31.03.2011
Vorið kom til Skagastrandar í morgun kl. 11:43. Er það þremur klukkustundum síðar en í fyrra en fjórum dögum og átta klukkustundum fyrr en árið þar áður. Skýringin er rakin til háloftavinda og æseif umræðunnar.
Í einkaviðtali við komuna í morgun sagðist vorið ekki ætla að hverfa á braut fyrr en sumarið kæmi enda er það venja sem skapast hefur síðustu áratugum. Hér áður fyrr var þó talsverður ruglingur á brottför vorsins því stundum kom sumarið ekki og haustið lét ekki heldur sjá sig rétt eins og gerðist árið 1882 er veturinn ríkti svo að segja allt árið. Þá dólaði sumarið sér í rólegheitum einhvers staðar suður í höfum og gleymdi sér landsmönnum öllum til mikilla óþæginda.
Í dag er sólskinsdagur mikill á Skagaströnd eins og sjá má á meðfylgjandi gerfihnattarmynd frá veðurskipinu Bravó. Greina má brunahanann sem leikur við hvern sinn fingur og snertir varla jörð. Og grasflötin hefur þegar tekið til við að grænka en það sést því miður ekki sökum útfjólublárra geisla sem takmarka rými fyrir grænu endurkasti frá jurtum. Þannig gerast nú aðstæður oft á vorin.
Hiti er 7 gráður í forsælu og sólarhiti greinilegur í lopti. Og suðrið sæla andar vindum þýðum á 6 m/s og þykir það ekki mikill vindgangur. „Ég bið að heilsa,“ mælti vorið er það breiddi sig út um strönd og fjöll og var ekki til frekari viðræði eftir það.
31.03.2011
Þau Hugrún Sif Hallgrímsdóttir og Jón Ólafur Sigurjónsson verða hæstráðendur til sjós og lands í spurningakeppninni á föstudagskvöldið 1. apríl kl. 21:30. Skagstrendingar eru eindregið hvattir til að mæta og skemmta sér og öðrum enda er það aðalatriði. Spurningarnar verða ekki erfiðar heldur meira lagt upp úr því að gera sér glaðan dag og njóta félagsskaparins.
Þetta verður 36. skiptið sem spurningakeppnin er haldin hér á Skagaströnd en fyrsta skiptið var 25. september 2008. Alls hafa 48 manns stjórnað keppninni, þar af sumir oftar en einu sinni.
Fyrir viku mættu rúmlega þrjátíu manns í Kántrýbæ og tóku þátt í spurningakeppninni vinsælu. Sigurvegarar urðu þá Guðrún Pálsdóttir og Ólafur Bernódusson.
Miðvikudaginn 20. apríl er gert ráð fyrir að haldin verði spurningakeppnin Drekktu betur og verður þá reynt að halda fyrirtækjakeppni og hugsanlega verða verðlaunin aðeins veglegri en endranær. Þetta verður þó auglýst síðar.
31.03.2011
Um 150 norðlensk ungmenni taka þátt í Leiklistarhátíð Þjóðleiks Norðurlandi sem haldin verður í Listagilinu Akureyri um helgina. Upphafið verður skrúðganga frá Rósenborg niður Listagilið föstudaginn 1. apríl kl. 16 og er fólk hvatt til að mæta og taka þátt.
Leiksýningar verða á klukkutíma fresti föstudag frá klukkan 17 - 19 og laugardag klukkan 10 – 19.
Í Listagilinu munu Norðlendingar og gestir þeirra eiga vona á veisluhlaðborði sviðslista. Uppsetningarnar sjö eru á tveimur glænýjum íslenskum leikverkum eftir upprennandi íslensk leikskáld, en hóparnir gátu valið milli þriggja verka til að setja upp. Þau voru: Mold (höf. Jón Atli Jónasson), Kuðungarnir (höf. Kristín Ómarsdóttir) og Iris (höf. Brynhildur Guðjónsdóttir og Ólafur Egill Egilsson).
Hátíðin hefur átt langan aðdraganda þar sem flestir hópar hafa æft og frumsýnt í sinni heimabyggð en koma nú saman undir einum leiklistarhátíðarhatti og sýna alls 15 leiksýningar á tveimur dögum.
Áhugafólk um leiklist er hvatt til að heimsækja Listagilið og sjá ungt og upprennandi leikhúsfólk sýna það sem í þeim býr.
Þjóðleikur á Norðurlandi er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og fjölda aðila á Norðurlandi.
Nánari upplýsingar veitir Björk Sigurgeirsdóttir verkefnisstjóri Þjóðleiks á Norðurlandi í síma 844 6640 og netfanginu bjorksig@akureyri.is.
Meðfylgjandi myndir eru frá fumsýningu eins hópsins Daddavarta á Skagaströnd í gær, þriðjudag 29. mars.
31.03.2011
Golfklúbbarnir á Skagaströnd, Blönduósi og Sauðárkróki hafa ákveðið að ganga til samninga við breskan golfkennarann Richard Hughes. Hann starfar nú sem yfirkennari og rekstrarstjóri Orange Lakes Golf Resort í Egyptalandi og er en ætlar að taka sér frí í nokkra mánuði og bíða þess að ólgan þar í landi hjaðni.
Richard hefur mikla reynslu af golfkennslu, bæði í fæðingalandi sínu, Wales, en einnig í Tékklandi og Póllandi, þar sem hann starfaði um nokkurra ára skeið, og loks í Egyptalandi.
Hann hefur þjálfað þúsundir barna og notar til þess þjálfunarkerfi sem hann hefur búið til og hlotið fyrir það viðurkenningar. Hann hefur auk þess mikla keppnisreynslu.
Richard hefur lengi þjálfað fullorðna, bæði nýliða sem og þá bestu í íþróttinni.
Fyrirhugað er að hann kenni einn dag í viku á Háagerðisvelli á Skagaströnd í sumar, einn á golfvelli Blönduóss og þrjá á Sauðarkróksvelli.
Golfklúbbarnir vænta mikils af samstarfinu við Richard Hughes og vona að klúbbmeðlimir taki vel á móti þessu reynda kennara.
29.03.2011
Miðvikudaginn 30. mars klukkan 20 verður kanadíski listamaðurinn Christie Kirchner með opið hús í Nesi listamiðstöð.
Christie hefur dvalið á Skagaströnd síðast liðin mánuð. Verk hennar eru teikningar þar sem hún sækir innblástur í landslag og sögu Skagastrandar.
Hún heillaðist strax af sögunni af Þórdísi og hvernig sagt er að hún hafi greitt á sér hárið með gull kambi í hlíðum Spákonufells. Verkin kallar hún „Secret futures“.
Vonast er til að sem flestir láti sjá sig.
29.03.2011
Nemendur í leiklistarvali Höfðaskóla frumsýna leikritið Íris í Fellsborg á Skagaströnd í kvöld, þriðjudaginn 29. mars, kl. 20:00. Leikfélagið DaddaVarta stendur að sýningunni. Leikstjóri er María Ösp Ómarsdóttir.
Aðeins er um þessa einu sýningu að ræða en leiklistarhátíð Norðurlands verður á Akureyri um næstu helgi og þar mun DaddaVart sýna Írisi tvisvar. Fjöldi leikfélaga setja um leiksýningar á Akureyri.
Leikritið er eftir Brynhildi Guðjónsdóttur og Ólaf Egil Egilsson. Það var skrifað fyrir fyrir Þjóðleik 2010 – 2011.
Miðaverð er 1000,- kr og er frítt fyrir þriðja barn frá heimili.
Nemendur í 1. – 4. bekk þurfa að vera í fylgd með foreldrum / forráðamönnum.
28.03.2011
Kjörskrá
Kjörskrá fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd vegna þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011 liggur frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til kjördags.
Kjörskrá miðast við skráð lögheimili eins og það var samkvæmt þjóðskrá þremur vikum fyrir kjördag eða 19. mars 2011 og miðast við þá sem fæddir eru 9. apríl 1993 og fyrr.
Athugasemdum við kjörskrá skal skila á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir kjördag, 9. apríl 2011.
Sveitarstjóri
28.03.2011
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave samkomulagið þann 9 apríl hefur hafist á Skagaströnd.
Hægt er að greiða atkvæði daglega milli kl. 10-16, eða eftir samkomulagi, hjá hreppstjóra Lárusi Ægi Guðmundssyni að Einbúastíg 2, 1. hæð til vinstri.
Hvernig fer kosning fram utan kjörfundar?
Kjósandi þarf að gera kjörstjóra grein fyrir sér með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Kennivottorð er persónuskilríki með mynd, svo sem vegabréf eða ökuskírteini.
Að þessu loknu fær kjósandi afhent kjörgögn.
Skal kjósandi svo aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn og setja atkvæðið í kjörseðilsumslagið.
Kjósandinn merkir við á kjörseðli hvort hann samþykki að lög nr. 13/2011 haldi gildi sínu eða að þau eigi að falla úr gildi. Ef kjörseðill ónýtist hjá kjósanda má hann fá annan í stað hins.
Þá áritar og undirritar kjósandi fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna.
Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendiumslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til sýslumannsins, kjörstjórnarinnar eða hreppstjórans í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá. Á sendiumslagið skal rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili.
Kjósanda er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar oftar en einu sinni og skal þá aðeins hið síðastgreidda atkvæði tekið til greina. Utankjörfundaratkvæði telst greitt þann dag sem fylgibréfið er dagsett.
Kjósandi þarf aðstoð
Ef kjósandi skýrir kjörstjóra frá því að hann sé ekki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða annarrar fötlunar, skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi, enda er hann bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Aðstoðin skal þó aðeins veitt að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Kjósandi verður sjálfur að biðja um aðstoð.
Hvernig fer með atkvæðið?
Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá þá skilur kjósandi þar eftir bréf með atkvæði sínu og skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal svo innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn og er umboðsmönnum lista heimilt að setja á hann innsigli sín.
Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá, þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.
Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.
Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna.
Fyrirgerir utankjörfundaratkvæðagreiðsla rétti manns til að greiða atkvæði á kjördag?
Nei, kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þó hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur utankjörfundaratkvæðaseðill hans þá ekki til greina við kosninguna.
28.03.2011
Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi sem tileinkuð er Grími heitnum Gíslasyni, fréttaritara, hestamanni og bónda frá Saurbæ í Vatnsdal, fór fram í Félagsheimilinu á Blönduósi fimmtudaginn 24. mars síðastliðinn.
Tólf ungmenni tóku þátt í keppninni og áttu þau það öll sameiginlegt að hafa verið valin bestu lesararnir í skólum byggðarlagsins, þ.e. Höfðaskóla, Blönduskóla, Húnavallaskóla og Grunnskóla Húnaþings vestra.
Keppendur lásu brot úr skáldverki eftir Gunnar M. Magnússon og ljóð eftir Unni Benediktsdóttur, eða Huldu sem var skáldanafn hennar og ljóð að eigin vali. Keppnin var hörð og jöfn að vanda.
Úrslit urðu þessi:
1. sæti. Egill Örn Ingibergsson, Höfðaskóla.
2. sæti. Sigurjón Þór Guðmundsson, Blönduskóla.
3. sæti. Natan Geir Guðmundsson, Húnavallaskóla.
Hlutu sigurvegararnir peningaverðlaun frá Sparisjóðnum á Sauðárkróki auk
viðurkenningarskjals.
Egill Örn mun varðveita farandskjöld fram að næstu keppni að ári. Skjöldurinn var gefinn af sjóði sem stofnaður var til heiðurs Grími Gíslasyni. Allir keppendurnir fengu síðan tvenn bókaverðlaun. Skólarnir gáfu Ljóðasafn eftir Stein Steinarr og Félag íslenskra bókaútgefenda gaf Ljóðasafn eftir Huldu, sem sérstaklega var prentað fyrir keppnina.
Dómarar keppninnar að þessu sinni voru Guðrún Bjarnadóttir kennari, Sigrún
Grímsdóttir organisti og kórstjóri og tveir valinkunnir menn sem árlega flakka á milli landshluta til að dæma í Stóru upplestrarkeppninni en þeir heita Baldur Sigurðsson og Þórður Helgason.
Markmið keppninnar er að glæða tilfinningu og metnað húnvetnskra grunnskólanema fyrir íslensku máli og framsögn og miðað við frammistöðu ungmennanna í keppninni gengur vel að ná því markmiði.
Fréttin og myndin er fengin af vefritinu huni.is.
25.03.2011
Nokkuð minni fiskafli barst á land í febrúar á Skagaströnd en á sama tíma í fyrra. Engu að síður hefur aldrei borist meiri afli á land en á yfirstandandi kvótaári. Þetta kemur glögglega í ljós á súluritinu hér til hliðar. Það sem af er hafa rúmlega 7 þúsund tonn borist á land en voru tæplega sex þúsund í fyrra sem var metár.
Heildaraflinn í febrúar var 541 tonn en var í sama mánuði í fyrra 875 tonn.
Afli einstakra skipa var sem hér segir:
Arnar HU-1, ein löndun, 296,7 tonn
Fjölnir SU-58, línubátur tvær landanir, 103,4 tonn
Páll Jónsson GK-7, línubátur, ein löndun 69,3 tonn
Alda HU-112, línubátur, sex landanir, 35,9 tonn
Sæfari SK-112 línubátur, fimm landanir, 8,7 tonn
Dagrún ST-12, netabátur, ellefu landanir, 9,3 tonn
Ólafur Magnússon HU-54, netabátur, 8 landanir 3,9 tonn