Frá leikskólanum Barnabóli Gjöf endurskinsvesti frá Sjóvá

Um miðjan nóvember kom Dagný Sigmarsdóttir umboðsmaður Sjóvá færandi hendi á leikskólann Barnaból og gaf okkur 15 endurskinsvesti. Þann 18. nóvember fengum við góða heimsókn en þá kom Erna B. Jónmundsdóttir lögreglumaður og yngstu leikskólabörnin fóru í nýju vestin og sýndu henni stolt hvað þau væru fín og örugg í umferðinni í nýju vestunum. Endurskinsvesti hafa verið notuð á leikskólanum Barnabóli frá árinu 1998 og eru mikið þarfaþing og öryggistæki þegar farið er með börnin út fyrir skólalóðina. Öryggið felst í því að börnin eru sýnilegri í umferðinni og bílstjórar og aðrir vegfarendur koma betur auga á þessa lágvöxnu samborgara sína, einnig er mun auðveldara fyrir kennara leikskólans að halda utan um og fylgjast með hópnum sínum þegar þau eru í vestum. Þegar elstu börn leikskólans fara í grunnskólaheimsókn í Höfðaskóla tökum við börn úr 1. bekk með okkur í leikskólann og skilum þeim svo aftur þegar við sækjum leikskólabörnin og þá eiga allir að fara í vesti. Þetta finnst 1.bekkingum stundum skrítið „já , en við erum hætt í leikskólanum“ en eins og Þórunn segir við þau „það fara allir sem eru að koma og fara á leikskólann í vesti “ og með það skundum við á milli skólana og allir eru sáttir við þessa tilhögun. Kær kveðja frá Barnabóli með óskum til allra um góðan tíma í skammdeginu með kertaljósum og seríum. Þórunn Bernódusdóttir Leikskólastjóri

Björgunarskip draga dýpkunarpramma

Dýpkunarskip Hagtaks, Svavar, hefur lokið vinnu við dýpkun hafnarinnar. Samtals voru útgrafnir um 27 þús. m3 á tveimur dýpkunarsvæðum. Annars vegar var dýpkað vegna snúningsrýmis í höfninni þar sem gert er ráð fyrir að 100 m skip geti snúið innan hafnar. Hins vegar var dýpkað vegna fyrirhugaðrar lengingar Miðgarðs þar sem áætlað er að skapa aukið rými fyrir löndun smábáta. Dýpkunarskipið var dregið áleiðis til Vopnafjarðar og mun björgunarskipið Húnabjörg draga það út á móts við Siglufjörð. Þar mun björgunarskipið Sigurvin taka við og draga austur á Öxarfjörð þar sem enn verður skipt um dráttarskip því björgunarskipið Gunnbjörg á Raufarhöfn mun draga austur á móts við Skoruvíkurbjarg þar sem björgunarskip Vopnfirðinga, Sveinbjörn Sveinsson mun draga það síðasta spölinn. Heildarvegalengdin er um 220 mílur og því mun hvert björgunarskip taka um 50 mílur af drættinum. Hér er um áhugavert samstarfsverkefni björgunarskipanna að ræða þar sem hver fyrir sig tekur að sér ákveðin hluta verkefnis en fer þó ekki það langt frá heimaslóð að öryggishlutverki skipsins sé stefnt í hættu.

Líf og fjör á leikskólanum Barnabóli

Á leikskólanum Barnabóli er hefð fyrir því að halda upp á skammdegið með skammdegishátíð í nóvember og gera þannig þessum skemmtilega árstíma hátt undir höfði. Í ár var hátíðin föstudaginn 11. nóvember, settar voru upp ljósaseríur um allan leikskólann, börnin máluð í framan, spiluð tónlist, dansað mikið líf og fjör þennan dag. Um hádegið fóru foreldrar barnanna að streyma í hús í heita kjúklingasúpu og brauð og hér borðuðu um 108 manns í hádeginu og er ekki annað að sjá en almenna ánægju með þennan árlega sið. Einn guttinn, sem einmitt varð tveggja ára þennan dag, vildi láta mála sig í framan eins og hin börnin en þegar honum var sýndur árangurinn í spegli fór hann að hágráta svo þvo varða alla málninguna af aftur. Þá tók hann gleði sína á ný enda hafði hann einfaldlega orðið dauðhræddur við þennan ókunnuga ljónastrák! Mánudaginn 14. nóvember bar heldur betur í „veiði“ hjá okkur en þá komu skipverjar á Arnari með branduglu í heimsókn. Uglan hafði leitað hælis hjá þeim lengst út á miðum, alveg aðframkomin greyið, en þeim tókst að hressa hana við og koma með hana í land nokkrum dögum seinna. Trésmiðja Helga Gunnarssonar hafði tilbúið gott búr fyrir ugluna þegar að landi kom og síðan varð hún nokkurs konar farandugla, byrjað var á að fara með hana á dvalarheimilið Sæborg, síðan á leikskólann og þaðan í grunnskólann. Þetta var mikil upplifun fyrir leikskólabörnin, starfsfólk og þá foreldra sem sáu ugluna og við drógum fram allar bækur og myndir sem við áttum af uglum og síðan var lagst í uglufræðslu og m.a. reynt að finna út hvort um eyruglu eða branduglu væri að ræða sem Óli Benna „náttúrufræðingur“ í Höfðaskóla skar síðan úr um að hér væri um branduglu að ræða. Framundan er gleðilegur tími m.a. með piparkökubakstri og kertaljósum, gönguferðum, heimsókn í kirkjuna og aðventunni. Með kveðju Þórunn Bernódusdóttir Leikskólastjóri

Auglýsing um ferðaþjónustuverkefni

Ég vil minna á vinnufund í verkefninu Vetrarauður á morgun 16. nóv kl. 17.00 á Gistiheimilinu Dagsbrún á Skagaströnd. Við viljum ræða spurninguna: “Getum við eflt og auglýst betur vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi vestra?” Svarið er já – en spurningin er hvernig? Markmið fundarins eru: • að skilgreina hugmyndir og skipuleggja vinnu við tilboð fyrir innanlandsmarkað jan.-apríl og okt-des. árið 2006 og • að koma á fót samstarfi um vöruþróun og markaðssetningu þessara tilboða. Ferðamálasamtök Norðurlands vestra, Hólaskóli og Upplýsingamiðstöð ferðamála á Norðurlandi vestra hafa aflað stuðnings við vöruþróunarverkefni fyrir vetrarferðaþjónustu á svæðinu. Verkefnið er tækifæri fyrir þá ferðaþjónustuaðila, sem vilja vekja aukna athygli á og/eða efla starfssemi sína að vetrarlagi. Nánari upplýsingar og skráning: Pétur Jónsson Ferðamálasamtökum Norðurlands peturjo@simnet.is. s 451 0040 eða 860-5970 Jakob Frímann Þorsteinsson Upplýsingamiðstöð ferðamála á Norðurlandi vestra s. 455 6161 Guðrún Helgadóttir hjá Hólaskóla s. 455 6300. Gudrun Kloes atvinnuráðgjafi SSNV Hvammstanga s. 455 2515 Haukur Suska Garðarsson atvinnuráðgjafi SSNV Blönduósi s. 455 4304 Myrkur – Skíða – Norðurljós – Tilhleypingar – Réttir – Jólakortahelgi – Matur – Gönguferðir – Dekur – Hestar - Sund – Rómantíbk – Sæluvika – Skíðapáskar – Tekið til kostanna - Kyrrð Jakob Frímann Þorsteinsson

Árshátið Fisk Seafood á Skagaströnd.

Á laugardaginn var haldinn sameiginleg árshátíð starfsmanna landvinnslu- og skrifstofufólks Fisk seafood í Fellsborg. Starfsmenn félagsins á Grundarfirði, Sauðárkrók og Skagaströnd komu þar saman til árshátíðar. Meðal skemmtiatriða var að kántrýdansahópurinn Hófarnir kom fram, Helga Braga fór með gamanmál og sýndi magadansspor, hljómsveit skipuð starfsmönnum landvinnslanna á Skagaströnd og Grundarfirði tróð upp og flutti nokkur lög. Eftir borðhald og skemmtiatriði lék hljómsveitin Upplyfting fyrir dansi.

Heimsóknarvinir á vegum RKÍ deildarinnar á Skagaströnd.

Rauði kross Íslands hefur hafið átak undir yfirskriftinni “Heimsóknarvinir”. Verkefnið felur í sér að aldraðir einstaklingar og aðrir sem þurfa á þeirri þjónustu að halda fá heimsókn og félagsskap einu sinni í viku. Nú þegar hefur komið í ljós að þörf er fyrir þjónustu þessa. Mjög vel hefur gengið að fá sjálfboðaliða (heimsóknarvini) að þessu verkefni. RKÍ deildin á Skagaströnd er ein fyrsta deildin utan höfuðborgarsvæðins sem býður upp á þessa þjómustu. Umsjónarmaður verkefnins er Hrönn Árnadóttir. Unglingastarf RKÍ er mjög líflegt um þessar mundir Guðjón Ebbi Guðjónsson hefur umsjón með því starfi. Hafa unglingarnir m.a. kynnt sér skyndihjálp, sjúkraflutninga auk starfsemi fleiri unglingadeilda. Formaður RKÍ deildarinnar á Skagaströnd er Pétur Eggertsson.

Hafrún snýr aftur heim.

Á dögunum bættist nýtt skip við skipastól Skagstrendinga er Hafrún HU-12 kom til heimahafnar. Hafrún er í eigu Vík sf. en eigendur þess félags eru bræðurnir Sigurjón Guðbjartsson og Árni Guðbjartsson fyrir eiga þeir bátanna Ölduna og Bjart í Vík. Þeir bræður seldu Hafrúnu haustið 1999 frá Skagaströnd, en kaupa hana nú til baka. Hugmyndin er að gera skipið út til netaveiða hluta ársins.

Auglýsing um kynningarfund

Undirritaður fyrir hönd byggingarnefndar Höfðahrepps boðar til kynningarfundar um staðsetningu og gerð jarðvegsmana austan Vetrarbrautar og norðan Ránarbrautar. Fundurinn verður haldinn í félagsheimilinu Fellsborg miðvikudaginn 16. nóvember kl 20.00. Ástæða þess að boðað er til fundarins er hugmynd um byggingu jarðvegsmana norðan efstu húsa við Ránarbraut og einnig austan Vetrarbrautar. Byggingarnefnd taldi rétt að boða til kynningarfundar fyrir þá sem málið kann að varða og eru allir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta velkomnir á fundinn. Hafi hagsmunaaðilar athugasemdir við staðsetningu og fyrirkomulag fyrirhugaðra jarðvegsmana er óskað eftir að athugasemdum verði komið á framfæri skriflega fyrir 1. desember nk. Skagaströnd, 14. nóvember 2005 _________________________________ Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri

Fatagerðin Iris flytur á Skagaströnd

Fjóla Jónsdóttir og Sólveig Róarsdóttir á Skagaströnd hafa keypt fatagerðina Iris ehf. sem um langt árabil hefur verið starfrækt á Akureyri. Fatagerðin hefur fyrst og fremst framleitt fatnað fyrir sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir. Þær Fjóla og Sólveig hafa hvor fyrir sig rekið einkafyrirtæki sem hafa annast sauma og fatagerð en hyggjast nú sameina þann rekstur og með því að bæta Irisi ehf við það sem fyrir er telja þær sig hafa góðan rekstrargrundvöll.

Hundur í óskilum á Skagaströnd

Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson í dúettinum “Hundur í óskilum” héldu tónleika í Kaffi Viðvík sl. fimmtudagskvöld. Húsfyllir var og stemningin einstaklega góð og fólk skemmti sér konunglega yfir frábærum uppátækjum í tónlist og tónlistarflutningi. Tvímenningarnir, sem segja má að séu einskonar gleði- og gáskatónlistamenn, léku sér að alls kyns tilbrigðum við þekkt lög og texta og blönduðu þeim gjarnan saman úr sitt hvorri áttinni. Má nefna að texti Bubba við “Stál og hnífur” hljómaði mjög skemmtilega við lag eftir kántrýkónginn Hallbjörn. Ekki síðri voru “Guttavísur” við lag eftir J.S. Bach eða lag og texti “Undir bláhimni” í útsetningu og í bland við “Wild thing” sem hljómsveitin Troggs flutti á árum áður. Það voru ekki bara lög og textar sem sett voru í nýtt samhengi heldur var tónlistarflutningur, bæði söngur og hljóðfæraleikur, gjarna með sérstökum hætti sem langt mál væri að skýra. Þó má nefna að sökum fámennis í dúettinum tóku þeir félagar sig til og léku á fleiri en eitt hljóðfæri í einu t.d. spilaði Eiríkur á tvo trompeta samtímis og þeir hvor um sig á þrjár blokkflautur í einu, með nefi og munni. Allt var þetta gert af mikilli fagmennsku og þrátt fyrir ærslalegan flutning var allan tíman verið að flytja skemmtilega og vandaða tónlist.