26.01.2018
Foreldrar barna með lögheimili á Skagaströnd eiga rétt á 15 þúsund króna styrk, fyrir hvert barn á grunnskólaaldri, sem þátt tekur í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Frístundakortin taka gildi 1. janúar ár hvert og gilda í eitt ár. Skil á gögnum vegna frístundaþátttöku síðastliðins árs er í síðasta lagi 31. janúar næsta árs. Eftir það fellur réttur þess árs niður.
23.01.2018
Í tilefni opnunar Salthúss gistiheimilis að Einbúastíg 3 á Skagaströnd verður opið hús í gistiheimilinu föstudaginn 26. janúar nk. kl 17-19. Allir velkomnir.
22.01.2018
Nýr líkamsræktarsalur hefur verið opnaður í íþróttahúsinu á Skagaströnd. Salurinn er á miðhæð íþróttahússins þar sem hafa verið kennslustofur undanfarin ár. Við þá breytingu að öll almenn kennsla var flutt í grunnskólann eftir breytingar á því húsnæði á sl. ári opnaðist möguleiki til að nýta salinn í íþróttahúsinu fyrir líkamsrækt.
Tækin í salnum eru fengin frá World Class og eru samtals 18 og er ætlað að gefa möguleika á að þjálfa sem flesta vöðva líkamans en auk þess eru þrjú öflug hlaupabretti. Við opnunina 17. janúar sl. voru tækin kynnt og Ólafur Jóhannesson stöðvarstjóra hjá World Class kenndi bæði starfsfólki og gestum hvernig best er að nota tækin.
Með þessari breytingu verður mikil bylting á aðstöðu fyrir líkamsræktina sem hefur undanfarin 20 ár verið í kjallara íþróttahússins í frekar þrögnu rými og með misjöfnum tækjabúnaði. Þar verður reyndar áfram lyftingabúnaður, lóð og þess háttar þjálfunaraðstaða.
Auk líkamsræktaraðstöðunnar er á efstu hæð ágætur salur fyrir júdó, karate og jóga. Í tilefni þessara tímamóta og breytinga lagði Ungmennafélagið Fram til dýnur á allt gólf salarins.
Við opnun líkamsræktarinnar kynnti Þórey Fjóla Aradóttir hvaða þjónustu hún gæti boðið sem einkaþjálfari.
Íþróttahúsið var tekið í notkun fyrir réttum 20 árum því það var formlega opnað 15 mars 1998. Í því er 16x32 metra parketlagður salur þar sem hægt er að stunda ýmsar íþróttir.
Góð aðsókn var við opnun líkamsræktaraðstöðunnar og mikil ánægja með nýja aðstöðu og búnað og þau tækifæri sem opnast með þessari breytingu.
19.01.2018
Mjólkurflutningar
Gríðarlegur snjór var á Skagaströnd í janúar - maí 1995 með
sífelldum illviðrum. Snjómokstur gekk erfiðlega því erfitt var að
koma snjónum fyrir nema aka honum í sjóinn.
Ófært var út á Skaga fyrir mjólkurbílinn og tóku bændur þá það til
ráðs að þeir komu á dráttarvélum sínum með mjólkina í brúsum og
tunnum til móts við mjólkurbílinn, sem komst hálfa leið út að Háagerði.
Þar var mjólkinni dælt í mjólkurbílinn úr ílátum bændanna.
Á þessari mynd er Sigfús Guðmundsson mjólkurbílstjóri að dæla upp úr
brúsum frá Árna Sveinbjörnssyni frá Króksseli.
Í baksýn eru að spjalla Baldvin Sveinsson frá Tjörn, Vilhjálmur Skaftason
Skagaströnd, óþekktur og Jens Jónsson frá Brandaskarði.
Senda upplýsingar um myndina
17.01.2018
Að undanförnu hafa staðið yfir talsverðar breytingar á líkamsræktar aðstöðu í íþróttahúsinu og af því tilefni verður opið hús miðvikudaginn 17. janúar frá kl. 12:30-18:00.
Tækin eru fengin frá World Class og verða kynnt af starfsfólki og einkaþjálfara samkvæmt leiðbeiningu og kennslu frá Ólafi Jóhannessyni stöðvarstjóra hjá World Class. Einni mun Þórey Fjóla Aradótti einkaþjálfari vera með til kynningar sína starfssemi.
Sveitarfélagið býður þessa aðstöðu gjaldfrjálst til 31. Janúar að þeim tíma loknum tekur við ný gjaldskrá.
12.01.2018
Breytt götumynd í útbænum
Myndin er tekin af Höfðanum yfir útbæinn og höfnina.
Mörg af húsunum á myndinni eru horfin eins og Efri Sólheimar
sem sést ofan á fremst til vinstri og Valhöll sem stendur hinum
megin við götuna. Höfðaberg hét húsið næst okkur til hægri á
myndinni og Höfðakot hægra megin við það.
Niður með Skagaveginum eru síðan horfin útihúsin og viðbyggingar
við Bjarmaland vinstra megin og Þórsmörk, Héðinshöfði og
Garður hægra megin við götuna. Kaupfélagshúsið, braggarnir
og löndunarútbúnaður vegna síldarverksmiðjunnar á höfninni
eru einnig horfin í dag.
Ef grannt er skoðað sést hafís á sjónum þannig að myndin hefur
líklega verið tekin 1965 eða 1968.
Senda upplýsingar um myndina
11.01.2018
Íbúafundur
verður haldinn fimmtudaginn 18. janúar nk.
kl. 17.30 í félagsheimilinu Fellsborg.
Efni fundarins er að ræða almennt um málefni Skagastrandar bæði stöðu sveitarfélagsins, atvinnumál og sameiningu sveitarfélaga í A-Hún
Sveitarstjóri
10.01.2018
Auglýsing vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2017/2018
Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög skv. Ákvæðum reglugerðar nr. 604/2017 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018
Grundarfjörður
Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í neðanskráðum byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 5/2018 í Stjórnartíðindum
Snæfellsbær (Arnarstapi, Hellissandur, Rif og Ólafsvík)
Sveitarfélagið Garður
Sveitarfélagið Skagaströnd
Húnaþing vestra (Hvammstangi)
Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna hér.
Vakin skal athygli á því að umsóknin telst ekki gild nema samningur um vinnslu fylgi.
Umsóknarfrestur er til og með 22. janúar 2018.
Fiskistofa 5. janúar 2018
09.01.2018
Forritarar framtíðarinnar í Höfðaskóla
Úthlutun hefur farið fram úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar, en tilgangur hans er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins. Sjóðnum bárust 32 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Höfðaskóli var einn af 11 grunnskólum sem fékk úthlutað styrk úr sjóðnum. Styrkirnir eru ýmist í formi tölvubúnaðar og/eða fjárstyrks sem fer í að þjálfa kennara til forritunarkennslu en Höfðaskóli fékk einmitt styrk til þess síðarnefnda.
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar var stofnaður árið 2014 og hafa veitt styrki árlega til skóla landsins. Áður hafa þrír skólar á Norðurlandi vestra hlotið styrk úr sjóðnum, Árskóli, Grunnskólinn austan Vatna og Blönduskóli. Sjóðurinn er samfélagsverkefni og eru hollvinir sjóðsins Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Cyan, KOM, Marel og Advania.
Tækni-og forritunarþekking er afar mikilvæg nú á tímum upplýsingatæknibyltingar og því eru kennarar Höfðaskóla afar spenntir að takast á við verkefnið í vetur. Frá og með næsta vetri er því gert ráð fyrir að forritun verði mikilvægur þáttur í öllu námi nemenda okkar.
05.01.2018
Hvaladráp fyrir 100 árum
Veturinn 1918 var einn hinn kaldasti sem kom á síðustu öld.
Hafís þakti Húnaflóa þannig að ekki var hægt að sækja sér
björg úr sjónum. Fólk frá Skagaströnd gat gengið á ísnum
a.m.k. inn að Laxá í Refasveit án þess að óttast mikið að detta í
vök á milli jaka.
Í þessu ástandi var það því mikið fagnaðarefni þegar uppgötvaðist
að fimm hvalir voru fastir í vök fram af Ytri-Ey. Þeir voru fastir þar
því þeir gátu hvergi annarsstaðar komið upp til að anda.
Hvalirnir voru allir drepnir í vökinni og dregnir upp á ísinn þar sem gert
var að þeim og fólk gerði sér mat úr þeim. Fólk kom víða að framan úr
sveitum til að fá kjötbita og fleira sem hægt var að nýta úr hvölunum.
Beinunum og öðru sem ekki var notað var síðan velt ofan í vökina aftur.
Á þessari einstöku mynd er fjöldi manns að vinna við að drepa og gera
að einum hvalnum úr vökinni. Ein regla var sett á Skagaströnd fyrir þá
sem gengu inn að vökinni en hún var sú að menn máttu ekki vera einir á
ferð því þrátt fyrir allt gat alltaf komið fyrir að menn færu niður úr ísnum.
Það var einmitt það sem kom fyrir mann sem var samferða þeim
Steingrími Jónssyni frá Höfðakoti og Ernst Berndsen frá Karlsskála.
Nafn mannsins er ekki þekkt en hann datt sem sagt í sjóinn gegnum hema
yfir smá vök þegar þeir þremenningarnir voru komnir u.þ.b. hálfa leið frá
Skagaströnd inn að Eyjarey. Ernst og Steingrímur drógu manninn upp og
fylgdu honum til baka. Stóð það á endum að hann komst heim því þá voru
fötin hans orðin svo stokkfreðin að hann var hættur að geta hreyft sig.
Þegar heim kom voru fötin dregin af manninum og hann háttaður í rúmið
og heitt vatn í flöskum sett undir sængina hjá honum. Ekki varð manninum
meint af slysinu og var kominn á hvalskurðinn daginn eftir
(skráð eftir munnlegri frásögn Steingíms Jónssonar).
Myndin tók Evald Hemmert.
Senda upplýsingar um myndina