Gospel tónleikar á laugardaginn

Kirkjukór Hólaneskirkju á Skagaströnd hefur fengið Gospelkóng Íslands, Óskar Einarsson, ásamt hljómsveit og gestasöngvurum, í lið með sér til þess að halda gospeltónleika 23. og 24. október næstkomandi.  Tónleikarnir verða haldnir á þessum stöðum um næstu helgi: Hólaneskirkju Skagaströnd, laugardaginn 23. október kl: 17:00 Miðgarði Skagafirði sunnudaginn  24. október kl: 15:00 Hvammstangakirkju sunnudaginn 24. október kl: 20:00 Stjórnandi er Óskar Einarsson Söngvarar: Kirkjukór Hólaneskirkju ásamt gestum Hljómsveit: Brynjólfur Snorrason og Jóhann Ásmundsson Kynnir: Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson fyrrverandi sóknarprestur á Skagaströnd Miðaverðið er 1.500 kr fyrir fullorðna og 500kr fyrir börn á grunnskólaaldri (ath. ekki er posi á staðnum). Styrktaraðilar tónleikanna eru Menningarráð Norðurlands vestra og  Minningarsjóður um hjónin frá Vindhæli og Garði

Þjóðleikur á Norðurlandi

Þjóðleikur er stórt leiklistarverkefni sem haldið er á öllu Norðurlandi í samstarfi við Þjóðleikhúsið og fjölmarga áhugasama aðila. Verkefnið nær til alls Norðurlands, allt frá Bakkafirði til Húnavatnssýslna. Mjög góð þátttaka er á Norðurlandi en nú hafa 14 hópar sótt um þátttöku í verkefninu. En það eru: Gjörningahópurinn Orkidea frá Akureyri, Leikhópurinn list, Grunnskóli Húnaþings vestra, Grunnskóli Fjallabyggðar, Yggdrasil – Leikfélag VMA, DADDAVARTA frá Skagaströnd, Blönduskóli, Árskóli á Sauðárkróki, Öxarfjarðarskóli, Píramus og Þispa – leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík, Borgarhólsskóli á Húsavík, tveir hópar frá grunnskólum Akureyrar og síðan einn hópur frá Þórshöfn. Þrjú glæný leikrit hafa verið skrifuð fyrir Þjóðleik, höfundarnir eru: Jón Atli Jónasson, Kristín Ómarsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir og Ólafur Egill Egilsson sem skrifa verk í sameiningu. Næstu helgi verður námskeið haldið í Þjóðleikhúsinu fyrir leiðbeinendur hvers hóps, þar sem listrænir stjórnendur í fremstu röð verða til leiðsagnar. Leiðbeinendur munu fá kynningu á leikverkunum sem eru í boði og þeim gefst tækifæri á að hitta og ræða við höfunda leikverkana. Stefnt er á að halda tækninámskeið fyrir hópana og verður það haldið á Norðurlandi helgina 7.-9. janúar 2011. Hver hópur setur upp leiksýningu í sinni heimabyggð og frumsýnir þegar honum hentar. Helgina 1-3.apríl 2011 verður haldin lokahátíð þar sem hóparnir koma saman með sýningar sínar. Nánari upplýsingar um verkefnið veita Vigdís Jakobsdóttir vigdis@leikhusid.is sími: 899 0272, Guðrún Brynleifsdóttir gudrunb@skagafjordur.is sími: 898 9820 og Alfa Aradóttir alfaa@akureyri.is sími: 460 1237 en þær í framkvæmdaráði Þjóðleiks.

Fréttatilkynning

Þjóð til þings 12. október 2010 Borgarafundur á Sauðárkrók í dag um endurskoðun stjórnarskrárinnar Stjórnlaganefnd og Samtök sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra halda borgarafund í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, bóknámshúsi í dag 12. október frá klukkan 17:00-19.00 Fundurinn er kynningafundur um stjórnlagaþing og Þjóðfund 2010 auk þess sem kallað er eftir sjónarmiðum íbúa. Stjórnlaganefnd var kosin af Alþingi í sumar til þess að undirbúa endurskoðun stjórnarskrárinnar. Nefndinni er ætlað að finna og leggja fram gögn fyrir stjórnlagaþing, standa fyrir Þjóðfundi um endurskoðun á stjórnarskrá, vinna úr upplýsingum frá fundinum og afhenda stjórnlagaþingi og loks að leggja fram hugmyndir að breytingum á stjórnarskránni. Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnlaganefndar: ,,Við viljum kynna Vestfirðingum þau áform sem eru uppi um endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins. Við sem stöndum að undirbúningum óskum einnig eftir því að fá að heyra sjónarmið fólks um hvernig samfélag það vill byggja. Við hvetjum Vestfirðinga til að koma á fundinn og láta rödd sína heyrast.“ Nánari upplýsingar gefur: Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi, GSM: 694-5149 berghildur@stjornlagathing.is

ÍBÚAFUNDUR um framtíð Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi.

Vegna fyrirliggjandi tillagna um niðurskurð fjárframlaga til Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 hafa sveitarfélögin í Austur-Húnvatnssýslu í samvinnu við Stéttarfélagið Samstöðu, ákveðið að halda íbúafund um framtíð Heilbrigðisstofnuarinnar, þriðjudaginn 12. október n.k. kl. 17:00 í Félagsheimilinu á Blönduósi. Kröfuganga verður farin frá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi að Félagsheimilinu á Blönduósi. Lagt verður af stað frá Heilbrigðisstofnuninni kl. 16:45. Á fundinn verður heilbrigðisráðherra boðaður ásamt öðrum þingmönnum kjördæmisins. Framsögu á fundinum halda m.a. fulltrúi sveitarfélaganna, Samstöðu, starfsmanna Heilbrigðisstofnunarinnar og fleiri. Sýnum samstöðu og fjölmennum á fundinn.

Borgarafundur um endurskoðun stjórnarskrárinnar

Boðið er til opins borgarafundar um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Fundurinn verður haldinn á Fjölbrautarskólanum bóknámshúsi, Sauðárkróki 12. október og hefst kl. 17:00. Til fundarins er boðið af Stjórnlaganefnd og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Nefndarmenn greina frá áformum um endurskoðun stjórnarskrárinnar, frá þjóðfundi til þjóðarinnar.  Fundurinn hefur það að markmiði að sjónarmið íbúa um inntak stjórnarskrárinnar og hvernig samfélag þeir vilja byggja fái hljómgrunn. Allir eru hvattir til að mæta og láta rödd sína heyrast. Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðunni: www.thjodfundur2010.is Stjórnlaganefnd og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Sól á Skagaströnd

Dagsbirtan minnkar nú með hverjum deginum sem líður. Líklega þýðir það að nú er komið haust. Veðrið leikur þó við Skagstrendinga. Hlýtt er í lofti og sólin skín nær því upp á hvern einasta dag. Egu að síður sölna laufin á trjánum, lyngið í Borginni verður rauðleitt og skuggar leika um hlíðar. Hásjávað er þessa dagana, að minnsta kosti í Skagastrandarhöfn. Mikill sjór þýðir væntanlega meiri fiskur ... og minna land. Meðfylgjandi myndir voru teknar sólríkan fimmtudagsmorgun þegar hús og bátar brostu við upprennandi sól. Ekki er lengur spáð miðsumarshita á laugardaginn, þar brást Veðurstofa Íslands Skagstrendingum. Suðlægar áttir munu þó gæla við heimamenn og færa okkur áframhaldandi hlýindi yfir helgina og fram í næstu viku.

Metafli í Skagastrandarhöfn í september

Alls var landað rúmlega 1.782 tonnum í Skagastrandarhöfn í september og er það metafli og muna elstu menn vart annað eins. Aflinn er nærri fjórum sinni meiri en í september árið 2007, rúmlega þrefalt meiri en í september 2008 og tvöfalt meiri en í fyrra, en þá var hann 883 tonn. Raunar hefur aldrei á síðustu þremur árum komið jafn mikill afli á land í einum mánuði. Áður hafði mestur afli komið á land í nóvember 2008, 1.575 tonn, og í nóvember Aflabrögð hafa því verið með mesta móti og mörg skip hafa lent i því að vera að klára kvótann alltof snemma og útgerðarmenn hafa því sent þau á aðrar veiðar. Um 37 skip og bátar hafa gert út frá Skagaströnd í september og voru smærri bátarnir flestir, alls 22. Aflahæstu skipin eru þessi: Arnar, HU1, 1 löndun, 412 tonn Ágúst GK95, 5 landanir, 281 tonn Valdimar GK195, 6 landanir, 268 tonn Sturla GK12, 2 landanir, 141 tonn Sighvatur GK57, 1. löndun, 81 tonn Kristrún RE177, 1 löndun, 37 tonn Rifsnes SH44, 1 löndun, 24 tonn Gullhólmi SH202, 1, löndun, 19 tonn Umsvifin í Skagstrandarhöfn eru þó meiri. Í september voru flutt þaðan nærri 700 tonn af brotajárni á vegum Hringrásar.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar fimmtudaginn 7. október 2010 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Undirbúningur fjárhagsáætlunar 2011 2. Deiliskipulag Hólaness 3. Bréf: a) Orkustofnunar, dags. 29. sept. 2010 b) Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dags. 24. sept. 2010 c) Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, dags. 27. sept. 2010 d) Sóknarnefndar Hólaneskirkju, dags. 21. sept. 2010 4. Fundargerðir: a) Stjórnar byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún 15.09.2010 b) Samvinnunefndar um svæðisskipulag A-Hún. 28.09.2010 c) Stjórnar SSNV, 13.09.2010 5. Önnur mál Sveitarstjóri

Verður 16 gráðu hiti á laugardaginn?

Óvanaleg veðursæld hefur verið á Skagaströnd undanfarnar vikur miðað við árstíma. Sumum kann að þykja það undur mikil því frá lokum síðustu verslunamannahelgar hafa fjölmiðlar verið ósparir á að minna landsmenn á að haustið sé að koma. Þeir hafa rætt um haustlægðir og hryllt sig uppúr og niður við tilhugsunina um föl í fjöll. Það kann vel að vera að haustið sé komið á suðvesturhorni landsins en hér á Skagaströnd og raunar á öllu Norðurlandi vestra kvartar enginn - hér er enn hásumar. Suðaustanáttin hefur verið ríkjandi og það þekkja kunnugir að þegar hún andar verða hitar mestir í landshlutanum. Þá verður eiginlega til hnúkaþeyr, hlýr og þurr vindur en nokkuð hvass.  Staðhættir á Skagströnd eru þó þannig að fjöllin veita nokkuð skjól og því verður hér lygnara en víða annars staðar. Þegar sólin skín við slíkar aðstæður má reikna með því að hitastigið hækki verulega. Sem kunnugt er segja opinberar hitatölur oft ekki mikið um raunverulegan hita. Á veðurathugunarstöðinni Blönduós, sem er á stór Skagstrandarsvæðinu, hefur mestur hiti verið í kringum 13° en á heimilismælum og víðar um Skagaströnd reiknast mönnum til að hitinn hafi verið minnst þremur til fjórum gráðum hærri. Þeir sem fylgjast best með grassprettu að hausti eru fyrst og fremst golfarar. Með nef sitt og glyrnur ofan í snöggsleggnum flötum golfvallar Skagastrandar hafa þeir fundið út að grasið vex meira en góðu hófi gegnir. Um síðstu helgi voru því sláttuvélar teknar fram og nokkrar flatir slegnar og raunar einnig brautir. Rúllar nú boltinn „eðlilega“ og golfarar hafa tekið gleði sína á ný. Raunar hafa þeir lítið getað kvartað því nú hafa þeir fengið rúma fimm mánuði til að iðka leik sinn og hefur golfvertíðin sjaldan verið veðurbetri. Þó svo að nú leggist vindar í norðanátt næstu tvo daga má búast við áframhaldandi hlýindum. Aftur mun suðrið sæla anda vindum þýðum. Veðurstofa Íslands spáir sunnan- og suðaustanáttum frá og með fimmtudegi. Á laugardaginn er til dæmist spáð 16 gráðu hita og þá er víst að fleiri kætast en golfarar. Og hvaða tal var þetta um haustlægðir ...

Starfsmann vantar hjá Vinnumálstofnun á Skagaströnd

Vinnumálastofnun á Skagaströnd leitar eftir áhugasömum skrifstofustarfskrafti með góða leikni í mannlegum samskiptum, lipurð í tölvunotkun og áhuga á að skila góðu starfi.  Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum SFR.  Framhalds-eða háskólamenntun er kostur sem og reynsla af skrifstofustörfum. Helstu verkefni Greiðslustofu Vinnumálastofnunar eru afgreiðsla umsókna um atvinnuleysisbætur og upplýsingagjöf.  Hlutverk Greiðslustofu er að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið. Á skrifstofunni á Skagaströnd starfar nú rúmlega 20 manna liðsheild.  Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband og/eða kynna sér starfsemi Vinnumálastofnunar á www.vinnumalastofnun.is   Líney Árnadóttir forstöðukona veitir upplýsingar í síma 455 4200 og tekur við umsóknum ásamt ferilskrá á netfangið liney.arnadottir@vmst.is.