27.11.2011
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
mánudaginn 28. nóvember 2011 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Endurskoðuð fjárhagsáætlun
2. Félagslegar íbúðir
3. Tónlistarskóli A-Hún
4. Fellsborg endurbætur
5. Frístundakort
6. Bréf
a) Sávarútvegsráðuneytis, 26. október 2011
b) Félagsmálastjóra, 23. nóvember 2011
c) Björgunarsveitarinnar Strandar, dags 25. nóvember 2011
d) USAH, dags. 26. október 2011
e) Snorraverkefnisins, dags. 7. nóvember 2011
f) Sveitarstjóra til vegamálastjóra, dags. 15. nóvember 2011
g) Sveitarstjóra til Íslandspósts, dags. 21. nóvember 2011
7. Fundargerðir
a) Stjórnar SSNV, 8.09.2011
b) Stjórnar SSNV, 4.10.2011
c) Stjórnar SSNV, 11.11.2011
d) Samráðsfundar ríkis og sveitarfélaga, 5.10.2011
e) Stjórnar Sís og forsvarsmanna landshlutasamtaka, 14.10.2011
f) Heilbrigðisnefndar Nl.vestra, 1.11. 2011
g) Heilbrigðisnefndar Nl.vestra, 22.11. 2011
8. Önnur mál.
Sveitarstjóri
24.11.2011
Kveikt verður á jólatrénu á Hnappstaðatúni
laugardaginn 26. nóvember kl 17.00.
Samkomulag hefur tekist við jólasveinafélagið um að jólasveinar mæti samkvæmt venju þótt opinber starfstími þeirra
hefjist ekki fyrr en eftir nokkra daga.
Börn eru hvött til að koma með foreldra sína og rifja upp jólalögin.
Sveitarstjóri.
23.11.2011
Djásn og dúllerí opnar jólamarkað á Skagaströnd
laugardaginn 26. nóvember 2011
Opið verður frá kl. 14 -18 allar helgar til jóla og
á Þorláksmessu til kl. 21.
Verið hjartanlega velkomin. Það verður heitt á könnunni að vanda.
DJÁSN OG DÚLLERÍ
22.11.2011
Samkvæmt lögum ber að gefa út markaskrá á árinu 2012. Söfnun búfjármarka er að hefjast og lýkur í desember.
Undirritaður verður á skrifstofu Skagastrandar 25. nóvember kl. 12-16, á efri hæð Samkaupa á Blönduósi 28. og 29. nóvember kl. 12-17 og í Dalsmynni 29. nóvember kl. 20-22 og veitir viðtöku þeim búfjármörkum sem markaeigendur óska eftir að fá birt í markaskrá.
Gjald fyrir hvert mark er kr. 2.000.- og staðgreiðist. Enginn posi.
Jóhann Guðmundsson
markavörður Austur-Húnavatnssýslu.
22.11.2011
Fimmtán hressir krakkar kepptu fyrir hönd USAH á Silfurleikum ÍR í frjálsíþróttum í Laugardalshöllinni um síðustu helgi (19 nóvember). Allir stóðu sig frábærlega og það sem mestu máli skiptir er að allir skemmtu sér konunglega. Góð þáttaka var á mótinu og voru 559 keppendur skráðir til keppni frá 22 samböndum.
Magnús Örn Valsson varð í 2. Sæti í kúluvarpi í flokki pilta 16-17 ára.
Egill Örn Ingibersson sigraði í kúluvarpi í flokki pilta 13 ára.
Páll Halldórsson varð í 2. sæti í kúluvarpi í flokki pilta 12 ára.
Valgerður Guðný Ingvarsdóttir varð í 2. sæti í kúluvarpi í flokki stúlkna 11 ára.
Frábær árangur hjá Húnvetningunum.
Stefán Velemir setti Íslandsmet í flokki 16 -17 ára pilta þegar hann varpaði kúlunni 15,99 m.
Hann æfir og keppir með ÍR.
Til hamingju með þennan frábæra árangur Stefán J
22.11.2011
Óskar Pétursson og Hjalti Jónsson verða með söngskemmtun í Hólaneskirkju n.k. föstudagskvöld kl. 20.30. Þeir félagar flytja létta dagskrá í tali og tónum við undirleik Eyþórs Inga.
Óskar er frá Álftagerði í Skagafirði og er einn ástsælasti söngvari landsins og hefur hlýjað mörgum með söng sínum við ýmsar athafnir og tónleika. Hann var bæjarlistamaður Akureyrar fyrir nokkrum árum.
Hjalti er ættaður frá Blönduósi og lauk prófi í klassiskum söng vorið 2009 og hefur síðan þá sungið við fjöldamörg tækifæri sem einsöngvari enda er hann hörkusöngvari og skemmtikraftur.
Tónleikarnir eru í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli. Það kostar ekkert inn á skemmtunina og allir eru velkomnir.
21.11.2011
Þann 26. nóvember verður árlegur jólaföndurdagur foreldrafélagsins haldinn. Þetta hefur hingað til verið frábær dagur þar sem öll fjölskyldan kemur saman og föndrar og hefur gaman af.
Við viljum minna á að jólaföndrið er opið öllum sem vilja koma, svo endilega bjóðið afa og ömmu eða bara hverjum sem er með.
Eins og áður er þetta sama dag og piparkökubaksturinn í leikskólanum.
Fjörið stendur frá kl. 13:00 – 16:00
Foreldrafélagið verður með ýmiskonar jólaföndurvörur til sölu og einnig verður selt kaffi og kökudiskur.
Mjög gott er að hafa í huga að koma með skæri, límstifti, föndurliti, pensla og nál ef fólk á.
Vonumst til þess að sjá sem flesta í jólaskapi
Stjórn foreldrafélagsins
11.11.2011
Út er komin bók um Þórdísi spákonu með undirheitið "sagan sem síðast var rituð". Höfundar bókarinnar eru Dagný Marín Sigmarsdóttir, Svava G. Sigurðardóttir og Sigrún Lárusdóttir.
Í formála bókarinnar er gerð grein fyrir þeim sagnabrotum sem stuðst var við þegar sagan var rituð. Þar kemur fram að álykta megi að Þórdís hafi verið kvenskörungur mikill og sýnt rausn og skörungsskap í hvívetna. Hún hafi ýmist verið talin hin mesta fordæða, framsýn og fylgin sér, sáttasemjari eða fjölkunnug og búin mikilli spádómsgáfu. Ráðist hafi verið í ritun þáttar um æfi Þórdísar til að bæta fyrir sleggjudóma sögualdar. Með ritun sögu Þórdísar sé reynt að draga fram kosti hennar ekki síður en galla og sýna fram á áhrif er hún hafði í héraðinu.
Þórdís var fyrsti nafntogaði Skagstrendingurinn og gæti hafa numið land á Skagaströnd þar sem einskis annars er getið í Landnámu.
Bókin er til sölu í Spákonuhofinu á Skagaströnd
11.11.2011
Til að meta árangur og líðan í skólastarfi
Upplýsinga- og fræðslufundur um gagnsemi matstækjanna Skólavogin og Skólapúlsinn var haldinn í fundarsal Samstöðu á Blönduósi fimmtudaginn 10. nóvember s.l.
Til að kynna matstækin komu til fundarins Gunnlaugur Júlíusson og Valgerður Ágústsdóttir, frá Samb. ísl. sveitarf. og Almar H. Halldórsson, frá fyrirtækinu Skólapúlsinum. Fundinn sóttu skólastjórnendur og sveitarstjórnamenn Skagafjarðar, Húnavatnssýslna og Bæjarhrepps.
Ávinningur af notkun tækjanna er:
• Betri yfirsýn yfir rekstur og nýtingu fjármagns
• Aukin innsýn í skólabraginn
• Samanburður á eigin frammistöðu yfir tíma
• Viðhorfakannanir geta nýst við innra mat skóla
• Samanburður við önnur sveitarfélög og skóla
• Úthlutun fjármagns til skóla
• Nýtist sveitarfélögum til að koma til móts við lögbundnar kröfur um mat og eftirlit með skólum
Myndir frá fundinum
11.11.2011
Námsefni í útikennslu
Stærðfræðikennarar Húnavatnssýslna voru boðaðir til fræðslufundar í Grunnskólann á Blönduósi þriðjudaginn 8. nóvember.
Stærðfræði undir berum himni var verkefni dagsins og voru ýmis verkefni fyrir nemendur 1. – 7. bekkja kynnt fyrir þátttakendum. Miðað er við að verkefnin séu unnin utandyra.
Þóra Rósa Geirsdóttir, sérfræðingur hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Ingileif Ástvaldsdóttir, skólastjóri Þelamerkurskóla voru kennarar á námskeiðinu.
Námsefnið er norskt og hafa leiðbeinendur þýtt og staðfært bækurnar.
Fyrir tveimur árum komu út verkefnabækur fyrir yngsta stig grunnskólans og nú í haust komu út bækurnar fyrir miðstig grunnskólans.
Bækurnar fyrir yngsta stigið eru þrjár og fjallar hver þeirra um afmarkað viðfangsefni út frá inntaki stærðfræðinnar: Mælingar, Rúmfræði og Tölur og tölfræði.
Bækurnar fyrir miðstigið eru fjórar: Mælingar, Rúmfræði, Tölfræði og líkindi og Tölur og algebra.
Öll verkefnin í bókunum eru tengd aðferðamarkmiðum aðalnámskrár.
Námskeiðið var á vegum Fræðsluskrifstofu A- Hún.
Myndir: Þátttakendur og Leiðbeinandi.