ATH !! Nýtt símanúmer á skrifstofu

Frá og með deginum í dag tekur gildi nýtt símanúmer á skrifstofu Höfðahrepps. Númerið er 455 2700.Nýtt FAX númer er 455 2701 Biðjumst við velvirðingar á því ef einhverjir hnökrar verða á símsvörun í dag, meðan skipt er milli símkerfa.

Áfram konur

Það safnaðist saman stór hópur kvenna og hófu á loft kröfuspjöld um bætt réttindi kvenna. Konur á Skagaströnd eru öflugir stuðningsmenn í kvennabaráttu, að lokinni göngu var farið í kaffidrykkju á Hótel Dagsbrún. Konur, til hamingu með Kvennafrídaginn.

Líkami og sál í stafagöngu.

Heilsuræktarhópurinn Líkami og sál á Skagaströnd gekkst fyrir námskeiði í stafagöngu laugardaginn 21. okt. Þátttakendur í námskeiðinu voru 23 og leiðbeinandi var Guðný Aradóttir stafagönguþjálfari. Stafaganga hefur í auknum mæli verið að ryðja sér til rúms í íslenskri heilsurækt sem skemmtileg og holl líkamsþjálfun. Hún á rætur sínar að rekja til Finnlands þar sem gönguskíðamenn tóku upp á því að ganga við stafina yfir sumartímann til að halda sér í þjálfun. Þessi gönguaðferð ber enska heitið “Nordic Walking” en Finnarnir kalla hana í gríni Alsheimer-skíðagöngu því þar sé um að ræða skíðagöngumenn sem hafi gleymt að setja á sig skíðin. Stafagangan er hins vegar mjög góð þjálfun bæði fyrir þá sem eru heilbrigðir og vilja halda sér í góðu formi og einnig fyrir þá sem þurfa á endurhæfingu að halda og eru að ná sér eftir meiðsli eða sjúkdóma. Hún er einnig talin henta vel fyrir þá sem eru yfir kjörþyngd. Áhrif stafagöngunnar á líkamann eru talin margvísleg og ýmislegt í henni sem ekki næst með venjulegri göngu. Hún er talin virkja og styrkja efri hluta líkamans og auka hreyfigetu í axlaliðum. Með hjálp stafanna dregur úr álagi á mjaðmir, hné og ökla. Brennsla er talin verða 20% meiri en við venjulega göngu og hjartsláttur eykst um 16% eða 5-20 slög á mínútu. Súrefnisupptaka eykst því verulega eða allt að 46%. Við gönguna eru notaðir sérhannaðir stafir sem eru léttir og sveigjanlegir með sérstökum ólum sem henta þessari notkun. Þótt ekki virðist mjög flókið að fara í gönguferð með tvo stafi er málið ekki alveg svo einfalt. Mjög mikilvægt er að tileinka sér rétta tækni við gönguna svo árangur verði sem bestur. Í byrjun er því heppilegast að fá kennslu í undirstöðuatriðum hjá viðurkenndum leiðbeinanda og það var einmitt verkefnið hjá heilsuræktarhópnum Líkama og sál. Hvort sem það tengdist stafagöngu eða ekki er skemmtikvöld hjá hópnum í kvöld, laugardag og hugmyndin að næra bæði líkamann og sálina með ýmsu móti. (Heimildir: Fræðslubæklingur ÍSÍ – Stafaganga góð leið til heilsubótar. og www.stafaganga.is )

Borgarafundur þriðjudaginn 25. okt. 2005

Skagstrendingar!!! Borgarafundur verður haldinn í Fellsborg þriðjudaginn 25. október nk. kl. 20,00. Á fundinum mun hreppsnefnd m.a. fara yfir helstu áherslumál í rekstri sveitarfélagsins. Almennar umræður. Hreppsnefnd Höfðahrepps

Uppskeruhátíð Ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Fréttatilkynning Ferðamálasamtök Norðurlands eystra og vestra, Ferðaþjónustuklasinn/ Vaxey og Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi bjóða til Uppskeruhátíðar ferðaþjónustunnar þann 10. nóvember. Þangað eru boðnir allir sem starfa að ferðamálum á Norðurlandi. Markmiðið með hátíðinni er að efla samkennd og samvinnu á milli ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og að ferðaþjónustuaðilar kynnist því sem að önnur svæði hafa upp á að bjóða. Að þessu sinni eru Þingeyingar gestgjafar en áætlað er að þessi hátíð verði haldin árlega og þá á mismunandi svæðum á Norðurlandi. Hafa ferðaþjónustufyrirtæki í Þingeyjarsýslu lagt sitt af mörkum til að gera hátíðina sem glæsilegasta. Dagskráin hefst á Húsavík og í framhaldinu verður farið í hringferð um nágrennið með ýmsum skemmtilegum uppákomum á leiðinni. Um kvöldið verður svo dagskrá sem kætir bæði líkama og sál. Allar nánari upplýsingar og skráning eru á www.nordurland.is

Pistill frá formanni Umf Fram

Ágætu foreldrar. Ég vil fyrir hönd félagsins byrja á að þakka ykkur fyrir samstarfið í sumar. Að mínu mati gengu æfingar og leikjanámskeið sumarsins með ágætum. Þátttaka var nokkuð góð og krakkarnir duglegir ….en munum að alltaf má gera betur. Það myndaðist hópur sem stundaði frjálsar íþróttir af miklum áhuga og var stöðugt að bæta sig. Við sendum fulltrúa á nokkur mót í frjálsum og fótbolta bæði innan og utan héraðs. Það sem að stendur uppúr að mínu mati og er mér minnisstæðast úr sumarstarfinu var Barnamót USAH sem var haldið hér á Skagaströnd þann 20 júlí. Þar tóku þátt 49 keppendur sem stóðu sig allir frábærlega. U.M.F. Fram átti þar 32 keppendur og ég verð að segja að þar á meðal leynast stórefnilegir einstaklingar. Við verðum í sameiningu að hlú að ungviðinu og hvetja það, á jákvæðan hátt, til þátttöku í íþróttastarfi. Áhuginn byrjar hjá okkur í formi hvatningar. Tækifærin hafa að mínu mati aldrei verið betri hér á Skagaströnd. Nú er vetrarstarfið farið af stað í íþróttahúsinu. Boðið er upp á 4 æfingar á viku í 3 aldursflokkum. Um þessar mundir eru að jafnaði að mæta 50 krakkar á dag. Það er langt síðan áhuginn í upphafi vetrarstarfs hefur verið meiri. Er það gott. Stjórn U.M.F Fram hefur ákveðið að innheimta æfingagjöld kr. 5000 til áramóta og sömu upphæð eftir áramót. Skráningareyðublöð til að staðfesta þátttöku fram að áramótum eru afhent á æfingum og þarf að skila þeim í síðasta lagi mánudaginn 10. október. Giroseðlar verða síðan sendir forráðamanni barnsins/unglingsins. Æfingagjöldin eru aðgöngumiði að öllum æfingunum í viðkomandi aldursflokki. Veittur verður 1000 kr systkinaafsláttur fyrir systkini nr. 2 og 3 frá sama heimili. Litið verður á þann tíma sem liðinn er af vetrarstarfinu sem prufutímabil og því verður ekki innheimt sérstaklega fyrir það. Stjórn U.M.F Fram leggur af stað inn í vetrarstarfi með eftirfarandi hugmyndir í farteskinu sem vonandi geta orðið að veruleika: · Grislingamót er badmintonmót fyrir byrjendur fædd 1995 og síðar sem haldið er á Akranesi í janúar. Þar viljum við sjá fulltrúa frá félaginu taka þátt. · “Fótboltadagur”. Okkur langar til að bjóða ungmennum úr héraðinu að koma til okkar einn laugardag og slá til fótboltaveislu. Þar yrðu mynduð lið óháð búsetu sem síðan spiluðu innbyrðis. Allt til gamans. · “Badminton heimsókn” Okkur langar til að fá til okkar gesti frá Siglufirði eða Akranesi sem stunda badminton. Á þetta yrði litið sem sameiginlegar æfingabúðir. · Goðamót. Undanfarna vetur hefur félagið sent fulltrúa sem stunda fótbolta á Goðamótið á Akureyri. Stefnt er að því að gera eins í vetur. · “Frjálsíþrótta heimsókn” Í fyrra kom hingað í æfingabúðir hópur 15-18 ára ungmenna frá frjálsíþróttadeild ÍR Sú heimsókn tókst vel og ÍR-ingar hafa áhuga á því að koma hingað með 12-14 ára unglinga. Í lokin vil ég hvetja ykkur foreldra og forráðamenn til þess að taka virkan þátt í starfi félagsins og endilega koma með ábendingar um eitthvað sem betur mætti fara, eða ef eitthvað er sem ykkur finnst vel vera gert. Kveðja Halldór G. Ólafsson form U.M.F Fram.

Hressilegt haustveður

Það hefur blásið hressilega síðasta sólarhringin en fyrsta alvörulægð haustsins gekk yfir. Meðalvindhraðinn á veðurstöðinni á Skagastrandarhöfn komist mest í 23 m/sek en í vindhviðum allt upp í 35 m/sek. Ýmsir lausir hlutir fóru af stað og hafa starfsmenn hreppsins haft í nógu að snúgast við að festa hluti og koma í veg fyrir tjón. Þó nokkuð tjón varð þegar hjólhýsi á tjaldstæðinu fauk í heilan hring og er það stórskemmt, ef ekki ónýtt á eftir. Hjólhýsinu var komið inn í hús til geymslu á meðan veðrið gengur yfir. Sett hefur verið inn línurit sem sýnir veðrið á 10 mínútna fresti í gær, 26. september og er hægt að nálgast það undir skýrslur á vefnum. Einnig er hægt að fylgjast með veðri á veðurstöðinni á Skagaströnd á netinu og er slóðin: http://skip.sigling.is/vedur_sjolag/srtNVL.html

Félagsmálaráðherra kemur á einn fund

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, hefur ákveðið að koma á einn kynningarfund um sameiningu Áshrepps, Blönduósbæjar, Höfðahrepps og Skagabyggðar, en ráðherrann verður gestur slíkra funda víða um land. Félagsmálaráðherra verður gestur fundarins á Skagaströnd 27. september. Þar sem þetta er eini fundurinn sem ráðherra hefur tök á að mæta eru íbúar sveitarfélaganna hvattir til að sækja fundinn og heyra sjónarmið hans.

Málefnaskrá í dreifingu á mánudag

Samstarfsnefnd um sameiningu Áshrepps, Blönduósbæjar, Höfðahrepps og Skagabyggðar afgreiddi í vikunni málefnaskrá sem lögð verður fyrir kjósendur og verður henni dreift á öll heimili í sveitarfélögunum nk. mánudag. Ritið er komið á sérstakar heimasíður Blönduósbæjar og Höfðahrepps og einnig á Húnahornið. Ritið er 12 síður á stærð, prýtt ljósmyndum og töflum með fjárhagslegum upplýsingum.

Gangnaseðill 2005

GANGNASEÐILL 2005 Það tilkynnist hér með að haustgöngur fara fram laugardaginn 17. september sé fært leitarveður, ella þá næsta leitarfæran dag. Göngurnar verða unnar af hestamannafélaginu Snarfara. Gangnaforingi er Rögnvaldur Ottósson. Réttarstjóri í fjárrétt er Sigrún Guðmundsdóttir en Rögnvaldur Ottósson í hrossarétt. 1. Göngur: Menn frá Hestamannafélaginu Snarfara smali svæðið frá Urriðalæk vestur yfir flárnar og Grasás yfir Ytri-Botnalæk í veg fyrir gangnamenn úr Skagabyggð. Heiðina vestan sýslumarka eftir venju til réttar, einnig Borgina utan skógræktargirðingar. Gert er ráð fyrir að gangnamenn úr Skagabyggð smali svæðið norðan Brandaskarðsgils milli Stallabrúna og Hrafnár til norðurs. Fé og hross úr heiðinni og Borginni og úr heimahögum sé rekið að Spákonufellsrétt laugardaginn 17. september og réttað samdægurs. Ber eigendum að vera þar til staðar og hirða búfé sitt svo að réttarstörfum verði lokið fyrr en dimmt er orðið. 2. Eftirleit fer fram laugardaginn 24. september verði bjart veður ella næsta leitarfæran dag. Þær annast Ásgeir Axelsson. 3. Fjárskil verða sunnudaginn 2. október á Sölvabakka á þau mæti Ásgeir Axelsson fyrir Höfðahrepp. 4. Útréttir: Í fyrri og seinni Fossárrétt hirðir Gunnlaugur Sigmarsson Í fyrri Vindhælisrétt hirðir Ásger Axelsson Í seinni Vindhælisrétt hirðir Eðvarð Ingvason 5. Smölun heimalanda: Fjáreigendur eru hvattir til að hreinsa vel landspildur sínar af öðru búfé en þeirra eigin fyrir göngur sem og eftirleit, svo að göngur og réttir geti orðið árangursríkar. Að öðru leyti en hér er tekið fram eru skyldur og réttindi manna samkvæmt fjallskilareglugerð fyrir Austur - Húnavatnssýslu. Greiðslur til og frá fjallskilasjóði fara fram hjá sveitarstjóra. Skagaströnd 11. september 2005 Í umboði Hreppsnefndar Höfðahrepps _________________________________ Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri.