14.07.2014
Norrænt vinabæjamót var haldið á Skagaströnd dagana 3.-5. júlí sl. Skagaströnd hefur í 25 ár verið í vinabæjakeðju með Aabenraa í Danmörku, Lohja í Finnlandi, Ringerike í Noregi og Växjö í Svíþjóð. Samhliða vinabæjatengslum sveitarfélaganna eru norrænu félögin í þeim með vinabæjatengsl innbyrðis. Vinabæjamót eru haldin á tveggja ára fresti til skiptis í sveitarfélögunum og eru því á 10 ára fresti á hverjum stað. Sú hefð hefur skapast að bjóða til til vinabæjamóta þremur pólitískum fulltrúum, einum „starfsmanni“ við vinabæjasamskipti og einum fulltrúa norræna félagsins. Öllum með mökum. Hópur gesta getur því farið upp í um 40 manns. Í ár ákvað bæjarráð Aabenraa að afþakka boð um þátttöku og mun taka samstarfið til nánari skoðunar seinna á árinu. Frá öðrum vinabæjum komu 8-9 manns auk fulltrúa norræna félagsins í Aabenraa og voru gestir mótsins því 28.
Dagskrá fyrir gesti mótsins var upphaflega miðuð við að bjóða upp á talsverða útivist og vera í nánu sambandi við íslenska náttúru. Þegar leið að mótinu kom hins vegar í ljós að veður myndi ekki gefa mikið færi á slíku þar sem mótsdagana gekk á með norðan allhvössu veðri og úrhellisrigningu. Dagskráin beindist því fyrst og fremst að því að kynna menningu og strauma í Austur Húnavatnssýslu. Fyrri mótsdaginn var Laxasetur Íslands og Heimilisiðnaðarsafnið skoðuð og farið í heimsókn í púðagerðina Lagð að Hólabaki og í Þingeyrarkirkju. Norræna félagið bauð svo til kvöldverðar þar sem fiskréttir voru í aðalhlutverki. Seinni mótsdaginn var haldinn fundur um það helsta sem er að gerast í sveitarfélögunum og um framtíð vinabæjasamstarfsins. Þar var lýst mörgum áhugaverðum verkefnum sveitarfélaganna og á fundi um samstarfið var mjög eindreginn vilji fulltrúanna til að halda því áfram. Eftir fundinn var farið í heimsókn í Rannsóknarsetur HÍ, BioPol, Spákonuhof og í Nes listamiðstöð. Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður þar sem mótinu var formlega slitið.
Þrátt fyrir erfiðar veðuraðstæður þótti mótið takast vel og hinir norrænu gestir lýstu ánægju sinni með það. Í samstarfinu kemur oft fram hve mikill munur er á stærð Skagastrandar og hinna vinabæjanna í keðjunni þar sem íbúar eru um 30-40 þús. og í þeim stærsta, Växjö eru íbúar 85 þús. Það er því eðlilega talsverður munur á verkefnum og umfangi þeirra en á mótinu kom vel fram mikill áhugi gestanna á íslensku samfélagi, ekki síst vinabæ þeirra Skagaströnd.
Skýrslu um mótið á sænsku má finna hér
10.07.2014
Ef þú, lesandi góður, þekkir einhver deili á þessari mynd langar mig að biðja þig að senda mér póst eða hafa samband við mig. Netfangið er olibenna@hi.is en símanúmerið mitt er 8993172. Fyrirfram þakkir. Ólafur B. hjá Ljósmyndasafni Skagastrandar.
Pétur og tvær óþekktar konur
Ekki er vitað hvar né hvenær myndin var
tekin en á henni er séra Pétur Þ. Ingjaldsson
(d. 1.6.1996) með tveimur óþekktum konum með
nýskírð börn.
Ef þú veist hverjar konurnar eru og e.t.v.
börnin vinsamlega sendu okkur þá athugasemd.
09.07.2014
Rafmagnsnotendur Austur Húnavatnssýslu
Rafmagnslaust verður á Blönduósi, Skagaströnd og dreifbýli aðfaranótt föstudagsins 11.júlí n.k. frá miðnætti og fram eftir nóttu vegna vinnu við raforkukerfið.
RARIK Norðurlandi.
03.07.2014
Kristján í heyskap
Ekki er vitað hvenær þessi mynd var tekin en á henni er
Kristján Guðmundsson (d.16.4.1979) frá Háagerði í heyskap á
túninu við Háagerði.
Á myndinni er Kristján að ýta saman heyi með tveimur hestum
eftir að hafa rakað heyinu saman í garða. Spýta var bundin aftan
í hestana og síðan var staðið á spýtunni til að halda henni niðri.
Hestarnir drógu svo spýtuna þar til næg hrúga af heyi var komin
framan við hana. Þá var spýtunni lyft yfir hrúguna og haldið
áfram framan við hana. Síðan var heyinu úr hrúgunum hlaðið
upp í sæti/sátur eins og sést fyrir aftan Kristján.
Seinna var svo heyinu ekið heim í hlöðu eða sett í fúlgu heim við
fjárhús eða fjós. Hlutverk hesta í sveitum landsins hefur breytst
mikið frá þessum tíma úr því að vera þarfasti þjónninn og helsta
vinnutæki bænda yfir í það að vera fyrst og fremst skemmtigripur
og skrautfjöður eiganda síns.
02.07.2014
Leikskólinn Barnaból á Skagaströnd auglýsir eftir leikskólastjóra frá og með næsta skólaári. Leikskólinn er 30 – 40 barna, tveggja deilda skóli sem ætlar að innleiða starfshætti í samstarfi við Hjallastefnuna ehf. Nánari upplýsingar um leikskólann er m.a. að finna á http://skagastrond.is/leikskoli.asp
Við leitum að jákvæðum einstaklingi sem er tilbúinn að taka þátt í innleiðingu á Hjallastefnunni þar sem metnaður, gleði og kærleikur er hafður að leiðarljósi. Viðkomandi þarf að vera leikskólakennari eða hafa aðra uppeldismenntun, sýna sjálfstæði í vinnubrögðum og hafa brennandi áhuga á jafnrétti og lýðræði í leikskólastarfi.
Skólar Hjallastefnunnar starfa að sameiginlegum markmiðum eftir sömu hugmyndafræði en sjálfstæði hvers skóla er mikið. Jafnréttisuppeldi, skapandi hugsun, félagsþjálfun og einstaklingsstyrking eru innviðir hugmyndafræðinnar sem við teljum að geti skipt sköpum í þroska komandi kynslóða.
Áhugasamir hafi samband við Áslaugu Huldu Jónsdóttur, aslaug@hjalli.is
eða Magnús B. Jónsson í síma 455 2700, magnus@skagastrond.is
Sveitarfélagið Skagaströnd, Hjallastefnan ehf
02.07.2014
Á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar 2. júlí 2014 var samþykktur samningur við Hjallastefnuna ehf.
Í honum kemur fram að Hjallastefnan og sveitarfélagið Skagaströnd geri með sér samkomulag þar sem Hjallastefnan veiti leikskólanum Barnaból faglega ráðgjöf, kemur að breytingum og aðstoðar við innleiðingu á starfsháttum, umhverfi og aðferðum Hjallastefnunnar.
Hjallastefnan ehf og sveitarfélagið Skagaströnd munu auglýsa sameignlega eftir skólastjóra leikskólans Barnabóls og starfsmenn Hjallastefnunnar munu sömuleiðis aðstoða við ráðningu skólastjóra og endurskipulagningu á starfsmannahaldi. Við innleiðingu Hjallastefnunnar mun Hjallastefnan leggja til ráðgjafa og aðra sérfræðinga eftir þörfum, standa fyrir námskeiðum og fræðslu til starfsmanna og sinna upplýsingagjöf til forráðamanna.
Rekstur skólans og ábyrgð verður áfram hjá sveitarfélaginu en markmið samkomulagsins er að rekstur leikskólans færist yfir til Hjallastefnunnar um áramótin 2014-2015 en eigi síðar en 1. ágúst 2015.
2. júlí 2014
Sveitarstjóri
01.07.2014
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
miðvikudaginn 2. júlí 2014 kl 800 á skrifstofu sveitarfélagsins.
Dagskrá:
Grunnskóli:
Starfsmannahald skólaárið 2014-2015
Erindi um stuðningsfulltrúa
Hjallastefna
Önnur mál
Sveitarstjóri
27.06.2014
Sveitarfélagið Skagaströnd óskar eftir flokksstjóra tímabundið í júlí og fyrstu viku ágúst við vinnuskólann og afleysingu í áhaldahúsi. Nánari upplýsingar veitir Árni Geir í síma 8614267
Sveitarstjóri
27.06.2014
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) auglýsa eftir framkvæmdastjóra. SSNV er þjónustu- og samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra og sér um mikilvæga sameiginlega málaflokka og hagsmunamál sveitarfélaga á starfssvæðinu. Verkefni SSNV eru fjölbreytt og snúa að hagsmunum svæðisins, atvinnuþróun og rekstri sameiginlegra verkefna sveitarfélaganna sem að því standa.
Leitað er eftir einstaklingi sem getur unnið sjálfstætt, sýnir frumkvæði og hefur góða hæfileika í mannlegum samskiptum. Háskólamenntun sem nýtist í starfi er skilyrði og æskilegt er að umsækjandi hafi þekkingu á sveitarstjórnarmálum og rekstri. Höfuðstöðvar SSNV eru á Hvammstanga.
Áhugasamir umsækjendur skulu senda inn umsókn fyrir 7. júlí til:
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Höfðabraut 6
530 Hvammstangi
Merkt: „Framkvæmdastjóri“
Nánari upplýsingar um starfið veitir Bjarni Jónsson formaður SSNV í síma 8947479
26.06.2014
Gísl
Leikárið 1979 - 1980 setti Leikklúbbur Skagastrandar á svið
leikritið Gísl í leikstjórn Ragnhildar Steingrímsdóttur (d. 25.6.2009).
Þetta var fjölmenn sýning og vel heppnuð, sem var sýnd í
Fellsborg og nágrannabyggðunum ásamt því að farið var með
verkið suður á land og það sýnt í félagsheimili Seltjarnarness.
Á myndinni eru leikarar og starfsfólk sýningarinnar eftir æfingu í
Fellsborg.
Fremsta röð frá vinstri: Viggó Brynjólfsson, Ardís Ólöf Arelíusdóttir,
Magnús B. Jónsson, Ragnhildur Steingrímsdóttir leikstjóri,
Guðmundur Haukur Sigurðsson og Gunnar Benónýsson
(d. 29. 7.2003).
Næsta röð frá vinstri: Árni Geir Ingvarsson, Elín Njálsdóttir og
Bjarnhildur Sigurðardóttir.
Þriðja röð frá vinstri: Lárus Ægir Guðmundsson, Einar Helgason,
Rúnar Loftsson, Hjörtur Guðbjartsson, Ólafur Bernódusson,
Ingibergur Guðmundsson og Bernódus Ólafsson.
Fjórða röð frá vinstri: Hallveig Ingimarsdóttir og Guðbjörg Viggósdóttir.
Þar fyrir ofan frá vinstri: Birna Blöndal, Hjörtur Guðmundsson og
Hallbjörn Hjartarson.