Rafbókasafn.

Bókasafn Skagastrandar hefur opnað aðgang að Rafbókasafninu. Með þessari nýjung geta notendur bókasafnsins nálgast fjölda titla af hljóð- og rafbókum á auðveldan hátt. Rafbókasafnið er langþráð viðbót í bókasafnsflóruna. Líkt og á öðrum bókasöfnum er safnkosturinn fjölbreyttur, en þar má finna skáldverk, fræðirit og rit almenns efnis, bæði nýtt og eldra efni. Meginhluti efnisins er á formi rafbóka, en hlutur hljóðbóka fer ört stækkandi. Rafbækurnar má ýmist lesa á vef safnsins, rafbokasafnid.is, eða á snjalltækjum í gegnum Overdrive-appið (finnst í App store og Play Store). Þannig geta lesendur notað hvert tækifæri til að lesa sínar bækur, í síma eða á spjaldtölvu, hvar sem er og hvenær sem er. Í raun þýðir þetta að lesendur hafa heilt bókasafn í vasanum. Rafbókasafnið er alltaf opið og þar eru engar sektir, því kerfið sér sjálft um að skila bókum þegar lánstími er útrunninn. Aðgangur að Rafbókasafninu er innifalinn í árgjaldi til Bókasafns Skagastrandar sem er 2.050 krónur. Aldraðir og öryrkjar fá frí skírteini, öryrkjar eru beðnir um að framvísa örorkuskírteini hjá bókaverði. Börn og ungmenni 18 ára og yngri fá einnig frí bókasafnsskírteini. Til að virkja aðgang að rafbókasafninu þarf að koma við á bókasafninu og fá bókasafnsskírteini. Opnunartími bókasafnsins er: Mánudagar kl. 16-19 Miðvikudagar kl. 15-17 Fimmtudagar kl. 15-17

Aðalfundur Rauða krossins á Skagaströnd

Aðalfundur Rauða kross Skagastrandar verður haldinn fimmtudaginn 8.mars kl. 19:30 í húsnæði Rauða krossins að Vallabraut 4. Allir velkomnir, sjálfboðaliðar og aðrir áhugasamir. Léttar veitingar í boði. Kveðja - stjórnin

Mynd vikunnar

Árni Guðbjartsson. Eftir snarpa baráttu við illvígan sjúkdóm hefur Árni nú lagt inn árarnar og er kominn í skjól í þeirri höfn sem bíður okkar allra. Þaðan mun hann væntanlega róa á ný og önnur mið en þau sem hann sótti af svo mikilli elju hér á jörðinni. Hann barst ekki mikið á en vann störf sín af dugnaði og trúmennsku, léttur í skapi og fullviss um þann kúrs sem hann tók hverju sinni. Vinsæll, ráðagóður og hjálpsamur eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann þegar Árna er minnst. Hugur okkar og samúð er hjá aðstandendum hans sem nú sjá eftir góðum dreng inn í heim ljóssins. Árni Guðbjartsson lést 20. febrúar síðastliðinn en útför hans verður frá Hólaneskirkju föstudaginn 2. mars klukkan 14:00

Starfsfólk óskast á Sæborg

Viltu finna þér áhugaverðan starfsvettvang? Hjúkrunarheimilið Sæborg á Skagaströnd auglýsir eftir sjúkraliðum og starfsfólki við umönnun til starfa sem fyrst.. Á Sæborg búa að jafnaði níu aldraðir einstaklingar. Helstu verkefni: Veita íbúum stuðning og umönnun við athafnir daglegs lífs. Hæfniskröfur: Þjónustulund, sveigjanleiki og jákvætt viðmót. Samskipta- og samstarfshæfni. Framtakssemi og samviskusemi. Að tala og skrifa íslensku Hreint sakavottorð. Í boði er: Gefandi og lærdómsríkt starf. Aðstoð við að finna hentugt húsnæði Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélag. Vaktafyrirkomulag og starfshlutfall samkvæmt samkomulagi Umsókn: Upplýsingar um starfið gefur hjúkrunarforstjóri, Jökulrós Grímsdóttir eða staðgengill, í síma 452 2810 / póstfang saeborg@simnet.is Karlar jafnt sem konur eru hvött til að sækja um starfið. Í Sveitarfélaginu Skagaströnd búa tæplega 500 manns. Þar er auðugt mannlíf, góður grunnskóli og leikskóli sem starfar í anda Hjallastefnunnar.

Kynningarfundur um smábátahöfn

Kynningarfundur um smábátahöfn verður haldinn þriðjudaginn 27. febrúar nk. kl. 17.30 í Bjarmanesi. Efni fundarins er að kynna hugmyndir um smábátahöfn og skýra fyrirhugað skipulags og byggingarferli hennar. Sveitarstjóri

Kynning á dreifnámi í A-Húnavatnssýslu

Fimmtudaginn 1. mars næstkomandi, klukkan 17:00, munu Lee Ann Maginnis umsjónarmaður Dreifnáms í A-Hún, Þorkell V. Þorsteinsson aðstoðarskólameistari FNV, Þórdís Hauksdóttir, fræðslustjóri og fulltrúar frá nemendafélagi FNV kynna námsframboð, félagslíf og aðstöðu Dreifnáms í A- Hún og FNV. Allir nemendur í 9. og 10. bekk í grunnskólum A-Hún eru sérstaklega boðaðir til fundarins. Dreifnám í A-Hún er samvinnuverkefni Félags- og skólaþjónustu A-Hún og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Markmið Dreifnáms er að bjóða upp á 1-2 fyrstu námsár framhaldsskóla í heimabyggð. Fundurinn fer fram í húsnæði Dreifnámsins, Húnabraut 4, Blönduósi. Á fundinum verður farið yfir námsframboðið, starfsemi Dreifnámsins og foreldrum/forráðamönnum og nemendum gefið tækifæri til spyrja spurninga.

Mynd vikunnar

Ingibjörg Björgvinsdóttir Enn er höggvið skarð í hóp samborgara okkar á Skagaströnd. Hæglát og ljúf kona, sem ekki barst mikið á, hefur nú stigið inn í heim ljóssins, sem hún trúði svo einlæglega á. Við sem fengum að vera Ingu samferða í lífinu kveðjum hana með söknuði og þökkum góð kynni. Sérstaklega minnumst við hennar góða starfs í kirkjukórnum þar sem hún var ein af undirstöðunum sem kórinn byggir á allt þar til sjúkdómar gerðu henni ókleift að starfa þar lengur. Nú er hugur okkar hjá aðstandendum hennar sem eiga góðar minningar um konuna sem var akkerið í lífi þeirra. Ingibjörg Björgvinsdóttir lést á heimili sínu 14. febrúar síðastliðinn en hún verður jarðsungin frá Hólaneskirkju laugardaginn 24. febrúar klukkan 14:00.

Mynd vikunnar

Í símaafgreiðslunni Þórunn Bernódusdóttir á vinnustað sínum sem símaafgreiðslustúlka á Gamla pósthúsinu. Fyrir tíma sjálfvirkninnar þurfti símastúlkan að gefa samband milli númera í kerfinu og "gefa línu" eins og kallað var gegnum tengiborðið sem sést til hægri. Á þessari mynd, sem líklega var tekin einhverntíma kringum 1975, hefur Pálína Freyja Harðardóttir komið í heimsókn af efri hæðinni þar sem hún átti heima á þessum tíma. Senda upplýsingar um myndina

Mynd vikunnar

Kvenfélagskonur á þorrablóti Konur úr kvenfélaginu Einingin á þorrablóti í Tunnunni einhverntíma á sjöunda áratugnum. Maturinn er kominn á borðið og allt er tilbúið fyrir gestina. Stólarnir hafa verið fengnir að láni í skólanum og fólk þurfti sjálft að koma með diska og hnífapör með sér að heiman. Frá vinstri eru: Gestheiður Jónsdóttir, Helga Berndsen, Sigríður Ásgeirsdóttir, Elísabet Árnadóttir (Bebbý), Karla Helgadóttir, Jóhanna Gunnlaugsdóttir og Anna Halldórsdóttir Aspar. Matinn unnu konurnar að mestu sjálfar, gerðu slátur, lifrapylsu og lundabagga og súrsuðu, sviðu svið og gerðu sviðasultu, bökuðu brauð og og flatkökur og sáu til þess að einhver heimamaður framleiddi harðfisk fyrir þær. Skemmtiatriði voru ofast í formi upplesturs og fjöldasöngs en síðan var dansað að borðhaldi loknu eins og nú er gert við undirleik hljómsveitar þar sem harmónikan var í aðalhlutverki. Senda upplýsingar um myndina