25.09.2015
Hjónin í Árnesi.
Fritz H. Berndsen, sem byggði Árnes 1899 og bjó þar,
situr hér við stofuborðið í Árnesi ásamt seinni konu sinni
Jónínu J. Berndsen.
Fritz leggur kapal en Jónína er með eitthvað á prjónunum.
Enn má fara í heimsókn í Árnes, sem er elsta húsið á Skagaströnd
og er nú safn, og skoða m.a. ljósalampann sem sést á myndinni.
18.09.2015
Fiskur um allt dekk ! .
Myndin var tekin um borð í Arnari Hu 1
- síðutogaranum - hafísvorið 1969. Verið er að láta trollið fara
aftur eftir 20 - 30 tonna hal.
Már Hall Sveinsson (d. 1.3.2008) er á gilsinum lengst til vinstri og
Indriði Hjaltason (d. 2.4.2006) er við spili, Guðjón Jónsson er á
forhleranum en í aðgerð eru frá vinstri:
Magnús B. Jónsson, Viggó Maríasson (d. 30.7.1973) og
Óskar Kristinsson, sem snýr baki í myndavélina.
Maðurinn milli Viggós og Óskars er óþekktur.
17.09.2015
Laugardaginn 19. september kl. 13:30-16:30 verða haldnir fyrirlestrar í
Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra í samvinnu við
Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum.
Fyrirlestrarnir eru í Bókasafni Halldórs Bjarnasonar,
Gamla kaupfélagshúsinu, Einbúastíg 2
Erindi halda:
13:30-14:00: Páll Sigurðsson, prófessor emeritus í lögum, flytur erindið Tveir norðlenskir lögskýrendur – Lögbókarskýringar Páls lögmanns Vídalíns og Björns Jónssonar, bónda og fræðimanns á Skarðsá
14:00-14:30: Nanna Þorbjörg Lárusdóttir sagnfræðingur talar um
Góðtemplarastúkurnar og áhrif mótandi orðræðu
Jólafundur í Daníelsher í Hafnarfirði
um miðja 20. öld
14:30-15:00 Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur heldur erindið
Að halda friðinn.Um sáttanefndir í Húnavatnssýslu og störf þeirra á
19. öld.
15:00-15:30 Umræður og heitt á könnunni
15:30-16:10 Súsanna Margrét Gestsdóttir sagnfræðingur segir frá ömmu sinni í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna: Það var sól þann dag – um Súsönnu Margréti Gunnarsdóttur frá Norðurfirði á Ströndum (1926-2002).
Súsanna Margrét með fjögur elstu börnin
við heimili þeirra í Camp Knox-braggahverfinu
16:10 Umræður. Dagskrárlok eigi síðar en 16:30. Allir velkomnir
16.09.2015
Nemendur í 7. bekk Höfðaskóla stefna á að fara í skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði núna í haust.
Sem hluti af fjáröflun í tengslum við þá ferð munu þau koma saman ásamt foreldrum sínum og baka kleinur til að selja.
Baksturinn mun fara fram seinnipartinn á fimmtudag og munu krakkarnir ganga í hús meðan birgðir endast og bjóða 1 kg á 3.000kr eða 1/2kg á 1.500.
Þeir sem vilja tryggja sér kleinur geta lagt inn pöntun hjá Vigdísi í síma 891-7869.
7. bekkur Höfðaskóla
16.09.2015
Ágætu foreldrar/forráðamenn
Umræðan um læsi íslenskra barna hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum, enda um mjög mikilvægan þátt í vegferð barnanna okkar að ræða. Sjá:http://www.menntamalaraduneyti.is/gottadlesa/
Öll þurfum við að kunna að lesa, allt byggir á góðri lestrarkunnáttu. Því er það að heimili og skóli þurfa að taka höndum saman og sinna lestrarnámi barnanna í sameiningu. Lestrarþjálfun er sameiginlegt verkefni okkar allra. Það er gömul saga og ný að æfingin skapar meistarann. Lestrarfærni næst ekki ef aldrei er lesið heima, ekki frekar en færni á hljóðfæri. Ef tónlistarnemandi æfir sig ekki heima, þá verða engar framfarir. Sömu sögu er að segja um lestrarfærni. Barn sem aldrei les heima, nær seint og illa framförum í lestri og það hefur mikið að segja varðandi gengi barnsins í námi almennt.
Við í Höfðaskóla viljum beina þeim tilmælum til foreldra/forráðamanna að vera vakandi varðandi lestrarþjálfun barnanna sinna og sjá til þess að þau lesi upphátt heima. Þetta á ekki síður við eldri nemendur en þau yngri.
Það má finna alls konar lestrarefni sem höfðar til barnanna. Þetta getur verið ánægjuleg samverustund fjölskyldu þar sem allir skiptast á að lesa upphátt fyrir hina og ræða efnið í kjölfarið. Það eykur lesskilning.
Verum samtaka í þessu mikilvæga verkefni og höfum það að sameiginlegu markmiði að gera börnin okkar vel læs sem fyrst.
Með góðri kveðju
Vera Ósk Valgarðsdóttir
Skólastjóri
15.09.2015
Brosmild börn.
Þessi brosmildu börn á myndinni eru: Árni Ólafur Sigurðsson lengst til
vinstri með Adolf H. Berndsen systurson sinn í fanginu.
Við hlið Árna situr Reynir Sigurðsson bróðir hans, með Laufey Berndsen
á hnjánum.
Lengst til hægri er svo Bergur Jón Þórðarson vinur þeirra.
Myndin var tekin 1960- 1961. Myndin er úr safni Hjördísar Sigurðardóttur.
14.09.2015
Dagur Höfðans
Sveitarstjórn Skagastrandar ákvað að gera Dag íslenskrar náttúru sem verður haldinn hátíðlegur
16. september nk. að „Degi Höfðans“
Í tilefni af því verður efnt til gönguferðar um Höfðann
16. september kl 18.00. Lagt verður af stað frá Tjaldklauf og eru íbúar og aðrir hvattir til að mæta og eiga góða stund í gönguferð um náttúrperluna Spákonufellshöfða.
Þeir sem ekki geta mætt í skipulagða göngu eru hvattir til að taka göngu um Höfðann við fyrsta tækifæri.
Sveitarstjóri
10.09.2015
Veiðar hafa gengið ágætlega á Húnaflóa í sumar og góð veiði.
Undanfarna daga hefur verið sérstaklega mikið um að vera á höfninni á Skagaströnd sem hófst með því að togarinn Arnar HU 1 kom inn til millilöndunar og 4. september og þá var landað úr honum um 443 tonnum af fiski sem að mestu var makríll og grálúða. Sunnudaginn 6. september komu svo þrír línubátar frá Vísi í Grindavík til löndunar. Fjölnir GK-657 landaði tæpum 70 tonnum og bæði Páll Jónsson GK-7 og Sighvatur GK-57 lönduðu hvor um sig um 83 tonnum. Mánudaginn 7. september landaði Saxhamar SH-50 rúmum 44 tonnum. Auk þessa lönduðu nokkrir smærri bátar um 30 tonnum. Afli línubáta var að mestu þorskur og ýsa.
Samtals var landað um 754 tonnum á þessum fjórum dögum.
08.09.2015
Fyrirlestradagar á Skagaströnd
verða laugardagana 12. og 19. september í Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra í samvinnu við Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum.
Fyrirlestrarnir verða í Bókasafni Halldórs Bjarnasonar,
Gamla kaupfélagshúsinu, Einbúastíg 2 á Skagaströnd.
Laugardaginn 12. september, kl. 14-15:
Annadís Greta Rúdolfsdóttir, lektor í aðferðafræði rannsókna við Háskóla Íslands, flytur fyrirlesturinn Óþekk(t)ar ömmur
Gerð er grein fyrir ævi nútímakvennanna Fanneyjar Bjarnadóttur (1913-2008) og Svövu Sigurðardóttur (1914-2012). Báðar voru fæddar utan hjónabands og voru lágt settar í stigskiptu kerfi samfélagsins. Þær gegndu hlutverkum móður og eiginkonu en voru einnig kynverur og neytendur samtímamenningar. Lífshlaup þeirra er sett í samhengi við hefðbundna hugmyndafræði um hina „góðu móður” og hvernig þær hugmyndir hafa haft áhrif á afstöðu afkomenda til þeirra og þær minningar sem lifa um þær.
Ruth J. Arelíusdóttir, Sandra B. Rúdólfsdóttir, Fanney Bjarnadóttir,
Annadís Greta Rúdólfsdóttir, Svava Sigurðardóttir. Mynd frá 1984.
Laugardaginn 19. september, kl. 13:30-16:20 verða fluttir fjórir fyrirlestrar:
Páll Sigurðsson, prófessor emeritus, flytur erindið Tveir norðlenskir lögskýrendur – Lögbókarskýringar Páls lögmanns Vídalíns og Björns Jónssonar, bónda og fræðimanns á Skarðsá.
Nanna Þorbjörg Lárusdóttir, sagnfræðingur, fjallar um Góðtemplarastúkurnar og áhrif mótandi orðræðu.
Vilhelm Vilhelmsson, sagnfræðingur, heldur erindið Að halda friðinn. Um sáttanefndir í Húnavatnssýslu og störf þeirra á 19. öld.
Súsanna Margrét Gestsdóttir, sagnfræðingur, segir frá ömmu sinni í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna: Það var sól þann dag – um Súsönnu Margréti Gunnarsdóttur frá Norðurfirði á Ströndum (1926-2002).
Umræður, heitt verður á könnunni og allir velkomnir
Háskóli Íslands
08.09.2015
Skátastúlkur
Þessar stúlkur voru félagar í skátafélaginu Sigurfara á Skagaströnd.
Myndin var tekin kringum 1960 þegar skátafélagið starfaði af sem mestum krafti.
Efri röð frá vinstri: Þórunn Bernódusdóttir Stórholti, Guðrún Þórbjarnardóttir Flankastöðum,
Magdalena Axelsdóttir (d. 2015) Læk og Kristín Lúðvíksdóttir Steinholti.
Fermri röð frá vinstri: Ester Axelsdóttir Læk, María Bjarnadóttir (d. 1984) Holti/Eyri,
Sigríður Ágústsdóttir Blálandi og Jóhanna Hallgrímsdóttir (Júdý) Skála.
Myndina tók Guðmundur Kr. Guðnason.