Tunglið í fjórða kvartil

Meðalfjarlægð tungls og jarðar er 384.403 km og skiptir litlu hvort staðið er við fjöruborð á Skagaströnd eða efst á Spákonufelli, sem þó er 639 m hærra. Engu mætti ætla að sá sem hefði á laugardaginn verið á þessum slóðum væri í seilingarfjarlægð frá tunglinu. Það er nú í  fjórða kvartil. Gott er að tvísmella á myndina, hún nýtur sín ekki nema í góðri stærð. Tunglið fer einn hring umhverfis jörðina á u.þ.b. einum mánuði og á hverri klukkustund færist það miðað við fastastjörnunar, um 0,5° á himinhvelfingunni, eða um fjarlægð sem er u.þ.b. jöfn sýndarþvermáli þess. Tunglmyrkvi verður þegar tunglið fer inn í alskugga jarðar, þ.a jörðin skyggir á sólu frá tunglinu séð. Sólin skín ávallt á helming tunglsins (nema í tunglmyrkvum) og þess vegna sjáum við aðeins þann hluta tunglsins. Þegar talað er um fullt tungl þýðir það að sólin skín akkúrat á þann helming tunglsins sem við sjáum frá jörðinni. Þegar sólin skín á hina hliðina er talað um nýtt tungl. Fyrsta kvartil er þegar tunglið er að vaxa, en er ekki orðið hálft. Á öðru kvartili er það einnig vaxandi, en þá er það meira en hálft. Ef tunglið er á þriðja kvartili þýðir það að það er byrjað að minnka, en komið niður í að verða hálft tungl og loks þegar tunglið er á fjórða kvartili er það orðið minna, en helmingurinn sem lýsir og minnkar. Sjá nánar á vefsíðunni http://is.wikipedia.org./wiki/Tunglið.

Ertu með efni í Húnavöku 2011?

Ertu með góða ferðasögu, smásögu, fróðleik, kveðskap …….?  Við viljum minna á að almennt efni í næstu Húnavöku þarf að berast til ritnefndar sem fyrst og eigi síðar en 10. febrúar.  Fréttir og fréttatengt efni um liðið ár komi fyrir 15. febrúar. Ritnefnd Húnavökurits Einar Kolbeinsson, ek@emax.is Ingibergur Guðmundsson, ig@simnet.is Jóhann Guðmundsson, holtsvinadal@emax.is Magnús B. Jónsson, magnus@skagastrond.is Páll Ingþór Kristinsson, pallingthor@simnet.is Unnar Agnarsson, unnara@visir.is

Samkeppni um hugmyndir

Nú er frumkvöðlakeppni Innovit, gulleggið 2011, að hefjast en markmiðið er að gera hugmyndir þátttakenda að veruleika. Allir sem luma á viðskiptahugmynd eru hvattir til að senda hana inn í keppnina og fá í kjöldfarið aðstoð við að breyta þeimí viðskiptaáætlanir.

Draumaraddirnar leita að 12-16 ára stúlkum

Stúlknakór Norðurlands vestra er að taka til starfa aftur núna í janúar 2011. Allar stúlkur sem tekið hafa þátt í verkefnum Draumaraddana eru velkomnar, einnig bjóðum við nýjar stúlkur 12-16 ára boðnar velkomnar.   Áhugasömum stúlkum er bent á að hafa samband við viðkomandi á sínu svæði: Hvammstanga, uppl. og skráning hjá Elínborgu, sími 864-2137. Æfingar verða eftir skóla á þriðjudögum. Blönduós og Skagaströnd, uppl. og skráning hjá Skarphéðni/Kristínu, sími 452-4180. Æfingaplan kemur síðar. Sauðárkróki, uppl. og skráning hjá Alexöndru, sími 894-5254. Æfingar á fimmtudögum kl. 16:00. Stúlkur sem hafa verið í kórnum þurfa að staðfesta þátttöku.   Fyrirhugað er að setja upp óperuna og söngleikinn “Phantom of the opera / Óperudraugurinn” og koma Draumaraddirnar til með að taka þátt í því verkefni. Frumsýning verður 1. maí. Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á www.dreamvoices.is og hjá Alexöndru í síma 894-5254.

Skíðaferðin fellur niður !

Skíðaferðin í Tindastól sem vera átti í dag (13.01.2011) er frestað vegna veðurs.. Kveðja Fram

Frábærir tónleikar Svavars og Aðalsteins í gærkvöldi

Gleðibankinn græddi á tá og fingri á tónleikum Svavars Knúts og Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar í Kántrýbæ í gærkvöldi. Skemmtunin var ósvikin, mikið hlegið enda stutt í grínið hjá þessum gleðipinnum en engu að síður var slegið á alvarlegri strengi. Meðfylgjandi myndir voru teknar á tónleikunum. Svavar Knútur er góður gítarleikari. Hann semur lög og texta á ensku og íslensku. Þau eru oftar en ekki rómantísk og eiga uppruna sinn í reynslu höfundarins. Þetta eru lög eins og Clementine, Yfir hóla og yfir hæðir og fleiri. Og salurinn tók undir þegar höfundurinn bað um það. Ekki tókst Svavari síður upp þegar hann spilaði og söng af nýju plötu sinni Amma, en á henni eru gömul og klassísk lög. Eftirminnilegur var flutningur hans á laginu Næturljóð úr Fjörðum eftir Böðvar Guðmundsson.   Yfir í Fjörðum allt er hljótt Eyddur hver bær hver þekja fallin Kroppar þar gras í grænni tótt gimbill um ljósa sumarnótt Háreistum fjöllum yfirskyggð ein er þar huldufólksbyggð En Svavar gleymir sér ekki í rómantíkinni, hann er óforbetranlegur sögumaður, óð um víðan völl og dagði frá reynslu sinni og tilfinningum á þann hátt að salurinn grét af hlátri. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er rithöfundur, skáld og tónlistarmaður. Hann á sér langan feril, gefið út bækur, ort ljóð, þýtt ljóð, þýtt söngljóð sænska vísnaskáldsins Cornelis Vreeswijk. Aðalsteinn söng fjölda laga og las upp ljóð sín og meðal annars úr þýðingum sínum á tveimur ljóðabókum bandaríska ljóðskáldsins Hal Sirowitz, sem eru uppfull af skopi sem skáldið hermir upp á föður sinn og móður. Þó Aðalsteinn sé yfirvegaður maður og alvarlegur var alltaf stutt í grín og gleði hjá honum. Hann söng eftirminnilegt lag eftir Cornelis Vreeswijk um ofbeldismanninn Óttar Óttarlega og hnykkti áheyrendum við enda hafa fæstir heyrt sungið um ofbeldi á þennan hátt. Fábært var að hlusta á Aðalstein flytja ljóðaþýðingar sínar eftir Hal Sirowitz um móður sína. Hún hélt því fram að ungi sonurinn mætti ekki setja fingurinn ofan í tómatsósuflöskuna því þá, myndi hann festast. Faðirinn myndi svo með erfiðismunum ná honum upp úr henni en við það afmyndst fingurinn og loks myndi engin kona vilja eiga mann með þannig fingur ...! Eftir tveggja tíma tónleika var ljóst að Gleðibankinn græddi rosalega, bros og hlátrar streymdu inn á innlánsreikningana.

Atvinnuhúsnæði óskast á leigu

Fiskverkandi leitar eftir atvinnuhúsnæði til leigu á Skagaströnd. Hann óskar eftir 50 til 100 fermetrum sem hentar fyrir fiskvinnslu, pökkun og söltun. Nauðsynlegt er að aðgangur sé að heitu og köldu vatni. Nánari upplýsingar gefur Brynjólfur John Gray í síma 845 7519, netfangið er adalgata3b@simnet.is.

Mokum frá sorptunnunum, tæming næstu daga

Þó ekki sé mikill snjór á Skagaströnd hefur skafið að húsum og víða er erfitt að komast að sorptunnum. Íbúar eru beðnir um að moka vel frá tunnunum svo starfsmenn Sorphreinsunar geti án vandkvæða komist að þeim, flutt þær út að götu og tæmt. Á morgun, fimmtudag, verður almenna sorptunnan losuð, og á föstudaginn endurvinnslutunnan. 

Gleðibankinn með tónleika í Kántrýbæ

Gleðibankinn býður nú upp á skemmtun í Kántrýbær miðvikudagskvöldið 12. janúar kl. 20:30. Gleðipinnar kvöldsins verða þeir Svavar Knútur Kristinsson, söngvaskáld, og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og tónsmiður. Á tónleikunum flytja þeir frumsamið efni í tónum og tali eins og þeim einum er lagið.  Þeir félagar hafa starfað saman um árabil, m.a. í barnadagskránni Karímarímambó, en einnig hafa þeir samið og flutt dagskrá um skáldið Stein Steinarr í grunnskólum víða um land við mjög góðar undirtektir. Á tónleikunum á Skagaströnd verður efnið fjölbreytt að vanda, en yrkisefnin snúast að mestu um hina mannlegu tilveru, hamingjuleitina og fleira í þeim dúr og moll. Svavar Knútur sendi fyrir skemmstu frá sér geisladiskinn Ömmu með þekktum íslenskum sönglögum og hlaut lofsamlega dóma fyrir. Áður hafði hann gefið út Kvöldvöku, sem er eingöngu með frumsömdu efni.  Nefna má að lagið Draumalandið, lag Sigfúsar Einarssonar, er á disknum Ömmu og hefur verið mikið leikið á útvarpsstöðvum undanfarna mánuði og hefur náð miklum vinsældum. Hann hefur gert víðreist og komið fram á fjölda tónleika hérlendis og erlendis á undanförnum misserum og verið í spennandi samstarfi við trúbadúra víða um heim.  Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hefur um langt árabil starfað með ýmsum tónlistarmönnum, bæði hér heima og á Norðurlöndum, auk þess að vera vel þekkt ljóðskáld og barnabókahöfundur.  Af nýjustu verkum hans má nefna Sálma á nýrri öld í samstarfi við Sigurð Flosason og ljóðabækurnar Segðu mér og segðu ... og Hjartaborg, að ógleymdum rómuðum þýðingum hans á söngljóðum eftir sænska vísnaskáldið Cornelis Vreeswijk. Aðgangur að tónleikunum er aðeins kr 1.000 og er fólk hvatt til þess að mæta og hlýða á skemmtilega dagskrá.

Liggja þín tækifæri á netinu ?

Náðu árangri á netinu - námskeið í markaðssetningu á netinu. Staður : Félagsheimilið á Blönduósi 13. og 14. janúar Tími: 09:00-16:00 báða daga. Kynntar verða breytingar og aðferðir í markaðsetningu á netinu með tilkomu m.a. Facebook og Twitter ásamt notkun leitarvéla. Hver þátttakandi fær úttekt á heimasíðu sinni með leiðbeiningum og ábendingum um hvernig hægt er að ná betri árangri Námskeiðið er fjárfesting sem skilar sér strax í bættum árangri. Vegleg vinnubók fylgir. Boðið verður upp á léttan hádegisverð og kaffiveitingar. Fyrirlesari er Hjörtur Smárason, ráðgjafi ( sjá www.marketingsafari.org ) en hann mun m.a. segja frá því hvernig honum tókst að fá yfir 800.000 manns frá 213 löndum til þáttöku á vefnum án þess að kosta til einni einustu krónu. Einstakt tækifæri fyrir þá sem eru að selja vöru eða þjónustu og/eða vilja kynna sér undraheima netsins. Skráning á nordurland.vestra@vmst.is fyrir 10. janúar. Vinsamlegast gefið upp nafn, kennitölu, síma og netfang. Námskeiðið er í boði Vinnumálastofnunar og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Ekki missa af þessu eftirsótta námskeiði - Allir Velkomnir.