Hver á málverk eftir Sveinbjörn Blöndal?

Fyrirhugað er að halda í sumar yfirlitssýningu á verkum Sveinbjörns H. Blöndals, listmálara. Sveitarfélagið Skagaströnd stendur fyrir sýningunni í samstarfi við fjölskyldu Sveinbjörns og með styrk frá Menningarráði Norðurlands vestra. Samið hefur verið við Lárus Ægir Guðmundsson að hann annist samantekt á listaverkunum og framkvæmd sýningarinnar. Til að gera hana sem besta hefur verið ákveðið að leita eftir málverkum að láni. Þeir sem vilja lána verk eru vinsamlega beðnir að hafa samband við Lárus Ægi sem allra fyrst í síma 864 7444  eða í netfang lalligud@simnet.is. Tími og staðsetning sýningarinnar verður auglýstur síðar.

Styrkir til atvinnusköpunar á Skagaströnd

Iðnaðarráðuneyti í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands auglýsir eftir umsóknum í styrki til verkefnisins atvinnusköpun í sjávarbyggðum, sem byggja á tekjum af sölu aflaheimilda fiskveiðiárin 2009/2010 og 2010/2011 til að veiða skötusel og til frístundaveiða, sbr. lög um stjórn fiskveiða. Skagstrendingar eiga eins og aðrir möguleika á að fá styrk til verkefna sem þeir kunna að hafa hug á. Atvinnusköpun í sjávarbyggðum er tímabundinn verkefnasjóður sem hefur það að markmiði að skapa varanleg störf, efla atvinnusköpun og auka fjölbreytni atvinnulífs í sjávarbyggðum. Áhersla verkefnisins er á hagnýtingu nýrra hugmynda og leitast verður eftir því að styðja verkefni sem fela í sér nýsköpun, þekkingaryfirfærslu og hugverk. Stuðningur getur m.a. falist í viðskipta- og vöruþróun, markaðssókn og erlendri markaðsfærslu. Atvinnusköpun í sjávarbyggðum leitar eftir verkefnum sem fela í sér ný atvinnutækifæri og byggja á styrkleikum sjávarbyggða. Hvatt er sérstaklega til stærri samstarfsverkefna fyrirtækja, háskóla og rannsóknastofnanna þar sem fram koma skýrar hugmyndir um afurðir í formi vöru eða þjónustu sem skila varanlegum verðmætum og atvinnu. Lögð er áhersla á klasasamstarf en það er ekki forsenda fyrir stuðningi úr Atvinnusköpun í sjávarbyggðum. Í umsókn þarf að koma fram Skýr lýsing á verkefninu Greining á nýnæmi verkefnisins Greinargóðar kostnaðar- og verkáætlanir Lýsing á væntum ávinningi fyrir sjávarbyggðir Styrkir geta numið allt að 50% af heildarkostnaði verkefnisins.  Ekki eru veittir styrkir til fjárfestinga s.s. í tækjum  og búnaði.  Rafræn umsóknareyðublöð má finna á http://www.nmi.is/impra/ eða með því að smella hér. Umsóknarfrestur er til og með 15.apríl 2011 Nánari upplýsingar veitir Arna Lára Jónsdóttir, verkefnastjóri Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands , arnalara@nmi.is Sigurður Sigurðarson markaðsráðgjafi á Skagaströnd getur veitt frekari upplýsingar og aðstoð við gerð umsóknar.

Sumarbúðir ÍF á Laugarvatni

Þeir sem sækjast eftir lífi og fjöri með skemmtilegu fólki á skemmtilegum stað ættu að skoða sumarbúðir Íþróttafélags fatlaðra á Laugarvatni. Þar verður í sumar boðið upp á tvö vikunámskeið. Hið fyrra verður vikuna 18. -25. júní og það síðara vikuna 25. júní - 2. júlí. Verð fyrir vikudvöl  er kr. 62.000 og kr. 117.000 fyrir tveggja vikna dvöl. Umsóknarfrestur er til 15 apríl nk. Athygli er vakin á því að sumarbúiðirnar hefjast á laugardegi. Nánari upplýsingar er hægt að fá á heimasíðu Sumarbúða Íþróttasambands fatlaðra sem er http://web.mac.com/sumarbudir Einnig veitir Baldur Þorsteinsson upplýsingar í síma 897 9393 og Jóhann Arnarson í síma 848 4104  Netfang sumarbúðanna er sumarbudir@gmail.com Hægt er að nálgast umsóknareyðublað á ifsport.is

Dægurlagakeppni í Sæluviku á Sauðárkróki

Sæluvikan, árleg lista- og menningarhátíð í Skagafirði verður haldin 1. til 7.maí nk. Meðal stærstu viðburða þetta árið verður dægurlagakeppni sem fram fer á Sauðárkróki, föstudaginn 6. maí.  Keppnin er öllum opin og eru allir lagahöfundar landsins hvattir til að senda inn lög.   Dómnefnd mun velja 10 lög sem keppa á úrslitakvöldinu um titillinn Sæluvikulagið 2011.   Dægurlagakeppni á sér áratuga langa hefð á Sauðárkróki og þá lengst af í tengslum við Sæluviku. Kvenfélag Sauðárkróks stóð lengst af fyrir keppninni, þeirri fyrstu árið 1956, en sigurlagið í þeirri keppni átti Eyþór Stefánsson, tónskáld og síðar heiðurborgari Sauðárkróks.  Dægurlagakeppnin varð smátt og smátt að heilmiklum viðburði í bæjarlífinu og ýmis lög sem þar hafa komið fram hafa lifað.  Meðal sigurvegara í keppnum fyrri ára má nefna Geirmund Valtýsson sem hefur sigrað fjórum sinnum, fyrst á sjötta áratugnum og síðast árið 1996.   Meðal annarra þekktra flytjenda sem komið hafa fram í keppninni á síðustu árum og sumir stigið þar sín fyrstu skref má nefna Hreindísi Ylfu Garðarsdóttur, Aðalheiði Ólafsdóttur, Regínu Ósk, Guðrúnu Gunnarsdóttur, Eyjólf Kristjánsson, Friðrik Ómar og marga fleiri.   Skilafrestur fyrir lög í keppnina er til 1. apríl.  Skila þarf „demoi“ af lagi og texta merkt Dægurlagakeppni á Sauðárkróki, Pósthólf 1, 550 Sauðárkrókur Lag og texti skulu merkt með dulnefni og meðfylgjandi skal vera umslag merkt sama dulnefni sem inniheldur nafn lagahöfundar og textahöfundar. Höfundar þeirra laga sem dómnefnd velur hafa þrjá vikur til að fullvinna lagið og skila því fullkláruðu.   Glæsileg verðlaun verða veitt fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti.  

Tónleikum Heimis frestað

Af óviðráðanlegum ástæðum þarf að FRESTA tónleikunum sem vera áttu í Hólaneskirkju á Skagaströnd fimmtudaginn 17. mars 2011. Stefnt er að tónleikum í apríl sem verða nánar auglýstir síðar.

Karlakórinn Heimir í Hólaneskirkju á fimmtudaginn

Karlakórinn Heimir í Skagafirði bregður sér vestur yfir Skagann og heldur tónleika í Hólaneskirkju á Skagaströnd fimmtudaginn 17. mars kl. 20:30. Kórinn hefur hlotið mikið lof fyrir dagskrá vetrarins og mega Skagstrendingar og nærsveitafólk því eiga von á prýðilegri skemmtun. Veðurspá lofar góðu og færð er með betra móti og kórinn hlakkar til að sjá sem flesta á fimmtudagskvöldið. Kórinn var stofnaður í lok desember árið 1927. Stofnendur hans komu flestir úr litlum kór og var hann nefndur Bændakór. Hann var í framhéraði Skagafjarðar og starfaði í 11 ár.  Fyrstu árin störfuðu kórfélagar við mjög frumstæðar aðstæður. Það var æft heima á sveitabæjum þar sem orgel voru til staðar enda var nú ekki mikið um samkomuhús á þessum tímum. En félagsskapurinn stækkaði og áhuginn var mikill.  Til æfinga fóru menn aðallega gangandi eða ríðandi en stundum fóru þeir einnig á skíðum. Voru þessar ferðir oft hættulegar og var það augljóst að margir lögðu mikið á sig til að geta verið með í söngnum.  Fyrsti söngstjóri kórsins var Gísli Magnússon frá Eyhildarholti, á eftir honum var tónskáldið Pétur Sigurðsson og síðan Jón Björnsson, einnig tónskáld, frá Hafssteinsstöðum. Hann stjórnaði Heimi í nærri því 40 ár.  Margir aðrir söngstjórar hafa stjórnað kórnum í gegnum tíðina og þeirra er og margvígslegs fróðleik er getið í samantekt Konráðs Gíslasonar: „Söngur í 60 ár“.   Stefán R. Gíslason hefur stjórnað kórnum nær óslitið frá árinu 1985 en hefur nú tekið árshlé frá störfum.   2010-2011 er Helga Rós Indriðadóttir nú stjórnandi kórsins. Undirleikari er dr. Thomas R Higgerson á píanó.

Vinnumálastofnun tekur öskudaginn hátíðlega

Starfsfólk Vinnumálastofnunar er einstaklega fjölhæft og skemmtilegt fólk og trú því tók það öskudaginn hátíðlega eins og hin börnin og klæddi sig upp í alls kyns búninga og gervi. Meðfylgjandi mynd var tekin af hópnum af þessu tilefni. Hins vegar er ekkert nýtt að starfsfólkið geri sér dagamun. Nágrannar reka oft upp stór augu þegar eru einhvers konar þemadagar hjá Vinnumálastofnun. Þá eru til dæmis bleikir daga, húfu og hattadagar og svo framvegis. Hvað sem öðru líður setur hið káta starfsfólk svip á samfélagið og fyrir það má þakka. 

Háskóli unga fólksins á Skagaströnd

Háskóli unga fólksins, HUF, hefur verið starfræktur á vegum Háskóla Íslands frá árinu 2004 og notið mikilla vinsælda. Í tilefni aldarafmælis HÍ 2011 verður starfsemi HUF með hátíðarsniði og skólinn á faraldsfæti. Þar ber hæst ferð Háskóla unga fólksins með svokallaðri Háskólalest sem heimsækir níu áfangastaði á landinu í samstarfi við Rannsóknarsetur HÍ á landsbyggðinni, grunnskóla, sveitarfélög o.fl. Frá og með 29. apríl  til 28. ágúst 2011 verða valin námskeið HUF, ætluð börnum frá 12 – 16 ára, haldin víðs vegar um landið undir formerkjum Háskólalestarinnar. Til viðbótar við námskeið fyrir unga fólkið verður fjölþætt dagskrá fyrir alla aldurshópa á hverjum áfangastað, viðburðir, uppákomur, örfyrirlestrar og margt fleira.   Háskólalestin verður á Skagaströnd á tímabilinu 23. – 27. maí í vor. Þetta er þó ekki endanleg dagsetning. Háskólalestin er skipulögð í nánu samstarfi við Vísindavef Háskóla Íslands en á vefnum verður sérstakur „brautarpallur“ lestarinnar. Á Vísindavefnum verður m.a. fróðleikur um hvern áfangastað lestarinnar, tekinn saman með virkri þátttöku grunnskólanemenda og Rannsóknasetra HÍ. Nemendur vinna jafnt spurningar og svör á vefinn ásamt öðru efni, svo sem myndböndum og hlaðvarpi.  Undirbúningur Háskólalestarinnar stendur nú sem hæst og viðbrögð og undirtektir hafa verið einstaklega jákvæð. Við þökkum fyrir velviljann og hlökkum til samstarfsins. Nánari upplýsingar veitir Guðrún Bachmann, kynningarstjóri Háskóla Íslands, gudrunba@hi.is,  525 4234, 864 0124

Stefán Velemir er íþróttamaður ársins í A-Hún

Ugmennassamband A-Hún hélt 94. ársþing sitt um helgina, en nú eru 99 ár fram stofnun sambandsins. Um 30 fulltrúar voru mættir ásamt gestum frá ÍSÍ og UMFÍ.  Auk venjulegra aðalfundarstarfa var Íþróttamaður ársins valinn en það var að þessu sinni Stefán Velemir úr Fram á Skagaströnd en Stefán er mjög efnilegur frjálsíþróttamaður. Auk þess var Þórhalla Guðbjartsdóttir, formaður Umf. Hvatar, sæmd silfurmerki ÍSÍ. Nánari upplýsingar um þingið verður hægt að nálgast á heimasíðu USAH innan tíðar. Fréttin er fengin af vefsíðunni huni.is.

Nemendur Höfðaskóla rannsaka vesturferðirnar

Fyrsta vika marsmánaðar var þemavika í Höfðaskóla á Skagaströnd. Þá unnu nemendur með margs konar fróðleik um vesturferðir Íslendinga fyrir og eftir aldamótin 1900. Afrakstur vinnunnar var síðan sýndur á stórri sýningu í íþróttahúsinu í lok vikunnar. Nemendunum var skipt í sjö hópa þar sem hver hópur vann með ákveðið efni sem snertir vesturferðirnar. Hóparnir skoðuðu vesturferðirnar frá sjö sjónarhornum sem voru: ástæður ferðanna, ferðalagið sjálft, bústaðir fyrstu árin í nýja landinu, samskiptin við frumbyggjana/indíánana, þekktir staðir sem Íslendingar fluttust til, nokkrir þekktir Vestur-Íslendingar og einn hópurinn nýtti sér vitneskju sína til að búa til trúverðugar frásagnir af fjölskyldum sem fluttu til Vesturheims.  Öllu þessu gerðu hóparnir síðan góð skil með plakötum, líkönum, myndum, ljóðum, söng og leikþáttum á opinni sýningu fyrir hádegi á föstudag. Foreldrar og aðrir velunnarar skólans fjölmenntu á sýninguna og höfðu margir á orði hve vel heppnuð og yfirgripsmikil hún væri. Þegar nemendur voru spurðir hvað hefði komið þeim mest á óvart sögðu margir að það væri fjöldi þeirra sem fór úr núverandi skólahverfi Höfðaskóla vestur um haf. 220 manns fluttu vestur á tímabilinu 1874-1913 úr Vindhælishreppi hinum forna þar sem í dag búa um 650 manns. Yfirgnæfandi meirihluti flutti á árunum 1874-1900.  Annað sem nemendurnir höfðu ekki gert sér grein fyrir var hve miklir erfiðleikar biðu landnemanna í nýja landinu og hve mikil samskiptin við indíána hefðu verið. Textinn í fréttinni er úr Morgunblaðinu 8. mars 2011 og er eftir Ólaf Bernódusson, fréttaritara blaðsins á Skagaströnd. Meðfylgjandi myndir tók Signý Ósk Richter sérlegur hirðljósmyndari fréttasíðunnar skagastrond.is.