Dreifnám

Framhaldsdeild í Austur Húnavatnssýslu á vegum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í samstarfi við heimamenn tekur til starfa næsta haust. Næsta skólaár verður dreifnámsdeildin til húsa á efri hæðinni að Húnabraut 4 á Blönduósi. Eftirtaldar námsgreinar verða í boði á fyrstu önn: enska 102, danska 102, félagsfræði 103, íslenska 102, íþróttir 101, lífsleikni 102, náttúrufræði 103 og stærðfræði 102. Þá verður hugað að fornámi í stærðfræði og fleiri kjarnagreinum, ef næg þátttaka fæst. Kennt verður í gegnum fjarfundabúnað frá Sauðárkróki og gert er ráð fyrir námslotum þar í tvær til þrjár vikur á hvorri önn. Auk nemenda úr 10. bekk er námið í framhaldsdeildinni opið öllum sem sækja vilja nám í heimabyggð. Hér er kærkomið tækifæri fyrir þá sem vilja taka þráðinn upp að nýju eftir hlé frá námi. Umsóknarfrestur er til 10. júní. Nánari upplýsingar veita Ágúst Þór Bragason, formaður framkvæmdahóps um dreifnám í A-Hún í síma 455-4700, Guðjón E. Ólafsson fræðslustjóri í síma 895-5796 ogÞorkell V. Þorsteinsson, aðstoðarskólameistari í síma 455-8000. Þá er einnig hægt að panta viðtalstíma hjá Margréti Helgu Hallsdóttur, námsráðgjafa við FNV í síma 455-8000.

Opið hús fimmtudag og föstudag

Kynning á leikskólanum og leikskólastarfinu í Barnabóli verður á „OPNU HÚSI“ frá kl. 8-16 fimmtudaginn 23. og föstudaginn 24. maí. Ykkur er boðið að koma í heimsókn og ganga um leikskólann og kynnast daglegu leikskólastarfi, skoða verkefni nemenda. Það verður molasopi og ávaxtadrykkur á báðum deildum. Verið velkomin í heimsókn. Kv. þb

Mynd vikunnar

Eldri borgara á ferðalagi Eldri borgara frá Skagaströnd á ferðalagi. Ekki er vitað hvenær myndin var tekin en sennilega hefur það verið kringum 1970. Ekki er heldur vitað hvar þessi mynd var tekin. Allir sem þekktir eru á myndinni eru látnir í dag. Fólkið á myndinni er, talið frá vinstri: Soffía Lárusdóttir, Laufey Jónsdóttir, Hafsteinn Sigurbjarnarson, Halldór Pétursdóttir, óþekktur, óþekktur, Teitný Guðmundsdóttir, Baldvin Jóhannesson, óþekkt, óþekkt, Sigurður Guðmonsson,Guðmundur Pétursson, Guðlaugur Guðlaugsson, Þórunn Samsonardóttir, Páll Jónsson, óþekkt, óþekktur, óþekktur, óþekkt, Margrét Sigurðardóttir, Hallbjörg Jónsdóttir, Gunnlaugur Björnsson, Jóhanna Gunnlaugsdóttir, óþekktur drengur, óþekktur, Pétur Þ. Ingjaldsson, Guðbjörg Guðjónsdóttir, Lárus Guðmundsson, óþekktur drengur, Dómhildur Jónsdóttir, Ólafur Guðmundsson, Jón Ólafsson, Ingvar Jónsson, Björgvin Jónsson, óþekkt, Valdimar Valdimarsson, Ástmar Ingvarsson, Guðný Hjartardóttir, Steingrímur Jónsson og Kristinn Jóhannsson. Ef þú þekkir einhvern óþekktan á myndinni, eða veist hvar myndin var tekin, vinsamlega sendu okkur þá athugasemd.

Samningur um ljósleiðara á Skagaströnd

Samhliða lagningu dreifikerfis hitaveitu um Skagaströnd verður lagður ljósleiðari í öll hús sem tengjast hitaveitunni. Samningur um lagningu og reksturs ljósleiðara á Skagaströnd var undirritaður milli Mílu og Sveitarfélagsins Skagaströnd í elsta húsi bæjarins, Árnesi 10. maí síðastliðinn. Með samningnum og lagningu ljósleiðarans eru viss tímamót framundan í fjarskiptamálum á Skagaströnd þar sem ljósleiðarinn mun bjóða upp á betri margmiðlunarsamskipti. Samningurinn byggir á ákvæði í samning við RARIK um að leggja hitaveitulagnir í öll hús í þéttbýli á Skagaströnd og innifalið í þeim samningi er að RARIK muni láta leggja ljósleiðarakerfi í lagnaskurði hitaveitulagna fyrir sveitarfélagið. Með samninginum framselur sveitarfélagið þann rétt til Mílu sem mun leggja til hönnun og efni í ljósleiðarakerfi í skurðina. Míla mun síðan eiga og reka kerfið sem opið aðgangsnet. Í samningnum kemur fram að aðgangur að ljósleiðaraheimtaugum Mílu verður opinn öllum þjónustuveitendum sem uppfylla almenn skilyrði gildandi laga um fjarskiptaleyfi á sömu kjörum og almennt gilda. Áætlað er að fyrstu húsin í bænum verði síðan tengd ljósleiðaranum í byrjun næsta árs. Það voru þeir Ingvar Hjaltalín Jóhannesson forstöðumaður hjá Mílu og Adolf H. Berndsen oddviti á Skagaströnd sem undirrituðu samninginn fyrir hönd umbjóðenda sinna.

Framkvæmdir við hitaveitu hafnar á Skagaströnd

Í gær miðvikudaginn 22. maí var fyrsta skóflustungan tekin í dreifikerfi hitaveitu á Skagaströnd. RARIK hefur gert verksamning við GV Gröfur ehf. um framkvæmdina að undangengnu útboði. Undirverktaki við gröft og tenginu veitunnar er Sorphreinsun VH ehf. Verkið hófst með því að grafið var fyrir inntaki að Vallarbraut 4, en verkinu verðu þannig háttað að teknir verða fyrir ákveðnir afmarkaðir hlutar byggðarinnar. Fyrsti hluti verksins er tenging húsa sunnan Fellsbrautar og á Hólanesi. Gert er ráð fyrir að þeim verkhluta verði að mestu lokið áður en lagt verður af stað í næsta verkhluta sem er tenging hús á svæðinu milli Fellsbrautar og Ránarbrautar. Ljósmyndir: ÁGI

Boðið um borð í Húna II og Knörrinn

Í tilefni 50 ára afmæli Húna II mun hann koma við í sinni gömlu heimahöfn Skagaströnd í dag þriðjudaginn 21. maí og verður til sýnis fyrir almenning ásamt Knerrinum frá Húsavík kl 20.00 – 22.00 í kvöld. Í tilefni hálfrar aldar afmælis skipsins er það á hringferð um landið ásamt Knerrinum sem einnig fagnar hálfrar aldar smíðaafmæli. Húni II er stærsta eikaskip smíðað á Íslandi, sem enn er á floti. Hann var smíðaður fyrir Skagstrendinga hjá KEA 1963 og var m.a. gerður út á síldveiðar. Knörrinn frá Húsavík var einnig smíðaður hjá KEA 1963. Húni II og Knörrinn eru gott vitni um fagleg og vönduð vinnubrögð við smíði trébáta og íslenska verkþekkingu sem nú er á undanhaldi. Hollvinir Húna II

Sumarstörf námsmanna hjá Sveitarfélaginu Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir sumarstörf námsmanna í samstarfi við Vinnumálastofnun. Störfin eru við ýmis verkefni á vegum sveitarfélagsins m.a. við skógrækt, umhverfismál og umsjón með golfvelli. Umsóknareyðublöð má fá á skrifstofu sveitarfélagsins. Umsóknarfrestur vegna sumarstarfa námsmanna er til 22. maí n.k. Skráning í Vinnuskóla Skagastrandar fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins. Sérstök athygli er vakin á að störf í vinnuskóla verða einungis fyrir nemendur sem eru að ljúka 8., 9. og 10. bekk. Með tilvísun í reglugerð um vinnu barna og unglinga er einungis heimilt að ráða 13 ára og eldri til starfa í vinnuskólum. Því takmarkast ráðning í vinnuskóla við fyrrgreind aldursmörk. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofunni í síma 455 2700. Sveitarstjóri

Frá Tónlistarskóla A-Hún.

Skólaslit og afhending prófskírteina fyrir skólaárið 2012-2013 fer fram í Blönduóskirkju laugardaginn 18. maí n.k. kl:1500 Fram koma nemendur sem hafa lokið stigsprófum og nemendur 10. bekkja sem kveðja skólann. Allir velkomnir. Skólastjóri.

Mynd vikunnar

Sjómannadagur Sigursveit kvenna í kappróðri á sjómannadegi, líklega 1989. Frá vinstri: Árni Ólafur Sigurðsson stýrimaður, Hallbjörg Jónsdóttir, Vigdís Viggósdóttir, Sigþrúður Magnúsdóttir, Guðbjörg Viggósdóttir, Kolbrún Viggósdóttir og Edda Pálsdóttir. Sigrinum fylgdi bikar til varðveislu í eitt ár. Ef sama sveitin vann bikarinn þrisvar í röð eða fimm sinnum alls vannst hann til eignar. Líklega hefur þessi sveit keppt í nafni Hólanes hf og flestar stúlkurnar verið starfsstúlkur þar á þessum tíma. Enn er keppt í kappróðri á sjómannadegi á Skagaströnd á bátunum Gusti og Golu, sem byggðir voru í bátastöð Nóa Kristjánssonar á Akureyri árið 1948 og notaðir í fyrsta sinn á sjómannadegi það ár. Allt upp í 16 róðrarsveitir hafa keppt á sjómannadegi en það var 1988 sem þær voru svo margar. Yfirleitt eru sveitirnar þó mun færri. Heimild: Sjómannadagurinn á Skagaströnd í 70 ár eftir Lárus Ægi Guðmundsson útgefið 2009.

Egill Örn var í 1. sæti í stærðfræðikeppninni

Úrslit í stærðfræðikeppni 14.05.2013 Verðlauna afhending mynd GK Egill Örn Ingibergsson í Höfðaskóla varð í fyrsta sæti í stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og 9. bekkjar grunnskóla á Norðurlandi vestra, í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Sigfinnur Andri Marinósson, Varmahlíðarskóla varð í öðru sæti og Karl Vernharð Þorleifsson, Dalvíkurskóla í þriðja. Úrslitakeppnin fór fram í gær en stærðfræðikeppnin hefur verið haldin árlega í sextán ár. Undankeppnin fór fram 18. apríl og tóku 127 nemendur af Norðurlandi vestra, úr Fjallabyggð og Dalvíkurskóla þátt í henni. Að þessu sinni komust 15 nemendur í úrslit. Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni MTR og FNV, grunnskóla, stofnana og fyrirtækja á Norðurlandi vestra auk þess sem fyrirtæki utan kjördæmisins koma að verkefninu. Kennarar í stærðfræði við MTR og FNV báru hitann og þungann af samningu og yfirferð keppnisgagna, en grunnskólarnir sáu um fyrirlögn dæmanna í undankeppninni. Myndir 1. Verðlaun Point of View 10“ spjaldtölva frá Tölvutek Kr. 10.000 frá styrktaraðilum. Casio FX 570ES reiknivél frá A4 Gjafabréf frá Levi´s Heyrnatól og mús frá Símanum Gjafabréf frá Snara.is Minnislykill frá Valberg ehf Verðlaunagripur frá KLM verðlaunagripum 2. Verðlaun Cannon Ixus frá Pedromyndum Kr. 9.000 frá styrktaraðilum. Casio FX 570ES reiknivél frá A4 Gjafabréf frá Levi´s Heyrnatól og mús frá Símanum Gjafabréf frá Snara.is Minnislykilll frá Valberg ehf Verðlaunagripur frá KLM verðlaunagripum 3. Verðlaun Inntenso MP3 8GB mynd og hljóðspilari frá Tölvutek Kr. 8.000 frá styrktaraðilum. Casio FX 570ES reiknivél frá A4 Gjafabréf frá Levi´s Heyrnatól og mús frá Símanum Gjafabréf frá Snara.is Minnislykill frá Valberg ehf Verðlaunagripur frá KLM verðlaunagripum 4-15. sæti: Gjafabréf frá Snara.is, minnislykill frá Valberg ehf. og kr. 7.000 frá styrktaraðilum Auk ofangreindra styrktaraðila styrktu eftirtaldir keppnina með fjárframlögum: Blönduósbær Fjallabyggð Húnaþing vestra Sveitarfélagið Skagaströnd Sveitarfélagið Skagafjörður Arionbanki Landsbankinn Sparisjóður Skagafjarðar Fréttin skv. www.mtr.is