Gríslingamót

Nokkrir vaskir krakkar ætla á sunnudaginn að taka þátt í Gríslingamóti ÍA í badminton á Akranesi. Lagt verður af stað í bítið og komið heim að kvöldi. Mótið er ætlað 11 ára og yngri og fara foreldrar með undir fararstjórn Hjálms, tómstunda- og íþróttafulltrúa sem veitir allar nánari upplýsingar í síma 844 0985.

Vetrarþjónusta hjá Höfðahreppi

Vetur konunugur hefur ráðum ríkjum á síðustu vikum og minnt á sig í ýmsum myndum. Snjór hefur lagst yfir allt sem bætir þó birtuleysið í dimmasta skammdeginu. Vel hefur gengið að halda götum og gönguleiðum opnum og tækifærin á milli þegar dúrar notuð til að hreinsa snjó út úr götum og breikka þær þar sem það á við. Þannig hafa orðið til snjófjöll víða og eru þau sumstaðar notuð til þess að stýra snjóum og að draga úr skafrenningi þar sem það er hægt. Með þeim hætti næst jákvæðri árangur út úr snjómokstrinum og hann hjálpar til við að draga úr enn meiri snjósöfnun. Lögð hefur verið áhersla á að auka hálkuvarnir og eru götur og gangstéttar sandaðar þegar svellar til að draga úr slysahættu.

Áramótin

Áramótin voru haldin með hefðbundnu sniði á Skagaströnd. Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram stóðu fyrir flugeldasölu í Gamla Kaupfélagshúsinu. Þar fóru allir viðskiptavinir sem versluðu fyrir 12 þúsund krónur eða meira í pott, síðan var dregið úr pottinum og var Árni Sigurðsson skipstjóri sá heppni og fékk í verðlaun tertur og flugelda að verðmæti 20 þúsund. Hátiðahöldin um kvöldið hófust með blysför að brennunni og var svo kveikt í henni, við brennuna er öllum gefin stjörnuljós, sem vekur sérstaka ánægju hjá unga fólkinu og síðan hófst glæsileg flugeldasýning að hætti Björgunarsveitarinnar Strandar. Veðurútlit fyrir kvöldið lofaði ekki góðu, en Björgunarsveitin Strönd og Umgmennafélgaið Fram voru bænheyrðir og fór brennan og flugeldasýningin fram í góðu veðri og skyggni. Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram vilja þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg við undirbúning brennu og flugeldasýningar, gestum og styrktaraðilum.

Skemmtilegt aðventukvöld

Fimmtudagskvöldið 2. des. sl. var aðventustemming í Viðvíkurkaffi. Boðið var upp á upplestur og lifandi tónlist. Guðný, Steindór og Árdís lásu upp úr áhugaverðustu bókunum og Hrafnhildur söng nokkur jólalög við undirleik Elíasar. Allt þetta fólk skilaði sínu með miklum ágætum. Steindór gat auðvitað ekki stillt sig um að fleyta nokkrum skemmtisögum frá eigin brjósti með upplestrinum og var í sínum besta ham. Hrafnhildur skilaði jólalögunum á einstaklega skemmtilegan hátt. Húsfyllir var á kaffihúsinu og stemningin notaleg. Í kjallara kaffihússins var opið jólahús þar sem handverksfólks á Skagaströnd hafði muni sína til sölu. Þar gat m.a. að líta listmuni úr gleri og járni, silfursmíð, trémuni, kort úr þangi, ýmis plögg úr flóka og fjörusteina með jólaandlitum svo eitthvað sé nefnt. Í Viðvíkurkaffi stendur einnig yfir málverkasýning Jóns Ívarssonar sem sýnir olíumyndir á striga. Kaffihúsið og markaðurinn verða opin laugardaginn 4. des. kl 18-22 og sunnudaginn 5. des. kl 14-19. Einnig verður opið þriðudaginn 7. des. og fimmtudaginn 9. des. kl 20-22. Á þriðjudagskvöldinu verður upplestur. Heimsókn í Viðvíkurkaffi og jólahús góð tilbreyting í amstri jólaundirbúnings og sjón sögur ríkari.

Frá Námsstofunni á Skagaströnd

Nú fer að hefjast innritun á vorönn hjá þeim skólum sem eru með fjarnám. Því ættu þeir sem hafa verið að hugsa um að fara í fjarnám að taka sig til og kynna sér hvað þeim stendur til boða. Í Námsstofunni er góð aðstaða til að stunda fjarnám, nokkrar tölvur og lestofa. Nú er verið að tengja fjarfundabúnað sem þýðir að eftir áramót er hægt að sitja kennslustundir í Námsstofunni. Fyrri hluta desember standa yfir þau próf sem fjarnámsnemendur fá leyfi til að taka í Námsstofunni. Þetta eru 32 próf sem 16 fjarnámsnemendur taka við 4 skóla. Síðan eru nokkrir fjarnámsnemendur sem taka sín próf í sínum skóla. En alls eru 23 með samning um að nýta aðstöðuna í Námsstofunni. Hér eru nokkrir skólar sem bjóða upp á fjarnám: Kennaraháskóli Íslands Háskólinn á Akureyri Verkmenntaskólinn á Akureyri Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra Fjölbrautarskólinn við Ármúla Háskóli Íslands Háskólinn á Hólum Háskólinn í Reykjavík Tækniháskóli Íslands Viðskiptaháskólinn á Bifröst Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri Menntafélag byggingariðnaðarins Rafiðnaðarskólinn Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins Hótel- og matvælaskólinn Borgarholtsskólinn Iðnskólinn í Reykjavík Þessi listi er ekki tæmandi og skólarnir bjóða ekki upp á alla sína námsskrá í fjarnámi. Auk skólanna bjóða ýmsir aðilar alls konar áhugaverð námskeið í fjarnámi. Þeir sem vilja aðstoð eða nýta aðstöðuna í Námsstofunni á Skagaströnd er bent á að hafa samband við undirritaðan. Desember 2004 Umsjónarmaður Námsstofunnar á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson S: 8440985

Aðventukaffi Landsbankans

Landsbanki Íslands Skagaströnd bauð bæjarbúum í aðventukaffi 1. desember þegar kveikt var á jólatré bankans. Allan daginn var boðið var uppá kakó og kaffi, jólasmákökur og súkkulaðimola. Frá kl. 14.00 lék svo Elías Björn Árnason jólalög á hljómborð á meðan kakóið og smákökurnar runnu ljúflega niður við þýða óma tónlistarinnar. Bæjarbúar kunnu vel að meta góðgerðirnar og var bekkurinn oft þétt setinn. Mættust þar meðal annars yngstu bæjarbúarnir úr leikskólanum Barnabóli og þeir elstu frá Dvalarheimilinu Sæborg. Almenn ánægja var með daginn, jafnt hjá gestum og starfsfólki og ekki ólíklegt að þarna hafi verið búin til hefð sem ekki verður rofin.

Jólatré - jólatré

Kveikt verður á jólatrénu á Hnappstaðatúni miðvikudaginn 1. desember kl 17.30. Samkomulag hefur tekist við jólasveinafélagið um að jólasveinar mæti samkvæmt venju þótt opinber starfstími þeirra hefjist ekki fyrr en eftir nokkra daga. Börn eru hvött til að koma með foreldra sína og rifja upp jólalögin. Sveitarstjóri.

Jólastemming í Kaffi Viðvík

Í tilefni aðventunnar verður Kaffi Viðvík með jólabakkelsi og tilheyrandi jólaskap. Í kjallaranum verður handverksfólk með jólahús og á efri hæðinni verður sölusýning á málverkum Jóns Ívarssonar. Opnunartími: sunnudaginn 28. nóv. kl. 14-22 þriðjudaginn 30. nóv. kl. 20-22 fimmtudaginn 2. des. kl. 20-22 Aðrir opnunartímar verða auglýstir síðar.

Ertu með lögheimili á réttum stað???

Með vísan til laga nr. 73/1952 um aðsetursskipti, ber íbúum að tilkynna um flutning til íbúaskrár innan viku frá flutningi, bæði flutning innanbæjar og milli sveitarfélaga. Tilkynna ber flutninga á skrifstofu Höfðahrepps, Túnbraut 1 - 3, þar er opið frá kl. 09:00-12:00 og 13:00- 16:00 alla virka daga. Tilkynningarnar eru síðan sendar til Hagstofu Íslands.

Tvær nýjar bækur tengdar Skagaströnd.

Um þessi jól koma út margar bækur að vanda. Ein þessara bóka er “Minningar og lífssýn” eftir Björgvin Brynjólfsson. Björgvin er löngu landskunnur fyrir störf sín að stjórnmálum og verkalýðsmálum. Húnvetningar þekkja hann einnig m.a sem frumkvöðul að stofnun Sparisjóðs Skagastrandar. Saga Björgvins Brynjólfssonar er miklu meira en saga hans sjálfs. Hún er jafnframt saga síðustu aldar í hnotskurn. Björgvin segir frá ýmsum kímnilegum atvikum, svo sem því, að sá kunni framsóknarmaður, Björn á Löngumýri, taldi það engu fyrirstöðu að ganga í Alþýðuflokkinn-ef það mætti verða til að hann kæmist á þing. Auk æviminninganna, stjórnmálasögunnar og sögu verkalýðsbaráttunnar, er hér að finna flestar blaðagreinar Björgvins, ferðaþætti og fleira, þannig að segja má að þessi bók sé í raun heildaarritsafn hans. Höfundur gefur út og dreifir bókinni sjálfur. Út er komin ný heimildarskáldsaga eftir Björn Th. Björnsson sem ber nafnið “Glóið þið gullturnar”. Í kynningu með bókinni segir” Einn þeirra dönsku kaupmanna sem störfuðu hér fyrr á öldum var Fritz Hendrik Berndsen sem kom til Skagastrandar upp úr miðri 19.öld. Lífshlaup hans var hins vegar um margt óvenjulegt og skrautlegt, en afkomendur hans eru margir og hafa ýmsir þeirra sett mikinn svip á samfélagið á Skagaströnd. Björn Th. Björnsson hefur nú ritað heimildaskáldsögu um Fritz Hendrik sem byggir m.a. á endurminningum hans sjálfs”. Útgefandi er Mál og menning.