23.01.2009
Gleðibankinn hvetur þjóðina til að taka ótæpilega út innistæður sínar í bankanum. Þá biður bankinn íbúa þessa lands að sýna friðarhug sinn í verki og setja næstu kvöld áberandi ljós út í þann glugga sem snýr að götu eða friðarkerti við útidyr ef veður leyfir. Megi þeir sem nærast á ofbeldi og eignaspjöllum sjá að landsmenn eru slíku andsnúnir.
Á síðustu vikum hefur nokkur halli verið á viðskiptum Gleðibankans með Bros, Spaug og Hlátra. BSH vísitalan er víst fremur neikvæð þessa dagana.
Það skal undirstrikað að ekki eru bein tengsl milli Gleðibankans og stöðu efnahagsmála. Hins vegar er það Gleðibankanum áhyggjuefni að landsmenn skuli kjósa að leggja inn BSH (bros, spaug og hlátur) en brúka þess í stað YB (ygglibrún) sem er óæskilegur gjaldmiðill í samskiptum fólks.
Um leið og Gleðibankinn óskar eftir því að landsmenn brúki innistæður sínar sem mest og leggi YB af vill hann taka eftirfarandi fram:
Innistæður eru nægar, lánalínur tryggar, krosseignatengsl örugg og viðskiptavild ótæmandi.
Í ljósi þessara aðstæðna biður Gleðibankinn mótmælendur efnahagskreppunnar að ganga hratt inn um gleðinnar dyr og stuðla að varanlegum friði milli ólíkra aðila í þjóðfélaginu. Það er rétt sem forðum var mælt að friður er grundvöllur allra góðra þjóðfélagsaðgerða.
Fréttatilkynning frá Gleðibankanum
Aðalútbúið á Skagaströnd
Fyrir hönd Gleðibankans
bankastjórar
23.01.2009
Stjórnandi, spyrill, dómari og alvaldur í Gettu betur í kvöld verður Ólafur Bernódusson, kennari og þúsundþjalasmiður á Skagaströnd. Hann spyr af myndugleik kennarans, glettni húmoristans, visku hins fjölfróða og kæruleysi grallarans
Flestir þekkja Óla. Hann hefur verið afar getspakur í spurningakeppninni og vann til dæmis þá síðustu ásamt konu sinni.
Sumir halda því fram að það hafi nú eiginlega verið hún Guðrún sem eigi allan heiðurinn af sigrinum.
Hvað um það, Óli er líka með afbrigðum fjölfróður og ekki að efa að keppnin verður ákaflega skemmtileg með mann á borð við Óla við stýrið.
Reglur keppninnar eru óteljandi og afar flóknar. Hér er stuttur
úrdráttur:
30 spurningar, skrifleg svör - Einn spyrill, sem er dómari og alvaldur
- Bjórkassi í verðlaun fyrir þá sem hafa flest svör rétt - „Bjórspurningin“; verðlaun fyrir rétt svar er bjórglas á barnum
21.01.2009
Þróttmikill badmintonklúbburinn á Skagaströnd gaf einum félaga sinna skemmtilega fimmtugsafmælisgjöf síðasta mánudag. Klúbburinn hefur lengi verið mjög virkur, hittast félagar tvisvar í viku í íþróttahúsinu og reyna með sér.
Síðasta mánudag varð einn badmintonfélaginn skyndilega fimmtugur. Var það Adolf Berndsen, margir þekkja, en drengurinn hefur lengi verið búsettur hér í bæ - sumir segja frá fæðingu, aðrir lengur. Adolf þessi hefur alla tíð verið efnilegur í badminton. Hann tekur hvern leik mjög alvarlega, spilar ávallt til sigurs, sættir sig aldrei við jafntefli ... Hann leikur jafnan fullklæddur, brúkar síðbuxur, ermalanga skyrtu og elstu menn muna ekki eftir öðru en þessum sama svarta samkvæmisklæðnaði.
Leikur Adolfs byggist á stanslausri sókn. Gefur hann mótherjum sínum aldrei nokkurn grið og svo ákaft er leikið að hann bannar jafnan samherja sínum að eiga orðastað við andstæðingana - segir það trufla einbeitingu þeirra sem búa ekki yfir andlegri staðfestu og einbeitni.
Badmintonspilurum á Skagaströnd þykir ákaflega vænt um Adolf. Í tilefni afmælisins létu þeir hinn kunna teiknara Guðráð draga upp mynd. Hún hefur víðtæka skírskotun í fjölmörg og ólík hlutverk Adolfs í lífinu. Á henni má sjá golfkerru, fótbolta, sveitarfélagslurkinn, ránfugl íhaldsins, badmintonspaða, nokkur fyrirtækislógó og ekki síst hið undurfagra Spákonufell sem er í bakgrunn. Formóðir Adolfs er Þórdís spákona sem fjallið er kennt við. Hún nam land á Skagaströnd klukkan 14:39 þann 30. júní 975.
Meðfylgjandi er mynd af teikningunni. Einnig er mynd af þeim badmintonspilurum sem treystu sér til að taka þátt í mánudagsæfingunni. Adolf þekkist á því að hann er í svörtum samkvæmisfötum, stendur fyrir miðju og er með teikninguna góðu í höndunum. Smella má á myndirnar til að stækka þær.
19.01.2009
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
þriðjudaginn 20. janúar 2009 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Fjárhagsáætlun 2009
2. Bréf:
a) Nes listamiðstöðvar, 15. janúar 2009.
b) Skipulagsstofnunar, 7. janúar 2009.
3. Fundargerðir:
a) Hafnarnefndar, 29. desember 2008
b) Sjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún 9.01.2009.
c) Stjórnar byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún. 22.12.2008.
d) Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 12.12.2008.
4. Önnur mál
Sveitarstjóri
19.01.2009
Ýmis mál verða afhjúpuð þann 7. febrúar næstkomandi. Þau munu án efa gjörbreyta hinu viðkvæma samfélagi okkar á Skagaströnd.
Frelsunin er í nánd ...!
Ekki er víst að allir verði jafn sáttir við það sem fram mun koma en nær öruggt að samfélagið þarf á þessum atburði að halda.
Ný Skagaströnd í burðarliðnum?
Þorrablótið verður nánar auglýst þegar nær dregur.
19.01.2009
Líf og fjör var í Tindastóli síðastliðinn laugardag. Fyrsta skíðaferð Umf. Fram í vetur hlaut frábæran hljómgrunn þátttakan var framar björtustu vonum. Skagstrendingar fylltu 50 manna langferðabíl og til viðbótar þurfti að fara á 4 einkabílum til þess að allir gætu komist í fjallið. Taldist okkur til að 68 Skagstrendingar hefðu mætt til leiks og besta var að allir skiluðu sér heilir og brosandi heim aftur.
Að sjálfsögðu verður þessum ferðum haldið áfram á laugardögum nema annað verði auglýst.
Stjórn Umf. Fram
12.01.2009
Næsta fimmtudag verður býður Textílsetrið upp á námskeið í Kvennaskólanum á Blönduósi. Kennt verður að prjóna tvær ermar á einn prjón, "tíglaprjón", ýmis uppfit og affellingar og fleira.
Leiðbeinandi á námskeiðinu verður Ásdís Birgisdóttir, textílhönnuður.
Námskeiðið hefst kl. 20 á miðvikudagskvöldið og boðið verður upp á kaffi. Áhugasamir eru hvattir til að mæta með prjóna eða aðra handavinnu og eiga notalega kvöldstund saman.
09.01.2009
Eftir að hafa kýlt magann yfir jól og áramót er kominn tími til að vekja heilasellurnar. Í kvöld byrjar spurningakeppnin Gettu betur í Kántrýbæ.
Keppnin hefst stundvíslega klukkan 21:30. Stjórnandi, spyrill og alvaldur verður að þessu sinni Árdís Indriðadóttir, bókasafnsvörður. Hún hefur verið ansi getspök í fyrri keppnum, meðal annars sigrað einu sinni ásamt syni sínum. Yfirleitt hafa þau verið með stigahæstu liðunum.
Nafni keppninnar hefur verið breytt lítilsháttar. Áður hét hún Drekktu betur og var átt við að forráðamenn keppninna fengu inni í Kántrýbæ án endurgjalds en þátttakendur sáu um að drekka upp í húsaleigu, þ.e. kaffi, kók eða eitthvað annað ... Núna er komin nokkur festa á keppnina, aðsóknin mikil og varla þörf á frekari hvatningu. Áherslan er sem fyrr á skemmtilega samkomu, góðan félagsskap og ánægulega keppni um rétt svör. Ekki spillir svo fyrir að bjórkassi er í verðlaun fyrir sigurliðið.
23.12.2008
Sveitarfélagið Skagaströnd óskar öllum íbúum, velunnurum og vinum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Fyrir hönd sveitarstjórnar
Sveitarstjóri
19.12.2008
Bryndís Scram les upp úr bók sinni Í sól og skugga í Bjarmanesi á sunnudaginn kl. 16.
Bókin er endurminningar Bryndísar þar sem hún dregur upp litríkar mannlífsmyndir frá Bandaríkjunum, Kanada, Suður-Ameríku, Finnlandi, Eystrasaltslöndunum, Suður-Evrópu og ekki síst frá öðrum heimkynnum sínum, Andalúsíu.
Ævintýraleg tilvera, heitar tilfinningar og iðandi mannlíf - allt þetta ber hún hér fram á blómum skrýddu veisluborði minninganna.