Dagur leikskólans 6. febrúar nk.

„Við bjóðum góðan dag, alla daga“ þetta er kjörorð dags leikskóla sem haldinn er hátíðlegur 6. febrúar ár hvert. Mánudaginn 6. febrúar munu nemendur og kennarar Barnabóls opna listsýningu í Landsbankanum á Skagaströnd með fjölbreyttum verkum eftir nemendur á aldrinum 1-6 ára. Einnig verður farið á skirfstofu sveitarfélagsins þar sem afhent verður plakat með gullkornum leikskólanemenda sem Félaga leikskólakennara og Félaga stjórnenda leikskóla hafa tekið saman. Vonum við að gullkornin eigi eftir að ylja mörgum um hjartarætur. Tilgangurinn er vekja jákvæða umræðu í samfélaginu um leikskólann, um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara. Í febrúar fer af stað samstarfsverkefni milli Leikskólans Barnabóls og Neslistamiðstöðvar í tilefni af 35 ára afmæli leikskólans 7. júní 2012. Hollenska listakonan AnneMarie von Splunter ætlar að gera heimildamynd um leik og starf nemenda Barnabóls og hún mun leitast við að fá til þátttöku eins marga núverandi og fyrrverandi leikskólanemendur og hægt er. Myndin verður sýnd á Skagaströnd, sett á heimsíðu Neslistamiðstöðvar og hugsanlega sýnd á kvikmyndahátíðum. Það er alltaf eitthvað spennandi að gerast í leikskólastarfinu á Barnabóli. 3. febrúar 2012 Þórunn Bernódusdóttir

Hitaveita, björt framtíð.

Ég var að koma heim af kynningarfundi Rarik um hitaveituna okkar, þar komu margar málefnalegar og góðar spurningar fram og ég sem sveitarstjórnarmaður er ánægð með að fólkið í samfélaginu er gagnrýnið og málefnalegt. En einhvernvegin kom sú tilfinning upp hjá mér að mig langaði að segja fólki hver mín hugsun væri í sambandi við hitaveituna. Á undanförnum mánuðum hefur mikið púður farið í pælingar um lagningu hitaveitu til Skagastrandar, ég sem sveitastjórnarmaður tók ákvörðun um að leggja allan minn stuðning við verkefnið „hitaveita á Skagaströnd“ og styrkist í trú minni á verkefninu með hverjum degi. Eins og eðlilegt er hefur skapast mikil umræða um hitaveitu á ýmsum stöðum í okkar frábæra samfélagi og ekkert nema gott um það að segja. Það er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að hver og einn hugsi sitt ráð og sínar lausnir í lífinu. Sumir nálgast málið út frá þeirri hugsun hve lengi þeir ætli sér að búa hérna eða hvort þeir getir reiknað arðsemi af verkefninu fyrir sitt heimili. Aðrir hugsa lengra og velta fyrir sér möguleikum barna sinna og barnabarna. Aðstæður fólks eru mismunandi og engin ein leið eða eitt svar er lausn fyrir alla. Sveitarfélagið og þar með sveitarstjórnin verður hins vegar að hugsa um heildina og í lengri tímabilum. Fólk kemur og fer en byggðin er á sama stað og verður áfram. Við viljum að hún þróist og styrkist eins og kostur er þannig að eftir 50 eða 100 ár verði áfram grundvöllur byggðar. Við byggjum á dugnaði og framsýni þeirra sem á undan gengu og þeir sem á eftir koma eiga að taka við betra búi en við. Það er eðlileg þróun samfélagsins. Ég kem frá Blönduósi og því alin upp við hitaveitu. Ég man að það var mikil breyting fyrir mig að flytja á Skagaströnd og upplifa að þurfa að forgangsraða vatnsnotkun á aðfangadag, að finna þegar kólnaði í íbúðinni þegar það var rafmagnslaust o.fl. Ég sætti mig auðvitað við þetta af því hér vildi ég búa en svo sannarlega tók ég eftir þeim lífsgæðum sem í því eru fólgin að hafa eða hafa ekki hitaveitu. Það er auðvitað alltaf hægt að deila um hvenar er rétti tíminn en okkar tækifæri var núna vegna breytinga á stærð lagnar frá Reykjum að Blönduósi og óvíst hvenar eða hvort svona tækifæri kæmi aftur til okkar. Það var stór ákvörðun að leggja 180 miljónir í hitaveitu en ég tel að þessum fjármunum sé vel fyrir komið í þessu verkefni. Þegar við tökum að okkur að stjórna sveitafélagi verðum við alltaf að hafa að leiðarljósi hag heildarinnar og einnig að hugsa um framtíð sveitafélagsins sem bjarta. Þeir útreikningar og það mat sem við lögðum á þessa fjárfestingu bentu eindregið til þess að fjárhagslega skilaði hún sér vel ef horft er til 20-25 ára svo ekki sé talað um lengri framtíð. Auk þess höfum við fulla trú á að möguleikar atvinnulífs séu miklu meiri en ella þegar hitaveita hefur verið lögð til Skagastrandar. Kæru Skagstrendingar ég vona að við munum standa saman um að byggja upp öfluga hitaveitu til þess að geta boðið Skagaströnd sem enn betri kost fyrir atvinnustarfsemi og einstaklinga sem hafa hug á að færa sig um set, já eða stofna fjölskyldu eða fyrirtæki á okkar frábæra stað. Péturína L. Jakobsdóttir

Þorrablót Kvenfélagsins Einingar

verður í Félagsheimilinu á Skagaströnd laugardaginn 4. febrúar 2012. Húsið opnað kl. 20:00. Borðhald hefst stundvíslega kl. 20:30. Veislustjóri er Lárus Ægir Skemmtiatriði að hætti heimamanna Kvenfélagskonur sjá um matinn. Hljómsveitin Upplyfting sér um að halda uppi fjörinu til klukkan 03:00. Miðasala verður í félagsheimilinu miðvikudaginn 1. febrúar á milli klukkan 16:00 og 17:00 Miðaverð kr. 6.500. Ellilífeyrisþegar ásamt unglingum fæddum árið 1996 greiða kr. 5.500. Erum ekki með posa Kvenfélagið Eining

Nes Listamiðstöð opið hús á sunnudag

Nes Listamiðstöð býður þér í opið hús sunnudagur 29. janúar kl 17:00-19:00. Listamenn mánaðarins sem munu kynna verk sín eru: Christin Lutze frá Þýskaland, Dan-ah Kim frá Bandaríkjunum, Elsa Di Venosa og Hugo Deverchere frá Frakklandi, Sigbjørn Bratlie frá Noregi og Tomoko Ogai frá Japan. Boðið verður upp á léttar veitingar og fjölskyldur hjartanlega velkomnar. Nes listamiðstöð

Kynningarfundur um hitaveitu

Kynningarfundur um hitaveitu fyrir íbúa Skagaströnd RARIK ohf heldur kynningarfund í Fellsborg á Skagaströnd miðvikudaginn 1. febrúar um fyrirhugaða hitaveitu til Skagastrandar. Á fundinum verður einkum fjallað um þann þátt framkvæmda er snýr að íbúum í þéttbýlinu á Skagaströnd. Þar munu talsmenn RARIK gera grein fyrir verkefninu og svara fyrirspurnum um einstaka þætti þess. Fundurinn hefst kl. 17.30 Allir velkomnir.

Sorphirðudagatal

Sorphirðudagatal 2012 hefur verið sett inn á vefinn: http://www.skagastrond.is/flokkun.asp Sveitarstjóri

Auglýsing um frístundakort og námsstyrki

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2012 tók sveitarstjórn Skagastrandar ákvörðun um eftirfarandi almennan stuðning við tómstundastarf og nám: Frístundakort Samþykkt var að bjóða frístundakort sem nemi allt að 15 þúsund króna styrk fyrir hvert grunnskólabarn sem tekur þátt í íþrótta og æskulýðsstarfi. Ákvörðun gildir um íþrótta- og æskulýðsstarf sem fram fer á tímabilinu 1. september 2011 til 31. desember 2012. Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám. Síðasti greiðsludagur vegna tímabilsins er 15. janúar 2013. Til að fá endurgreiðslu vegna frístundastarfs þarf að framvísa á skrifstofu sveitarfélagsins greiðslukvittun sem sýnir fyrir hvaða frístundastarf er greitt og fyrir hvaða barn. Námsstyrkir Samþykkt var að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2011-2012 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 26. febrúar 2012. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni hér. Umsóknareyðublað

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 18. janúar 2012 í Bjarmanesi kl 1800. Dagskrá: 1. Sjóvarnir Yfirlitsskýrsla Siglingastofnunar 2. Bréf a) Húnavatnshrepps, dags. 4. janúar 2012. b) UMFÍ, dags. 3. janúar 2012. 3. Fundargerðir a) Byggðasamlags um menningu og atvinnumál í A-Hún, 1.12.2012 b) Stjórnar SSNV, 22.12.2012 c) Heilbrigðisnefndar Nl. vestra, 15.12.2012 4. Byggðakvóti 2012 Tillaga um sérstök skilyrði fyrir byggðakvóta 5. Önnur mál Sveitarstjóri

Boðið í "potluck" hjá Nes listamiðstöð

Nes Listamiðstöð býður í "potluck" miðvikudaginn 11. janúar kl 18:30 í listamiðstöðinni. Til staðar verða listamennirnir Christin Lutze, Hugo Deverchere, Elsa Di Venosa, Tomoko Ichimura, Dan-ah Kim og Sigbjörn Bratlie sem munu kynna verk sín. Þeim sem taka þátt í "potluck" er bent á að taka með þér rétt á hlaðborðið. Fjölskyldur eru hjartanlega velkomnar. -- Jacob and Andrea Kasper Interim Project managers Nes Artist Residency Fjörubraut 8 545 Skagaströnd http:\\neslist.is

Auglýsing frá bókasafni Skagastrandar

Vegna breytinga á húsnæði bókasafnsins í Fellsborg flytur safnið starfsemi sína í kjallara Bjarmaness. Einungis hluti bókanna verður fluttur og settur upp þar en leitast við að hafa nýjustu og vinsælustu bækurnar til útláns. Opnunartími bókasafnsins í Bjarmanesi verður: Mánudaga kl. 16 – 19 Miðvikudaga kl. 15 – 17 Fimmtudaga kl. 15 - 17 Bókasafnsvörður