02.06.2003
Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur á Skagaströnd,
sunnudaginn 1. júni sl. Hátíðardagskrá var með hefðbundnum
hætti.
Dagurinn hófst með skrúðgöngu frá höfn að kirkju þar sem
haldin var sjómannamessa. Að messu lokinni var lagður
blómsveigur á minnimerki týndra sjómanna. Eftir hádegi var
boðið upp á skemmtisiglingu en síðan hófst dagskrá með
kappróðri. Eftir það voru hefbundin atriði á Hafnarhúsplani þar
sem m.a. Hallgrímur Jónsson var heiðraður fyrir störf við
sjómennsku. Eftir dagskrá við höfnina lauk var kaffisala í
skólanum. Þar var einnig opin málverkasýning Jóns Ó
Ívarssonar og einnig sýning á verkum nemenda grunnskólans.
Í Fellsborg var sýnd fjölskyldumyndin Skógarlíf II.
Hátíðarhöldum lauk síðan með dansleik í Fellsborg þar sem
hljómsveit Geirmundar Valtýssonar lék fyrir dansi.
Það er Björgunarsveitin Strönd sem hefur veg og vanda af dagskrá
sjómannadagsins.
02.06.2003
Laugardaginn 31. maí 2003 fermdi sr. Magnús Magnússon
fjögur börn í Hólaneskirkju á Skagaströnd.
Þau eru:
Almar Freyr Fannarsson
Arnrún Bára Finnsdóttir
Ásþór Óðinn Egilsson
Guðmundur Ingi Ólafsson
26.05.2003
Höfðahreppur hefur samið við Helga Gunnarsson og Baldur
Haraldsson að annast enduruppbyggingu húseignarinnar
Bjarmaness sem í daglegu tali er kallað “gamli skólinn”.
Húsið sem var byggt 1913 af Verslunarfélagi Vindhælinga er
orðið illa farið og hefur verið breytt oftar en einu sinni á 90 ára
ferli sínum.
Upphaflega var húsið byggt sem verslun og íbúð
verslunarstjóra en þjónaði því hlutverki ekki nema í um 10 ár
því Verslunarfélagið hafði þá keypt eignir kaupmannsins
Evalds Hemmert við Einbúann og flutti starfsemi sína þangað.
Bjarmanes var þá tekið undir skólahús en ávallt var þó búið í
húsinu jafnframt. Það þjónaði einnig hlutverki samkomuhúss
á tímabili og eftir 1958 þegar skólinn flutti í nýtt húsnæði var
það notað sem íbúðarhús og síðar sem lögreglustöð. Síðustu
10-15 árin hafa munir Sjóminja- og munasafns Skagastrandar
verið varðveittir í húsinu.
Framkvæmdir við endurbæturnar eru hafnar og er ætlunin að
koma ytra útliti hússins sem næst upprunalegu horfi. Það
felur í sér að rífa tröppur og anddyri sem byggt var austan á
húsið og breyta gluggsetningu og jafnframt að endurbyggja
tröppur bæði sunnan og vestan á húsinu. Einnig verður skipt
um þak og endurbyggðir skorsteinar. Steinsteypa í útveggjum
hússins er víða illa farin og kallar á miklar múrviðgerðirnar.
Eitt af því sem hefur vakið athygli við undirbúning að
endurbótunum eru múrstrikanir á neðri hluta útveggja. Þær
eru listilega gerðar og bera fagmennsku fyrri tíma gott vitni
þar sem í blautan múrin hefur verið strikað hleðslumynstur
svo hvergi virðist skeika millimetra. Verður reynt að halda
þessu sérkenni við endurbyggingu ásamt mörgu öðru sem
einkenndi húsið. Má þar m.a. nefna steypta járnglugga á
kjallara.
Byggingastjóri við framkvæmdina er Helgi Gunnarsson en
múrverk annsta Baldur Haraldsson (Hendill ehf). Eftirlit og
verkfræðihönnun er á höndum Línuhönnunar en arkitekt að
endurbótum er Jon Nordsteien
Áætlað er að kostnaður við endurbætur utanhúss muni kosta
um 5 milljónir og heildarkostnaður við að endurgera húsið
muni verða um 18 milljónir. Eftir endurbygginguna er gamla
skólanum ætlað hlutverk á menningar- og menntunarsviði.
15.05.2003
Miðvikudaginn 14. maí hélt hópur nemenda 9. og 10. bekkjar
Höfðaskóla í skólaferðalag til Danmerkur. Í hópnum eru 28
nemendur og 3 leiðbeinendur. Þau munu dvelja í
Kaupmannahöfn og nágrenni til 20. maí. Á dagskránni er að
heimsækja skemmtigarðana Bakken og Tívolí og líta við
í "Belive it or not" safninu ásamt mörgu öðru skemmtilegu og
fræðandi.
15.05.2003
Ágúst Þór Bragason, umhverfisstjóri lagði fyrstu hellurnar í
planið við kirkjuna miðvikudaginn 14. maí. Hellurnar eru
svokallaðir óðalssteinar, 8 cm þykkar. Reiknað er með að
alls verði lagðar hellur sem nema um 160 tonnum í
kirkjutorgið og stefnt að því að ljúka mestum hluta þess fyrir
mánaðarmótin. Sjómannadagurinn verður haldin hátíðlegur 1.
júní og fermt verður í kirkjunni 31. maí.
14.05.2003
Hressar konur og karlar alls 30 talsins ákváðu að halda upp á
kosningadaginn 10. maí, á fremur óvenjulegan hátt, með því
að ganga frá Skagaströnd til Blönduóss. Þetta er í annað
sinn sem aðstandendur námskeiðsins "Líkama og sál"
standa fyrir þessari göngu og vonandi verður þessi sólarganga
að hefð hjá íbúum svæðisins. Gengnir voru 23 kílómetrar og
tók gangan u.þ.b. 4 klukkustundir og 40 mínútur. Það var
þreyttur en ákfalega stoltur hópur sem þáði veitingar af
Framsóknarmönnum á Blönduósi að lokinni göngu.
13.05.2003
Skagaströnd, 13. maí 2003
Menntun í heimabyggð
Skagstrendingar!
Hreppsnefnd Höfðahrepps vill með bréfi þessu hvetja alla sem
hug hafa á framhaldsnámi að kynna sér möguleika fjarnáms.
Margir skólar bjóða upp á fjarnám og er möguleikarnir
fjölbreyttir bæði á framhalds- og háskólastigi. Sem dæmi um
skóla sem bjóða upp á skipulagt fjarnám eru:
• Verkmenntaskólinn á Akureyri
• Fjölbrautarskólinn í Ármúla
• Háskólinn á Akureyri
• Háskólinn í Reykjavík
• Háskólinn á Bifröst
• Kennaraháskólinn
Hreppsnefnd Höfðahrepps hefur ákveðið að koma upp
aðstöðu fyrir fjarnám og ráða starfsmann sem hefur það
hlutverk að aðstoða nemendur og halda utan um starfsemina.
Gert er ráð fyrir að “námsstofan” taki til starfa næsta haust.
Tilgangurinn er að hvetja íbúa Skagastrandar til náms og
athafna. Jafnframt er markmiðið að leitast við að styðja við
bakið á þeim sem stunda nám og skapa þeim
þægilegt “skólaumhverfi”.
Fyrirhugað er að námsstofan verði í Gamla skólanum þegar
fram líða stundir, en gert er ráð fyrir að til að byrja með verði
aðstaðan til húsa að Mánabraut 3. Þar verður til staðar allur
búnaður sem þarf til að stunda fjarnám.
Sveitarstjóri.
12.05.2003
Togarinn Örvar kom til hafnar á Skagaströnd föstudaginn 9.
maí. Afli skipsins er um 323 tonn og áætlað verðmæti hans
um 75 milljónir. Meginhluti aflans er grálúða.
07.05.2003
Undirbúningur hellulagnar á bílastæði austan kirkjunnar
gengur vel. Jarðvegsskiptum er að mestu lokið og búið að
taka stæði fyrir minnisvarðann syðst í planinu. Starfsmenn
voru að taka hæðir, þjappa fyllingu og undirbúa uppsetningu
fjögurra ljósastaura í blíðunni þriðjudaginn 6. maí.
10.04.2003
Talsverðar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á vegum
Höfðahrepps á árinu og er áætlaður kostnaður við þær er um
25 milljónir króna.
Frágangur á kirkjulóð er stærsta einstaka framkvæmd
ársins. Ákveðið hefur verið að helluleggja bílastæði ofan við
kirkjuna og þarf samhliða því að koma minnismerki um
drukknaða sjómenn fyrir innar í lóðinni og útbúa hellulagt torg
í kringum það. Skipulag svæðisins liggur frammi á skrifstofu
hreppsins og eru íbúar hvattir til þess að kynna sér það.
Framkvæmdir hefjast seinni hluta aprílmánaðar og er stefnt
að því að ljúka þeim að mestu fyrir mánaðarmótin maí/júní.
Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er um 7,5 milljónir
króna.
Lagfæra á gangstéttir á nokkrum stöðum þar sem þær hafa
skemmst og framlengja gangstéttir á nokkrum stöðum.
Settir verða ljósastaurar við Höfðastrætið. Kostnaður við
þessar framkvæmdir er áætlaður um 3,0 milljónir króna.
Ljúka á við utanhússlagfæringar á Bjarmanesi og færa húsið
nær upprunalegu útliti. Þannig verður skýlið fjarlægt og
komið fyrir gluggum þar sem þeir voru áður. Segja má með
þessu að húsinu sé sýndur einstakur sómi enda er það eitt
elsta húsið í sveitarfélaginu. Áætlaður kostnaður á árinu er
um 5,0 milljónir króna en heildarkostnaður við að endurgera
húsið er áætlaður um 18 milljónir.
Ákveðið hefur verið að ráðast í utanhússmálun á stórum hluta
af íbúðum sveitarfélagsins. Um er að ræða raðhúsin við
Suðurveg, raðhús við Mánabraut og parhús við Skagaveg.
Áætlaður kostnaður er um 4,0 milljónir.
Á vegum vatnsveitunnar verða endurnýjaðir 2. brunahanar og
komið upp viðvörunarkerfi og eftirlitskerfi ef um bilanir er að
ræða í dælingu eða miðlun á vatninu. Áætlaður kostnaður er
um 0,5 milljónir.
Gengið verður frá Fjörubrautinni frá gatnamótum Hólanesvegar
að Hólaneshúsunum. Um er að ræða jarðvegsskipti, lagnir
og klæðningu á götu. Sjóvörn sunnan við Hólanes verður
styrkt á 200 m kafla og færð fjær götunni. Áætlaður
kostnaður við sjóvörnina er 3,5 milljónir kr.
Auk áðurtaldra verkefna verður unnið að minniháttar
viðgerðum og viðhaldi.