13.03.2018
Opnaður hefur verið upplýsingavefur um sameiningarmál sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Á honum má finna fréttir og tilkynningar, fundargerðir, minnisblöð og aðrar upplýsingar sem tengjast mögulegri sameiningu sveitarfélaganna fjögurra sem eru; Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd. Vefslóðin er: sameining.huni.is.
Upplýsingavefurinn er samstarfsverkefni Húnahornsins, sameiningarnefndar A-Hún. og Ráðrík ráðgjafa. Hann er í umsjón og á ábyrgð Húnahornsins – fréttavefs Húnvetninga í 17 ár. Upplýsingar sem á vefinn koma eru frá sameiningarnefndinni og Ráðrík ráðgjöfum. Aðra almenna textavinnslu sér Húnahornið um.
Opnir fundir á sex stöðum eftir páska
Svanfríður Jónasdóttir hjá Ráðrík ráðgjöf segir upplýsingavefinn mjög mikilvægan til þess að allir geti fylgst með og kynnt sér þá vinnu sem er í gangi í tengslum við framtíðarskipan sveitarstjórnarmála í A-Hún. Hún segir mikilvægt að sem flestir hafi tök á að kynna sér sameiningarmálefnin, geti rætt málin og komið sínum sjónarmiðum á framfæri.
Í undirbúningi er að halda opna fundi á sex stöðum í sýslunni strax eftir páska. „Þeir verða opnir öllum íbúum, þ.e.a.s. þú þarft ekki að mæta á fundinn sem er næstur þínu heimili, heldur getur sótt hvaða fund sem er til að taka þátt í umræðu um framtíðarskipan sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu,“ segir Svanfríður.
13.03.2018
Nemendur Farskóla Norðurlands vestra sem sækja námskeiðið Beint frá býli komu í heimsókn í Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd í síðustu viku.
Ástæða heimsóknarinnar var að hluti af námskeiðinu fer fram í Vörusmiðjunni. Í þessari heimsókn var framkvæmd sýnikennsla þar sem leiðbeinandinn Páll Friðriksson fór í gegnum nokkra þætti matvælavinnslu t.d. fars- og pylsugerð. Útbúin voru sýnishorn af ýmsum spennandi vörum sem áhugavert verður að sjá hvort unnið verður með áfram.
Þátttakendum námskeiðsins stendur síðan til boða að nýta heilan dag út af fyrir sig í Vörusmiðjunni án endurgjalds þar sem slíkt er innifalið í námskeiðinu. Fólk getur þannig nýtt kunnáttu sína til þróunarstarfs í eigin þágu sem við vonum að endingu mun skila sér í fjölbreyttara vöruúrvali fyrir okkur neytendur.
13.03.2018
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar fimmtudaginn 15. mars 2018 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 8.00.
Dagskrá:
Gjaldskrá sveitarfélagsins
Framkvæmdir 2018
Fyrirspurn um matsskyldu
Samningur við Hjallastefnu
Umsagnir um gisti- og veitingaleyfi
Bréf
Styrktarsjóðs EBÍ, dags. 21. febrúar 2018
Samtaka sveitarfélaga á Nl. vestra, dags. 23. febrúar 2018
Ámundakinnar ehf, dags. 13. febrúar 2018
Ungmennafélags Íslands, dags. 30. janúar 2018
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 8. febrúar 2018
Jóns H. Daníelssonar og Ernu L.Kjartansdóttur. dags. 3. mars 2018
Fundargerðir:
Tómstunda- og menningarmálanefndar, 7.03 2018
Hafnar- og skipulagsnefndar, dags. 21.02.2018
Stjórnar SSNV, 20.02.2018
Stjórnar Hafnasambands Íslands, 26.02.2018
Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga 23.02.2017
Önnur mál
Sveitarstjóri
12.03.2018
Foreldrar 9. bekkinga í Höfðaskóla munu steikja fiskibollur í Vörusmiðju BioPol ehf í dag. Bjóðum ykkur að koma þangað og versla heitar fiskibollur milli kl. 18:30 og 19:00. Gengið inn að ofan (um iðnaðarhurð). Fólk er hvatt til að koma með ílát að heiman til að setja fiskibollurnar í.
Verð: 500 gr: 1,500, 1 Kg: 2,500, 1,5 kg: 4,000, 2 kg: 5,000.
Krakkarnir munu svo ganga í hús á næstunni og selja frosnar vakumpakkaðar bollur, en það verður nánar auglýst síðar. Endilega látið orðið berast 😊 Ath. Erum ekki með posa.
9. bekkur Höfðaskóla
09.03.2018
Við fjárhúsin
Hér hefur fólkið stillt sér upp til myndatöku framan við
óþekkt fjárhús árið 1961.
Þá var algengt að skepnuhús væru byggð úr asbesti á trégrind,
eins og sést bak við fólkið, enda vissu menn þá ekki um hve
heilsuspillandi efni asbest er.
Fólkið á myndinni er, frá vinstri:
Ingvar Jónsson (d. 29.7.1978) frá Brúarlandi, Edda Guðmundsdóttir,
Jóhanna Valdimarsdóttir (Valdimars Núma Guðmundssonar),
Þórey Jónsdóttir (d.29.12.1966) frá Brúarlandi,
Inga Þorvaldsdóttir (d.14.12.2012) í Straumnesi dóttir hennar
og Margrét Guðbrandsdóttir (d.30.3.2004), móðir Eddu á myndinni.
Senda upplýsingar um myndina
07.03.2018
Af óviðráðanlegum orsökum verður Bókasafn Skagastrandar lokað í dag,
miðvikudaginn 07.03.2018
Bókavörður
06.03.2018
Í dag 6.mars er lokað á skrifstofu sveitarfélagsins vegna námskeiðs starfsmanna.
02.03.2018
Norðurá bs sem rekur urðunarstaðinn Stekkjarvík við Blönduós fékk afhentan nýjan sorptroðara núna í lok febrúarmánaðar. Troðarinn er af gerðinni Bomag BC772 RS-4 og er tæp 40 tonn að þyngd. Í honum er mótor af gerðinni Mercedes Benz, OM471LA. 340kw. Hann er með sérstökum troðarahjólum með ásoðnum göddum og skóflugálga eins og á hjólaskólfum með hleðsluhæð 3,25 m og 4,5 rúmmetra skóflu. Innkaupsverð á troðaranum er tæpar 52 milljónir án vsk. Tækið er keypt í gegnum Vélafl ehf sem er umboðsaðili fyrir Bomag á Íslandi.
Með nýjum sorptroðara aukast afköst við móttöku á sorpi og betri þjöppun næst á urðunarreinar.