Landsmönnum boðið í bíó - Íslensk kvikmyndahelgi 21.-24. mars.

Í tilefni af hækkun framlaga í Kvikmyndasjóð Íslands bjóða íslenskir kvikmyndagerðarmenn, í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands og 18 sýningarstaði, landsmönnum í bíó helgina 21. – 24. mars. Fjölbreytt úrval íslenskra kvikmynda verður sýnt víðs vegar um land og í einhverjum tilfellum verða leikstjórar eða aðrir aðstandendur viðstaddir sýningar og svara spurningum að þeim loknum. Alls verða sýningar á 18 stöðum, þar af tveimur í Reykjavík – Háskólabíó og Bíó Paradís. Sýningarstaðir voru valdir í samráði við menningarfulltrúa hvers landshluta og eftir aðstöðu til sýninga. Frekari upplýsingar og dagskrá Íslenskrar kvikmyndahelgi má nálgast á miðvikudaginn á heimasíðu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands: www.kvikmyndamidstod.is Í tilefni af íslensku kvikmyndavikunni verða tvær myndir sýndar frítt á í Félagsheimilinu á Blönduósi! Fimmtudaginn 21. mars munum við sýna kvikmyndina Brim kl 20:00. Sunnudaginn 23. mars munum við sýna kvikmyndina Duggholufólkið kl 15:00 og mun leikstjóri myndarinnar, Ari Kristjáns verða viðstaddur sýninguna! Látum þennan frábæra menningarviðburð ekki fram hjá okkur fara :)

Félagsvist í Fellsborg

Í kvöld (mánudagskvöld) klukkan 20:00 verður þriðja og síðasta spilakvöldið hjá kvenfélaginu í bili. Sjáumst í Fellsborg :) Kvenfélagið Eining

Fjársjóður í fjölskyldualbúminu

Eggert Þór Bernharðsson prófessor mun halda fyrirlestur um ljósmyndir og fjölskyldualbúmin í Rannsóknarsetri Háskóla Íslands í gamla kaupfélaginu á Skagaströnd næst komandi laugardag 23. mars klukkan 15:00. Flestir hafa reynslu af því að fletta gömlum fjölskyldualbúmum og haft gagn og gaman af. Í erindinu veltir Eggert Þór Bernharðsson prófessor í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands upp ýmsum spurningum sem vaknað hafa við skoðun og könnun á fjölskyldualbúmum frá tiltekinni fjölskyldu, einkum frá árunum 1930 til 1970. Hugað verður að því hvers konar sögu sé hægt að lesa út úr myndaalbúmum af þessu tagi, hvert sé hugsanlegt gildi fjölskyldumynda, hvað kunni að einkenna þær og hvaða möguleika þær bjóði upp á sem heimildir. Heitt verður á könnunni og eftir fyrirlesturinn mun Eggert sitja fyrir svörum um það sem brennur á fólki í sambandi við myndirnar sínar. Hver veit nema það felist fjársjóður í fjölskyldualbúminu þínu. Við þetta tækifæri verður líka sett upp lítil ljósmyndasýning á staðnum á fjölskyldumyndum úr Ljósmyndasafninu Skagastrandar. Fólk verður beðið um að hjálpa til við að þekkja þá sem óþekktir eru á myndunum. Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Skagaströnd

Mynd vikunnar.

Verslunarstjórahúsið byggt Verslunarstjórahúsið í byggingu árið 1906. Þetta hús stóð vestan við gamla kaupfélagið og var, eins og nafnið bendir til, byggt sem íbúð fyrir verslunarstjóra Höphnersverslunar sem þá var á Skagaströnd. Í húsinu voru tvær íbúðir og kjallari. Seinna var húsið í eigu Kaupfélags Skagstrendinga og enn síðar í eigu Kaupfélags Húnvetninga. Lengst af bjuggu í húsinu kaupfélagsstjórar og/eða aðrir starfsmenn kaupfélagsins. Í nokkur ár var síðan húsið leigt út á almennum markaði og síðast bjuggu í því fjölskyldur Eðvarðs Ingvasonar og Þórs Arasonar. Húsið var svo rifið í kringum 1980.

Skemmtun með Siggu Klingenberg

Stórkostleg skemmtun með Siggu Klingenberg sem hefur slegið í gegn um allt land. Sigga Kling verður í Félagsheimilinu á Blönduósi. Skemmtunin hefst klukkan 19:30. Boðið verður upp á fjölbreytta osta-kynningu frá Osta- og Smjörsölunni og vínkynningu frá Ölgerðinni. Þetta er skemmtunar og fræðslukvöld sem hefur slegið í gegn um allt land! Ekki missa af Siggu Klingenberg í þetta eina sinn á Blönduósi. Bæði fyrir konur og karla! Verð aðeins 1.900 kr. Viltu hlægja, læra og láta þér líða vel? þá skaltu mæta á þetta kvöld. hristu af þér slenið og skundaðu á skemmtun og fræðslukvöld í Félagsheimilinu á Blönduósi þann 15. Mars! Við hvetjum fólk til þess að skrá sig hér á facebook eða á pot@pot.is :)

Kynningarfundur vegna stofnunar framhaldsdeildar (dreifnáms) í Austur Húnavatnssýslu fyrir nemendur í elstu bekkjum grunnskóla og foreldra/forráðamenn þeirra

Á mánudaginn 11. mars verður boðið til kynningarfundar vegna fyrirhugaðs framhaldsnáms (dreifnáms) í heimahéraði. Fundurinn verður haldinn kl. 20:00 í tölvuveri Höfðaskóla 11. mars og eru allir íbúar hjartanlega velkomnir en foreldrar elstu nemenda grunnskólans eru sérstaklega hvattir til að mæta til að kynna sér þessa leið við byrjun framhaldsnáms. Á fundunum mun Þorkell Þorsteinsson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, fara ítarlega yfir starfsemi deildarinnar. Rakel Runólfsdóttir umsjónarmaður dreifnáms FNV á Hvammstanga og nemendur þaðan kynna hvernig til hefur tekist með uppbyggingu dreifnámsins á Hvammstanga. Fulltrúar sveitarfélaga í A-Hún. munu skýra frá undirbúningi heima í héraði. Auk kynninganna verður tekið við fyrirspurnum frá fundargestum. Með von um góða mætingu! Undirbúningsnefnd

Mynd vikunnar.

Eftir golfmót Hópmynd að lokinni verðlaunaafhendingu á golfmóti á Hágerðisvelli á góðviðrisdegi um hásumar. Myndin er tekin einhverntíma í kringum 1990 en golfklúbburinn var stofnaður 1985. Á fyrstu árum klúbbsins voru golfmót afar algeng og fjöldi manns tók þátt í þeim. Á myndinni eru, talið frá vinstri:Viggó Magnússon, Halldór Gunnar Ólafsson, Ingibergur Guðmundsson, Bjarnhildur Sigurðardóttir situr með dóttur sína Elínu Ósk Ómarsdóttur, Guðmundur E. Guðmundsson, Sigurbjörn Kristjánsson, Lilja Kristinsdóttir, Jónas Þorvaldsson, Bjarney Valdimarsdóttir, Oliver Oliversson, Guðrún Pálsdóttir, Vilhelm Jónsson, Adolf J. Berndsen, Gunnar Jónsson, óþekktur drengur, óþekkt kona með barn. Standandi hægra meginn við bílinn eru: Adolf H. Berndsen, Fritz Hendrik Berndsen, Ragnar Jónsson, Ragnar Ingvarsson, óþekkt kona, Þórarinn Ingvarsson og Jóhannes Sveinsson. Krjúpandi fyrir fram þá eru, frá vinstri: Jón Ingi Ingvarsson, Lárus Ægir Guðmundsson, Rúnar Loftsson, Ómar Jakobsson og Vilhjálmur Skaftason. Ef þú þekkir þá sem eru óþekktir á þessari mynd vinsamlega sendu okkur þá athugasemd á netfangið olibenna@hi.is

Bókasafnið lokað í dag

Bókasafnið er lokað í dag vegna veðurs. Kveðja Sigþrúður

Fundi frestað í dag v/ veðurs

Almenni borgarafundurinn um dreifnámið sem átti að vera í dag 6. mars í Fellsborg er frestað v/ veðurs.

Aðalfundi Rauða krossins á Skagaströnd frestað

Aðalfundi Rauða krossins á Skagaströnd sem átti að vera í kvöld hefur verið frestað til mánudagsins 11. Mars kl. 20:00. Stjórnin