Tónleikar í Blönduóskirkju

Kvennakórinn Sóldís heldur tónleika í Blönduóskirkju þriðjudaginn 13. mars næstkomandi og hefjast þeir klukkan 20:30. Söngskráin er fjölbreytt með alþjóðlegum blæ, en kórinn syngur á tíu tungumálum. Söngstjóri er Sólveig S. Einarsdóttir, undirleikari er Rögnvaldur Valbergsson. Miðaverð 2000 krónur. Ath. kort ekki tekin.

Flóamarkaður á Skagaströnd!

Margir Skagstrendingar eru nú í óða önn að tína út úr geymslum hjá sér ýmiss konar dót á flóamarkaðinn sem verður í Djásnum og dúlleríi á laugardaginn, 3. mars. Fólk úr nágrannabyggðum er einnig væntanlegt með söluvarning og eins hefur frést af varningi alla leið frá Vestmannaeyjum. Það má því leiða líkum að því að úrvalið verði fjölbreytt og það verði skemmtileg stemning hjá stöllunum, Signýju, Björk og Birnu í Djásnum og dúlleríi. Opið er frá kl. 14.00-18.00.

Námskeið á vegum Fræðsluskrifstofu A-Hún.

Tólf húnvetnskir kennarar læra að nota CAT-kassann. Tólf kennarar úr skólunum í austur og vestur Húnavatnssýslum hafa nú fengið réttindi til að nota CAT-kassann sem er hjálpartæki við kennslu og lausn ýmissa tilfinningavandamála hjá börnum. Til að öðlast þessi réttindi sóttu kennararnir námskeið í Blönduskóla hjá Ásgerði Ólafsdóttur, sérkennara og einhverfuráðgjafa, en hún ásamt samstarfskonu sinni, hefur þýtt efni kassans úr dönsku þaðan sem efnið er komið. CAT-kassinn er sérstaklega þróaður til að auðvelda samræður við börn og ungmenni sem eiga í erfiðleikum með að tjá sig beint um tilfinningar, hugsanir , upplifanir og líðan. Bæði foreldrar og fagfólk getur notað CAT-kassann á áhrifaríkan hátt í daglegum samræðum við börn. CAT-kassinn er upphaflega þróaður til að styðja samtöl við börn með raskanir á einhverfurófi. Reynslan hefur síðan leitt í ljós að börn með eðlilegan þroska sem eiga í ýmsum erfiðleikum geta einnig haft mikið gagn af CAT-kassanum. Það er von og ásetningur þátttakenda á námskeiðinu að notkun þeirra á CAT-kassanum verði til að gera góða skóla í sýslunum enn betri í framtíðinni. Mynd: Þátttakendur og leiðbeinandi (lengst til hægri)

Félagsmiðstöðin í úrslitum söngkeppninnar

Laugardaginn 3. mars verður árleg söngkeppni á vegum Samfés sem er samtök félagmiðstöðva á Íslandi. Keppninni verður sjónvarpað beint á RÚV og hefst kl 13.00 á laugardaginn. Félagsmiðstöðin Undirheimar á loksins fulltrúa í keppninni en það er hljómsveitin Dornik sem keppir fyrir hönd okkar og flytja lag Mugisons, Stingum af. Hljómsveitina skipa: Ívan Árni Róbertsson, söngur Heba Líf Jónsdóttir, söngur Sigurbjörg Birta Berndsen, píanó Sigurbjörg Katla Valdimarsdóttir, gítar, bakrödd Guðrún Anna Halldórsdóttir, saxafónn, bakrödd Sigurlaug Máney Hafliðadóttir, þverflauta Við hvetjum að sjálfsögðu alla Skagstrendinga til þess að kveikja á sjónvarpinu kl 13.00 á Laugardaginn og fylgjast með:0) Félagsmiðstöðin Undirheimar

Sköpum störf saman !

Vinnumálastofnun á Norðurlandi vestra býður atvinnurekendum og fulltrúum sveitarfélaganna til kynningarfunda um átakið „Vinnandi vegur“, sem er átak til að skapa störf fyrir atvinnuleitendur. Kynningarfundir verða haldnir á eftirfarandi stöðum. 1.mars á Sauðárkróki á Kaffi Krók kl. 15:00. 2.mars á Hvammstanga í Hlöðunni kl. 11:00. 2.mars á Blönduósi í Eyvindarstofu kl. 14:00. 5.mars á Skagaströnd hjá Vinnumálastofnun kl. 11:00. Við vonumst til að sem flestir atvinnurekendur sjái sér fært að mæta. Starfsfólk þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Norðurlandi vestra

Drekktu betur á föstudag

Drekktu betur í Kántrýbæ föstudaginn 24. febrúar 2012 kl. 21:30 Alþjóðlegar spurningar og þrír í liði Nú breytum við aldeilis til því á föstudagskvöldið eru það fulltrúar Ness listamiðstöðvar sem sjá um spurningarnar en það eru Norðmaðurinn Sigbjörn Bratlie og Barbara Gamper frá Ítalíu sem semja spurningarnar og verða dómarar og alvaldar. Sigbjörn spyr á íslensku en Barbara þýðir yfir á ensku. Líklega verða spurningarnar ekki alveg eins „lokal“ og stundum. Kannski verða ein eða tvær spurningar um listina, t.d. hver málaði Monu Lísu eða Ópið, nú eða hvað heitir konungur Noregs? Er Berlusconi enn forsætisráðherra Ítalíu? Allaveganna verða spurningarnar, eins og venjulega, óvæntar og spennandi. Svo ætlum við líka að prófa að hafa þrjá í liði og sjá hvernig það kemur út. Þá getið þið valið með ykkur fólk með sérsvið, kvikmyndir, tónlist, náttúrufræði o.s.frv. Mætum öll á skemmtilegan leik.

Aðalfundur Skagastrandardeildar RKÍ

Rauði Kross Íslands Skagastrandardeild Aðalfundur Skagastrandardeildar RKÍ verður haldinn þriðjudaginn 28. febrúar n.k. kl. 20:00 í húsnæði deildarinnar að Vallarbraut 3. Venjuleg aðalfundastörf Skagastrandardeild RKÍ

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar föstudaginn 24. febrúar 2012 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Þriggja ára áætlun sveitarsjóðs og stofnana 2. Dreifnám 3. Fellsborg framkvæmdir 4. Samningur MN og SSNV 5. Bréf: a. Félags- og skólaþjónustu A-Hún, dags. 13. febrúar 2012 b. Þingmanna Hreyfingarinnar, dags. 7. febrúar 2012 c. Hollvinasamtaka HSB, dags. 17. febrúar 2012 d. Óbyggðanefndar, dags. 18. janúar 2012 6. Fundargerðir a. Fræðslunefndar, 19.01.2012 b. Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 2.02.2012 c. Menningarráðs Norðurlands vestra, 2.02.2012 d. Heilbrigðisnefndar Nl. vestra, 31.01.2012 e. Héraðsfundar sveitarstjórna í A-Hún, 7.02.2012 f. Stjórnar SSNV, 14.02.2012 g. Stjórnar Sambands ísl. sveitarfél. 27.01.2012 7. Önnur mál Sveitarstjóri

Búðu til þína eigin Kransaköku.

Þann 17.mars næstkomandi mun vera haldið námskeið í kransakökugerð á Skagaströnd. Námskeiðið er haldið undir leiðsögn Halldórs Kr. Sigurðssonar bakar og konditor.  Fyrirkomulag námskeiðisins Hver og einn þáttakandi mun útbúa 40 manna kransaköku sem hann/ hún getur síðan fryst og boðið upp á í fermingarveislunni sinni eða öðrum viðburði. Kennt verður hvernig á meðhöndlar massann, hvernig kakan er sett saman og hugmyndir af skreytingu. Einnig verða þátttakendum kennt hvernig er hægt að að útbúa súkkulaðiskraut á einfaldan máta. Námskeiðið mun taka um það bil tvær og hálfa klukkustund og þátttölugjald mun vera 6.990 kr. Allt hráefni og bakstur er innifalið í verðinu. Einnig er hægt að kaupa auka massa ef fólk vill stækka kökuna eða búa til kransakökubita, ekki er nauðsynlegt að sækja námskeiðið til þess. Þessi námskeið hafa verið haldin á höfuðborgarsvæðinu í mörg ár á vegum Blómavals og hafa þau verið mjög vinsæl,fyrir þá sem eru að fara að ferma þá er fermingarbarnið oft tekið með og hjálpar það við að gera köku fyrir sýna eigin fermingarveislu. Námskeiðið verður haldið í Félagsheimilinu á Skagastönd þann 17.mars næstkomandi frá kl 12:00 til 14 :30. Nauðsynlegt er að taka með sér ílát til að geyma kökuna í, farið verður með hana heim ósamansetta. . Áhugasamir vinsamlegast sendið tölvupóst á solnoi@hotmail.com eða hringið í síma 690 9078. Skráning þarf að vera með fullu nafni, síma og hvert námskeiðið verður sótt. 12.mars er allra síðasti dagur til að skrá sig. Frekari upplýsingar um námskeiðið getur þú fengið í skráningarsíma eða sent tölvupóst. Vonandi sjá sem flestir sér fært á að mæta á þetta skemmtilega námskeið :) Halldór Kr. Og Margrét Sól.

FÉLAGSVIST

Kvenfélagið Eining mun standa fyrir þriggjakvölda félagsvist á næstunni. Spilað verður í félagsheimilinu Fellsborg. Spilað verður mánudaginn 27. febrúar, mánudaginn 5. mars og mánudaginn 12. mars Húsið opnar kl. 20:00. Byrjað verður að spila kl.20:30. Miðaverð er 1000 kr. fyrir kvöldið. 1800 kr ef greitt er fyrir 2 kvöld, og 2400 kr ef greitt er fyrir 3 kvöld. Vinningar eru í boði fyrir hvert kvöld fyrir sig, hæsti karl og hæsta kona og svo skammarverðlaunin að sjálfsögðu. Svo er tekin heildarsumma allra kvölda og sá stigahæsti fær veglegan vinning síðasta kvöldið. Kaffiveitingar í hléi eru innifaldar í miðaverði. Kvenfélagið Eining.