Kaffihlaðborð og jólamarkaður á sunnudaginn

Kaffihlaðborð verður í Bjarmanesi sunnudaginn 7. desember frá kl. 14.00 til 18.00. Í boði er kaffi, heitt súkkulaði og  jólate, marsipan og marengstertur, brauðtertur og flatkökur með hangikjöti svo eitthvað sé nefnt. Verð 1000 kr. fyrir fullorðna – 500 kr. fyrir börn 5 - 12 ára. Frítt fyrir 0 - 4 ára.   Eygló Amelía kemur og syngur nokkur jólalög. allir hjartanlega velkomnir. Á sama tíma verður jólamarkaður í kjallara Bjarmaness þar sem fjölmargir listamenn selja handverk sitt.

Drekktu betur í kvöld

Halldór Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol ehf., verður spyrill í spurningakeppninni Drekktu betur sem haldin verður í Kántrýbæ í kvöld. A föstudagskvöldið verður sjötta og jafnframt síðasta spurningakeppnin á þessu ári. Fyrri keppnir hafa verið ákaflega skemmtilegar, spyrlar fróðir og komið á óvart með fjölbreytni sinni og ekki hafa þátttakendur verið síðri. Halldór hefur verið önnum kafinn síðustu tvær vikur við að búa til spurningar sínar. Hann hefur auðvitað mestar áhyggjur yfir því að þær verði of léttar. Við sjáum nú bara til með það. Hitt vita flestir að hann hefur einu sinni unnið bjórkassann sem er í verðlaun og ætti nú að vita hverskonar spurningar þarf að leggja fyrir hina vísu Skagstrendinga.  

Landaður fiskafli tvöfaldast á Skagaströnd

Gríðarleg breyting hefur orðið á umsvifum í Skagastrandarhöfn. Mikill afli berst nú til lands og á fyrstu þremur mánuðum fiskveiðiársins barst 55% af þeim afla sem hér var landað allt síðasta tímabil. Fiskveiðitímabilið hefst sem kunnugt er í september. Landaður afli á Skagaströnd á þremur fyrstu mánuðum þess er nú rúmlega tvöfalt meiri en á sama tíma í fyrra. Í september, október og nóvember bárust á land samtals 3.282 tonn, en sömu mánuði í fyrra var landað 1.580 tonnum og árið 2006 var aflinn 1.865 tonn. Þetta er afar mikil breyting og því til staðfestingar má nefna að allur afli síðasta fiskveiðiári var 5.984 tonn en þar áður var aflinn 9.273 tonn. Það sem af er hafa átján skip og bátar lagt upp á Skagaströnd, sumir einu sinni og aðrir mun oftar. Aflahæstu skipin eru þessi: Rifsnes SH44 - 188.235 tonn Valdimar GK195 - 160.492 tonn Kristinn SH112 - 159.094 tonn Sturla GK12 - 150.050 tonn Örvar SH77 - 83.836 tonn Togarinn Arnar kom 24. nóvember og landaði samtals 317.930 tonnum af frystum flökum og heilfrystu.

BioPol rannsakar beitukóng í Húnaflóa

Biopol sjávarlíftæknisetur hefur hafið rannsóknir á beitukóngi í Húnaflóa. Hún er unnin í samstarfi við Vör-Sjávarrannsóknarsetur við Breiðafjörð, Sægarp ehf. á Grundarfirði og Vík ehf. á Skagaströnd. Markmiðið er að gera frumathugun á hvort beitukóngur (Buccinum undatum) finnist í veiðanlegu magni í Húnaflóa. Framkvæmd verkefnisins fer fram með þeim hætti að trossur með gildrum er lagðar á völdum svæðum sem eru valin sérstaklega með tilliti til botngerðar og dýpis þar sem aukin líkindi eru á að beitukóngur ætti að geta verið fyrir hendi. Aflinn sem fæst í gildrurnar verður tekin í land til rannsókna. Verkefnið er styrkt af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra. Beitukóngsveiðarnar hafa gengið ágætlega og hefur nú verið vitjað fjórum sinnum um gildrurnar og þær fluttar til. Fyrstu trossurnar voru lagðar rétt sunnan við Skagaströnd svo hafa þær verið færðar norðar í hvert sinn sem vitjað er. Hafrún HU12 hefur verið notuð til veiðanna og er öll aðstað um borð til fyrirmyndar. Aflinn var frekar dræmur í annari vitjun, líklega vegna veðurs. Eftir þriðju vitjun á laugardaginn síðasta var hálf tindabykkja sett til viðbótar við hökkuðu síldina í gildrurnar. Tindabykkjan virðist hafa góð áhrif á veiðina því að í síðust vitjun var heildaraflinn 139 kg eða að meðaltali 2,3 kg í gildru. Mesta veiðin í eina gildru var 4,9 kg sem þykir nokkuð gott. Veiðin virðist vera best á 10 til 20 föðmum. Áætlað er að leggja trossurnar fjórum sinnum í viðbót í þessari atrennu.

Farskólinn með enskunám á Skagaströnd

Enskunám er nú að hefjast í Farskólaverkefninu "Eflum byggð á Skagaströnd". Kennt verður daganna 3. des og 10. des og alla eftir áramót verður kennt á fimmtudögum í átta vikur. Öllum er heimil þátttaka, hún kostar ekkert og námsgögnin eru líka ókeypis. Fólk getur einnigvalið að taka bara ensku og sleppt öðrum námshlutum. Allir tímar hefjast kl. 18:00 og þeim lýkur kl. 21:00. Lögð er áhersla á að gefa öllum tækifæri á að læra með sínum hraða og námsefnið sniðið að þörfum hvers og eins. Ekki er lögð áhersla á heimanám og lokapróf er ekki haldið enda tilgangurinn að gefa fólki hvatningu til frekara náms. Hægt er að skrá sig í síma 455 6010 eða senda tölvupóst á netfangið asdish@farskolinn.is.

Kveikt á jólatrénu á Skagaströnd

Kveikt var á ljósunum á jólatrénu á Skagaströnd í gær. Lítilsháttar frost og smávægileg snjófjúk kom ekki í veg fyrir að jólasveinarnir mættu á staðinn og þarna á Hnappstaðatúninu voru auðvitað mætt langflest börn á Skagaströnd og foreldrar þeirra. Svo var sungið og dansað í kringum jólatréð sem lék við hvern sinn fingur eða grein. Jólasveinarnir komu víða að meðal annars var þarna einn sem talaði bara útlensku. Hann var líklega í námsferð hjá þeim íslensku. Þeir kokmu færandi hendi og er það líklega tímanna tákn að þeir útdeildu "blandi í poka" til allra barna en ekki einhverju fornlegu eins og kertum eða spilum. Grýla var víðs fjarri með pokann sinn og var hann sem endranær galtómur.

Kvöldstund í Kvennaskólanum

Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi býður upp á prjónakaffi og jólamarkað í Kvennaskólanum næsta fimmtudag, 11. desember kl. 20. Á jólamarkaðnum verður í boði vandað handverk. Þá eru áhugasamir hvattir til að mæta með prjóna eða aðra handavinnu og eiga notalega kvöldstund saman.

Ursula Árnadóttir er nýr prestur á Skagaströnd

Valnefnd í Skagastrandarprestakalli, Húnavatnsprófastsdæmi, ákvað á fundi sínum þann 26. nóvember að legga til að Ursula Árnadóttir verði ráðin sóknarprestur í prestakallinu. Umsóknarfrestur rann út 14. nóvember síðastsliðinn. Þrír umsækjendur voru um embættið. Embættið veitist frá 1. janúar 2009. Biskup Íslands skipar í embætti sóknarprests til fimm ára að fenginni umsögn valnefndar. Valnefnd skipuðu níu manns úr prestakallinu ásamt prófasti Húnavatnsprófastsdæmis.

Fjöldi manns í opnu húsi Nes-listar

Fjöldi manns sótti heim Nes-listamiðstöðina á laugardaginn en þá buðu listamenn heimamönnum og raunar öllum Húnvetningum upp á opið hús. Boðið var upp á léttar veitingar og listamennirnir útskýrðu list sína, sögðu frá því sem þeir unnu að og svöruðu fyrirspurnum. Þetta voru þau Timo Rytkönen frá Finnlandi, Kate Dambach frá Bandaríkjunum og Ben Taffinder frá Bretlandi og Carola Luther, rithöfundur frá Suður Afríku sem las ljóð. Dvalartíma þessara listamanna er nú að ljúka og þar sem þau voru svo ánægð með vitina langaði þeim að þakka fyrir sig með opnu húsi. Í „frystinum“ svokallaða var listsýning Hrafnhildar Sigurðardóttur en hún er framkvæmdastjóri Nes-listamiðstöðvar. Þrátt fyrir annríki við reksturinn hefur henni gefist tími til listsköpunnar. Ssýningin nefndist „Allt í plasti“.  Hrafnhildur verður með aðra sýningu í StartArt listamannahúsi Laugarvegi 12b í Reykjavík og hún nefnist „Leikhlé – Time out“. Sú sýning verður opin þriðjudaga til laugardaga kl.  13.00 – 17.00 og lýkur 7. janúar. Síðdegis þennan laugardag bauð svo Sverrir Sveinn Sigurðarson rithöfundur upp á fyrirlestur í Kántrýbæ og fjallaði hann um ferðir Þorfinns Karlsefnis og Guðríðar í Vesturheimi. Hann bar saman tvær fornsögur, Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða og dró af þeim margvíslegar ályktanir. Til viðbótar hefur Sverrir Sveinn safnað fjölda heimildum um frumbyggja á þessum slóðu, „skrælingja“, eins og þeir eru eru kallaðir í fornritunum. Hann bar síðan þessar upplýsingar saman við það sem fram kemur í áðurnefndum sögum og dró þá ályktun að þrátt fyrir að sögurnar væru mjög ólíkar væru þær í grunnin nokkuð áreiðanlegar. Sverrir Sveinn hefur á Skagaströnd unnið að því að skrifa skáldsögu um ferðir Karlsefnis og Guðríðar og samskipti þeirra við frumbyggja. Meðfylgjandi myndir tók Signý Richter.  

Kreppuráð Láru - frábær fyrirlestur

„Ef mér gengur illa að sofna af áhyggjum segi ég bara gafall, gaffall, gaffall, gaffall í huganum. Gaffall hefur aldrei valdið mér neinum vandamálum. Þannig reyni ég að ýta burtu úr huga mér þunglyndislegum hugsunum sem gera mér ekkert gott,“ segir Lára Ómarsdóttir á afar fróðlegum og ekki síður skemmtilegum fyrirlestri í Bjarmanesi í gærkvöldi. Fundurinn var haldinn af Vinnumálastofnun og Farskóla Norðurlands vestra. Lára var eini fyrirlesarinn og tilgangurinn var að hún segði frá þeim ráðum sem hún og eignmaður hennar hefðu gripið til þegar erfiðleikar steðjuðu að fjölskyldu hennar. Hið höfum það ágætt núna sagði Lára sem kynntist miklum fjárhagserfiðleikum fyrir nokkrum árum. Hún og maður hennar eiga fimm börn og það var ekkert grín að finna ráð til að fæða og klæða svona stóra fjölskyldu þegar lausafé var naumt og reikningarnir hrúguðust inn. Eflaust hefðu einhverjir látið hugfallast, en ekki Lára. Hún segir að það geti verið erfiðir tímar framundan en finnst ekki ástæða til að kvíða því sérstaklega. Fjölskyldan setti sér ákveðna heimspeki sem byggði á skipulagi í naumum fjárhag og ekki síður að sjá alltaf vonarglætu í tilverunni. „Greiddu fyrst af öllu reikninganna,“ segir Lára ákveðin. Svo bætir hún við: „Þó maður eigi ekki mikla peninga þýðir ekkert að leggjast í þunglyndi. Við höfum bara áhyggjur af fjármálunum þrjá daga í mánuði, síðasta dag mánaðarins og tvo fyrstu dagana. Síðasta dag mánaðarins vorum við oft ansi fátæk og þá var akkúrat tími til að hafa áhyggjur af því hvort maður eigi mat fyrir fjölskylduna. Daginn eftir er útborgunardagur og þá skipulegg ég fjármál mánaðarins.“ Lára segist gera plan til eins árs. Hún ákveður fyrirfram að greiða reikninga á réttum gjalddögum, standa í skilum með allt. Ef hún sér fram á að geta það ekki þá leitar hún til lánardrottna og biður um lagfæringu á láni, því ekki má láta lánin fara í vanskil, það er einfaldlega alltof dýrt. Þegar hún hefur gengið frá greiðslum á lánum þá sér hún hvaða peninga hún á til annarra hluta. „Og þeir hafa oft ekki verið miklir,“ segir Lára. Fjölskyldan sest niður og gerir þá áætlun fyrir heilan mánuð. Býr til töflu og skráir hvað eigi að vera í morgunmat, hádegismat, miðdegiskaffi og kvöldmat. „Oftast er ekkert kvöldkaffi enda bara óhollt að borða fyrir svefninn,“ segir Lára og hlær hlátri sem ekki er ólíkur þeim hrossahlátri sem einkennir karl föður hennar, Ómar Ragnarsson, fréttamann, stjórnmálamann og grínara. Lára deilir síðan handbærum peningum niður á hverja viku og þá kemur í ljós hvað má eyða á hverjum degi. „Kreditkort er verkfæri djöfulsins, það á maður aldrei að nota,“ segir Lára. „Því fylgir bara kostnaður og ofneysla,“ og orðum hennar fylgir mikil sannfæring. Hún segist ekki heldur nota debetkort vegna þess að það hvetur aðeins til meiri eyðslu. “Best er að hafa seðlana í höndunum, nákvæmlega þá fjárhæð sem maður þarf að nota hverju sinni.“ Og það gerir Lára þegar hún verslar í matinn. Hún fer út í Bónus með innkaupalista og kaupir ekkert nema það sem á honum stendur og skrifar verðið hjá sér og reiknar út heildarfjárhæðina áður en hún fer á kassann. „Stundum stemmir ekki hjá mér vegna þess að verslanir eru stundum með annað verð í hillum en á kassa. Þeir sem nota kort þeir taka ekkert eftir þessu og á því græðir verslunin. Hugsið ykkur ef vara er einni krónu dýrari á kassanum, þá græðir verslunin rosalega.“ En lífið er ekki bara fjármál hjá Láru. Hún sagðist hafa lært það í erfiðleikum sínum að ekki væri allt tómt svartnætti. „Alltaf er eitthvað gott, eitthvað til að þakka fyrir,“ segir hún. „Ég hef það fyrir venju að þakka fyrir smá og stór atriði sem gefa lífinu gildi. Ég þakka fyrir að vakna á morgnanna, þakka fyrir að sjá börnin mín, þakka fyrir gott veður. Ég þakka meira segja fyrir þegar einhver heimiliskötturinn strýkst við fótlegginn á mér. Það er svo ákaflega margt sem er gott og ástæða til að þakka fyrir það. Með þessu móti sér maður lífið í öðru ljósi og allt verður skemmilegra.“ Og fjölskyldan naut lífsins þrátt fyrir naum efni. Raunar var það þannig hjá Láru að skipulagið átti vel við börnin: „Þau vilja hafa allt i föstum skorðum. Þegar við höfum hætt að gera svona áætlun þá hafa börnin kvartað. Þau vilja líka halda sig við hana, kvarta ef ekki er réttur matur á borðum. Hins vegar vita þau að lífið er ekkert endilega sanngjarn. Við þurfum ekki öll að borða jafn mikið, og stundum borðar einhver meira en hann mátti. Þannig er það bara.“ Fjölskyldan skemmtir sér og reynir að njóta lífsins. „Við fíflumst að minnsta kosti eitt kvöld í viku,“ segir Lára og fundargestir skilja ekki. Hún skýrir mál sitt: „Til dæmis á föstudagskvöldi tökum við okkur til og klæðum við okkur upp í asnalega búninga og við fíflumst einfaldlega eins og við getum, syngjum og látum eins og við eigum ekki að gera. Þetta eru ákaflega skemmtileg kvöld, við fáum útrás og á eftir líður öllum svo óskaplega vel.“ Hér er ekki pláss til að endursegja allan fyrirlestur Láru. Um tuttugu manns komu og hlýddu á fyrirlesturinn og er óhætt að segja að allir hafi haft bæði gagn og gaman af. Allir hrifust af þessari hugrökku konu sem var svo hreinskilin, sagði frá lífi sínu, mistökum sínum og endurreisn. Nú þegar mikið rætt um kreppu og ýmis konar óáran er tilvalið að taka Láru sér til fyrirmyndar. Lífið heldur áfram og það er kostur að geta sveigt það eftir aðstæðum sem stundum virst geta verið grimmar en þegar nánar er að gáð eru möguleikarnir óteljandi. Allt er það spurning um hugarfar.