29.10.2008
Fimmtudagskvöldið, 30. október nk. kl. 20:30 verður haldinn poppmessa í Hólaneskirkju.
Messan verður létt og skemmtileg með fjölbreyttri dagskrá þar sem leikin verður lifandi tónlist m.a. á gíta og bassa.
Kirkjukórinn syngur og einsöngvararnir Halldór G. Ólafsson og Sigríður Stefánsdóttir syngja einsöng sem og sóknarpresturinn sjálfur.
Á dagskrá eru lög eftir Eric Clapton, Simon og Garfunkel og Geirmund Valtýsson svo einhverjir séu nefndir. Tónlistarstjórn er í höndum Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur organista.
Komum í poppmessu og eigum saman góða og létta stund.
28.10.2008
Þegar nánar er að gáð er ýmislegt um að vera á Skagaströnd í skammdeginu. Í dag er dreift meðal íbúa áskorun frá nokkrum mætum konum og hljóðar hún á þessa leið:
„Við erum hér nokkrar sem ætlum að hittast í Bjarmanesi, föndrum við hitt og þetta, sauma, prjóna, hekla, skrappa eða bara spjalla sem er líka fínt.
Við reynum að læra af hverri annarri og hjálpast að.
Gaman væri ef sem flestir létu nú sjá sig
Við ætlum að hittast einu sinni í viku fram til jóla og sjá svo til með framhaldið.
Svo stefnum við að því að halda jólamarkað í desember.
Allir velkomnir til skrafs og ráðgerða - heitt kaffi á könnunni“
Undir áskorunina rita þessar:
Guðrún Soffía Pétursdóttir
Ásthildur Gunnlaugsdóttir
Gígja Óskarsdóttir
Jóhanna Karlsdóttir
Áslaug Ottósdóttir
Ólafía Lárusdóttir
Þær ætla að hittast í dag, þriðjudag, 28. október frá kl. 19 til 23 og næsta sunnudag, 2. nóvember frá kl. 13 til 18. Framvegis munu þær koma saman annan hvern þriðjudag og anna hvern sunnudag til skiptis.
27.10.2008
Þrátt fyrir slæmt veður mættu um fimmtíu manns á spurningakeppnina „Drekktu betur“ í Kántrýbæ síðasta föstudagskvöld. Hjörtur Guðbjartsson var spyrill hélt uppi fjörinu og þóttu spurningar hans afar fjölbreytilegar.
Bjórspurningin vafðist fyrir mörgum. Hjörtur spurði hver hlotið hefði hin bandarísku Seacology umhverfisvernarverðlaun. Einhvern veginn hafði þessi frétt farið framhjá flestum og hlutu því aðeins fjögur lið bjórglasið. Það var hins vegar hinn góðkunni grínari, fréttamaður og stjórnmálamaður Ómar Ragnarsson sem hlaut þessi verðlaun í byrjun mánaðarins en þau hafa verið veitt til þess einstaklings í heiminum sem leggur mikið af mörkum til verndunar lífríkisins.
Leikar fóru þannig að sigurvegarar með tuttugu og tvö stig voru þeir Magnús B. Jónsson og Sigurður Sigurðarson og var það mál manna að þeir tveir hefðu óumdeilanlega mest úrval af gangslausum upplýsingum til reiðu. Hlutu þeir bjórkassann í verðlaun.
Næsta keppni verður haldin 7. nóvember og verður spyrill Finnur Kristinsson, en verði hann fjarverandi mun Guðbjörg Ólafsdóttir, eiginkona hans spyrja. Þau unnu fyrstu keppnina sem haldin var í lok september síðast liðinn.
Meðfylgjandi myndir tók Ólafía Lárusdóttir á föstudagskvöldið.
23.10.2008
Sveitarstjórn Skagastrandar hefur endurnýjað ákvörðun sína um að foreldrar barna á Skagaströnd geta fengið 15 þúsund króna styrk, fyrir hvert barn, sem þátt tekur í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Frístundakortin gilda frá 1. sept. 2008 til 31. ágúst 2009.
Þátttaka í tómstundastarfi getur verið afar kostnaðarsöm og þá sérstaklega fyrir stórar fjölskyldur. Frístundakortunum er ætlað að draga úr kostnaði og jafna möguleika ungmenna til þátttöku í slíku starfi, óháð félagslegum aðstæðum og efnahag fjölskyldna þeirra.
Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám.
Með frístundakortunum eiga foreldrar barna á grunnskólaaldri rétt á 15 þúsund króna styrk, fyrir hvert barn, til niðurgreiðslu á íþrótta- og tómstundastarfi. Eftir að greitt hefur verið fyrir það námskeið eða starf sem barnið vill taka þátt í, er farið með kvittunina á skrifstofu sveitarfélagsins þar sem áðurnefnd fjárhæð er endurgreidd.
Einu skilyrðin við notkun frístundakortsins eru þau að starfsemin sé viðurkennd af sveitarstjórn og um hana séu veittar allar þær upplýsingar sem óskað er eftir.
Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins.
20.10.2008
Nokkrar konur sem hafa haft að tómstundagamni að “skrappa” komu saman í Kántrýbæ sl. laugardag og buðu gestum og gangandi að koma og líta á handverkið og kynnast skrappinu. Þær sátu og sköppuðu fagurlegar skreyttar myndasíður og höfðu alls kyns tól og tæki auk smekkvísi og hugmyndaauðgi að vopni. Skrappaðar myndasíður af börnunum voru greinilega eitthvað sem kom til greina sem jólagjöfin til afa og ömmu í ár og jólakortin áttu góða möguleika á að vera handunnin og fallega skröppuð.
20.10.2008
Uppi á Höfða stendur fólk í hnapp og virðir fyrir sér ókunnan fugl í trébúri, svartan á væng með hvítan haus og bæði arnarnef og arnarklær. Togarinn Arnar hafði komið að landi fyrir nokkrum mínútum með þennan nafna sinn um borð sem var orðinn uppgefinn á að berjast yfir hafið og fékk far með skipi í land.
Jón Örn segir að þetta sé gjóður eða svokallaður fiskiörn. Hann tekur fuglinn úr búrinu og sleppir honum. Gjóðurinn flögrar um með tignarlegum vængjatökum arnarins eins og hann sé ráðvilltur en hverfur svo út yfir Húnaflóa.
Þannig hefst jákvæðnigangan á Skagaströnd á miðjum sunnudegi.
"Þarna var forðum daga bryggja, þarna var verslunarhús sem stóðum um aldir og þarna má greina Spákonufellsey sem var sprengd niður til hálfs í hafnargerð". Óli Benna fór á kostum með samferðamönnum sínum í labbitúr í gærdag. Þrátt fyrir ískalda norðaustanáttina mættu um áttatíu manns til að skoða útbæ Skagastrandar með Óla.
Og Óli var ekki einn um frásagnirnar. Fjölmargir krydduðu ferðina með ýmiskonar sögulegum staðreyndum og ekki síður gamansögum. Gengið var frá Spákonufellshöfða og um svokallaðan útbæ, en til hans heyrir næsta nágrenni Höfðans ásamt höfninni.
Fyrir unga Skagstrendinga og aðflutta var gangan hin besta skemmtun og var sem löngu gengnir menn og horfin hús fengu nýtt líf, að minnsta kosti í hugum þátttakenda. Kostuleg var sagan af sveitarstjóranum sem fór sparlega með og hafði það fyrir sið að klippa ópalið sitt í tvennt. Þannig fékk hinn ungi Adolf Berndsen hálft ópal að launum fyrir að skreppa út í Siggabúð og kaupa það.
Gaman var að sögunni um manninn sem fékk ekki frið til að vera dauður. „Ertu ekki dauður?“ var spurt. „Heldurðu að dauður maður bjóði góðan dag,“ svarði „líkið“.
Og svo er það Bankastræti. Heitir það svo vegna þess að einn íbúanna átti fleiri erindi í bankann en aðrir? Eða var það kannski af því að sá hinn sami fór aldrei tómhentur heim úr vinnunni og gat þess vegna lánað það sem aðrir áttu og var því sjálfur kallaður „banki“? Áhugverð pæling í bankakreppunni sem var annars ekki til umfjöllunar í gönguferðinni.
Komið var við í gamla Kaupfélagshúsinu sem svo er kallað. Það keypti Laura ehf. undir forystu Lárusar Ægis Guðmundssonar fyrir nokkrum árum og hefur gert það upp af miklum myndarskap.
Göngumenn fengu að skoða húsið og var það kærkomið enda hlýtt inni. Lárus sagði frá húsinu og kom fram að í því hafði ekki aðeins verið verslun Kaupfélag Skagstrendinga heldur margt annað svo sem bakarí, skrifstofur, birgðageymslur, íbúðir, leikhús, bíó, saumastofa, prjónastofa, ballstaður, svefnpláss stúlkna á síldarárunum og ef til vill margt fleira.
Þannig lifnaði sagan við og bæði gengið fólk og horfin byggð var töfrað fram með lýsingum og frásögnum. Jafnvel álfarnir og huldufólkið í Höfðanum fékk sinn kafla í frásögninni.
Eftir kaldan en skemmtilegan göngutúr var gott að komast í hlýjuna í gamla skólanum, Bjarmanesi þar sem beið heitt kaffi, kakó og vöfflur.
17.10.2008
Öllum þykir vænt um bæinn sinn en ekki er víst að þekking þeirra á honum sé mjög nákvæm eða ítarleg. Ólafur Bernódusson býður nú þeim sem vilja að ganga með sér um útbæinn og skoða hús og staði og rifja upp sögur af mönnum og málefnum.
Hann ætlar til dæmis að líta inn í gamla kaupfélagið, skoða endurbæturnar þar og kannski kíkjum inn í verksmiðjuna og fleiri staði.
Hristu nú af þér drungann og komdu með í léttan og skemmtilegan labbitúr sem kostar ekkert nema þokkalega skó. Mæting á bílastæðinu uppi á Höfða á sunnudaginn kl. 14. Eftir göngu verður svo boðið upp á fítt kreppulaust kaffi í Bjarmanes.
17.10.2008
Mjög góður afli hefur verið í Húnaflóa að undanförnu og fjöldi báta lagt upp á Skagaströnd. Flestir selja afla sinn á markað. Stórir bátar eins og Valdimar GK og Ágúst GK, báðir gerðir út af Þorbirni Fiskanesi í Grindavík, hafa lagt hér upp á rúnti sínum um landið, sá fyrrnefndi landaði 15. októberum 66,2 tonnum og sá síðarnefndi tæplega 48 tonnum daginn eftir
Mikið at hefur því verið í Skagastrandarhöfn og ekkert lát á því þar sem togarinn Arnar kemur inn á sunnudagskvöldið.
Þann 15. október lönduðu þessir bátar:
Sæfari SK, 2.315 kg
Svanhvít HU, 2.738 kg
Bjartur í Vík HU, 616 kg
Kristbjörg HF, 5.353 kg
Hildur GK, 5.694 kg
Kristinn SH, 9.989 kg
Hafrún 4.222 kg
Valdimar GK, 66.211 kg
Surprise HU, 288 kg
Þann 16. október lönduðu þessir bátar:
Gunnar afi SH, 3.410 kg
Óli Gísla GK, 8.785 kg
Ágúst GK, 47.865 kg
Hildur GK, 4.319 kg
Kristbjörg HF, 5.499 kg
Kristinn SH, 12.845 kg
Dagrún ST, 2.537 kg
16.10.2008
Umhverfi Fellsborgar hefur tekið miklum stakkaskiptum að undanförnu.
Bílastæðið hefur verið malbikað, kantsteinar steyptir, ljósastaurar settir upp, verið er að helluleggja fyrir framan innganginn, og innan skamms verða lagðar túnþökur meðfram framkvæmdasvæðinu og loks er ætlunin að mála bílastæði.
Bílastæðið er 2100 fermetrar að stærð, þar verður pláss fyrir 71 bíl og það verður allt upplýst.
Óhætt er að fullyrða að vel hefur tekist til hjá Árna Geir og samstarfsmönnum hans, en þeir eru Stefán Sveinsson, Vilhjálmur Jónsson, Gunnar Tryggvi Ómarsson og Ragnar Már Björnsson.
13.10.2008
Mikið grín og mikið gaman var í spurningakeppninni „Drekktu betur“ sem haldin var í Kántrýbæ á föstudagskvöldið.
Stjórnandi og spyrill í þetta sinn var Ólafía Lárusdóttir, starfsmaður BioPol ehf. Mörgum þóttu spurningarnar þungar en engu að síður náði sigurliðið 23 stigum sem var það sama og sigurliðið fékk í keppninni fyrir hálfum mánuði.
Hjónin Signý Ósk Richter og Ingibergur Guðmundsson sigruðu að þessu sinni og fengu Carlsberg bjórkassa í verðlaun.
Nokkuð færri höfðu bjórspurninguna rétta, en spurt var hvaða tindur landsins er næst hæstur. Svarið sem Ólafía gaf upp var Bárðarbunga, 2000 m. Sjö manns voru með rétt svar sem er snöggtum færra en síðast þegar nær hálfur salurinn gat sér til um að lengra væri til Færeyja en Grænlands.
Næsta keppni verður 24. október og þá verður Hjörtur Guðbjartsson
spyrill.