Prjónakaffi í Kvennaskólanum

Prjónakaffið í Kvennaskólanum er í 2. viku mánaðarins – áhugasamir eru hvattir til að mæta með prjóna eða aðra handavinnu, sýna sig og sjá aðra, fræðast og njóta.   Úrval bóka og tímarita eru til útláns. Kompan - hannyrða- og föndurverslun á Sauðárkróki kynnir vöru sína og þjónustu. Herdís í Kompunni mun leggja sérstaka áherslu á að kynna ýmiskonar garn fyrir hekl, prjón og útsaum, og ull í þæfingu.  Þá kynnir hún þá þjónustu sem verslunin býður upp á: námskeið, leiðbeiningar og pöntunarþjónustu.   Handverkshús Textílsetursins – undirbúningur er hafinn og verða ýmis námskeið í boði fyrir áhugasama.  Tóvinnunámskeið er fyrirhugað helgina 14. – 15. mars.  Einnig verður boðið upp á prjónanámskeið, þæfingarnámskeið og námskeið í vinnu með leður og roð. Skráning í s. 894-9030 og textilsetur@simnet.is.

Grímuball í Fellsborg á öskudag

Grímuball verður haldið í Fellsborg á öskudaginn, miðvikudaginn 25. febrúar, kl. 18:00 - 20:00.  Aðgangseyrir er 400 kr. fyrir þá sem eru í búningum en 600 kr. fyrir aðra. Frítt fyrir þriðja barn frá heimili. Allir velkomnir, jafnt stórir sem smáir. Eins og venjulega verður marserað, farið í leiki, kötturinn sleginn úr tunnunni og veitt verðlaun fyrir flotta búninga. Mætum nú öll og skemmtum okkur saman. Skólafélagið Rán.

Rauði krossinn leitar eftir heimsóknavinum

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar Rauða krossins sem yfirleitt heimsækja gestgjafa sína einu sinni í viku, klukkustund í senn. Þeir sem heimsækja eru karlar og konur, ungir og aldnir, allt fólk sem er tilbúið að gefa tíma sinn til að gleðja aðra.  Það fer svolítið eftir áhugamálum og aðstæðum þess sem heimsóttur er, hvernig gestgjafi og heimsóknavinur verja tímanum saman. Sumir vilja bara spjalla um daginn og veginn, aðrir hlusta á lestur úr góðum bókum, spila eða fara í gönguferð, svo eitthvað sé nefnt,  allt eftir því hvað gestgjafi og heimsóknavinur koma sér saman um. Heimsóknir eru meðal annars á heimili fólks, dvalarheimili, sjúkrahús eða sambýli, auk þess sem einnig eru starfandi svokallaðir ökuvinir, sem bjóða gestgjafa sínum í bíltúr í stað heimsóknar á heimili. Einnig bjóða nokkrar deildir upp á heimsóknir með hunda. Heimsóknavinur þarf að hafa gaman af því að umgangast fólk, vera traustur og áreiðanlegur og kunna að hlusta á aðra.  Undanfari heimsóknavina, voru svokallaðir sjúkravinir sem hófu heimsóknir um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, en verkefnið í þeirri mynd sem nú starfar, hófst árið 2001.    Þeir sem vilja gerast heimsóknavinir þurfa að sækja undirbúningsnámskeið sem haldin eru hjá deildum Rauða krossins víða um land. Á námskeiðinu er fyrst farið í stuttu máli yfir stöðu og markmið verkefnisins, en síðan er farið yfir hlutverk heimsóknavina og þær reglur sem unnið eftir. Heimsóknavinum stendur einnig til boða fjölbreytt fræðsla, námskeið og handleiðsla eftir að þeir taka til starfa og hefja heimsóknir. Þeir sem hafa áhuga á að gerast heimsóknavinir eru hvattir til að hafa samband við Sigrúnu í síma 897-2884. Námskeið fyrir heimsóknarvini verður haldið á Blönduósi þriðjudaginn 24. febrúar og er skráning og frekari upplýsingar hjá Sigrúnu í ofangreindu símanúmeri.  

Fallegu Strandafjöllin mín ...

Þegar vel viðrar á Skagaströnd, sem er sko eiginlega alltaf, kemur fyrir að fjöllin hinum handan Flóans sýni sig. Það þarf nú ekki endilega að gerast á sama tíma því veður í Strandasýslu eru oft önnur en hérna megin. Hvað heita fjöllin vestan Húnaflóa á sömu breiddargráðu og Skagaströnd? Þessi spurning kom eitt sinn fyrir í spurningakeppninni Drekktu betur. Svarið er Balafjöll. Þau rísa bratt og tignarlegir hamrarnir blasa við augum eins og glögglega má sá á meðfylgjandi mynd. Og þegar veðrið er gott væri gaman að geta ort eins og Helga frá Flögu: Björt sem vandað brúðarlín, breidd á þandan snjáinn. Fallegu Strandafjöllin mín fyrir handan sjáinn.

Viðtalstímar menningarfulltrúa

Ertu með hugmynd ? Viðtalstímar menningarfulltrúa Vegna auglýsingar um verkefnastyrki Menningarráðs Norðurlands vestra verður Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi, með viðtalstíma í A-Hún. sem hér segir: Fimmtudagur 26. febrúar: Kl. 11.00 - 12.00 - Bókasafn Húnavallaskóla Kl. 13.00 - 16.00 - Skrifstofa Blönduósbæjar Kl. 16.15 - 17.00 - Skrifstofa menningarráðs, Skagaströnd Pantaðu tíma í síma 892 3080 eða bara mættu á staðinn. Menningarráð Norðurlands vestra

Verkefnastyrkir til menningarstarfs

Verkefnastyrkir til menningarstarfs Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á grundvelli samnings menntamálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við SSNV frá 1. maí 2007. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarf og menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa tvær úthlutanir á árinu 2009, með umsóknarfrestum til og með 12. mars og 15. september. Menningarráð skilgreinir verkefni í eftirtalda flokka: a) Stærra samstarfsverkefni. Stærra samstarfsverkefni þarf að fela í sér samstarf aðila úr þeim þremur sýslum sem eru á starfssvæði ráðsins. Heimilt er að veita allt að 3 milljónum króna til slíks verkefnis en styrkur getur þó aldrei verið hærri en 70% af heildarkostnaði verkefnisins. b) Minni samstarfsverkefni, svæðisbundin verkefni og verkefni einyrkja. Heimilt er að veita allt að 1,5 milljónum króna til hvers verkefnis en styrkur getur þó aldrei verið hærri en 50% af heildarkostnaði verkefnisins. Menningarráð hefur ákveðið að þau verkefni hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða: · Efling atvinnustarfsemi, þekkingar og fræðslu á sviði menningar og lista. · Samstarf milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina og uppsetning viðburða á fleiri en einum stað. · Nýsköpun og þróun menningarstarfs og menningartengdrar ferðaþjónustu. · Aukin þátttaka ungs fólks og eldri borgara í menningarstarfi. · Verkefni sem hafa unnið sér sess og viðurkenningu og eru vaxandi Umsækjendur geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Norðurlandi vestra. Skilyrði er að viðkomandi sýni fram á mótframlag. Umsækjendum er bent á að kynna sér nánar úthlutunarreglur 2009, menningarsamninginn og stefnumótun í menningarmálum á www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Menningarráðs Norðurlands vestra sem hægt er að nálgast á heimasíðunni www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Í umsókninni skal m.a. vera greinargóð lýsing á verkefninu með verkáætlun og tímasetningum, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur. Umsóknir vegna fyrri úthlutunar ársins 2009 skulu sendar Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Einbúastíg 2, 545 Skagaströnd, eigi síðar en 12. mars 2009. Þær má senda rafrænt á netfangið menning@ssnv.is. Séu þær sendar í pósti skulu þær póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag. Allar nánari upplýsingar og aðstoð veitir Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra, símar 452 2901 / 892 3080, netfang menning@ssnv.is

Opið hús í Nes-listamiðstöð á laugardag

Listamennirnir í Nes-listamiðstöðinni á Skagaströnd vilja sem fyrr ná til Húnvetninga og bjóða því upp á opið hús laugardaginn 21. febrúar kl. 13:00 að Fjörubraut 8. Á því tæpa ári sem liðið er frá því að Nes-Listamiðstöðin tók til starfa hafa listamennirnir nokkrum sinnum boðið upp á opið hús. Alltaf hefur fjöldi fólks komið í heimsókn og notið þess að fræðast um hin ólíku listform sem unnið er að. Á vegum listamiðstöðvarinnar eru sjö listamenn í febrúar. Þeir eru Natalia Black frá Slóvakíu, Lucas Gervilla frá Brasilíu, Michele Horrigan frá Írlandi, Ben Kingsley og Jessica Langley frá Bandaríkjunum, Sean Linch og Lucy Mckenna frá Írlandi.

Umsóknir í vaxtarsaming Norðurlands vestra

Auglýst hefur verið eftir umsóknum um stuðning frá Vaxtarsamningi Norðurlands vestra. Til greina koma verkefni sem unnin eru í samvinnu tveggja eða fleiri aðila og er sérstaklega hvatt til uppbyggingar samstarfs í anda klasa. Verkefnin lúta að öðru hvoru: Rannsóknum og menntun Menningu og ferðaþjónustu Umsóknir sendist fyrir 15. mars nk. til Vaxtarsamnings Norðurlands vestra, Faxatorgi 1, 550 Sauðárkróki. Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar er að finna á vef SSNV, www.ssnv.is og hjá starfsmanni sjóðsins, Hjördísi Gísladóttur, Faxatorgi 1 á Sauðárkróki. Síminn hjá henni er 455 7931 og 893 8277.

Leikskólabörnin sýna í Landsbankanum

Á degi leikskólanna þann 6. febrúar síðast liðinn var opnuð listsýning Leikskólans Barnabóls í Landsbankanum á Skagaströnd. Við það tækifæri sungu börnin fyrir gesti og gangandi. Sýningin í ár fjallar um kúrekana á sléttunni og má sjá hesta og kúreka í hinum ýmsu gerðum og marga með frábæran útbúnað. Undanfarin ár hafa slíkar sýningar verið haldnar í bankanum og þær fjallað um ýmislegt úr nánasta umhverfi eins og t.d. fjallið okkar, Spákonufell, hrafninn, styttur bæjarins og fleira. Allt starfsmönnum og getsum til mikillar ánægju. Landsbankinn býður alla hjartanlega velkomna í Landsbankann að skoða sýninguna.

Skagstrendingar á skíðum

Síðasta laugardag viðraði vel til skíðaferða og Skagstrendingar gripu tækifærið og fjölmenntu á skíðasvæðið í Tindastóli.  Hér eru nokkrar myndir sem Ingibergur Guðmundsson tók af unga fólkinu sem ber sig svo fagmannlega.  Þess má að auki geta að daglegar rútuferðir eru alla laugardaga frá Skagaströnd á Tindastól.  Skíðasvæðið er opið um helgar frá 11 til 17 en 14 til 19 virka daga.