28.07.2011
Í Morgunblaðinu í morgun er sagt frá sannkölluðum happadrætti. Ólafur Bernódusson fréttaritari blaðsins á Skagaströnd skrifar fréttina og tók meðfylgjandi mynd:
Guðmundur Þorleifsson, strandveiðimaður á Fannari SK11, datt heldur betur í lukkupottinn þegar hann setti í stórlúðu á miðunum norður af Skaga. Lúðan vó 163 kg slægð þannig að fullyrða má að hún hafi verið a.m.k. 175 kg þegar hún beit á krókinn hjá Guðmundi.
„Sem betur fer var hún frekar róleg en það tók nú samt tvo og hálfan tíma frá því hún kom á, þangað til ég var búinn að koma á hana spotta og binda við bátinn. Það var ekki möguleiki að ég næði henni einn inn fyrir. Ég var skíthræddur allan tímann að missa hana því hún hékk á einum krók í kjaftvikinu og hann var farinn að réttast upp,“ sagði Guðmundur um viðureign sína við lúðuskrímslið. Eftir að hafa komið böndum á lúðuna hætti Guðmundur veiðum og stímdi í land á rúmlega hálfri ferð.
Yfirleitt eru þeir tveir á Fannari, Guðmundur og faðir hans, en í þessum túr var Guðmundur einn því faðir hans var að fylgja vini sínum til grafar. Guðmundur kvaðst vera viss um að hann hefði orðið var við lúðuna á sama stað daginn áður því þá kom einhver fiskur á færið hjá honum og sleit það með það sama. Það kom svo í ljós þegar lúðan var slægð að í maga hennar voru tveir færakrókar þannig að líklega er þetta rétt hjá honum. Í maganum voru líka tvær hálfmeltar smálúður þannig að stórlúður virðast ekki hika við að éta ættingja sína ef svo ber undir.
Lúðan var seld á fiskmarkaðnum og fengust um 1.100 krónur fyrir kílóið.
27.07.2011
Listræn notkun á klippimyndum kom fram í byrjun tuttugustu aldar og dreifðist sem byltingarkennd tækni bæði í list og pólitískum áróðri.
Frá dadaisma til pönks hafa klippimyndir verið tengdar stefnum sem takast á.
Núna eru klippimyndir orðnar táknmynd fyrir post modernisma sem fjölhyggjustefna sem hentar blöndun í nýtíma menningu. “Klippa”, “afrita” og “líma” úr fjöllaga notendaviðmóti er hluti af okkar daglega lífi.
Í þessari vinnusmiðju munum við skoða og æfa klippimyndagerð. Þáttakendur eru hvattir til að koma með þau áhöld og efni sem þeir vilja nota við klippimyndagerðina, t.d. : skæri, pappírslím, dagblöð og tímarit til að klippa úr, pappír og karton.
Dagskrá:
17 til 19:00 Saga klippimynda / sýndar stuttmyndir / grunn hugtök
19 til 19:30 Matarhlé
19:30 til 22 Klippimyndagerð
Námskeiðið fer fram í húsnæði Ness listamiðstöðvar að Fjörubraut 8, Skagaströnd fimmtudaginn 28.júlí / frá klukkan 17 til 22.
Áhugasamir hafi samband í síma 8987877 eða olafia@neslist.is
25.07.2011
Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti á fundi sínum 25. maí 2011 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Hólanessvæðisins á Skagaströnd samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Deiliskipulagsuppdráttur, greinargerð og skráning húsa á Hólanessvæðinu munu vera til sýnis á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar, Túnbraut 1-3 frá 27. júlí til 16. september 2011 Ennfremur er tillagan til sýnis á heimasíðu sveitarfélagsins, http://www.skagastrond.is/skipulagsmal.asp.
Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Athugasemdum skal skila til skrifstofu Skagastrandar fyrir 16. september 2011 og skulu þær vera skriflegar.
Magnús B. Jónsson
sveitarstjóri
25.07.2011
Yfirlitssýning á verkum Sveinbjörns H. Blöndal var opnuð í íþróttahúsinu á Skagaströnd síðasta laugardag. Fjöldi gesta var við opnunina og þar á meðal Birna Blöndal, ekkja Sveinbjörns, og börn þeirra.
Sýningin er einstaklega glæsileg. Hún þykir gefa gott yfirit yfir þróun og þroska listamannsins. Hann hóf feril sinn á því að tekna skopmyndir í dagblöð og teikningar voru honum alltaf hugstæðar. Á sýningunni má meðal annars sjá margvíslegar skopmyndir, einfaldar og flóknar. Þar eru einnig vatnslitamyndir, akrýl- og oliumálverk, alls fimmtíu og fjögur verk.
Sýningin verður opin daglega frá 13-17 fram til loka Kántrýdaga, 14. ágúst. Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnun sýningarinnar.
21.07.2011
Sveitarfélagið Skagaströnd stendur fyrir yfirlitssýningu á verkum Sveinbjörns H. Blöndal í íþróttahúsinu á Skagaströnd frá 23. júlí til 14. ágúst 2011. Þar má sjá hluta af verkum Sveinbjörns sem málara, en hann bjó stóran hluta ævi sinnar á Skagaströnd. Sýndar eru teikningar, vatnslitamyndir, akríl- og olíumálverk.
Sýningin verður opnuð laugardaginn 23. júlí kl. 14 og verður opið til kl. 17 þann dag.
Sýningin mun standa til 14. ágúst 2011, opin alla daga frá kl. 13 til 17 og eru allir velkomnir.
Á sýningunni eru fimmtíu og fjögur málverk auk nokkurra teikninga. Myndirnar eru valdar með það að markmiði að sýna þróun hans sem listamanns og mismunandi litanotkun og efnistök.
Sýningin er sett upp í samstarfi við fjölskyldu Sveinbjörns. Fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir hafa lánað myndir á sýninguna.
Sýningin er styrkt af Menningarsjóði Norðurlands vestra.
Sveinbjörn Helgi Blöndal
Sveinbjörn fæddist á Akureyri 11. október 1932. Foreldrar hans voru Magnús Blöndal framkvæmdastjóri á Siglufirði og kona hans Elsa María Schiöth.
Hann ólst upp á Siglufirði. Rétt innan við tvítugt hélt hann suður yfir heiðar til náms og starfa. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og brautskráðist af listmálunardeild. Ungur að aldri hóf hann feril sinn með því að teikna skopmyndir í dagblöð.
Frístundir notaði Sveinbjörn til að mála og teikna en hélt lengi vel verkum sínum lítt á lofti þótt þeir sem þekktu hann best fengju að sjá og njóta málverka og skopmynda.
Fyrirmyndir í málverkin voru oftast sóttar í íslenska náttúru þar sem fagurkerinn beitti litatækni sinni til að kalla fram tilbrigði náttúrunnar, birtuna og formin. Hann var gagnrýninn á eigin verk og fannst þau seint fullkomnuð.
Sveinbjörn hélt nokkrar einkasýningar og tók einnig þátt í samsýningum, bæði hér á landi og erlendis.
Sveinbjörn kvæntist, 18. júní 1955 Birnu Ingibjörgu Jónsdóttur og eignuðust þau fjögur börn. Þau fluttust sama ár til Skagastrandar og bjuggu þar nær öll sín búskaparár.
Sveinbjörn var rúmlega meðalmaður á hæð, svipmikill og fasmikill, hafði mikið og strítt hár. Undir miklum augabrúnum leiftruðu athugul augu sem námu af listrænni næmni það sem fyrir bar, hvort heldur voru litbrigði himins eða fjölbreytileiki þess fólks sem hann umgekkst.
Sveinbjörn var skarpgreindur, víðlesinn og fylgdist grannt með því sem gerðist, bæði í nærumhverfi sínu sem og á heimsvísu. Hann var mikill húmoristi og flugbeittar athugasemdir hans um menn og málefni voru oft þannig að þær gleymdust ekki þeim sem til heyrðu.
Hin síðari ár glímdi Sveinbjörn við erfiðan sjúkdóm og m.a. þess vegna fluttu þau Birna til Hafnarfjarðar árið 2001. Veikindin höfðu þau áhrif að hann gat ekki haldið áfram listsköpun sinni.
Sveinbjörn H. Blöndal lést 7. apríl 2010.
21.07.2011
Tónleikar verða í kaffihúsinu Barmanesi laugardaginn 23. júlí kl. 21:00. Karl Hallgrímsson syngur á eigin lög og texta sem meðal annars er að finna á nýútkominni plötu hans sem nefnist „Héðan í frá“.
Karl hefur fengið frábæra dóma fyrir plötu sína. í Fréttablaðinu sagði gagnrýnandi:
Þetta er gæðagripur í sígildum íslenskum poppstíl. Heðan í frá verður að gera ráð fyrir Karli Hallgrímssyni [...] Niðurstaða: Blús- og þjóðlagaskotið íslenskt popp frá hæfileikaríkum nýliða.
Á Rás2 segir dr. Gunni:
Karl syngur vel með sinni viðkunnalegu röddu.
Og þess má að auki geta að „Héðan í frá“ var valin íslenksa plata vikunnar á Rás2 í lok maí.
15.07.2011
Meistaramót GSK var leikið á Háagerðisvelli í blíðskapar veðri daganna 11. til 13. júlí. Leiknar voru 36 holur.
Klúbbmeistar urðu:
Kvennaflokkur: Dagný Marín Sigmarsdóttir
Karlar meistaraflokkur: Sverrir Brynjar Berndsen
Karlar 1. flokkur: Sigurður Sigurðarson.
Meðfylgjandi mynd var tekin á meðan á mótinu stóð. Þarna á hlöðnum garði á 5. braut stendur slyngur sláttumaður. Kúlan hafði staðnæmst ofan á garðinum og með lagni tókst honum að ná góðu höggi nærri því inn á flöt. Hægt er að stækka myndina með því að tvísmella á hana. Þá má kenna manninn.
13.07.2011
Þegar Pétur Eggertsson, íbúi á Skagaströnd, var að grisja trjágróður í garði sínum datt honum í hug að gefa sveitarfélaginu 20 viðjuplöntur. Þær voru þegnar með þökkum og gróðursettar á milli Suðurvegs og Suðurvegs B.
Skógræktarfélag Skagastrandar fékk fyrir stuttu gefins um 300 birkiplöntur og aspir, hvort tveggja um 40 til 50 cm háar og hefur gróðursett þær víðs vegar um bæinn.
Skógræktarfélagið hefur einnig keypt um 40 aspir af kvæmi sem nefnist keisari. Það er tegund sem á að henta vel fyrir norðlægar slóðir og hafa reynst einstaklega vel. Þessar pöntur hafa verið gróðursettar við íþróttahúsið og neðst á Fellsbraut til móts við kirkjuna.
Einnig hefur Skógræktarfélagið ákveð að setja niður bakkaplöntur, reynivið og sitkagreni, í skógræktarsvæði fyrir ofan tjaldsvæðið. Þar voru í fyrra gróðursetttar um 1200 birkiplöntur. Fyrirhugað er að plönturnar verði gróðursettar næsta mánudagskvöld, þann 18. júlí kl. 20. Allir sem áhuga hafa eru endilega hvattir til að koma, njóta útiverunnar og jafnvel gætu sumir lært eitthvað hagnýtt um gróðursetningu.
06.07.2011
Café Bjarmanes er í stóru húsi sem byggt var árið 1912 og hefur í gegnum tíðina verið notað sem samkomuhús, lögreglustöð, danssalur og heimili.
Árið 2004 var húsið opnað á ný eftir að hafa verið gert upp og nú er þar kaffihús.
Café Bjarmanes er rekið af Steinunni Ósk Óskarsdóttur. "Þetta er fallegasta kaffihús á landinu, og ég hef heimsótt þau mörg" segir hún við blaðamann Tímans í viðtali sem birtist á timinn.is
Fréttin öll: Hér
04.07.2011
Í júlí og ágúst verður skrifstofa Sveitarfélagsins Skagastrandar opin frá 10:00 til 14:00 vegna sumarfría starfsfólks.
Sveitarstjóri