Frábær skemmtun í Drekktu betur

Fullt hús var í Kántrýbæ á miðvikudagskvöldið þegar fram fór fyrirtækjakeppni í spurningaleiknum geðþekka, Drekktu betur. Raunar var þetta í 39. sinn að Drekktu betur er haldin á Skagaströnd. Um eitt hundrað manns voru í Kántrýbæ, um sjötíu keppendur í 24 liðum. Rúmlega tuttugu áhorfendur mættu, margir hverjir stuðningsmenn einstakra liða. Þeir létu þeir vel í sér heyra, rétt eins og áhorfendur á knattspyrnuleik. Skilti voru á lofti, bylgjur myndaðar og hvatningahróp bergmáluðu.  Spyrlar og dómarar voru Ólafía Lárusdóttir og Ingibergur Guðmundsson og yfirdómari var Sigurður Sigurðarson. Úrslitin urðu sem hér segir: Jöfn í 3. sæti með tuttugu stig voru lið Trésmiðju Helga Gunnarssonar, Fiskmarkaðarins, Arnars HU 1, Sveitarfélagsins Skagastrandar og Trillanna þriggja í Höfðaskóla.  Þessi lið tilnefndu hver sinn fulltrúa sem drógu spilið úr spilabunka en það lið sem dró hæsta spilið fékk 3. sætið.  Niðurstaðan varð sú að Fiskmarkaðurinn varð hlutskarpastur en í liðinu voru þessir: Reynir Lýðsson, Patrik Bjarnason og Þórey Jónsdóttir. Fengu þau nokkrar tveggja lítra Coca Cola flöskur í verðlaun og páskaegg.    Í 2. sæti varð lið Hafrúnar HU 12 með 21 stig. Í liðinu voru Jóhann Sigurjónsson, Karl Olsen og Hafþór Gylfason. Hlaut hver og einn  bjórkassa og páskaegg.   Sigurvegarar fyrirtækjakeppninnar var lið Spákonuarfs með 25 stig. Liðið skipaði Sigrún Lárusdóttir, Dagný Marín Sigmarsdóttir og Lárus Ægir Guðmundsson. Hlutu þau bjórkassa, rauðvinflöskur og páskaegg í verðlaun. Verðlaunin komu frá Vífilfelli; Coka Cola, Carlsberg bjór og rauðvín. Frá Samkaupum úrval komu páskaeggin.  Forráðamenn keppninnar færa þessum ágætu styrktaraðilum bestu þakkir fyrir stuðningin og vegleg verðlaun. Kependum og áhorfendum eru hér með færðar bestu þakkir fyrir þátttökuna. Kvöldið var afskaplega skemmtilegt og vel heppnað kvöld.  

Munum tónleika Ragnheiðar Gröndal á skírdagskvöld

Munum eftir hinum umtöluðu tónleikum Ragnheiður Gröndal í Hólaneskirkju á skírdagskvöld, fimmtudagnn 21. apríl kl. 20:30. Þar flytur hún ljúf og falleg lög við undirleik Hauks Gröndals. Mætum snemma til að fá góð sæti Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.  Tónleikarnir eru í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli.

Landaður afli á Skagaströnd fer vaxandi

Landaður afli í Skagastrandarhöfn í mars var 634 tonn en var á sama tíma í fyrra 647 tonn. Engu að síður er uppsafnaður afli kvótaársins orðinn 7.686 tonn en var í fyrra kominn í 6.384 tonn. Aflahæstu skip og bátar sem lögðu upp á Skagaströnd í mars eru þessi: Arnar HU-1, 451 tonn, frystar afurðir Kristín ÞH-157, lína, 48 tonn Fjölnir SU-57, lína  48 tonn Alda HU-112, lína  48 tonn Dagrún ST-12, þorsk og grásleppunet  12 tonn Ólafur Magnússon HU-54, þorskanet  10 tonn  Bergur sterki HU-17, grásleppunet  8 tonn Sæfari SK-112, lína og grásleppunet  7 tonn Bogga í Vík HU-6, grásleppunet  2 tonn Eins og sjá má á meðfylgjandi súluritum er afli ársins yfirleitt mestur frá ágúst til desember. Þá minnkar hann talsvert en fer svo vaxandi frá miðju ári. Ljóst má þó vera að landaður afli í Skagastrandarhöfn hefur farið vaxandi á undanförnum  Miðað við kvótaár, þ.e. september til ágústloka hefur aflinn í Skagastrandarhöfn verið sem hér segir: 2007-08: 6.004 tonn 2008-09: 8.259 tonn 2009-10: 9.106 tonn 2010-11: Það sem af er, eru komin á land 7.686 tonn Að sjálfsögðu er hægt að miða við almanaksárið og sé það gert reiknast aflinn á þessa leiðr: 2008: 8.055 tonn 2009: 8.807 tonn 2010: 10. 771 tonn 2011: Það sem af er árinu eru komin á land 1.512 tonn

15 fyrirtæki skráð í Drekktu betur í kvöld

Fyrirtæki á Skagaströnd takast á í spurningaleiknum skemmtilega Drekktu betur á miðvikudagskvöldið 20. apríl kl. 21:30.  Nú þegar hafa 15 fyrirtæki skráð sig til leiks en frestur til að skila inn þátttökutilkynningum rennur út kl. 12 á miðvikudaginn. Auðvitað eru allir velkomnir að mæta og fylgjast með. Á eftir spurningaleiknum skemmtir Guðlaugur Ómar  frá 24 til 3. Frítt er inn. Frábær verðlaun eru fyrir sigurvegarana í boði Coca Cola, Carlsberg og Samkaup úrvals: verðlaun: Bjór og rauðvínsflöskur verðlaun: Bjórkassi og páskaegg verðlaun: Kók og páskaegg Fyrirkomulagið verður að mestu leyti eins og tíðkast hefur hingað til. Munurinn er hins vegar sá að nú skrá fyrirtæki og hópar sig til keppni. Mestu skiptir þó að spurningaleikurinn er framar öllu skemmtun ekki keppni. Í hverju liði verða þrír keppendur. Spurningarnar verða þrjátíu og reglur hinar sömu og gilt hafa í Drekktu betur hingað til.  Fyrirtæki mega að sjálfsögðu tefla fram sameiginlegu liði. Ffjölmennir vinnustaðir mega líka senda fleiri en eitt lið.  Öll lið þurfa að bera nafn. Það má gjarnan vera nafn fyrirtækisins en einnig er heimilt að bæta við öðru nafni. Til dæmis má nafnið vera „Spekingar Fyrirtækis“ eða „Flautaþyrlar Stofnunar“ og svo framvegis – allt í gríni gert. Tilkynna þarf um þátttöku fyrir kl. 12 þriðjudaginn 19. apríl. Morguninn eftir verður greint frá þátttakendum í fréttahluta skagastrond.is og dreifibréf borið í hús. Þátttaka tilkynnist til Ingibergs, 892 3080, menning@ssnv.is, Ólafíu, 898 7877, olafia@neslist.is, eða Sigurðar, 864 9010, radgjafi@skagastrond.is, fyrir kl. 12 þann 20. apríl.

Sumarstörf hjá Sveitarfélaginu Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir eftir flokksstjórum til starfa í Vinnuskóla sveitarfélagsins í sumar. Skilyrði er að umsækjendur séu 20 ára eða eldri og reynsla af sambærilegum störfum kostur. Jafnframt eru auglýst laus til umsókna sumarstörf námsmanna og atvinnuleitenda í samstarfi við Vinnumálastofnun. Sveitarfélagið fékk úthlutað 5 störfum fyrir námsmenn í tvo mánuði sumarið 2011. Störfin eru við ýmis verkefni á vegum sveitarfélagsins m.a. við skógrækt, umhverfismál og umsjón með golfvelli. Rafrænt umsóknarform er að finna hér en umsóknareyðblöð má einnig fá á skrifstofu sveitarfélagsins. Umsóknarfrestur er til 12. maí n.k. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofunni í síma 455 2700.

Ragnheiður Gröndal í kirkjunni á skírdagskvöld

Ragnheiður Gröndal verður með tónleika í Hólaneskirkju á skírdagskvöld, fimmtudagnn 21. apríl kl. 20:30. Þar flytur hún ljúf og falleg lög við undirleik Hauks Gröndals.  Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.  Tónleikarnir eru í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli.

Drekktu betur í kvöld í Kántrýbæ ...!

Þær Ósk Richter og Sigríður Sveinsdóttir verða hæstráðendur til sjós og lands í spurningaleiknum Drekktu betur sem verður í kvöld í Kántrýbæ kl. 21:30. Þegar kátar konur fá að stjórna er pottþétt að allir munu skemmta sér af hjartans lyst. Þær ætla að spyrja um samfélagið, eitthvað héðan af Skagströnd, um hitt og þetta sem allir eiga að vita.

Heimferðin stutt, örugg og án pissustoppa

Í gærkvöldi hélt Karlakórinn Heimir tónleika í Hólaneskirkju. Þeir heppnuðust afar vel og áheyrendur voru afskaplega ánægðir að þeim loknum. Hins vegar hefði aðsóknin mátt vera betri. Á heimasíðu Karlakórsins er eftirfarandi frétt um tónleikanna: Tónleikar í Hólaneskirkju á Skagaströnd eru afstaðnir. Húnvetningar tóku okkur merkilega vel og viljum við þakka þeim kærlega fyrir góðar viðtökur.  Þar sem "æfingaferðin" suður á land heppnaðist vonum framar treystum við okkur til að bjóða þeim upp á svipaða dagskrá. Því miður átti Jón Þorsteinn ekki heimangengt til að spila með okkur en hróður hans fer víða því að ágætlega seldust diskarnir hans í hléi. Það er gott að syngja í Hólaneskirkju og kunnugir höfðu orð á því að kórinn fyllti vel upp í rýmið. Lög eins og Ár vas alda og karlakórslögin; Þér Landnemar og Úr útsæ skiluðu sér af fullum þunga. Einnig naut fólkið þess vel þegar við hvísluðum okkur gegnum Linditréð og Í Fögrum Dal. Ari Jóhann fékk þó bestu viðtökurnar í einsöngslögunum, enda er karlinn í fantaformi þessa dagana, eftir að hann rakaði af sér skeggið ...   Gunnar kynnir var óvenju hógvær fyrir hlé, enda kom það í ljós að hann hafði gleymt að hafa með sér gleraugum á svið. Eftir hlé sótti hann heldur í sig veðrið og skemmti fólki með vísum og sögum tengdum dagskránni.   Sem betur fer eru raddfélagar hans í 2. bassa komnir með eftirlitskerfi á karlinn og er Árni á Uppsölum ábyrgur fyrir því að halda aftur af honum.  Hirting kvöldsins var eftirfarandi vísa: Gunnar malar og malar magnaður lopann að spinna Endalaust talar og talar ég trúi honum minna og minna Lokalagið var Pílagrímakór Wagners.  Nokkur aukalög áttum við í handraðanum, sem öll féllu í góðan jarðveg. Heimferðin var stutt, örugg og án pissustoppa! Kórinn kemur næst fram á Sæluvikutónleikum í Miðgarði með Karlakórnum Stefni frá Mosfellsbæ.

Styrkir úr Þróunarsjóði framhaldsfræðslu

Þróunarsjóður framhaldsfræðslu auglýsir eftir umsóknum um styrki vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna í framhaldsfræðslu, sbr. lög um framhalds- fræðslu nr. 27/2010. Forgangssvið við úthlutun árið 2011 eru: Námsefnisgerð í framhaldsfræðslu  Nýsköpunarverkefni í framhaldsfræðslu Undirbúningur/grunnvinna fyrir rannsóknir Viðmiðin sem Þróunarsjóðurinn gengur út frá við val á verkefnum eru að þau: Nái til þeirra sem falla undir ramma laganna um framhaldsfræðslu Mæti sýnilegri þörf fyrir menntunarúrræði í framhaldsfræðslu Áhersla er lögð á að öll verkefni sem sótt er um styrk til séu vel undirbúin og umsóknir vandaðar. Kostur er að verkefni sé samstarfsverkefni. Verkefni sem styrkt eru mega ná yfir tvö ár frá úthlutun. Eingöngu er tekið við umsóknum á rafrænu formi. Umsóknareyðublað má nálgast á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins www.frae.is sem jafnframt er umsjónaraðili verkefna sjóðsins. Umsóknarfrestur er til 6. maí 2011 Umsækjendum er bent á að kynna sér lög um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og úthlutunarreglur sjóðsins sem má nálgast á www.frae.is.

Til hamingju Höfðaskóli

Síðasta þriðjudag var hin árlega íþróttakeppni milli grunnskólanna í Húnavatnsþingi haldin hér á Skagaströnd. Að þessu sinni var keppt fótbolta, skotbolta, boðhlaupi, reiptogi og klifri í klifurveggnum. Keppnin var mjög spennandi en að lokum fór svo að Höfðaskóli bar sigur úr býtum.  Að lokinni íþróttakeppni var nemendum boðið upp á pizzur í Kántrýbæ og síðan var dansað fram eftir kvöldi í Fellsborg undir stjórn Dj. Söndru.  Þessi dagur var hinn skemmtilegasti og gaman að fylgjast með þessum 190 nemendum skemmta sér saman í keppni og leik.