Arnar HU-1 til hafnar á Skagaströnd eftir endurbætur í Póllandi

Arnar HU-1 kom til heimahafnar í dag eftir 40 daga slipp í Póllandi þar sem umtalsverðar endurbætur voru gerðar á skipinu. Endurbæturnar miða fyrst og fremst að því að auka sjóhæfni skipsins svo að það standist ýtrustu kröfur Siglingarmálastofnunar um stöðuleika. Verkið fólst í því að skutur skipsins var sleginn út og andveltitankur settur fyrir framan brú þess. Við breytingarnar jókst tankarými fyrir olíu um fimmtung þannig að ekki er lengur þörf á því að sigla í land til olíutöku þegar líður tekur á veiðiferð eins og áður þurfti. Í slippnum í Póllandi var skipið jafnframt sandblásið og heilmálað. Arnar hreppti leiðinda veður í um sólarhring á leiðinni heim og er það samdóma álit skipstjórnarmanna að vel hafi tekist til með breytingarnar, sjóhæfni skipsins hafi aukist verulega og að það muni örugglega verða betri vinnustaður en áður með minni veltingi. Verktakinn í Póllandi skilaði verkinu á skemmri tíma en ráð var fyrir gert og var tilboð pólska fyrirtækisins aðeins um 32% af upphæð lægsta tilboðs hér heima. Kristinn Halldórsson hjá Skipasýn H/F í Reykjavík sá um hönnun og teikningar á endurbótunum Arnars. J.K.

Prumpuhóll í Fellsborg

Möguleikhúsið sýndi leikritið Prumpuhól fyrir ungu kynslóðina á Skagaströnd í morgun. Fékk leikritið góðar viðtökur og lifðu börnin sig inn í sýninguna. Var bæði grátið og hlegið en allt endaði vel að lokum. Leikritið fjallar um 9 ára gamla borgarstelpu sem villtist út í náttúruna og hitti 90 ára gamlan tröllastrák. Pabbi hans var orðin að steini sem prumpaði alltof mikið, bæði hátt og lengi af því að hann borðaði of mikið. Með tröllastráknum og borgarstelpunni tókst einstök vinátta sem endaði farsællega.

Sjómenn á tölvunámskeiði

Undanfarnar 2 vikur hafa sjómenn af Arnari HU1 og Örvari HU2 setið 36 stunda tölvunámskeið í Höfðaskóla. Þetta námskeið var sniðið fyrir byrjendur og var farið í grunnþætti í Windows, Word, Excel og Internetinu. Þótti námskeiðið takast vel og þátttakendur voru ánægðir með hvernig til tókst. Þetta námskeið var haldið í samvinnu Farskóla Norðurlands vestra og Brims. Kennari var Dagný Rósa Úlfarsdóttir

Hafgeir HU 21 með metafla.

Hraðfiskibáturinn Hafgeir HU 21 kom að landi í dag mánudaginn 20. október með 7,5 tonn af þorski. Hafgeir sem er 6 brúttótonn var einungis um 12 klst. í róðrinum og fékk aflann á 15 bala af línu. Aflinn var nær eingöngu boltaþorskur og sem dæmi má nefna að einungis um 150 kg fór í undirmál. Eigandi Hafgeirs HU 21 er Sævar R. Hallgrímsson. Ekki fékkst upp hvar í Húnaflóanum hann hafði lagt línuna þegar þessi afli fékkst. Línubátar sem gerðir eru út frá Skagaströnd eru nú um 10 og hafa aflað ágætlega þegar gæftir hafa verið.

Af sjóvörn og gatnagerð

Undanfarna daga hefur verið unnið af kappi við að endurbyggja sjóvörn framan við Fjörubrautina. Gamla sjóvörnin var orðin sigin og hætt að verja kantinn eins og þurfti. Sjóvörnin var því endurgerð og styrkt á um 200 metra kafla. Hún var einnig færð framar á um helmingi svæðisins og þannig skapað svigrúm til að koma fyrir holræsalögnum í bakkanum. Verktakar eru Skagfirðingarnir Jón og Sveinn Árnasynir sem samhliða eru að vinna að lagningu Þverárfjallsvegar en auk sjóvarnarinnar hefur verið samið við þá um uppfyllingu undir upptökubraut fyrir báta ásamt sjóvörnum í tengslum við það á hafnarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki á næstu dögum. Fyrr í sumar var skipt um jarðveg í Fjörubrautinni að hluta og sett á hana klæðning og götulýsing. Einnig hafa húsráðendur við Fjörubraut unnið við að mála og klæða húsin. Þannig hafa mörg atriði haft jákvæð áhrif á breyta ásýnd Fjörubrautar.

Upplýsingar um veður og sjólag

Á Skagastrandarhöfn hefur verið komið upp veðurathugunarstöð sem mælir bæði veður og sjólag. Upplýsingar frá stöðinni birtast á vefsíðu Siglingastofnunar www.sigling.is og þar er hægt að sjá upplýsingar um vindátt, vindhraða, hitastig, loftþrýsting og ölduhæð. Veðurstöðin mælir í raun líka sjávarföll en þeim upplýsingum hefur ekki verið komið fyrir á vefnum enn. Í athugun er hvort mögulegt er að birta upplýsingarnar beint á skagastrond.is en það hefur ekki verið leyst enn. Veðurstöðin var hönnuð og sett upp af M&T ehf. í samstarfi við Siglingastofnun og Skagastrandarhöfn.

Íbúar á Skagaströnd flykkjast í nám!

Nú er starfsemi Námsstofunnar komin í fullan gang. Búið er að bæta við tveim tölvum og útbúa aðstöðu fyrir minni hópa, þar sem þeir geta unnið saman að verkefnum. Einnig er möguleiki á því að nýta húsnæðið til margskonar námskeiðshalda. Viðtökur bæjarbúa hafa verið mjög jákvæðar eins og sjá má af því að átjan einstaklingar hafa nú þegar gert samning um nýtingu á þeirri aðstöðu sem er á Námsstofu. Áhugi á endurmenntun er því auðsjáanlega mikill meðal íbúa á Skagaströnd.

Freestyle & funk dansnámskeið.

Freestyle & Funk dansnámskeið með hinni landsþekktu Yesmine Olsson var haldið á Skagaströnd 27. og 28. september s.l. 27 nemendur tóku þátt í námskeiðinu á aldrinum 6 til 16 ára. Yesmine kenndi í 3 hópum 2 tíma hvorn daginn. Lauk námskeiðinu svo með sýningu þar sem foreldrar og aðrir gestir komu að horfa á. Það var gaman að sjá hvað krakkarnir lærðu mikið á aðeins tveimur dögum hjá Yesmine. Í viðtali við Yesmine kom fram að hún hefur ekki kennt jafnungum krökkum áður en taldi að þeir sem komu á námskeiðið og hafa verið að æfa samkvæmis- og línudans séu mjög fljótir að læra freestyle dans. Dansdeild Umf Fram.

Málverkasýning Davíðs

Davíð Örn Halldórsson hélt einkasýningu á málverkum sínum á Skagaströnd í ágústmánuði. Sýningin opnaði um verslunarmannahelgi og var opin meira og minna allan ágústmánuð. Davíð útskrifaðist úr Listaháskólanum vorið 2002 og vakti lokaverkefni hans þar talsverða athygli þar sem hann málaði myndir á fermingarkommóður. Davíð segist mikið mála á húsgögn en þó aðallega á allskonar tréplötur. Honum finnst hins vegar sérstaklega áhugavert að mála á hluti sem aðrir eru hættir að nota og hann ýmist finnur eða fær gefins. Sama gildir að hluta til um málninguna sem hann notar. Iðnaðarmálning sem liggur í afgöngum er honum fyrirtaks úrvinnsluefni og hann leggur sérstaklega upp úr því að endurnýta eða fullnýta efni. Honum finnst ekki ástæða til að bæta endalaust á ruslahauga heimsins heldur þurfi að nýta efnin og gera þau að listmunum eða nytjahlutum. Davíð fluttist til Skagastrandar haustið 2002 með kærustunni Tinnu Guðmundsdóttur sem gerðist kennari á staðnum. Hann fékk aðstöðu í gömlu “Sigga-búðinni” Borg gegn því að hann hreinsaði til í húsinu. Þegar hann opnaði sýninguna fannst honum tilvalið að nota hugtakið Gallerí Borg um sýningarstaðinn. Í sýningarskrá segir Pétur Már Gunnarsson í umsögn sinni: “Fyrstu myndir Davíðs sem tala má um sem fullunnin verk, u.þ.b. 15 ára gömul, eru alveg eins og nýju verkin hans og öll þar á milli. Frá fyrsta striki til þess síðasta hefur hann teiknað upp hluti í absúrd samhengi og unnið þar til þessir hlutir og fletir smella saman í heila mynd. Eins og sjá má á þessari sýningu. Davíð er heill í list sinni og lætur ekki vitsmunadaðrið í abstraktinu villa sér sýn eða hið fígúratíva hlutbinda sig á klafa, heldur vinnur hann jafnt með þessa tvo póla. Yfirleitt innan sömu myndar og gerir þeim slík skil með hliðsjón af listasögunni að til dæmis Philip Guston virðist ekki alveg haf vitað hvað hann var að gera.” Í haust heldur Davíð til Noregs því hann hefur fengið styrk til að vinna þar á tréverkstæði. Hann hefur þó ekki alveg sagt skilið við Skagaströnd því kærastan er enn að vinna þar sem kennari. Davíð segist vera ánægður með sýninguna og hann hafi selt nokkrar myndir.

Bubbi í Fellsborg - 1000 kossa nótt.

Bubbi Mortens hóf tónleikaferð sína, undir nafninu 1000 kossa nótt, í Fellsborg á Skagaströnd mánudaginn 15. september. Tónleikarnir voru ósviknir Bubba tónleikar. Hann mætti til leiks í góðu formi afslappaður en kraftmikill. Lögin sem hann kynnti af nýja diskinum "1000 kossa nótt" voru áhugaverð, kannski ekki bylting en góðir fulltrúar í lagasafni meistarans. Á tónleikunum tók hann auðvitað nokkur af gömlu góðu lögunum og skilaði þeim af sama krafti og áður. Stál og hnífur var enn merki hans þótt margt væri mýkra í bland. Á milli laga ræddi hann um lífið og tilveruna, flutti hvatningu um heilbrigt líferni, talaði um hvað við eigum frábært land og benti á nokkra veikleika í sínu eigin fari sem áheyrendur könnuðust greinilega við í eigin ranni. Tónleikarnir voru sem sagt mjög vel heppnaðir og sýndu að Bubbi er hvergi að gefa eftir sem tónlistarmaður nema síður sé. Áhorfendur fögnuðu honum ákaft í lok tónleikanna og tvíklöppuðu hann á svið. Sem sagt góðir tónleikar hjá Bubba.