04.04.2012
Fyrirtækjakeppni í Kántrýbæ
í kvöld, miðvikudaginn 4. apríl, kl. 21.30
Þrír í liði – 30 spurningar
Trostan Agnarsson og Hugrún Sif Hallgrímsdóttir
eru spyrlar og dómarar.
Góð verðlaun.
Kántrýbær
04.04.2012
Fyrsti farmur af efni í hitaveitu sem á að leggja frá Reykjum til Blönduóss og áfram Skagastrandar er kominn. Framleiðandinn, Logstör í Danmörku hefur valið þá leið að flytja meirihlutann af efninu á flutningavögnum með ferjunni Norrænu.
Þótt um sé að ræða flutninga á um 1.200 tonnum á efni og 70 - 80 ferðir á dráttarbílum með vagna var þessi leið valin umfram beina flutninga með skipi. Fyrstu bílarnir með stálrör komu í gær og losuðu framinn í nágrenni við borholurnar á Reykjum.
Efnið sem um ræðir er í um 13 km aðveitulögnin frá jarðhitasvæðinu á Reykjum (Húnavöllum) til Blönduóss og 20 km stofnlögn frá Blönduósi til Skagastrandar og dreifikerfi á Skagaströnd.
Lagning veitunnar munu skiptast í þrjá megin verkhluta: Lagningu nýrrar stofnæðar frá Reykjum að Blönduósi sem verði unnin á árinu 2012, lagningu stofnæðar frá Blönduósi til Skagastrandar á fyrri hluta árs 2013 og lagningu dreifikerfis um byggðina á Skagaströnd sumarið og haustið 2013.
02.04.2012
Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir eftir umsóknum um að leigja og reka Kaffi-og menningarhúsið Bjarmanes á Skagaströnd.
Húsið er laust til afnota í lok maí og í því er allur búnaður til reksturs kaffihúss.
Bjarmanes er fallegt steinhús, byggt 1913 en var allt endurbyggt 2004,og hefur þann einstaka anda sem einkennir mörg gömul hús. Það stendur miðsvæðis með góðu útsýni yfir höfnina og Húnaflóann.
Óskað er eftir að umsækjendur leggi fram með umsókn sinni hugmyndir um rekstrarform og menningarlegt hlutverk kaffihússins.
Umsóknum skal skilað á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar
fyrir 15. apríl 2012. Umsóknum má einnig skila rafrænt á netfangið skagastrond@skagastrond.is
Fyrir hönd sveitarstjórnar,
2. apríl 2012.
Sveitarstjóri
31.03.2012
Skagastrandarvegur sem hefur verið lokaður síðan kl 9 í morgun verður opnaðu aftur um kl 13.00 í dag. Viðgerð á veginum er þó ekki að fullu lokið og má því búast við einhverjum töfum til að byrja með og vegfarendur beðnir að sína tillitssemi við þá sem vinna að endurbótum og gæta fyllstu varúðar.
30.03.2012
Á vef Umferðarstofu er svohljóðandi auglýsing frá Vegagerðinni.
Vegna ræsagerðar verður vegur 74 , Skagastrandarvegur, á milli Lækjardals og Mýrarvegar lokaður á morgun, laugardaginn 31. mars, frá kl. 09:00 og fram eftir degi.
http://www.us.is/page/umferdin_i_dag
27.03.2012
Auglýsing vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2011/2012 sbr. reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa nr. 1182, 21. desember 2011
Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir:
Kaldrananeshreppur (Drangsnes)
Akureyri (Grímsey)
Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í neðanskráðum byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 297/2012 í Stjórnartíðindum
Sveitarfélagið Vogar
Vesturbyggð (Brjánslækur, Bíldudalur)
Árneshreppur
Strandabyggð (Hólmavík)
Blönduósbær (Blönduós)
Sveitarfélagið Skagaströnd
Fjallabyggð (Siglufjörður, Ólafsfjörður)
Akureyri (Hrísey)
Grýtubakkahreppur (Grenivík)
Vopnafjarðarhreppur (Vopnafjörður)
Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna á heimasíðu stofnunarinnar (fiskistofa.is), og þar eru ofangreindar reglur einnig aðgengilegar. Umsóknarfrestur er til og með 10. apríl 2012.
Fiskistofa, 27. mars 2012.
26.03.2012
Útgerðarfélagið Sæfari ehf. frá Hrauni á Skaga er að koma upp aðstöðu fyrir grásleppuverkun á Skagaströnd í nýuppgerðu vinnsluhúsi sínu. Framkvæmdir hafa staðið yfir að undanförnu og var allt klárt þegar veiðar hófust í síðustu viku. Reiknað er með að alls verði verkuð og söltuð hrogn af 4-5 bátum auk Sæfara SK 112 sem er í eigu útgerðarfélagsins. Fiskmarkaðurinn mun taka við grásleppunni sjálfri og selja í gegnum uppboðskerfi sitt. Í forystu fyrir Sæfara ehf. eru bræðurnir Steinn og Jóhann Rögnvaldssynir en auk þess eru meðeigendur að útgerðinni faðir þeirra Rögnvaldur Steinsson og systkinin frá Víkum á Skaga.
Sæfari hefur verið gerður út frá Skagaströnd um margra ára skeið og hefur aðallega stundað línuveiðar auk grásleppuveiða.
Nú þegar hafa 8 bátar hafið grásleppuveiðar frá Skagaströnd og lofa aflabrögð góðu fyrstu dagana.
12.03.2012
95. ársþing Ungmennasambands A-Hún. fór fram um helgina á 100 ára afmælisári sambandsins en það verður 100 ára þann 30. mars n.k. Um 10 fulltrúar voru mættir ásamt gestum frá ÍSÍ og UMFÍ. Fram kom á þinginu að mikil afmælisveisla verður í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi laugardaginn 31. mars. Auk venjulegra aðalfundarstarfa var Íþróttamaður ársins valinn en það var að þessu sinni Magnús Örn Valsson úr Geislum en Magnús Örn hefur aðallega einbeitt sér að kúluvarpi og stóð sig mjög vel á síðasta ári.
--------
kv. Eysteinn Pétur
Frkv.stjóri USAH
09.03.2012
Um fimmtíu starfsmenn leik- og grunnskóla, á svæði fræðsluskrifstofu A-Hún, mætti á endurmenntunarnámskeið í Fellsborg á Skagaströnd 8. mars síðast liðinn.
Á námskeiðinu, sem stóð frá tvö til fimm, fjallaði Þórarinn Viðar Hjaltason, sálfræðingur, um hugræna atferlismeðferð og hvernig nota má aðferðir hennar til að bæta samskipti innan skóla og stuðla að betri líðan nemenda.
Í fyrirlestri sínum kynnti Þórarinn hagnýtar aðferðir til að fá fram jákvæðari viðhorf nemenda til skólans og vinnu sinnar þar, hvernig nota má hugræna atferlismeðferð við úrlausn vandamála og hvernig vekja má áhuga nemenda á jákvæðum breytingum með sérstökum hvatningarviðtölum.
Allt þetta leiðir síðan til betri skólabrags, sem er eilíft markmið allra skóla, hvar svo sem þeir eru á vegi staddir. Námskeiðið mæltist vel fyrir hjá þátttakendum sem öllum er áfram um að nemendum sínum líði sem best í skólanum.
Mynd: Þátttakendur og fyrirlesari
08.03.2012
Fjölskylduleikritið Áfram Latibær var sýnt í Fellsborg þann 6.mars við mjög góðar undirtektir. Vegna mikils áhuga hefur hópurinn ákveðið að bæta við einni sýningu á föstudaginn 9.mars. Mun vera sýnt í Fellsborg eins og áður, og byrjar sýningin á slaginu 19.30 !!
Ekki missa af þessari frábæru skemmtun fyrir alla fjölskylduna!
Áfram Latibær kl. 19.30 í Fellsborg þann 9.mars
Miðaverð er eins og áður: 1000 kr. / 500 kr. fyrir 10 ára og yngri.
Sjáumst hress í Latabæ.
María Ösp Ómarsdóttir