09.02.2004
Hið hefðbundna þorrablót Barnabóls var haldið
fimmtudaginn 5. febrúar s.l.
Undirbúningur blótsins hófst daginn áður með hattagerð
en allir útbúa sinn eigin þorrabótshatt (kórónu).
Þegar öðrum undirbúningi var lokið söfnuðust allir
saman og sungu „Nú er frost á Fróni“ og fleiri lög.
Loks var sest að snæðingi en á borðum var; harðfiskur,
hangikjöt, lifrapylsa og blóðmör, ný og súr sviðasulta,
súrir pungar, hákarl og rúgbrauð. Flestir voru hrifnastir
af harðfiskinum og hangikjötinu en margir smökkuðu
allar tegundir. Ein stúlkan hámaði í sig lifrapysluna á
meðan önnur borðaði mest af hangikjötinu. Sá yngsti
borðaði bara allt sem var sett á diskinn hans. Sumir
vildu hafa mikið smjör á rúgbrauðinu sínu en aðrir
borðuðu bara „mikið“ og drukku djús með.
Helga Bergsdóttir leikskólastjóri
06.02.2004
Hafin er undirbúningur að opnun skíðasvæðisins í
Spákonufelli og standa vonir til þess að hægt verði að
opna lyftuna á næstu dögum komi ekki neitt óvænt upp
á. Nægur snjór er á svæðinu eins og þessar myndir
bera með sér. Verið var að losa vírinn þegar myndirnar
voru teknar en eftir er að færa til snjó, yfirfara lyftuna og
hreinsa snjó í kringum Skíðaskálann.
05.02.2004
Þorrablót Kvenfélagsins Einingar á Skagaströnd verður
haldið laugardaginn 14. febrúar nk. og fer forsala miða
fram 8. febrúar milli kl. 12.00 og 13.00 í
Félagsheimilinu Fellsborg. Miðaverð er 4.100 kr. en
eldriborgarar og unglingar fæddir 1988 greiða 2.500 kr.
Skemmtiatriði verða í höndum valinkunnra úrvalsaðila
og hljómsveitin Von frá Sauðárkróki spilar fram eftir
nóttu.
03.02.2004
Grænlenski togarinn Arctic Wolf frá Ilulssat hefur verið
við tilraunaveiðar á krabba undan farnar vikur á nokkrum
stöðum við landið. Hafa þeir m.a. reynt fyrir sér við
Breiðafjörðinn. Skipið er í höfn á Skagaströnd þessa
dagana en búið er að leggja krabbagildur í Húnaflóa og
beðið er eftir heppilegu veðri til að vitja um aflann.
Skipið var leigt til veiða fyrir E. Ólafsson, íslenska
útgerð en áhöfnin mun vera að hluta til erlend. Arctic
Wolf hefur verið við krabbaveiðar við Grænland á liðnum
árum og náð góðum árangri með þær veiðar.
28.01.2004
Loksins kom ærlegur snjór, já en... alltof mikið í einu,
sagði einhver. Hvernig er þetta með þennan meðalveg
sem allir eru að tala um. Hafa veðurguðirnar aldrei
heyrt um hann. Hann er með mátulega miklum snjó,
góðum brekkum, 3-4 stiga frosti og sólskini.
Við auglýsum hér með eftir honum en meðfylgjandi eru
nokkrar myndir af börnunun á Barnabóli að leik
í „ofursnjósköflum“ á Skagaströnd.
Leikskólastjóri.
23.01.2004
Hreppsnefnd Höfðahrepps þakkar Björgunarsveitinni
Strönd fyrir ómetanlega aðstoð við íbúa og atvinnulíf
þegar óveður gekk yfir Skagaströnd dagana 12. – 16.
janúar 2004.
Hreppsnefndin metur mikils hið fórnfúsa starf
björgunarsveitarmanna og annarra sjálfboðaliða sem
unnið hafa við björgun verðmæta og aðstoð við íbúa. Sá
samhugur sem birtist í störfum þessa fólks er til
fyrirmyndar og styrkir samfélagið á erfiðum tímum.
Skagaströnd, 22. janúar 2004.
Hreppsnefnd Höfðahrepps
22.01.2004
Gangur lífsins er nú sem óðast að taka á sig eðlilegt
horf eftir óveðurskaflann sem gekk yfir í síðustu viku.
Snjómokstri af götum er að mestu lokið og orðið vel
fært um allan bæinn. Hlákan sem kom í kjölfar
óveðursins hefur hjálpað mikið til við að breyta öllu útliti
byggðarinnar. Bátarnir sem sukku í höfninni eru allir
komnir á þurrt og hafa ýmist verið teknir til viðgerðar
eða settir í biðstöðu þar til ákveðið verður um framtíð
þeirra. Hreinsun á niðurbrotnu þaki Vélsmiðju Karls
Berndsen stendur yfir og hönnun viðgerða er hafin. Ekki
er fyrirséð hvernig verður leyst úr því máli.
08.01.2004
Frá og með janúar 2004 verður viðvera umsjónarmanns Námsstofu
sem hér segir:
- Á þriðjudögum kl. 19:30 - 21:30
- Á miðvikudögum kl. 17:00 - 19:00
- Á fimmtudögum kl. 10:00 - 12:00 og 13:00 - 16:00
22.12.2003
Nýlega afhenti stjórn Sjúkrasjóðs Höfðakaupstaðar
heilsugæslunni á Skagaströnd nýtt tæki að gjöf. Tækið
er Lazer-tæki; Thor DD Lazer Therapy Unit, sem nýtist
vel við verkjameðferð, einkum fyrir gigtarsjúklinga.
Sjúkrasjóður Höfðakaupstaðar var stofnaður 1947 innan
kvenfélagsins Eining á Skagaströnd.Hefur sjóðurinn
verið iðinn við að gefa ýmis konar tæki til
heilsugæslunnar frá stofnun hans. Meðal annars eru
nánst öll tæki sem notuð eru á heilsugæslunni til
þjálfunar og endurhæfingar tilkomin sem gjafir frá
sjóðnum. Einnig hefur sjóðurinn gefið nokkuð af
tækjum í sjúkrabíl Rauðakrossdeildarinnar á
Skagaströnd í gegnum árin. Aðal tekjulind
Sjúkrasjóðsins er sala minningarkorta en þess utan
hafa konurnar sem starfa fyrir hann fengið styrki frá
fyrirtækjum og einstaklingum.
Að þessu sinni fékk heilsugæslan lazertæki frá
sjóðnum en að sögn Angelu Berthold sjúkraþjálfara
nýtist tækið vel við verkjameðferð, til húðlækninga og
svo hefur það örvandi áhrif á frumumyndun og er því
græðandi. Þá er ótalinn sá kostur tækisins að hafa
bólgueyðandi áhrif því að meðferð með því hefur örvandi
áhrif á blóðstreymi til bólginna vöðva. Angela þakkaði
kvenfélaginu og Sjúkrasjóðnum fyrir gjöfina og segist
nú þegar hafa reynslu fyrir að tækið nýtist vel á
heilsugæslunni.
ÓB.
13.12.2003
Slökkvilið Skagastrandar og björgunarsveitin Strönd
voru kölluð út um kl 14 í dag, laugardaginn 13. des. þar
sem í ljós hafði komið að hraðfiskibáturinn Þórunn Ósk
var hálffullur af sjó og talin veruleg hætta á að hann
sykki ef ekki væri við brugðið. Var dælt upp úr bátnum
og gekk það allt greiðlega. Síðastliðna nótt var
hvassviðri og mældist vindhraði á Skagastrandarhöfn
20 m/sek og mesti vindur í hviðum 28-30 m/sek. Ekki
er vitað fyrir víst hvort veðrið var ástæða þess að
báturinn fylltist af sjó eða hvort aðrar ástæður voru til
þess.