég við í smástund bara til að sjá hversu vel umhverfi og útlit hesthúss formanns hestamannafélagsins sker sig frá útliti og umhverfi annarra húsa í hverfinu sem seint verða talin til fyrirmyndar. Ég enda svo för mína að þessu sinni á Fjörubraut og Vallarbraut þar sem rétt væri að velta fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að fá alla eigendur iðnaðarhúsanna á þessu svæði til skrafs og ráðgerða um það hvort þeir væru ekki til í sameiginlegt átak til að bæta útlit þessa hverfis og jafnvel bjóða þeim að gerð yrði tillaga og teikningar varðandi úrbætur t.d. skjólveggi eða annað þess háttar. Ég sleppi alveg að minnast á öll húsin sem sveitarfélagið á en þau eru í mjög misjöfnu ásigkomulagi. Mér virðist nefnilega að sveitarfélagið hafi á undanförnum árum verið að vinna markvisst og myndarlega í viðhaldi þeirra en íbúðirnar eru margar og því tekur þetta sinn tíma. En sem nýr sveitarstjórnarmaður myndi ég samt skoða útlit þeirra og athuga hvort það sé ekki örugglega á framkvæmdaáætlun að halda áfram viðhaldsframkvæmdum því sumar eignirnar kalla nokkuð stíft á aðgerðir. Ef þið í sveitarstjórninni færuð svo saman í skoðunarferð um þorpið með opin augu þá eru fleiri eignir og umhverfi þeirra sem þarfnast aðgerða og væri liður i því að gera byggðina meira aðlaðandi. Ég er bara að reyna að koma ykkur á stað með fyrrgreindum ábendingum. Til er reglugerð sveitarstjórnar frá 28. febrúar 2011 og einnig sérstök verklýsing á þvingunarúrræðum frá árinu 2012 gagnvart þeim fasteignaeigendum sem ekki hirða um að hafa hús sín og umhverfi í almennilegu standi og því skortir ekki verkfærin til aðgerða. Einhver bréf hafa líklega verið skrifuð en ef þeim er ekki fylgt eftir af sveitarstjórn þá er betra að láta slík skrif órituð. Bílflökin í þorpinu. Sama reglugerð, frá 28. febrúar 2011, tekur á aðgerðum vegna ónýtra bíla, bílflaka og á ýmiskonar drasli sem finna má sums staðar í þorpinu og liggur árum saman óhreyft. Ekki verður séð að mikill vilji hafi verið til að láta reglugerðina koma til framkvæmda því ella væru allir frestir eigenda löngu liðnir og búið að fjarlægja viðkomandi hluti á kostnað þeirra. Hér er samt ekki um mörg dæmi að ræða. Hvers vegna þarf þetta að vera svona? Af hverju er ekkert gert? Væri ekki rétt að skoða málið strax og kannski nægir bara að tala við suma þeirra sem hér eiga hlut að máli. Að lokum. Báðir listarnir sem buðu hér fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum lögðu áherslu á umhverfismál. Þess vegna ættu fulltrúar þeirra að sýna nú þegar hvað í þeim býr. Ég er að vona að strax verði tekið til höndum varðandi þau atriði sem ég geri að umtalsefni í þessu opna bréfi. Það á ekki að bíða næsta árs heldur hefjast handa strax og fylgja ákvörðunum eftir því annars tekur við nýtt ár án aðgerða og svo annað og svo eitt í viðbót eins og sumar umræddar ábendingar bera glöggt vitni um. Í fullri hreinskilni, ágæta sveitarstjórnarfólk, þá finnst mér líklegt að lítið verði aðhafst og áfram verði sami hægagangurinn á þessu sviði – en – aldrei þessu vant - vona ég innilega að ég hafi rangt fyrir mér. Góð kveðja og ósk um gæfurík störf í þágu Skagastrandar. Lárus Ægir.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 13. ágúst 2014 kl 800 á skrifstofu sveitarfélagsins. Dagskrá: Fjármál: Yfirlit jan – júní 2014 Bréf EFS um fjármálastjórn sveitarfélaga Siðareglur sveitarstjórnar Leikskólinn Viljayfirlýsing v/atvinnuuppbyggingar í A-Hún Kosning fulltrúa á ársfund Róta bs. Tilnefningu fulltrúa í svæðisbundinn stýrihóp v/ferðaþjónustu Erindisbréf nefnda Bréf: Áslaugar Ottósdóttur Sambands íslenskra sveitarfélaga Landssambands Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna Fundargerðir: Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 7.08.2014 Menningarráðs Norðurlands vestra, 4.06.2014 Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 27.06.2014 Önnur mál Sveitarstjóri

Ráðstefna um listir og auðlindir strandmenningar

Ráðstefna um auðlindir standmenningar verður í Fellsborg Skagaströnd laugardaginn 16. ágúst 2014 kl 9.00 – 16.00. Dagskrá ráðstefnunnar sem nefnist Rusl - RASK er: 09:15 Opnun ráðstefnunnar Adolf H. Berndsen, oddviti Skagastrandar 09:30 “Fram með ruslið,” RASK verkefnið kynnt Heidi Rognskog and Mona Eckhoff, listamenn og verkefnisstjórar 09:15 Menningarverkefni í litlu samfélagi Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri Skagaströnd 09:45 Nes listamiðstöð Hrafnhildur Sigurðardóttir, listamaður og stjórnarmaður í Nes listamiðstöð 0:15 Sjálfbærni í vanþakklátum heimi Mark Swilling, prófessor við Stellenbosch háskóla 11:00 Kaffihlé 11:15 Staðblær í samfélögum og sjálfboðastarf Laila Skaret, menningarfulltrúi í sveitarfélaginu Smøla 11:35 Innri og ytri landakort Hilde Rognskog, listamaður 12:00 Hádegisverður 12: 45 “Stórar frásagnir vaxa upp á litlum stöðum” Olav Juul fyrrv. bæjarstjóri í sveitarfélaginu Læsø 13:15 Draumalandið Andi Snær Magnason, rithöfundur og aðgerðarsinni 14:30 Upplifun af samfélögum – ímynd og áhrif Selma Dôgg Sigurjónsdóttir – Nýsköpunarmiðstöð Íslands 15:15 Samantekt og lok ráðstefnu Ráðstefnan er öllum opin og þeir sem hafa áhuga á nýjum hugmyndum, skapandi hugsun og listrænni nálgun ættu ekki að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara.

Tónlistarhátíðin Gæran

Tónlistarhátíðin Gæran verður haldin fimmta árið í röð í húsakynnum Loðskinns á Sauðárkróki, dagana 14.- 16. ágúst 2014. Um næstu helgi gefst tónlistarunnendum einstakt tækfæri að taka þátt í árlegum viðburði í litlu sjávarplássi úti á landi. Stór geymslusalur, sem hýsir gærur í stöflum stóran hluta ársins, er í ágúst tæmdur til að rýma fyrir stóru sviði og fólki sem vill skemmta sér og hlusta á góða tónlist. Það eru yfir 100 hæfileikaríkir tónlistarmenn sem skipa þau 24 tónlistaratriði sem koma fram á hátíðinni. Þar á meðal eru heitustu nöfn dagsins í dag ásamt stærstu nöfnum morgundagsins. Sauðárkrókur iðar af lífi þegar Tónlistarhátíðin Gæran stendur yfir og er þetta upplifun sem engin má missa af! Örfáar breytingar hafa orðið á þeim listamönnum sem koma fram í ár, en þeir eru: Fimmtudagur: Hafdís Huld, Sister Sister, Hlynur Ben, Val--‐kirja og Bergmál. Föstudagur: Kiriyama family, Úlfur Úlfur, HIMBRIM, Johnny and the rest, Myrká, The Bangoura band, Sjálfsprottin spévísi, Una Stef, Klassart og Boogie Trouble. Laugardagur: Dimma, Reykjavíkurdætur, Nykur, Rúnar Þóris, Kvika, Mafama, Skúli Mennski, Beebee and the Bluebirds og Sunny side road. Nú er undirbúningur fyrir hátíðina á lokastigi og standa aðstandendur hátíðarinnar ásamt stórum hópi sjálfboðaliða í ströngu að því að vinna þau fjölmörgu handtök sem þarf til. Dagskrá hátíðarinnar teygir sig yfir þrjá daga. Sólóistakvöld verður haldið á fimmtudeginum 14. ágúst á Skemmtistaðnum Mælifelli og tónleikarnir á föstudeginum 15. og laugardeginum 16. verða á aðalsvæði hátíðarinnar. Það er 18 ára aldurstakmark en yngri tónlistarunnendur eru velkomnir í fylgd með foreldri/forráðamanni, 12 ára og yngri fá frítt inn. Miðasala er hafin á midi.is og í Gestastofu Sútarans á Sauðárkróki og kostar einungis 6.500kr inn á hátíðina. Bestu Kveðjur frá Sauðárkróki! Laufey Kristín s. 823 8087 Sigurlaug Vordís s. 618 7601

Goð og gróður - listaverk úr járni

Sunnudaginn 10. ágúst, kl. 14:00, verður opnuð sýning á um 30 listaverkum úr járni í miðbænum á Skagaströnd. Erlendur Finnbogi Magnússon er höfundur þessara verka sem hann hefur unnið úr gömlu efni frá sjósókn, landbúnaði og öðrum atvinnugreinum. Í myndverkunum, sem eru frá einum og upp í sex metra að hæð, má einnig sjá margs konar handverk frá fyrri tímum. Fimmtíu ár eru síðan Erlendur sýndi fyrstu járnverk sín á umdeildri myndverkasýningu á Skólavörðuholtinu í Reykjavík. Eitt þeirra verka er í eigu Reykjavíkurborgar.

24 tíma te athöfn

Listamaðurinn Adam Wojcinski, sem dvelur og starfar við Nes listamiðstöð á Skagaströnd, stóð fyrir gjörningi, te athöfn, sem stóð yfir í 24 klukkustundur. Klukkan 8:15 þann 5. ágúst hófst te athöfnin þar sem Adam bauð til japanskrar tedrykkju til minningar um þá sem fórust við kjarnorkusprenginguna í Hiroshima. Athöfnin fór fram í friðsæld þagnar og íhugunar þar sem beðið var fyrir friði í heiminum. Fyrst var lagað te fyrir þá sem fórust í Hiroshima, síðan lagað te fyrir þá sem komnir voru til tedrykkju og var athöfnin endurtekin í sífellu. Þegar klukkan var orðin 8:15 þann 6. ágúst endaði gjörningur Adams á því að hinn friðsæli staður tedrykkjunnar var brenndur, en einmitt á þeim tíma árið 1945 var sprengjunni varpað á borgina Hiroshima.

Vantar starfskraft á fiskmarkaðinn

Fiskmarkað Íslands hf. vantar starfskraft á Skagaströnd: Starfssvið er m.a. þjónusta við viðskiptavini, seljendur og kaupendur, löndun ofl. Viðkomandi er ætlað að vera hægrihönd stöðvarstjóra og getað leyst hann af. Viðkomandi þarf að hafa lyftararéttindi og hæfni til þess að læra á tölvukerfi fyrirtækisins. Æskilegt væri að viðkomandi hefði þekkingu og starfsreynnslu í sjávarútvegi og einnig vigtarréttindi en ekki skilyrði. Umsóknarfrestur um starfið er til 12. ágúst n.k. og skal umsóknum skilað skriflega til Fiskmarkaðs Íslands hf, bt/ Reynis Lýðssonar 545 Skagaströnd sem jafnframt veitir upplýsingar um starfið í síma 840-3749 og Páll í síma 840-3702

Stuðningsfulltrúi óskast

Atvinna í boði! Stuðningsfulltrúa vantar í 45 – 85 % starfslutfall á yngsta – og miðstig og í Frístund Vinnutími: virkir dagar frá kl 8 og fram að eða yfir hádegi og/eða til kl 16:00. Umsækjendur þurfa að hafa gaman af að vinna með börnum, vera þolinmóðir, ákveðnir og sjálfstæðir í starfi. Umsóknir berist á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar eða á netfangið hofdaskoli@skagastrond.is fyrir mánudaginn 4. ágúst 2014. Hægt er að nálgast umsóknareyðublöð á skrifstofu sveitarfélagsins eða á www.skagastrond.is Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu sveitarfélagsins. Skólastjóri

Pistill frá Lárusi Ægi Guðmundssyni

Mun Höfðinn „týnast“? Hvað ætlar nýja sveitarstjórnin að gera? Á Höfðanum er afar fallegt útivistarsvæði eins og Skagstrendingum er vel kunnugt. Allskonar gróður er þar að finna ásamt töluverðu fuglalífi og afar sérstakri bergmyndun víðast hvar. En ákveðið vandamál er að búa um sig á Höfðanum. Lúpínan er komin þangað og á hverju ári leggur hún undir sig meira og meira svæði. Ég býst ekki við að það sé hægt að ráða við hana í hlíðinni við Réttarholt en það má stöðva hana þar. En á hinn bóginn er hún farin að dreifa sér víða annarsstaðar um Höfðann. Á flestum stöðum er hún þó á afar takmörkuðum svæðum og sumsstaðar bara eitt og eitt blóm en þeim fjölgar ár frá ári og byrja að mynda stærri flekki. Það er ekki auðvelt að hamla vexti og útbreiðslu lúpínu en það er hægt en til þess þarf markvissar aðgerðir sem þurfa að standa yfir í nokkur ár. Á nokkrum friðuðum svæðum á Íslandi hafa menn háð harða glímu við lúpínuna m.a. í þjóðgarðinum í Skaftafelli og nokkur sveitarfélög eru líka í þessari baráttu. Ef ekkert verður að gert mun lúpínan leggja undir sig og kæfa allan núverandi gróður á Höfðanum. Þá mun þessi fallega útivistarparadís glata mörgum sérkennum sínum auk þess sem Höfðinn verður ekki auðveldur yfirferðar eins og þeir vita sem ganga á þeim svæðum sem lúpínan hefur yfirtekið. Það þarf að rífa lúpínuna upp með rótum þar sem hún er að byrja að nema land. Einnig að halda áfram að slá þau svæði þar sem hún hefur myndað flekki en það hefur verið gert í nokkur ár. Þessir flekkir stækka samt og það þarf að öllum líkindum að eitra þar líka. Enn er sá tími að það má koma í veg fyrir að lúpínan eyðileggi náttúrufegurð Höfðans. Verði brugðist við strax má uppræta hana og bjarga Höfðanum. Ég legg til að sveitarstjórnin ákveði nú þegar stefnu til 4ra ára þar sem markvisst verði tekið á þessu máli og byrjað strax í ár. Það væri t.d. hægt að setja á stofn 3ja manna vinnuhóp sem í umboði sveitarstjórnar myndi kynna sér allt sem viðkemur árangurríkum aðferðum til eyðingar lúpínu og hefði jafnframt frumkvæði og ábyrgð á því að málið verði tekið föstum tökum. Fegurð og útivistargildi Höfðans er í stórhættu. Það þarf að bregðast við strax. LÆG